— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 3/11/04
King Kong

Górilla þarf að fara í klippingu

Ég sá elstu útgáfuna af King Kong þegar ég var ellefu ára gamall. Mig grunar að það sé einna besti aldurinn til að sjá þá mynd. Ég hafði mjög gaman af henni en sú mynd hefur aldrei verið neitt ólgandi meistaraverk kvikmyndanna í mínum huga, þó ansi margir séu á öðru máli.

Nú er komin nýr King Kong í leikstjórn tvífara Kongs, Peter Jackson. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki ógurlega spenntur að sjá nýja Kong mynd, þrátt fyrir að hún væri í leikstjórn hæfileikamanns. En með tíð og tíma fór mér að lítast betur á blikuna eftir því sem heilaþvottavél markaðsmaskínu Hollywood fór í gang. Út um allt voru veggspjöld með portrettmynd af Kong sjálfum, ábúðarfullum á svip eins og verkalýðsforingi af gamla skólanum á leið í Karphúsið að semja um 30% launahækkun til handa öreigum. Eftir að hafa séð sýnishorn úr myndinni og hafði lesið einróma lof gagnrýnenda var ég orðinn sæmilega spenntur og jákvæður gagnvart þessu endurgerðarbasli Hringadróttins.

Þrátt fyrir jákvæðar en hófstilltar væntingar olli myndin nokkrum vonbrigðum. Það er nokkuð þversagnakennt því ansi margir afmarkaðir þættir myndarinnar heppnuðust prýðilega og vel það. Fyrst ber að nefna Kong sjálfan. Loksins er tæknin komin á það stig að þetta mikla apaskrýmsl er ekki lengur hlægilegt út af tækniannmörkum. Górillan er afskaplega vel gerð og leikin. Samband ljóskunnar fögru og Kongs er afar vel skrifað og kemst þar lengra en aðrar Kong myndir og eftirapanir samanlagt í gæðum. Þetta furðulega samband myndar hjarta ræmunnar sem stórt og á réttum stað.

Leikarar standa sig flestir ef ekki allir með prýði. Litríkar aukapersónur krydda myndina og aðalpersónur eru vel meitlaðar. Tæknivinnan er yfirleitt vel heppnuð en stundum afskaplega illa gerð. Tekist hefur að endurgera New York kreppuáranna á sérlega sannfærandi hátt. Vissulega er hér á ferðinni stílfærð mynd af borginni en þarna er hugsað út í minnstu smáatriði. Borgin er sælgæti að sjá. Kong er að sama skapi mjög vel gerður og fangar Andy Serkis (Gollúm) górilluhegðun Kongs á sannfærandi hátt, amk. miðað við takmarkaða þekkingu mína á apaverum sem byggist aðallega á Attenbóró þáttum æsku minnar. Aðrir þættir klikka hins vegar. Risaeðlurnar á forboðnu eyjunni eru frekar illa gerðar og ósannfærandi, þær eru jafnvel verri en Júragarðseðlurnar og er þar á ferð mynd sem var gerð fyrir 12 árum. Annað sem er líka ótrúlega illa gert miðað við kostnað myndarinnar er vinna leikara bak við bláskjá. Þ.e. þar sem þeir eru að hlaupa í kvikmyndaveri og tölvumyndir eru settar inn á bak við fólkið. Gerfilegheitin þarna eru afskaplega truflandi og ættu ekki að vera svo áberandi í mynd af þessari stærðargráðu.

Miðað við framansagt virðist þetta vera á ferðinni fínasta mynd. Flestir þessir aðskildu þættir í gerð myndarinanr eru vel gerðir. Hvar er þá gallinn? Hann verður að skrifast á Pétur Jakobsson. Leikstjórinn klúðrar framsetningu myndarinnar. Myndin er aaaallt of löng. Klippitregða Péturs hefur áður gert vart við sig í Hringadróttinssögum en það kom ekki að sök þar sem verið var að segja ótrúlega safaríka og athyglisverða sögu sem hafði heila mannkyns- og mýtusögu á bak við sig, samplaða úr helstu afkimum evrópskrar fornmenningar í færum höndum DJ Tolkien.

