— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 5/12/06
Á morgun mun ég kjósa - en hvað

Komið sæl öllsömul, ég vil nú ekki valda ykkur ama en þar sem ég tel að fæstir hér telji mér það til foráttu að vera á öndverðum meiði endrum og eins þá langar mig til að segja ykkur hvað ég hyggst kjósa.

Fyrir þessar kosningar er fátt um fína drætti og enginn kostur í boði sem ég er alfarið fylgjandi. Ég er fúllyndur fauskur og fyrst aldraðir og öryrkjar eru ekki í framboði er mér skapi næst að skila auðu í þessum kosningum. En líklegast mun ég enda á að velja ill-skásta kostinn.

Til að byrja með vil ég benda á nokkur mál sem skipta mig og marga aðra talsverðu máli.
•Ég vil ekki fleiri álver.
•Ég vil að Ísland dragi opinberlega til baka stuðning sinn við stríðið í Írak.
•Ég vil að innflytjendum séu tryggð jafn há laun og Íslendingum.
•Ég vil hækka skattleysismörk umtalsvert.
•Ég vil hækka fjármagnstekjuskatt í 14% með 100þ króna frítekjumarki.
•Ég vil afnema virðisaukaskatt af matvælum og barnafatnaði.
•Ég vil afnema stimpilgjöld og endurskoða verðtryggingar.
•Ég vil hvetja ákaft til uppbyggingar íslenskra tæknifyrirtækja og einnig starfsstöðva erlendra tæknifyrirtækja.
•Ég vil að innheimtur verði mengunarskattur af stóriðju.
•Ég vil hvetja til aukinnar uppbyggingar flugsamgangna gegnum Keflavík.
•Ég vil bæta samgöngur milli landshluta til að stuðla að aukinni innkomu af ferðamennsku.
•Ég vil að byggð verði hraðlest milli Keflavíkur og vatnsmýrar.
•Ég vil hvetja til aukinnar notkunar vistvænna ökutækja.
•Ég vil minnka olíuþörf landsins.
•Ég vil að landið sé eitt kjördæmi.
•Ég vil að fólk geti kjörið einstaklinga á þing.
•Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju.
•Ég vil raunverulega þrískiptingu valdsins, ekki að sami maður setji lögin, sjái um framkvæmd þeirra og ráði dómarana.
•Ég vil efla landgræðslu í samvinnu við bændur.
•Ég vil losa um hömlur í framleiðslu landbúnaðarafurða.
•Ég vil einfalda skatta- og velferðarkerfið, með minni tekjutengingum og minni skerðingu vegna maka.
•Ég vil að litlum handfærabátum sé frjálst að veiða á sumarvertíð.
•Ég vil að kvótakerfinu verði breytt í markaðskerfi.
•Ég vil leyfa sjálfbærar hvalveiðar, kvótinn verði leigður, láta eftirspurnina ráða hvort veitt sé.
•Ég vil að þjóðnýtingarmálið (þjóðlendumálið) sé algjörlega endurskoðað og ranglega teknu landi skilað.
•Ég vil aukna ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir börn.
•Ég vil bæta verulega greiningu og meðferð þunglyndis og geðsjúkdóma.
•Ég vil stuðla að fjölskylduvænna samfélagi þar sem foreldrum sé auðveldað að eyða meiri tíma með börnum sínum.
•Ég vil leyfa sölu léttvíns og bjórs í verslunum.
•Ég vil að reykingar verði bannaðar á veitingahúsum og skemmtistöðum.
•Ég vil lengja fæðingarorlof.
•Ég vil afnema launaleynd.
•Ég vil stuðla að sanngjörnum launum allra aðila.
•Ég vil koma í veg fyrir alla mismunun á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynþáttar eða þjóðernis.
•Ég vil efla fría íslenskukennslu.
•Ég vil stuðla að auknum fjölda frídaga.

