— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tigra
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 4/12/07
Saga

Ritstörf Aulans hafa kvatt mig til dáða, þótt fyrstu smásögu mína birti ég með kvíðahnút í maga.

Það voru öskur og læti inni í húsinu. Hún var að rífast við móður sína eins og oft gerist á þessum aldri. Hún var bara 12 ára og heimurinn oft ósanngjarn.
Hún rauk út. Hún vildi ekki vera þarna lengur. Hún tók með sér epli, því hún hafði ekki í huga að fara heim á næstunni. Helst, ef hún gæti, ætlaði hún að vera úti allan daginn. Kannski yrði móðir hennar áhyggjufull ef hún kæmi ekkert heim fyrr en eftir kvöldmat. Eða kannski var nóg að mæta í kvöldmat. Hún vissi ekki hve lengi eplið myndi duga henni.
Hún gekk upp í Öskjuhlíð. Hún hafði unun af að leika sér þar í náttúrunni, milli trjánna. Stundum fór hún og gaf kanínunum. Þær rifust aldrei.
Hún gekk í átt að kanínunum, sveigði af leið og gekk inn í skóginn. Hana langaði ekki að labba á göngustígunum núna. Hún fann læk. Læk sem hún hafði aldrei séð áður. Þó hafði hún ráfað um Öskjuhlíðina ómældan tíma og þekkti þar hvern stein og hvert strá.
Hún naut þess að sitja við lækinn smá stund en hélt svo áfram. Hún sá móta fyrir manni í fjarlægð og leikurinn myndaðist í höfði hennar. Hún ætlaði að þykjast vera hulduvera. Birtast hér og þar, svo maðurinn héldi að hún væri álfkona. Hún var alveg viss um að það væri það sem hann myndi halda. Hún birtist hér og þar í ákveðinni fjarlægð frá manninum, en sá svo að hann lá tiltölulega fáklæddur þarna. Þá ákvað hún að hætta og fann sér eitthvað annað að gera.
Þar sem hún var að dunda sér þarna sér hún að maðurinn kemur labbandi að henni og segir henni að koma.
Hún kemur og maðurinn spyr hana hvað klukkan sé. Hún veit það ekki. Hún gengur aldrei með úr. Maðurinn virðist ætla láta sér það nægja og byrjar að snúa sér við, en hikar.
Svo snýr hann sér aftur að henni og muldrar eitthvað óskiljanlegt. “Ha?” spyr hún. Hann muldrar eitthvað aftur og hún heyrir “...koma að gera eitthvað?”
Hún horfir tómlegum augum á manninn. Hún hefur ekki hugmynd um hvað hann er að tala um. “Ha?” Segir hún eina ferðina enn. Maðurinn hækkar róminn örlítið og hún heyrir að hann spyr hvort hún vilji gera eitthvað.
Á skotstundu var komið stórt ör í sakleysi 12 ára stúlku þegar hún áttaði sig á því hvað maðurinn var að tala um. Hræðslan vann sig upp líkamann og hjartað byrjaði að slá hraðar.
“Nei..” segir hún og hörfar eilítið. Maðurinn verður æstur og býður henni 2000 kr. Hún vill það ekki og hann hækkar upp í 3000 kr. Hún segir enn og aftur nei og hleypur í burtu. Hann hleypur á eftir henni. Hún hleypur inn í sjálfeldu. Runnar og tré umlykja hana í skeifu, og maðurinn stendur við einu útgönguleiðina. Hún tekur á eina ráðið sem hún hafði. Hún ryðst fram hjá honum og finnur hann reyna að grípa í sig. Hún hleypur stjórnlaust áfram blindandi og finnur greinarnar rífa í sig og rispa sig í framan. Hún heyrir fótatakið á eftir sér og veit að hann eltir.
Loks kemur hún niður á stíg og hleypur enn hraðar. Tárin leka í stórfljóti niður kinnarnar. Hún veit ekki hvort hann eltir ennþá.
Hún þorir ekki að stoppa. Hún er uppgefin og tárin löngu hætt að renna – hún er bara eins og frosin í framan.
Hún mætir tveimur skokkurum. Þau horfa á hana góðlátlega og hún hikar... en hún þorir ekki að segja þeim. Þorir ekki að tala við neinn. Hún vill bara komast heim.
Hún hleypur alla leiðina heim og rífur upp dyrnar heima hjá sér.
Móðir hennar er að ryksuga ganginn og er greinilega enn pirruð.
Hún kemur inn og um leið og hún ætlar að segja eitthvað, brestur röddin og hún brotnar niður.
Hún nær að stynja upp einhverju á milli ekkasoganna þegar móðir hennar kemur og tekur utan um hana. Hún segir þó aldrei, af einhverjum ástæðum, alla söguna, en þó nóg til að atburðarrásin skiljist í stórum dráttum.
Móðir hennar læsir dyrunum.
Um kvöldið kemur faðir hennar heim. Hann verður öskuvondur að enginn hafi hringt á lögregluna. En nú er það of seint. Svo gleymist þetta. Það sér enginn ástæðu til að nefna þetta aftur.
Hún fann aldrei aftur litla lækinn í Öskjuhlíðinni.

