— GESTAPÓ —
Líknarbelgurinn
Nýgræðingur.
Dagbók - 1/11/12
Af persónunjósnum og skyggnigáfu

Raunasaga úr netvæddum heimi

Skömmu eftir að netið hóf innreið sína í tilveru okkar fóru félagsfræðingar, sálfræðingar og alls kyns aðrir fræðingar að rýna í þau áhrif sem þetta hefur á mannskepnuna. Það er búið að skilgreina ýmis vandamál sem fylgja netnotkun og í sálfræðinni eru nú flokkaðar nokkrar nýjar fíknir sem tengjast netinu.

Ég hafði það einu sinni sterklega á tilfinningunni að ég væri illa haldin af persónunjósnafíkn á netinu. Ég átti það stundum til að taka fólk fyrir sem ég kannski hafði ekki haft samband við í mörg ár, eða fólk sem ég þekkti lítið og reyndi að grafa upp sem ítarlegastar upplýsingar um það. Þetta er skelfilega tilgangslaus iðja og ég kenni að vissu leiti drepleiðinlegu næturvaktatímabili sem ég átti hjá ónefndu fyrirtæki um þessa hvimleiðu fíkn mína.

Það er samt sem áður magnað hversu miklar upplýsingar er hægt að grafa upp á netinu með aðstoð þjóðskrár, íslendingabókar og með nokkrum vel völdum leitarorðum á google.com.

Ég mæli samt ekki með því að eyða síðkvöldum í persónunjósnir, því ég hef rekið mig á að þetta er í raun hálf mannskemmandi og ef svo óheppilega vill til að maður rekst á einhvern sem maður hefur verið að njósna um þá líður manni eins og hálfvita vegna þess að kollurinn er fullur af tilgangslausum staðreyndum um viðkomandi aðila og það getur verið ávísun á einkennilegar samræður.

Ég lenti t.d. einu sinni í þeim óheppilegu aðstæðum að rekast á kunningjakonu sem ég hafði ekki hitt í þónokkur ár. Í miðjum samræðum (sem voru vissulega eilítið áfengismaríneraðar) missi ég útúr mér eitthvað sem ég gat með engu móti vitað um líf téðar konu, viðbrögðin létu ekki á sér standa og konan horfði á mig í forundran og spurði mig hvaðan í ósköpunum ég hefði þessar upplýsingar.

Ég ákvað, til þess að reyna að koma mér út úr þessarri óheppilegu stöðu, að best væri að gera mér upp skyndilega skyggnigáfu (taldi að manneskjan myndi hugsanlega lesa of mikið í það ef ég segði henni að ég hefði verið að njósna um hana af kappi á netinu). Ég lét mig síðan hverfa hljóðlega á brott og vonaði innilega að hún hefði trúað mér, en þó ekki svo mikið að hún myndi seinna biðja mig um að hafa samband við framliðna ættingja sína.

En það er skemmst frá því að segja að Líknarbelgurinn hefur alveg látið persónunjósnir eiga sig eftir þessa uppákomu.

   (1 af 5)  
1/11/12 13:01

Golíat

Það er margt að varast í mannheimum.
Takk fyrir þessa örsögu.

1/11/12 13:01

Billi bilaði

Úps.

1/11/12 13:01

Regína

Vandræðalegt. Og vegalausu börnin orðin fullorðin?

1/11/12 21:01

Dula

Iss piss, ég segi án þess að skammast mín að ég hafi lesið þetta á internetunum þegar ég var að stalka viðkomandi.... nú ef það er eitthvað feimnismál þá ætti fólk bara að fá sér aftur í glas ..... djöfull langaði mig til að gera broskall .

Líknarbelgurinn:
  • Fæðing hér: 12/10/03 15:26
  • Síðast á ferli: 15/11/13 02:37
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
KISS, Bókmenntir, gítarspil, öldrykkja, leti, svefn, matargerð,