— GESTAPÓ —
Mjási
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 3/11/12
Gullgæsin er orpin!

Það gómsætasta ljóðakonfekt sem komið hefur fyrir mín augu í langann tíma. Svona á að vinna verkin sín. Fagurt, glettið, djúpt og dulúð þrungið.

Eggið mun glampa og glóa um ókomin ár.
Eða ætti ég frekar að segja ÁRLEYSI.
En eggið heitir Árleysi alda, og gæsin, Bjarki Karlsson.
( Í raunheimum vel að merkja.)
Bestu þakkir fyrir þessa ljóðabók Bjarki, hún er afburða.

   (1 af 8)  
3/11/12 05:01

Golíat

Fékk bókina í jólagjöf. Hún er góð.

3/11/12 06:02

Grýta

Ég fékk líka þessa bók í jólagjöf!

3/11/12 07:01

Vladimir Fuckov

Svo virðist sem hjer sje um að ræða helstu Gestapójólagjöfina þetta árið; fengum vjer og bók þessa í jólagjöf og skemmtum oss konunglega (eða rjettara sagt forsetalega) við lesturinn.

1/12/13 03:01

Bullustrokkur

Ég las þessa bók og gaumgæfði. Satt er það, hún er hin ágætasta smíð, og skemmtileg er hún. Samt ætla ég að gera smá athugasemd við hana. Ég ætla sem sagt að dríta tittlingskít í hreiður gullgæsarinnar.
Meginviðfangsefni bókarinnar eru afavísan í 1100 ár.
Höfundur virðist vilja hafa vísuna svona:

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suðrá bæi
að sækja bæði sykur og brauð
sitt af hvoru tagi.

Þarna er fullyrt að afinn hafi farið eftir tvenns konar tegundum af sykri (t.d. púðursykri og strásykri) og tvennskonar brauði (t.d. rúgbrauði og heilhveitibrauði). Þetta virðist skilningur höfundar, Bjarka Karlssonar, í nær öllum tilfellum og svona er vísan höfð fyrir skólabörnum.

Önnur gerð vísunar, sem ég kveð stundum fyrir munni mér, er þannig:

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suðrá bæi
að sækja bæði sykur og brauð
og sitt af hvoru tagi.

Þarna breytir forliðurinn OG efni vísunnar allverulega. Nú er fullyrt að afinn hafi ekki einungis sótt sykur og brauð, heldur líka SITT AF HVORU TAGI, sem allir Íslendingar á síðari hluta nítjánu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu vissu að var kaffi og kaffibætir (líka kallað export eða rót).
Þessu til staðfestingar vísa ég í bókina "Matarást", eftir Nönnu Rögnvarldardóttur (Iðunn, Reykjavík 1998) blaðsíðu 293: "Stundum var talað um kaffi og kaffibæti sameigninlega undir heitinu "sitt af hvou tagi" og það var einmitt þetta sem afi fór á Rauð að sækja eitthvað suður á bæi."
(Nanna segir kaffibætinn gerðan úr þurrkaðri, brenndri, malaðri og pressaðri síkoríurót. Kaffibætirinn var ódýrari en kaffibaunir og notaður til að drýgja kaffið).
Eins og áður sagði, virðist höfundur bókarinnar,Bjarki Karlsson, styðjast við OG lausu gerð vísunnar í nær öllum tilfelllum, þó virðist hann í kvæði X (sem hann tileinkar Hjálmari Jónssyni frá Bólu) gefa í skyn að afinn hafi líka náð til sín kaffi og kaffibæti.

"Brauði rænir (tekur með ofbeldi) bísar (hnuplar)sykri." Svo heldur höfundur áfram að segja frá afanum: "Við saurlífi og syndir dvelur, sínu af hvoru tagi stelur." sem ég vil skilja sem að afinn hafi þar stolið sér bæði kaffi og kaffibæti.
Einnig vil ég benda á góða grein á "timarit.is úr Frétablaðinu frá 24/9- 2010 blaðsiðu 22.
Ég vil að lokum, þó ég viti að enginn eða mjög fáir lesi þessa athugasemd, að láta vita
hvort að kaffibætir fáist einhversstaðar á Íslandi.
Mér finnst kaffið orðið nokkuð dýrt og gott væri að geta drýgt það með góðum kaffibæti.

1/12/13 06:01

Mjási

Það var og!

1/12/13 13:01

hlewagastiR

Í ellefu ár hefur það verið aðall Gestapó að standa upp úr lágkúru íslenskrar netumræðu. Við höfum ekki látið virka í athugasemdum hlaupa með okkur út í gönur upphrópana og við höfum heldur ekki látið glepjast af því þjóðarmeini að hefja aumingja á stall og hampa þeim fyrir aumingdóminn.

En með þessu félagsriti Mjása er það vígi fallið.

Einhver mennignarvitinn, sennilega höfundur Árleysis alda sjálfur, hefur komið þeirri hugmynd inn hjá þeim háværa meirihluta þjóðarinnar, sem getur ekki lesið sér til gagns, að hér sé á ferðinni meistaraverk. Ekkert er fjær sanni.