Sagan um Tora Kong er hreinlega ekki sérlega merkileg. Þetta er hasarhrollvekjuævintýr af gamla skólanum sem dugar stórvel í hefðbundinni lengd. Jú jú, slefandi költistar hafa viljað kreista alveg ótrúlegustu merkingar út úr þessari ævintýrasögu, jafnvel e-k ádeilu á heimsvaldasinnaðan rasisma vestrænnar menningar en það er alger útúrdúr fyrir fólk sem hefur ekkert betra að gera. Þetta er bara ævintýr. En Pétur vill gera söguna að einhverri risaepík sem hún getur aldrei staðið undir. Þetta er rúmlega þriggja tíma ferlíki! Fyrir apamynd! Það voru margir staðir í myndinni þar sem ég var farinn að líta á úrið og geispa.

Pétur hefði hæglega getað klippt um klukkutíma af myndinni án þess að skaða söguþráðinn að ráði, enda er hann afar einfaldur og í ljósi vel skrifaðs sambands öskurbusku og Kongs, hefði verið auðvelt að koma allri meiningu á framfæri á skemmri tíma. Þarna er fullt af atriðum sem þurfa alls ekkert að vera í myndinni eins og þegar hópurinn lendir í skordýraplágu, langt hasaratriði utan söguþráðar sem hefði alveg mátt fara.

Annar gallinn er að Pétur losar sig allt of fljótt við margar mjög litríkar og skemmtilegar aukapersónur, sem þýðir að í ljósi lengdar myndarinnar verður enn erfiðara að horfa á þessa ofvöxnu mynd. Epískar kenndir Jacksons koma líka fram í sumum samtölum þar sem leikarar setja sig í vandræðalega dramatískar stellingar og fara með einhverja epíska visku. Það slapp vel í Hringadróttni en í Kong er það heldur hjákátlegt.

Það hvimleiða við allt þetta er að miðað við klippinguna, sérstaklega í byrjun, virðist Pétur hafa skapað sér rými til að bæta við enn meira efni. Þarna voru stórar söguholur. Ég hef hann þráfaldlega grunaðan um að hann muni lauma eins og einum klukkutíma í viðbót á extra super special expansion extented limited director's cut edition. Maðurinn virðist eiga afar bágt með að klippa bara þá mynd sem dugar og halda sig við það.

Nú er þessi dómur orðinn álíka langur og myndin og því best að rumpa þessu af. Afkimar myndarinnar eru stórgóðir, heildin er illa klippt (eða ekki klippt) og útkoman verður því heldur máttlaus. Það sorglega er að með góðri snoðklippingu hefði getað verið á ferðinni stórkostleg ævintýramynd. Glatað tækifæri skrifa ég.

   (13 af 60)  
3/11/04 02:02

sphinxx

Takk fyrir lýsinguna fer með mjög litlar væntingar á King kong. En ég get mælt með Narníu fór á forsýningu um daginn og hún var alveg hreint út sagt mögnuð

3/11/04 02:02

Furðuvera

Sammála þessu í grófum dráttum, það var erfitt að halda athygli eftir svo langan tíma og sum atriðin voru allt of löng eða bara óþörf. Fyrir utan það var þetta vel gerð mynd í heildina að mínu mati.

3/11/04 02:02

Isak Dinesen

Fínasti pistill. Ég held að ég tími ekki að sjá þessa í bíó, sérstaklega eftir lestur þennan.

Þó viðurkenni ég að ég hlakka til endurgerðar Ed í leikstjórn Ridley Scott þar sem Pauly Shore fer með hlutverk Matt LeBlanc og Glenn Close leikur apann.

