— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 3/12/05
Góða nótt og gæfan fylgi þér

Súrrealísk bíóupplifun

Kvöld eitt fyrir ekki svo löngu fór ég í Laugarásbíó að bera augum kvikmyndina Goodnight and Good Luck eftir kollakinkarann George Clooney.

Þetta er mjög góð mynd. Hún er einföld og skýr í framsetningu og tapar sér ekki í hliðaröngstrætum listræns frets eða leiðinlegum melódramatískum sálarflækjum.

Hins vegar öðlaðist myndin nær óútskýranlegan fídónskraft þar sem ég sat í myrkrinu og sogaðist (í huga mínum) inn í stríð tveggja andstæðra póla. Það voru einhverjar furðulegar bylgjur í gangi í salnum og ég kem að því rétt á eftir.

Myndin fjallar um Ed Murrow sem var einstaklega virtur fréttamaður í Bandaríkjunum í kringum miðja 20. öldina. Hans ferill var nánast flekklaus og er hans minnst sem e-k staðalímynd hins heiðvirða sannleiksleitandi fréttamanns í USA enn þann dag í dag. Myndin tekur fyrir afmarkað tímabil þar sem Murrow lendir í fjölmiðlastríði við McCarthy, sem var illur demagógískur þingmaður sem hafði hrellt þjóðina með froðufellandi kommahatri og múgsefjandi ásökunum um að laumukommar væru út um allt að reyna að grafa undan Ameríku. Þingmaðurinn og hyski hans báru enga virðingu fyrir sannleikanum og hver sá sem dirfðist að draga aðferðir hans í efa var sakaður um að vera kommi og allt gert til að eyðileggja líf hans. Það tókst þingmanninum að gera oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Myndin stillir sem sagt upp tveimur andstæðum. Ímynd heiðarleika og sanngirni (stílfærð og bónuð ímynd af Murrow og félögum) á móti ímynd spillingar, múgsefjunar, haturs og valdagræðgi (McCartney, ekki stílfærður, m.v. það sem ég hef lesið um hann, auk þess sem einungis er notast við raunveruleg sjónvarpsbrot af honum). En þessi uppstilling var fjarri huga mínum þessa kvöldstund.

Þarna í myrkrinu skammt frá mér í salnum sat fulltrúi sömu niðurrifsafla á Íslandi. Blaðamaður frá hinu viðurstyggilega skólpblaði DV var í salnum. Allt í einu hvarf McCarthy úr myndinni og í staðinn vörpuðust upp þessar algeru andstæður blaðamennskunnar; Murrow og DV-blaðamaðurin. Út alla myndina kölluðust þessar andstæður á (ekki bókstaflega). Ég fylgdist ógurlega spenntur með og vonaði innilega að blaðamaðurinn myndi skilja innst inni að hann og það sem hann stendur fyrir situr miklu nándar nær svínastíu McCarthys heldur en hreinum bás Murrows, þrátt fyrir að hann og Murrow væru í sömu stétt.

Toppnum var náð þegar persóna í myndinni sviptir sig lífi út af meinlegri lygaumfjöllun um hann hjá McCarthyistapressunni. Ó, hvað mig langaði að stökkva á blaðamanninn, grípa í hálsmálið á honum, hrista hressilega og öskra upp í eyrað á honum: Skilurðu núna, andstyggilegi mannhatandi þorparinn þinn!. Það var dýrðleg stund að sjá blaðamanninn sitja undir þessu og sjá glitta í von um að hann skilji hvað hann hefur verið að gera fólki.

Ég fylgdist með honum laumulega út um hornaugað þegar hann stóð upp og fór út. Ég vonaði að hann væri hágrátandi af iðrun yfir því hversu ömurlegur og vondur hann er í samanburði við gullstandardinn Murrow. En nei. Ég sá ekkert.

Miðað við það andlega ástand sem virðist/virtist ríkja hjá þessu blaði, þar sem sjálfsblekking og sjálfsupphafning hafa myndað vanheilagt bandalag lyga og múgsefjunar, þá gæti ég vel trúað að blaðamaðurinn skelfilegi hafi lifað sig algerlega og gagnrýnislaust í gegnum hr. Murrow, hafi samsamað sér honum og hans stöðu fullkomlega og hefur séð fyrir sér íslenskan almenning sem ofsækjandi McCarthyista er vilja troða sannleikann ofan í ræsið.

Sorglegt eiginlega.

Ég myndi að öllu jöfnu gefa þessari fínu mynd fjórar stjörnur. Í ljósi þess að ég var á réttum stað, á réttum tíma, sem gerði bíóupplifunina rafmagnaða, þá fær hún fimm stjörnur.

   (8 af 60)  
3/12/05 23:02

Jarmi

Kúl.

3/12/05 23:02

Heiðglyrnir

Heyr heyr.. !.. og hananú..!.. Þakka góðan pistil.

3/12/05 23:02

Isak Dinesen

Mjög gott rit. Eiginlega bara úrvalsrit.

3/12/05 23:02

Isak Dinesen

Reyndar stendur, líklega fyrir mistök, McCartney á einum stað.

3/12/05 23:02

Hakuchi

Slíkt er það sem kaninn myndi kalla 'Freudian slip'.

3/12/05 23:02

Isak Dinesen

Já, ekki breyta því.

3/12/05 23:02

Hakuchi

Neibb.