Allir flokkanna hafa mörg þessara mála á dagskrá, en það er þó ekki nóg. Ég man nefnilega lengur en stjórnmálamenn gera sér vonir um og það er ýmislegt sem flokkarnir hafa gert sem fælir mig frá því að kjósa þá. Hér eru nokkur þeirra atriða sem rifjast upp.
Sjálfstæðisflokkurinn - Virkjanastefnan. Aukin stéttaskipting í valdatíð. Stuðningur við stríðið í Írak. Vopnaðir íslenskir hermenn. Skólagjöld. Árni Johnsen. Ófagleg vinnubrögð í stöðuveitingum og einkavæðingu. Fjölmiðlamálið. Þjóðnýtingarmálið
Framsókn - Virkjanastefnan. Aukin stéttaskipting. Stuðningur við stríðið í Írak. Skólagjöld. Ófagleg vinnubrögð í stöðuveitingum og einkavæðingu.
Samfylkingin - Afsölun sjálfstæðis til EB. Vanhugsuð loforð um óheftan innflutning á EB styrktum afurðum ásamt því að skerða styrki til landbúnaðar. Upptaka Evrunnar.
Vinstri grænir - Fyrirhyggjustefna og miðstýring. Áform um netlögreglu. Óþarfa afskipti af málum sem koma löggjafanum ekki við. Tíðrædd klámráðstefna minnti mig t.d. helst á pólitíkina í kringum Lewinsky og Clinton.
Frjálslyndir - Viljandi eða óviljandi þá eru þeir að sanka að sér þjóðernis atkvæðunum, þar get ég ekki verið með í slagtogi.

Íslandshreyfingin er því sá flokkur sem ég mun kjósa, vissulega eru þar nokkur mál á borðum sem samræmast ekki skoðunum mínum eins og mörg ykkar geta líklega bent á. En eins og staðan er þá sýnist mér hann vera sá sem hentar mér best. Hvert einasta atkvæði sem Íslandshreyfingin fær er nefnilega skýr skilaboð til stærri flokkana að störfum þeirra sé ábótavant og þau verði að gera betur ef þeir eigi ekki að tapa fleiri þingsætum. Ég er þess fullviss að Íslandshreyfingin nái mönnum inn. Á morgun munu margir þeirra sem hafa verið óánægðir með þingflokkana gera upp hug sinn. Þar munu margir vilja sjá einhverjar breytingar og margir þeirra munu veita Íslandshreyfingunni atkvæði sitt. Því þar er kominn fram flokkur skapaður af hugsjón og baráttuvilja, það er tilbreyting að sjá fólk í framboði sem fylgir sannfæringu sinni. Ómar Ragnarsson er maður sem unnir landi og þjóð og hann hefur lagt allt sitt í sölurnar til að berjast fyrir því sem hann telur að sé okkur og afkomendum okkar fyrir bestu. Varðandi málefni flokksins almennt þá finnst mér flokkurinn samsvara skoðunum fólksins ákaflega vel.

Ég hvet alla sem ekki hafa myndað sér skoðun að líta á stefnu þeirra. Hún er tekin saman á þessari slóð:
http://www.islandshreyfingin.is/?i=3

Sambærilegar upplýsingar hinna flokkanna eru svo hér:
http://www.xd.is/xd/2007/stefnumal/
http://www.framsokn.is/stefnan/
http://xs.is/Forsida/Kosningastefna2007/
http://xv.is/stefna/malefni/
http://xf.is/default.asp?sid_id=31584&tre_rod=012|&tId=1

Góðar stundir vinir mínir og kjósið af sannfæringu. [Ljómar upp]

Glúmur Angan.

   (9 af 24)  
5/12/06 11:01

Billi bilaði

„Þú ert sjálfur Glúmur innst í hjarta“. Amen!

5/12/06 11:01

Offari

Ertu búinn að fara í krossaprófið?

5/12/06 11:01

Þarfagreinir

Ég styð Samfylkingunna, einmitt að hluta til vegna þess sem þú telur upp sem vankanta, Glúmur. Svona geta skoðanirnar verið skiptar.