   (6 af 83)  
4/12/07 08:01

Upprifinn

Þetta er góð saga.

4/12/07 08:01

Vladimir Fuckov

Vjer tókum ekki mikið eftir því sem fram fór kringum oss meðan vjer lásum þetta. Það hljóta að teljast góð meðmæli með sögunni.

4/12/07 08:01

Texi Everto

Ég reyndi að lesa þetta en ég gat ekki einbeitt mér - eftir setninguna "Hún gekk upp í Öskjuhlíð" byrjaði að glymja þessi brjálaða banjótónlist í höfðinu á mér og mér varð ekki rótt. Fyrirgefði Tigra, en ég verð bara að lesa þetta seinna þegar ég er búinn að láta fjarlægja banjóið úr höfðinu á mér,

4/12/07 08:01

Bleiki ostaskerinn

Góð saga. Undir lok sögunnar var ég hrædd um að mamman myndi ekki trúa stelpunni.

4/12/07 08:01

Álfelgur

Góð saga.

4/12/07 08:01

Herbjörn Hafralóns

Góð saga, en átakanleg.

4/12/07 08:02

Aulinn

Gód saga Tigra mín. Alltaf virdist vera audveldast ad skrifa um eitthvad sem hefur gerst. Heppinn ad hafa oxid úr grasi í thessa stórkostlegu konu (stelpu).

4/12/07 08:02

Þarfagreinir

Gott að þetta fór ekki verr.

4/12/07 08:02

Næturdrottningin

Vá, gæsahúð bara allan tímann. Virkilega flott. Já og velkomin í söguhópinn

4/12/07 09:00

Kondensatorinn

Sagnaþulur mikill ertu mín mæta.

4/12/07 09:01

krossgata

Tíminn læknar ekki öll sár.

4/12/07 10:01

Huxi

Það er hætt að koma mér á óvart hvað það eru margar konur með einhverjar svona minningar í farangrinum. Það er samt ekki þar með sagt að ég sé neitt sáttari við það. Hún var heppin, litla stúlkan í sögunni, að ekki fór ver.

4/12/07 10:02

Skabbi skrumari

Mjög góð saga... Salút...

4/12/07 10:02

Andþór

Knús sætust!

4/12/07 10:02

Skabbi skrumari

Takk Andþór [Roðnar yfir gullhömrunum]...

4/12/07 11:00

Jóakim Aðalönd

Össs...

Svona perrar. Góð saga Tigra. Vonandi skrifarðu fleiri smásögur. Kannske eina aðeins léttari næst?

5/12/07 09:01

Dexxa

Ég þarf að vera verulega duglegri við að kíkja hingað.. þetta er frábær saga.. ég fékk hroll..

Tigra:
  • Fæðing hér: 26/9/03 14:44
  • Síðast á ferli: 8/7/15 13:56
  • Innlegg: 11354
Eðli:
Ég er nú bara saklaus kisa... ekki mjög hættulegur tígur hér á ferð, nema þið reitið mig til reiði auðvitað.Ég hef enn minn kjaft og mínar klær.. þó svo að ég noti þær sjaldnar en flestir af mínum kynstofni. Á íslandi sjáiði til er erfitt að vera smyglað tígrisdýr og þessvegna þarf ég að láta lítið fyrir mér fara.
Fræðasvið:
Ormalífeðlisfræðingur og formaður Grasormafélags Íslands, talsmaður fyrir tígrisdýr á Íslandi, framúrskarandi í Færeyingarannsóknum.
Æviágrip:
Þið þurfið að ferðast alla leið til Rússlands ef þið viljið finna heimaslóðir mínar. Ég er nefnilega Síberíu tígur (nei síberíutígrar eru ekki hvítir, hvít tígrisdýr eru í einstaka tilfellum albínóar (þá án randa) en hvíti liturinn á hinum eiginlega hvíta tígri stafar af genaerfðum í Bengaltígrum)Ég ólst þar upp í 5 hvolpa hópi og móðir okkar mjög ástrík en jafnframt ströng.Ung að aldri tók ég upp á því að ferðast og var því miður fönguð í Indlandi og send í dýragarð í Frakklandi.Þar barðist ég fyrir frelsi mínu í 2 ár og slapp að lokum og gerði allt vitlaust í dýragarðinum. Ég flúði land og laumaðist til Bretlands og þaðan í skip sem var að flytja ýmsar kjötvörur til Bandaríkjanna (heppin ég). Ég lifði sældarlífi á leiðinni en það gekk mikið á þegar skipverjar uppgötvuðu mig. Þeir flúðu skipið af skelfingu en ég rak áfram og strandaði á Íslandi þar sem ég hef lifað góðu lífi síðan.Íslendingar eru gott fólk... ekki of saltir.