— GESTAPÓ —
Mús-Lí
Nýgræðingur með  ritstíflu.
Gagnrýni - 5/12/03
Guðshús Grillmundar

<i>Góð byrjun</i>

Það var á Guðshúsi Grillmundar* sem það byrjaði allt saman. Þar komu meðlimir hádegisverðarhópsins í fyrsta skipti saman til þess að dæma, með ofurskörpu bragð- og fegurðarskyni sínu, um gæði matar, þjónustu og innanhúshönnunar reykvísks veitingahúss, í því augnamiði að gefa lesendum Baggalúts leiðbeinandi umsagnir eða uppfræðslu, sem koma mætti þeim að gagni við val á hádegisverðarstað.

Um Guðshúsið er sosum allt gott að segja. Hér er um að ræða eitt af hinum „karllægari“ veitingahúsum bæjarins, þar sem karlmenn kunna vel við sig og eru, að öllu jöfnu, meirihluti gesta. Ástæða þess að hópurinn, sem er, eins og glöggir lesendur vita, samsettur úr ráðandi kvenkyns meirihluta og veikburða karlkyns minnihluta, lenti á stað sem þessum, er sú að karlkyns minnihlutanum, þ.e.a.s. Þöngli okkar skósveini, var í þetta skipti leyft að ráða staðarvalinu. Það gerðum við stöllurnar til þess að prófa skjólstæðing okkar og meta hvernig skyldi haga væntanlegri þjálfun hans sem fylgdar- og þjónustumanni kvenna. Kom í ljós að piltinum hafði þótt öruggast að velja stað þar sem karlkyns vinir hans nokkrir höfðu einnig ákveðið að snæða þennan dag, og tókum við konurnar því af stakri þolinmæði og umburðarlyndi þó að kynjahlutfallið við borðið raskaðist ótæpilega við komu þeirra, enda reyndust þeir hinn skemmtilegasti félagsskapur. Þetta veitti okkur allt athyglisverða innsýn í menningarheim og hegðan ungkarlsins og gaf vísbendingar um á hvaða þáttum þyrfti að taka í þjálfun Þönguls.

En sumsé, hamborgararnir á Guðshúsi Grillmundar voru hinir ágætustu – góðir að samsetningu og djúsí í minningunni – en þó ekki þeir bestu í bænum, enda hefur gæðum staðarins farið nokkuð hrakandi á síðustu misserum, eftir því sem karlkyns borðfélagar okkar staðhæfðu. Þjónustan var þó afar vinsamlega af hendi reidd, enda gladdi það miðaldra vertinn augljóslega að fá til sín nokkra föngulega kvenkyns kúnna. Þá þóttu okkur innréttingarnar, sem eru í anda gamaldags amerískra hamborgarabúlla frá 6. áratugnum, bæði stílhreinar og upplífgandi og andrúmsloftið þægilegt og afslappað, þrátt fyrir testósterónslagsíðuna í gestaflórunni. Ef velja á stað sem er í senn karlmannlegur og vinalegur (sem ekki er heiglum hent að mati okkar stallsystranna) mælum við því hiklaust með Guðshúsi Grillmundar.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull skósveinn

* Guðshús Grillmundar þekkja e.t.v. sumir betur sem Grillhús Guðmundar á Tryggvagötu.

   (1 af 3)  
4/12/06 12:02

Hakuchi

Það ætti að safna saman öllum þessum stórkostlegu gagnrýnipistlum ungfrú Júlíu, Mús-Líar og Mosu frænku í eitt safn. Sígild og þörf lesning.

1/11/07 01:00

Jóakim Aðalönd

Já, satt er það.

1/11/08 01:00

Jóakim Aðalönd

Haha, árs afmæli!

Mús-Lí:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:24
  • Síðast á ferli: 3/11/04 16:42
  • Innlegg: 0