Annars er mér alveg sama hvað fólk kýs, svo lengi sem það eru ekki núverandi stjórnarflokkar.

5/12/06 11:01

Glúmur

Ef þú ert að meina Bifrastarprófið Offari, þá já, ég tók það. Og svo skoðaði ég forsendur þess nánar:
http://xhvad.bifrost.is/Lokaskjal.pdf
Eftir að hafa lesið kafla 5 staðfestist grunur minn um hversu pínlega ómerkilegt þetta próf er, þarna er fjöldi spurninga þar sem það er alveg sama hvað þú velur, ákveðnir flokkar fá aldrei stig og varðandi innflytjendamál er eins og það hafi gleymst að velta því fyrir sér hvort Íslandshreyfingin hafi skoðun málinu.

5/12/06 11:01

Skabbi skrumari

Ég er að mörgu leiti sammála þér Glúmur minn... en hingað til hef ég verið hræddur um að atkvæði mitt falli dautt og ómerkt og að eitthvert framboð sem mér hugnast ekki hljóti þingmenn ef ég kýs ekki þá flokka sem ná inn mönnum...

Þá verður maður að spyrja sig, á maður að kjósa gegn sannfæringu sinni til að atkvæðið gildi eitthvað og vera heigull... eða?

Íslandshreyfingin er frekar nýtt framboð og þeir hafa ekki skoðun á helmingnum af því sem þú setur hér fram og því er spurning hver skoðun þeirra verður á þeim málefnum ef þeir komast á þing...

Það stefnir þó í að ég kjósi Íslandshreyfinguna... með sömu röksemdum og þú berð hér fram... er þó ekki enn búinn að ákveða mig...

5/12/06 11:01

Grágrímur

Ég ætla að gera eins og Jarmi, teikna stórt typpi á kjörseðilinn og hlaupa flissandi út...

5/12/06 11:01

Regína

Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að láta ráða ferðinni um atkvæðið mitt, en nú vill svo til að allir flokkar þegja þunnu hljóði um einmitt það. Nema sá sem ég ætla alls ekki að kjósa þrátt fyrir að vera sammála mér um þetta atriði.
.
Jæja, þetta kemur bara í ljós á morgun. Ætli ég kjósi ekki bara það sem afkvæmið kaus ekki.

5/12/06 11:01

Glúmur

Já Skabbi, eins og þig grunar líklegast þá mæli ég með því að kjósa af sannfæringu, því stjórnmál án sannfæringar er eitt það neikvæðasta við pólitík.

En varðandi það sem þú segir varðandi skoðanir Íslandshreyfingarinnar þá vil ég nú meina að þeir hafi yfirlýstar skoðanir á langflestu sem ég nefni. Þeir nefna kannski ekki al-sértækustu hlutina eins og lestina og aukin umsvif í Keflavík - en þeir nefna aukna áherslu á samgöngur og bætta ferðaþjónustu sem þetta tvennt fellur undir.
Ég mæli með að lesa alla stefnuna þeirra yfir, því hún hljómar vel í mínum eyrum: http://www.islandshreyfingin.is/?i=3

5/12/06 11:01

krossgata

Eins og ég sé þetta (ástæða ekki gefin upp):
Atkvæði greitt Íslandshreyfingunni er atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum. Gegn því að D setji eitthvað krúttlegt umhverfislistaverk einhvers staðar mun Íslandshreyfingin sitja hjá við atkvæðagreiðslu mála eins og að styðja stríð út í heimi frekar en greiða móti því.

En þeir koma ekki manni inn svo þetta verður ekkert.

5/12/06 11:01

Glúmur

Þar held ég að þú hafir rangt fyrir þér Krossgata, þú virðist vera að hugsa um sannfæringarlausan pólitíkusaklúbb. En við skulum spyrja að leikslokum.