Bók Bjarka er ósköp flatneskjulegt byrjendaverk. Höfundur hælir sér af því að brjóta blað í bókmenntasögunni með því að yrkja háttbundið en gleymir því að fjöldi slíkra bóka hefur komið út á hverju einasta ári allt frá því að bókaprentun varð almenn. Hann gleymir því líka að tilgangurinn með því að gefa út bók er að hafa eitthvað að segja. Það hefur Bjarki greinilega ekki. Hann segir ekkert sem við höfum ekki heyrt áður eða vissum ekki fyrir. Hann bætir engu við listræna tjáningu fyrri skálda.

Það vekur athygli að höfundur virðist vera laus við tilfinningar. Hvergi örlar á ást í þessari bók, hvergi hugsjónum, hvergi fegurð. Orðalagið „Dulúð þrungið“, sem Mjási velur bókinni, er í þessu ljósi óvenju háðugleg útreið, enda leitun að skáldverki lausara við dulúð.
Bókarræfillinn (rétt um 60 síður, illa nýttar, brot smátt) er samansafn aulabrandara sem höfundur hefur kosið að kasta samhengislaust fram í bundnu máli. Það er eftirtektarvert að enga heildarhugsun er að finna í bókarræflinum, ekkert sem bindur ljóðin saman, ekkert sem ljær hinu kveðna dýpri merkingu. Sneplasafn af hagyrðingamótum stendur ekki undir nafninu ljóðabók.

Þó að efnið sé rýrt, bæði að vöxtum og í roðinu, þá sætir undrum að hve miklu leyti það er stolið. Hvergi örlar þó á gæsalöppum. „Á snöggu augabragði“, „ég heyri [finn það] gegnum svefninn“, „Afi minn fór á honum rauð“, „titrar jökull hart þá eldar æða“, „hvít með loðnar tær“. Svo mætti lengi telja.

Hér er bæði form og innihald tekið traustataki án þess að geta heimildar og sett fram sem eigið höfundarverk og til að bíta höfuðið af skömminni er hinun listræna texta gömlu skáldanna ekki aðeins stolið, heldur er hann flattur út og gerður að ólistrænu klámi. Náttúrurómantík breytt í kúk-og-piss-brandara („ferlega þefjaði fiskur sá“). Persónum Thorbjörns Egner breytt í öfugugga (Bastían „bæjarfógeð“ yrkir klám sem öllum finnst ógeð). Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar snúið upp í flatneskju sem á að vera fyndin en er í besta falli sorgleg.

Við munum öll eftir viðbrögðunum við útgáfu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á ævisögu Halldórs Laxness. Vinnubrögð hans þóttu sýnu alvarlegri vegna þess að Hannes er háskólakennari og fræðimaður. Hannes hefur það þó sér til svolítilla málsbóta að vera stjórnmálafræðingur sem fataðist flugið í riti á sviði bókmenntafræði. Bjarki er líka starfsmaður Háskólans og á að heita fræðimaður á einmitt því sviði sem „bók“ hans snýr að; bragfræði. Hann á sér því engar málsbætur. Brotaviljinn er einbeittur og algjör. Fjaðrirnar stolnar, þjófurinn samt ófleygur.

Svona hluti ættum við, sem skrifum á þetta vefsvæði, að hafa í huga áður en við látum berast með straumi hins ólæsa fjölda.

Ég þakka þeim sem lásu.

1/12/13 14:01

Grýta

Ég veit hvorkli hvar né hvort kaffibætir fáist á Íslandi.
Aftur á móti á amma mín tvær og hálfa töflu í boxi hjá sér.

1/12/13 15:01

Bullustrokkur


Þakka þér, Grýta fyrir að svara mér. Ég bið að heilsa ömmu þinni.

1/12/13 16:00

Regína

-Sækja bæði sykur og brauð
sitt af hvoru tagi-
merkir í mínum huga: Sækja bæði sykur og brauð, en ekki tvær tegundir af sykri eða tvær tegundir af brauði heldur er sykur ekki af sama tagi og brauð, og öfugt.

Síðan þakka ég hlewagasti (?) fyrir að benda á það augljósa, sem enginn tekur eftir af því að bókin er svo skemmtileg. Það er gaman að því.

1/12/13 16:00

Regína

En mér finnst athyglisvert að <sitt af hvoru tagi> hafi verið hugtak yfir ákveðnar vörur, og það hefur sjálfsagt verið þannig þegar vísan var samin.
En amma mín sagði aldrei <og>, og fór hún þó oft með þessa vísu. Hún hefur samt ábyggilega notað kaffibæti þegar hún var yngri. Ætli þetta hafi verið landshlutamálýska?

1/12/13 16:01

Billi bilaði

Er þá Bjarki Karlsson aukaegó Hannesar Gissurarsonar? <Klórar súg í höfuðpaurnum>

Annars hefði ég átt að stelast til að lesa eitthvað af eintökunum sem ég gaf fyrst enginn vildi gefa mér þessa bók í sólstöðugjöf.

1/12/13 16:01

Billi bilaði

PissuStopp: Gudskelov að aldrey hafi verið til kakóbætir.

Mjási:
  • Fæðing hér: 30/10/03 23:58
  • Síðast á ferli: 5/2/24 20:44
  • Innlegg: 1458
Eðli:
Glaður í bragði.
Fræðasvið:
Fávís um flest.
Æviágrip:
Fæddist mjög ungur, ólst upp , lifi til dauðadags að öllu óbreyttu.