— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 31/10/03
Elvis í Memphis

Loksins lýgur Mogginn ekki

Ég las mikla lofræðu um plötuna From Elvis in Memphis í lesbók Moggans í dag. Tónlistargagnrýnandi blaðsins mælir sérstaklega með henni og telur hana bestu plötu Kóngsins (þ.e. heildstæð plata, ekki samansafn smella).

Ég keypti þessa plötu fyrir nokkrum vikum og verð að skrifa að ég er hjartanlega sammála þessu mati. Platan er stórkostlegt meistaraverk, þar sem Elvis er í banastuði. Þarna var hann nýhættur að leika í skelfilegum b-myndum, nýkominn úr hinum fræga Comeback Special þætti, þar sem hann endurheimti frægð sína svo um munaði. Það skín í gegn hvað Kóngurinn er guðslifandifeginn að hafa loksins sloppið undan viðjum Hollywood og skelfilega leiðinlegrar meðalmennskutónlistar sem hann söng fyrir bíómyndirnar sem hann lék í. Elvis nýtur hvers lags í botn með dúndrandi flutningi á hverju laginu á fætur öðru. Frelsistilfinningin smitar hreinlega út frá sér í spilagleðinni. Lagavalið er einstaklega vel heppnað. Ekkert væl, bara kúl tónlist. Þekkt lög eins og In the Ghetto, Only the Strong Survive, Gentle on my mind eru á plötunni innan um minna þekkta og gleymda gimsteina. Á disknum eru líka aukalög sem fylgdu smáskífum plötunnar, Þar er heldur ekkert slor á ferðinni. Frægasta lag hans, Suspicious Minds er þar á meðal, ásamt hinu magnaða lagi Kentucky Rain.

Ég mæli eindregið með kaupum á þessum disk. Sérstaklega nýju útgáfuna með smáskífunum. Fullkomin plata. Fæst í Skífunni og eflaust víðar.

PS. Elskið Elvis, annars mun heimurinn glatast í eymd og volæði.

   (40 af 60)  
Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.