5/12/06 11:01

Jarmi

Iss, stærstur hluti þess sem þú vilt jafngildir annaðhvort minni innkomu eða auknum útgjöldum úr ríkissjóð. Þú myndir fljótt keyra skútuna í kaf ef þú værir stjórinn.

Ég vil 99% skatta og frítt í bíó! Svo getur maður bara ræktað sér kartöflur og étið þær... já og bruggað sér vodka!

Já eða 1% skatta og allt kostar. Gjörsamlega allt! Ef þú vinnur ekki, þá drepstu! Punktur.

5/12/06 11:01

Vladimir Fuckov

Það að kjósa eða kjósa ekki skv. sannfæringu (eins og Glúmur nefnir) er ekki eins augljóst og kann að virðast við fyrstu sýn.

Dæmi: Þriggja flokka kerfi þar sem A og B eru með nánast 50% fylgi en C er með um 1% fylgi. Yður líst afleitlega á stefnu A, mjög vel á B og síðan örlítið betur á C en B. Hér virðist við fyrstu sín að það væri í samræmi við sannfæringuna að kjósa C en málið er ekki svo einfalt. Það er væntanlega hluti af sannfæringunni að A megi ekki komast til valda og í því tilviki væri betra að kjósa B en C. Semsagt allt annað en einfalt mál...

5/12/06 11:01

Steinríkur

En þú er Glúmur. Hvað hefurðu eiginlega mörg atkvæði til að spila úr? [klórar sér í höfðinu]
Annars er ég gríðarlega sammála nánast öllu þarna... Örlítið hærri skattar með frítekjumarki eru sterkur leikur.
T.d. ef tekjuskatturinn fer aftur í 42% eins og hann var, og skattleysismörkin upp í 140þús borga allir sem hafa ~500þ og minna á mánuði lægri skatta en þeir gera nú.

5/12/06 11:01

Glúmur

Jarmi, þetta eru stór orð. Þú segir að stærstur hluti þess sem ég vilji jafngildi annaðhvort minni innkomu eða auknum útgjöldum úr ríkissjóð.
Ég nefni fjölda atriða sem munu þýða auknar tekjur ríkissjóðs, ég veit þó ekki hvort þú hafir áttað þig á þeim öllum.

Ég nefni nokkra mjög kostnaðarsama hluti; skattleysismörk, betri heilbrigðisþjónustu og bættar samgöngur því þannig vil ég að landið okkar sé. En á móti kemur að ég nefni líka hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þýðir ekki bara auknar tekjur heldur hvetur til fjárfestingar. Svo nefni ég breytt kvótakerfi sem þýðir að í stað þess að milljarðar streymi í hendur kvótakónga þá myndu þeir streyma í ríkissjóð. Meira að segja samgöngubætur skila fljótt tekjum til ríkissjóðs með fleiri ferðamönnum, færri slysum og meiri skilvirkni samfélagsins.
Með því að keppast að því að koma hér á legg öflugum tæknifyrirtækjum og reka gagnamiðstöðvar fyrir erlend fyrirtæki geta skapast gífurlegar tekjur og góð störf.
Með öflugum alþjóðaflugvelli er hægt að hvetja áfram mikinn vöxt á suðurnesjum og auka til muna komur ferðamanna sem stoppa einungis 1-2 daga á landinu á leið sinni yfir Atlantshafið.
Mengunarskattur mun þýða auknar tekjur og bætta ímynd landsins erlendis (nema auðvitað í augum þeirra sem vilja menga mikið). Minnkun olíuþarfar mun hafa jákvæð áhrif á viðskiptahallann og þú veist hvað það þýðir.
Aðskilnaður ríkis og Kirkju mun spara mikil útgjöld. Færri hömlur í framleiðslu landbúnaðarafurða og aukin útgerð handfærabátum er ekkert nema jákvæð fyrir byggðarlögin og atvinnulífið.
Ef þú hefur fleiri hugmyndir þá þætti mér gaman að heyra þær. (Nema ef vera skildi að þær séu að auka skattlagningu þorra launþega og byggja ekkert nema álver). Það er jú skemmtilegra að leggja til lausnir heldur en að lýsa yfir að allt sé ómögulegt.

