— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 6/12/04
The Big Red One

Frábær mynd verður að meistaraverki

Ég sá þessa mynd fyrst þegar ég var níu eða tíu ára gamall. Ég var spenntur yfir því að sjá hana því hún var með Lee Marvin og engum öðrum en Loga Geimgengli, þ.e. Mark Hamill. Mér þótti þetta vera góð stríðsmynd og nokkur atriði festust í minni mínu. Mörgum árum síðar rakst ég á myndina aftur og endurnýjaði kynninn, þá kominn yfir tvítugt og vonandi nokkuð þroskaðari. Jú, myndin var frábær, með öflugum atriðum, en hún var samt nokkuð losaraleg.

Fyrir því var ástæða. Útgáfan sem rataði í bíó var 113 mínútur, þegar leikstjórinn, Sam Fuller, hafði hugsað sér að hafa hana þrjá klukkutíma. Nú er hins vegar komin endurklippt útgáfa af myndinni, 158 mínútur, þar sem hún er gerð eftir handriti leikstjórans (sem er látinn) og eftir því sem vísustu menn telja að hafi verið hans vilji varðandi myndina, en Fuller var vægast sagt ósáttur við slátrunina á myndinni sinni hvað tíma varðar. Niðurstaðan er allt önnur mynd.

Þessi endurgerða útgáfa bætir þá upphaflegu svo mikið að hún hoppar glaðlega yfir í flokk meistaraverka. Dýptin í sögunni er langtum meiri auk þess sem, í raun, nýr og alger lykilkarakter í myndinni birtist nánast upp úr þurru (hann var í nokkrum atriðum í upphaflegu).

Myndin fjallar um hermenn í fyrstu herdeild Bandaríkjahers (kölluð the Big Red One). Sögð er saga lúins liðþjálfa og fjögurra meðreiðarsveina hans í hernum þar sem þeir ferðast um alla Evrópu og Afríku til að berja á Þjóðverjum.

Það sem er kannski öðruvísi við þessa mynd er að hér er að leikjstórinn var sjálfur í stríðinu og aðalleikarinn líka. Samuel Fuller barðist með þessari herdeild og upplifði það af fyrstu raun. Allir megin karakterarnir, liðþjálfinn (Lee Marvin) og fjórir hermennirnir hans sem lifa allt af, eru í raun byggðir á honum sjálfum að einhverju leyti (einn stráklinganna er þó hann umfram aðra). Að sama skapi er nýr karakter í myndinni, en það er þýskur hermaður sem virkar sem n-k ill hliðstæða Marvins, eldri maður, reyndur, harður. Þeir hittast oft í bardögum en þekkja aldrei hvorn annan.

Myndin er ekki að upphefja stríð eða hetjudáðir í því. Hún er ekki heldur að fordæma stríð per se. Hún er bara að sýna hvernig hermaðurinn reynir að tóra í öllum þessum hörmungum, þar sem það eina sem þú hefur er gaurinn við hliðina á þér.

Átakanlegasti kaflinn gerist þegar hermennirnir frelsa útrýmingabúðir í Tékklandi. Allt í einu standa þeir frammi fyrir illsku sem, þrátt fyrir endalausan viðbjóð stríðsins, þeir geta hreinlega ekki áttað sig á. Þar er magnað atriði þar sem Mark Hamill (Logi) nær að leikmómenti á sínum ferli.

Eins og áður segir tók Fuller fullan þátt í þessu stríði, Marvin líka. Þessi reynsla skilar sér á tjaldið, hún verður minna bíómyndalegri fyrir vikið (samanborið t.d. við froðuna Saving Private Ryan (mínus upphafsatriðið)) og einhvern veginn...heiðarlegri. Myndin var gerð af vanefnum, og það sést, en slagkrafturinn í myndinni er einungis þeim mun meiri. Fuller var mistækur leikstjóri en enginn getur sakað hann um að hafa ekki slagkraft, hann gat galdrað fram ótrúlega eftirminnileg atriði úr ódýrasta hráviði.

Sem sagt. Leigið þessa mynd: The Big Red One, Revised Edition. Hún fæst hjá Larrý í Laugarásvídeói.

   (22 af 60)  
6/12/04 08:01

Heiðglyrnir

Hmmm, Jamm þetta verður að skoðast betur, rétt er það að gamla útgáfan var fín, en það var eins og e-ð vantaði. Vonandi og samkvæmt þesari gagnrýni er það komið í leitirnar. Hafðu þökk fyrir góða gagnrýni Hakuchi.

6/12/04 09:00

Steinríkur

14 pund komin til landsins...
http://play.com/play247.asp?page=title&r=R2&title=58695 7

Er hún þess virði?

6/12/04 09:01

Hakuchi

Já.

4/12/06 14:01

Hakuchi

Hananú.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.