3/11/04 02:02

Barbie

Frábær pistill. Ömurleg mynd. Er ekki búin að sjá hana. Féll ekki fyrir kosningaherferðinni. Pétur Jakobsson er ægilega grannur núna og lítið loðinn. Enda hver vill sjá King Kong? Ekki ég. Ekki frekar en Just like Heaven.
Hins vegar ef ég myndi sjá einhverja apamynd þá myndi ég kannski hugsanlega ef til vill í einhverju léttbrjálæðiskasti sjá Ed endurgerðina. [Hlær hásum hrossahlátri af King Kong og öllum apamyndum...úff apamyndir]

3/11/04 02:02

Nornin

Sammála Barbie. Ég hef ekki mikinn áhuga á að sjá Kong. Mér var boðið á hana í bíó um daginn en sagði pent nei. Mér fannst frumgerðin ekki áhugaverð og því þá að pína sig yfir eftiröpun (haha, orðaleikur)?
Takk fyrir að forða mér frá að láta Hollívúdd hafa áhrif á mig.
(Sammála Sphinxx um Narniu. Hún er vel þess virði að sjá. Endurlífgaði margar góðar minningar úr minni bernsku.)

3/11/04 02:02

Gunnar H. Mundason

Sammála þessu, satt hjá þér með aukapersónurnar, hafði mjög gaman af þeim. Sér í lagi þeirri sem Andy Serkis (Kong, Gollrir) lék, mér þótti leitt að sjá hana deyja (til að það sé á hreinu er þetta ekki lélegt grín, ég á ekki við Kong sjálfan).

3/11/04 03:00

Heiðglyrnir

Frábær gagnrýni, hafði sjálfur ákveðnar efasemdir um þetta verkefni, sem hér eru staðfestar. Hafðu þökk fyrir Hakuchi.

3/11/04 03:00

Aulinn

Þessi mynd var léleg. Það er auðvitað kjánalegt að endurgera svona myndir... bara dauðadæmt.

3/11/04 03:01

Jóakim Aðalönd

Þetta er yfirgripsmikil og vönduð gagnrýni hjá þér Hakuchi. Öllu betri en síðasta gagnrýni á þessa mynd. Ég verð að segja að ég var ekkert sérlega spenntur fyrir þessari mynd og ekki jókst áhuginn við lestur þennan. Ég er ekkert hrifinn af risaskepnumyndum yfir höfuð. M.a. hef ég vísvitandi sniðgengið myndir eins og ,,Godzilla" og ,,Jurassic Park".

Takk fyrir þetta.

3/11/04 03:01

Vladimir Fuckov

Vjer vorum mjög á báðum áttum um hvort vjer hefðum áhuga á að sjá mynd þessa en nú er alveg ljóst að eigi munum vjer nenna að eyða í það meira 3-4 klst. Þökkum vjer vandaða gagnrýni [Íhugar að vera í staðinn á Gestapó í 3-4 klst.].

3/11/04 03:01

Tigra

Ég verð að vera sammála um að þessi mynd var of löng... en mér fannst hún æði.
Ég er kannski bara svona viðkvæm fyrir dýrum, en ég fór að skæla 2x í myndinni.

3/11/04 03:01

Hilmar Harðjaxl

Mér fannst hún góð. Vissulega þurfti hún ekki að vera svona löng, en ég hafði gaman af þessum óþarfa útúrdúrum.
Að mínu mati var helsti galli myndarinnar það að hún reyndi að vera allt of mikið, t.d. þegar Jackson reynir að skapa hryllingsmyndarstemmingu í nokkrar mínútur hjá frumbyggjunum. Viðvaningslega gert það.
Ég er líka sammála þér með hvað það var kjánalegt að troða einhverjum epískum viskumolum inn í þetta.

3/11/04 03:02

Leibbi Djass

Þessi mynd var sanngjörn.

3/11/04 04:01

Tigra

Eitt sem ég gleymdi líka að segja... ég tel það mjög gott að þessi mynd var endurgerð... og er t.d. mjög ósammála aulanum.
Komandi kynslóðum myndi aldrei detta í hug að horfa á einhverja eldgamla svarthvíta mynd með lélegum tæknibrellum... það er bara sannleikurinn í dag.
Til þess að börn framtíðarinnar og nútímans kynnist King Kong, fannst mér þetta vera gott framlag.

3/11/04 05:01

Isak Dinesen

En af hverju þurfa börn framtíðarinnar að kynnast King Kong? Hvað er svona merkilegt við þetta fyrirbæri eða söguna? ég spyr nú bara sísvona.

3/11/04 05:01

Tigra

Duhh.. annars myndu þau aldrei fatta allt í Discworldbókinni Moving Pictures eftir Terry Pratchett!

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.