5/12/06 11:01

Jarmi

Það hefur sannað sig að mengun = peningar.
Það hefur sannað sig að hærri fjármagnstekjuskattur = færri menn að fjárfesta = lækkun í tekjum.
Það hefur sannað sig að ríkissjóður kann ekki að fara með auðlindir landsins = kvótapeningar eiga ekki heima í höndum þeirra (sem hráefnistekjur).
Það hefur sannast að fólk sem ekki notar samgöngur er óviljugt til að borga fyrir þær = fólk sem ekki notar hringveginn mun mótmæla.
Það hefur sannast að minnkun olíuþurftar gerist ekki með sósíalískri hugsun = þú þarft kapítalíska hugsun sem hvetur aðra kapítalískt þenkjandi menn til að færa sig nær 'alternatív energí' hugsun.

En kallinn minn, mér er nokkuð sama hvað þú kýst, og mér er í raun sama hvað ég kýs. Ég er orðin eldri en tvívetra og veit að það skiptir engu máli hvað við kjósum. Frímúrarareglan ræður alltaf. Schvo at viððð veljchum bara taðð sem lúkkar best á pappír og sættum okkur víð schítinn sem við fáum.

5/12/06 11:02

Gísli Eiríkur og Helgi

M ér finst Glúmur kæri að stefnuskrá þín eigi heldur heima hjá vinstri grænum og hefði ég möguleika kysi ég þá. Þó vil ég hvetja sem flesta að kjósa Íslandshreyfinguna , svo að þeir nái manni á þing annars eru öll athvæði þeirra gefin andskotanum og stóryðjubrjálæðinu hans.

5/12/06 11:02

Bangsímon

Þetta er fróðleg lestning. Ég er mjög óákveðinn í þessum kostningum og það veldur hugarangri. Ég get ekki séð að einhver flokkur sé betri en annar fyrir mig og mínar hugsjónir, meðal annars vegna þess að ég hef nánast engar pólitískar hugsjónir. Mér finnst pólitík byggjast stundum á að velja fótboltalið og halda svo bara með því. En ef maður ætlar að beita rökum á þetta verður formúlan svo flókin að maður missir vitið og hleypur út öskrandi eins og appelsína. Ég held að það sé bara best að nota brjóstvitið og fylgja hjartanu. Ef maður hugsar of mikið fer maður að efast um rétta svarið, líkt og ég hef gert, og maður veit ekki sitt rjúkandi ráð.

5/12/06 11:02

Dula

Ég er ennþá óákveðin.

5/12/06 12:00

Gvendur Skrítni

Nei nú verð ég að blanda mér í málið.
Jarmi, þú ert maður með viti, ég er svo hjartanlega sammála þér.
"mengun = peningar" - þetta vissi ég ekki, en þetta er búið að gefast vel fyrir Sovétríkin.
"Það hefur sannað sig að hærri fjármagnstekjuskattur = færri menn að fjárfesta = lækkun í tekjum." Hér er mikil speki og djúp á ferðinni og ber vott um æðri skilning á tannhjólum hagkerfisins, má ég vitna í þig með þetta?
"Það hefur sannað sig að ríkissjóður kann ekki að fara með auðlindir landsins" - Já, og þetta á þá væntanlega við um náttúruauðlindir líka, heyri ég Halelúja!?
"Það hefur sannast að fólk sem ekki notar samgöngur er óviljugt til að borga fyrir þær" = Já, hvílíkt glapræði sem hringvegurinn og malbik var fyrir framtíð landsins. Burt með vegagerðina, það sparar pening!
"Þú þarft kapítalíska hugsun sem hvetur aðra kapítalískt þenkjandi menn til að færa sig nær 'alternatív energí' hugsun." og þar áttu væntanlega við hina kapítalísku hugsun "mengun = peningar" sem við byrjuðum á? Já ég get vel séð hvernig sú hugsun mun leiða fólk til umhverfisverrndar. Þetta er hreint út sagt póetísk hringferð hjá þér Jarmi, ég votta þér virðingu mína [Klappar]
Mengun er peningar, stríð er friður, frelsi er ánauð! [Glottir eins og fífl]