4/12/05 00:00

Magnús

Góð rýni. Mér fannst samt vanta soldið upp á myndina til að gefa henni fullt hús, kannski vegna þess að hún var nánast heimildamynd.. Mér fannst samt magnað hvernig myndin réttlætti sig í lokin þar sem Murrow heldur því fram að almenningur muni láta bjóða sér uppfræðandi afþreyingu en ekki endilega fjöldaframleitt og heiladrepandi drasl sem krefst einkis raunverulegs metnaðar eða aga til að skapa.
Gaman að sjá Clooney, sem annars er lélegur leikari að mínu mati og allir voru sammála um fyrir sjö árum síðan, gera svona gáfulegar og "frjálslyndar" myndir.

4/12/05 00:00

Anna Panna

Fín gagnrýni, ég á eflaust eftir að horfa á þessa mynd með hana í huga. Bestu þakkir!

4/12/05 00:00

blóðugt

Góð gagnrýni. Ég á eftir að kíkja á þessa mynd.

4/12/05 00:01

Gottskálk grimmi

Flott rýni, en ég vil endilega fá að vita hvaða DV-ari þetta var.

4/12/05 00:01

Húmbaba

Þetta var fallega skrifuð grein hjá þér.

4/12/05 00:01

Skabbi skrumari

Flott rit að vanda... ég hugsa að ég kíki á þessa mynd við tækifæri...

4/12/05 01:02

Jóakim Aðalönd

Ekki bregst Hakuchi bogalistin í gagnrýninni, frekar en endranaer. Hafðu thokk fyrir.

4/12/05 02:00

Hrani

Mér finnst þú gera full miklar kröfur um tilfinningar blaðamans DV i þessari gagnrýni. Ég held að þeir blaðamenn séu ekki illgjarnir og það sé ekki mikil hugsun á bak við þeirra fréttamennsku. Ég held að þeir séu bara heimskir.
Sælir eru fátækir í anda, því þeirra er ...

4/12/05 02:00

Hakuchi

Ég er ekki sannfærður um að þessi tiltekni blaðamaður sé heimskur. Hann er eitthvað annað og verra. Vissulega eru til nautheimskir blaðamenn. Sei sei já.

4/12/05 02:00

Hrani

Það væri nú samt gaman að vita hvaða hvatir það eru sem búa að baki ef það er ekki heimska.
Ég þekki bara ekki nöfnin á þeim tilfinningum eða hvötum sem eru þannig að vilja vita um sárust eymdir náungans og velta sér upp úr þeim.

4/12/05 02:00

Hakuchi

Verðug athugasemd. Gott væri ef einhver ætti íslenskt orð sem passar við þessar kenndir. Veit ekki hvort orð eins og illgirni eða meinfýsi duga alveg.

Ég hef oft reynt að ímynda mér hvað fékk svo marga blaðamenn DV til að haga sér eins og þeir gerðu þegar það var verst. Heimska á eflaust við einhverja. Rolluháttur gæti átt við í öðrum (fylgja blint andrúmslofti sem t.d. fáir sósíópatar á ritstjórn (ef slíkir voru/eru þar) hafa skapað) o.s.frv.

Nokkrir þarna virðast líka hafa drepið sig úr kaldhæðni sem er hættufylgikvilli þeirra sem reyna að vera töff/kúl. Fólk sem Lifir í kaldhæðni (ath. er ekki að segja að k. sé óæskileg eða slæm) á það til að drepast að innan og verða e-k tóm skel sem hægt er að fylla með hvaða ógeði sem er. Það gæti t.d. útskýrt að einhverju leyti ótal fréttir um 'litla' fólkið sem þeir þóttust vera að berjast fyrir, meðan fyrirsagnir og innihald báru ekki annað með sér en verið væri að flagga slíku fólki eins og sirkúsatriði og talað niður til þeirra.

4/12/05 02:00

Hrani

Ég held að Hakuchi sé með afskaplega vel útfærða skilgreiningu á þeim hvötum sem umræddir blaðamenn eru haldnir. Ég hélt ekki að ég fengi þetta svona vel orðað hér á Lútnum.

Mér koma upp í huga þegar svona er vel sagt frá, orð Mark(s) Twain(s):
„Þegar þú veist ekki hvað þú átt að segja, segðu þá bara satt“.

4/12/05 02:01

Vestfirðingur

Eiríkur Jónsson og félagar á DV er vandað fólk. Leiðinlegt að hakuchi skuli vega svona hræsnislega að fólki sem byggir fréttir sínar á marktækum heimildarmönnum og gagnrýninni blaðamennsku. Fengir þetta hvergi annars staðar birt en á Baggalútnum. Enda fá enter og hlebbi Hitler og Stalín til að líta vel út!

4/12/05 02:01

Hakuchi

[Kveikir í rós Vestfirðings]

4/12/05 15:01

hunandar

HEYRÐU ER MEÐ SAMHVERFT ORÐ OG VISSI EKKERT HVERT ÉG ÁTI AÐ SETJA ÞAÐ HÉRNA "SAIPPUAKIVIKAUPPIAS" ÞÝÐIR SÁPUKAUPMAÐUR OG ER Á FINSKU

4/12/05 17:00

Hakuchi

Þetta er fín samhverfa. Þú getur sent á enter@baggalutur.is. Ég veit þó ekki hvort orðið verði birt á samhverfulistanum því mig grunar að samhverfurnar einskorðist við íslenska tungu.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.