— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 9/12/05
Öskrandi api, ballett í leynum

Kúng fúið

Héðan í frá er allt nú til. Mér var boðið á forsýningu fyrstu íslensku kúng fú myndarinnar í gær. Þetta er stórmerkilegt framtak nokkurra eldhuga sem hafa hrúgað saman sígildri kúng fú mynd á nokkrum árum. Það kom mér nokkuð á óvart að saga myndarinnar fylgir hefðbundnum kúng fú söguþráðum nokkuð vel, þannig að höfundar hafa horft á eitthvað meira en Crouching Tiger, Hidden Dragon, sem er lofsvert. Myndin ber þess merki að vera gerð á nokkrum árum og virðist upphaflega hafa verið löng stuttmynd sem síðan hefur verið bætt ofan á uns mynd í fullri lengt var náð.

Sagan fjallar um ungan dreng sem verður að hefna fyrir morð á föður hans en verður fyrst að ná tökum á ballett kúng fú stílnum sem faðir hans þróaði. Hér er sem sagt kominn söguþráður 70% allra kúng fú mynda og er það vel. Það kom mér á óvart hvað myndin er fyndin. Auðvitað er engin alvara á ferð í mynd af þessu tagi en það er hægur leikur að gera herfilega ófyndnar myndir sem taka sig ekki alvarlega. Þar sem bætt virðist hafa verið ofan á upphaflega stuttmynd flækist söguþráðurinn óheyrilega mikið en höfundar ná að gera bráðskemmtilega sápuóperuflækju úr þeim graut.

Allir leikarar virðast vera amatörar í leiklist og standa þeir sig því langtum betur en ef þjálfaðir íslenskir leikarar hefðu leikið í myndinni. Þá hefði myndin sjálfkrafa orðið ömurlega leiðinleg og drappast niður vegna tilgerðar og hæfileikaleysis.

Kóreógrafíunni var ábótavant í myndinni en varla hægt að gera kröfur um gæði Yuen Woo Pinga eða Sammó Hönga þessa heims. Hins vegar sést að leikararnir eru fjandi færir í bardagalistum ýmis konar og voru mörg spörk og taktar í háum gæðaflokki. Ballettkúng fúið í myndinni er kostuglegt og er frábært hvernig unnið er með þann hættulega bardagastíl.

Öll tæknileg vinnsla myndarinnar er með versta móti, þó ekki eins slæm og í öllum íslenskum myndum 9. áratugarins þannig að það heyrist að minnsta kosti hvað fólk er að segja. En varla má búast við öðru þar sem um áhugamenn er að ræða og einhvern veginn efast ég um að þessi mynd hefði hlotið náð fyrir augum Kvikmyndasjóðs, þó hún sé langtum betri en flest það rusl sem þar er styrkt.

Ég hvet fólk til að skoða þessa mynd á kvikmyndahátíð og styrkja þetta lofsverða framtak. Munið þó að þetta er kúng fú mynd, ekki Almóðóvar eða Bergman. Stillið væntingum í hóf og hafið skilningsríkt hugarfar gagnvart tæknilegum atriðum.

   (6 af 60)  
9/12/05 08:00

Tigra

Haha já mér var einmitt boðið á forsýninguna líka, þar eð ég þekkti nokkra leikara í myndinni.
Og já það er rétt til getið að þetta var fyrst stuttmynd, en þá held ég að hún hafi bara verið sýnd leikurunum og álíka litlum hópi.

Mjög skondin mynd og gaman að henni.

9/12/05 08:00

Isak Dinesen

Athyglisvert, sérstaklega nálgunin á Kvikmyndasjóð og íslenska leikara - hvort um sig stórlega ofmetin fyrirbæri.

9/12/05 08:00

Þarfagreinir

Mér var boðið á forsýninguna, þar sem ég þekki einn leikarann í myndinni. Ég mætti þó ekki þar sem ég var sofandi sökum veikinda/leti.

9/12/05 08:00

Poxxx

Mér var ekki boðið á forsýninguna og ætla ég því ekki að sjá þessa mynd. Auk þess skil ég ekki útlensku.

9/12/05 08:01

Gvendur Skrítni

Hljómar áhugavert. Og Poxxx ef þú vilt læra útlensku þá ráðlegg ég þér að gerast erlendur ríkisborgari, þar með verður íslenska skyndilega að útlensku fyrir þig og málið leyst. Hvernig þú ferð að því að gerast erlendur ríkisborgari gæti reynst flókið samt þar sem flest lönd eru orðin full og hætt að taka við nýjum umsækjendum, þú gætir prófað Írak samt, þar voru að losna nokkur pláss.

9/12/05 08:01

Gaz

*Fer í fílu.*

Mig langar líka að sjá þessa.

9/12/05 08:01

Jóakim Aðalönd

Ég ætla að sjá þessa. Hvenær er hún sýnd á næstunni?

9/12/05 08:01

krumpa

Hljómar virkilega vel - hvar er hægt að nálgast sýningu á þessum ósköpum?

9/12/05 08:01

Tigra

Poxxx: Ég sé ekki að maður þurfi að skilja mikla útlensku á íslenskri mynd?

9/12/05 08:01

Heiðglyrnir

Allrar athyglivert..Góður pistill..Þakka fyrir.

9/12/05 08:01

Stelpið

Ég sá stuttmyndina fyrir nokkrum árum... kannast einmitt við leikarana í henni. Ansi skemmtileg.

9/12/05 08:02

Úlfamaðurinn

Mér finnst eitthvað afar furðulegt við þessa kvikmynd. Fyrst þegar ég heyrði hennar getið ætlaði ég varla að trúa eigin eyrum þó vel heyri. Líklegast segja úlfaskilningarvit mín mér að það sé eitthvað gruggugt í gangi við gerð þessarar kvikmyndar. Skyldi vera að samsæri sé í gangi um að leita uppi íslenska úlfa með því að láta þá fara á of stuttar kung fu myndir?
Hmmmmmm

9/12/05 08:02

Úlfamaðurinn

Ég trúði nefnilega ekki að búið væri að framleiða hana vegna titilsins

9/12/05 08:02

Hakuchi

Þú verður að trúa því. Hún verður sýnd á morgun klukkan 20 og á sunnudaginn kl. 15. Dagskráin er á Icelandfilmfestival.is

9/12/05 08:02

Úlfamaðurinn

Hvar?

9/12/05 08:02

Úlfamaðurinn

Mig langar að sjá hana. Byrjar hún á ´do´, er svo allan tímann milli þess að byrja á ´do´, ´re´, ´mi´? Hvaða kínversk orð eru sögð í henni sem ég skil ekki (elska að tala þykistukínversku)
Dæmi um þykistukínversku; Hakuchi!! Merking; óljós

9/12/05 08:02

Hakuchi

Hættu þessu bulli. Íslenska er töluð í myndinni og hún er í Háskólabíói ef ég man rétt. Annars athugar þú síðuna sem ég minntist á.

9/12/05 09:00

Jóakim Aðalönd

Síðasta sýning á myndinni er á mánudaginn. Ég ætla að mæta.

9/12/05 09:00

Jóakim Aðalönd

Kl. 22:10

9/12/05 09:01

Úlfamaðurinn

Ég líka. Verð að sjá þetta. Verður orðið ´hakuchi´talað í myndinni? Vonandi fæ ég að komast að því hvað þetta dularfulla orð merkir.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.