5/12/06 12:00

Texi Everto

Ég er svo óákveðinn og skipti svo oft um skoðun að eina lausnin er að ég fái að kjósa mörgum sinnum [Ljómar upp og ákveður að kjósa mörgum sinnum]

5/12/06 12:01

dordingull

Tvö til þrjú atriði í stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar valda því að ég á erfitt með að kjósa hana.
Hún er þó eini valkostur heiðarlegs fólks gegn glæpafélögunum.
Ómar Ragnarsson er eini frambjóðandinn sem ég treysti til að selja ekki sannfæringu sína fyrir bittling eða pening.
En kannski fæ ég mér bara sæti upp í tré, naga banan stolin frá lýðveldinu, og horfi á sauðina skondra glaða og jarmandi hvern á sinn stað við jötuna þar sem þeir vita að fleygt verður í þá tuggu.
Frumleg uppátækjasemi vitsmunaveru, sem af forvitni og djörfung fagnar því óþekta í stað þess að hræðast, og leitandi opnar vit sín til annarar sýnar en fjóshaugur blekkingar og lygi býður enn og aftur, er einkennandi fyrir stofn köngulóarapana.
Ánamaðkar, hestar, framsóknarmenn og annar búfénaður eru á mörkum þess vitsmunaþroska sem þarf til að hugsa án aðstoðar.
Við getum aðeins vonað hið besta.

5/12/06 12:01

Billi bilaði

Ég var orðinn tvístígandi, en ég fór eftir þessu og kaus I. Mikil er ábyrgð þín. [Ljómar upp]

5/12/06 12:01

Goggurinn

Ég tók með mér tening í kjörklefann. Passaði vel, sex listar í framboði. Þessir apakettir eiga atkvæðið mitt alveg jafn mikið skilið.

Ég hefði samt kastað aftur ef framsókn hefði komið upp.

5/12/06 12:01

feministi

Ég kaus kvennalistann eins og ávallt í kosningum.

5/12/06 12:01

Blástakkur

Ég held ég verði eiginlega að lýsa yfir stuðningi við næstum hvert einasta stefnumál sem nefnt er í pistlinum. En ég bara get ekki kosið Jakob Frímann. Ekki séns.

5/12/06 13:00

krossgata

Dordingull ... merkilegt. Ómar er næstum sá eini sem ég myndi trúa til að selja sálu sína til að borga fyrir smá athygli.

5/12/06 13:00

dordingull

Hættir nær sjötugur sæmilega stöndugur maður ævitekjunum, öllum eignum og öryggi, og skuldsetur sig að auki í drep til þess að vekja á sér athygli? Athygli sem hann hefur notið nær alla ævi!!
Nei, hann var tilbúin að fórna þessu öllu fyrir þá sannfæringu að hroðalega væri farið með dýrmætar auðindir.

5/12/06 13:00

krossgata

Segir hver?
[Er eldri en tvævetur og hefur heyrt þetta áður]

5/12/06 13:01

Jóakim Aðalönd

Ég hef þá hugsjón að kjósa flokk sem gerir ríkar fitubollur eins og mig enn ríkari og feitari. Þess vegna er ég íhaldspungur og stoltur af því!

5/12/06 13:01

Þarfagreinir

Jæja, gott að þú hefur alla vega hugsjón, Kimi. [Glottir eins og fífl]

5/12/06 17:01

Hakuchi

Takk fyrir þetta atkvæði Glúmur. Takk kærlega.

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.