— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tigra
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 1/12/07
Um geðshræringar

Í einu fagi í skólanum er ég með kennara sem mér líkar afar illa við.
Ástæðan er ekki endilega sú að maðurinn muldrar alltaf ofan í bringuna á sér þannig að enginn heyrir hvað hann segir, eða þá að þegar fólk heyrir hvað hann segir þá er hann yfirleitt að tala um eitthvað allt annað en námsefnið.
Nei... það er ekki það. Ástæðan er heldur ekki sú að hann snýtir sér reglulega í vasaklút – og heldur iðulega áfram að tala á meðan. Það er ekki einu sinni það að hann leggst stundum fram og fer að naga brúnina á ræðupúltinu.
Allt það get ég fyrirgefið.
Nei það var eitt sem hann sagði í tíma um daginn sem mér var einstaklega illa við.
Hann var að tala um geðshræringar eða sumsé tilfinningar og hann tók að sér að fullyrða að “Auðvitað vitum við öll að dýr hafa ekki geðshræringar”. Síðan hló hann stuttum fyrirlitningslegum hlátri og mig langaði mest að strunsa niður að honum og sparka bæði í hann og útslefaða ræðupúltið.

Hver er hann að fullyrða svona hluti? Hver sem er sem umgengist hefur dýr af ráði getur séð að dýr eru ýmist glöð eða leið – reið eða hrædd – og allt þar á milli.

Þetta pirraði mig kannski sérstaklega vegna eins atviks sem ég varð vitni að hérna fyrir ekki svo mörgum árum. Já þegar ég hugsa út í það eru það ekki einu sinni orðin tvö árin síðan ég varð vitni að atburði sem ég mun alltaf muna – og snerti mig meira en mig sjálfa hefði getað grunað. Meira heldur en flest annað sem ég hef séð – og þó hef ég séð ýmislegt um ævina.
En þetta atvik snérist ekki um menn – heldur um dýr.
Þetta voru ekki einu sinni hundar eða kettir, sem við svo gjarnan manngerum, því við þekkjum þessi dýr best og höfum flest séð slíkar geðshræringar í þeim.
Nei þetta dýr var gnýr.

Ég var stödd í Suður Afríku á þjóðgarði einum þar sem ég hafði tekið að mér að vinna sjálfboðavinnu. Þessari vinnu fylgdi það m.a. að ég ferðaðist um svæðið með þjóðgarðsvörðunum og sinnti dýrunum.
Einn daginn komu menn frá Saudi Arabíu sem vildu fá að veiða villidýr og hengja hausa upp á veggina hjá sér. Þessi þjóðgarður var í einkaeign og þar sem að eigandinn vildi græða eitthvað á þessu leyfði hann það. Við fórum að sjálfsögðu með – byrjuðum á að fullvissa okkur um að mennirnir gætu eitthvað skotið – svo þeir færu ekki að skjóta út í loftið og stórslasa dýrin áður en þeir næðu að drepa þau.
Af um það bil 10 mönnum var þremur leyft að skjóta.
Síðan þurftum við að fullvissa okkur um að mennirnir skytu ekki kýrnar sem voru ýmist kálfafullar eða ný búnar að bera, þannig að við völdum fyrir þá gnýi sem voru svokallaðir piparsveinar. Þeir fylgdu ekki hjörðinni og voru yfirleitt ung karldýr. Þeir héldu sig stundum 2-3 saman í litlum hópum.
Það er samt allt annað að skjóta dós úti á túni eða að fara út á gresjuna og skjóta lifandi dýr sem stendur sjaldnast kyrrt. Mennirnir voru taugaóstyrkir og gekk sjaldnast vel að hitta.
Í eitt skiptið þá tókst að skjóta í fótinn á einu dýrinu – og yfir þjóðgarðsvörðurinn sem var með í för þurfti að grípa byssuna af manninum og drepa dýrið snögglega svo það myndi ekki kveljast. Ég sat með í bílnum og reyndi að hugsa um eitthvað annað og horfa út í loftið. Skothvellurinn var samt of hár til að ég gæti hunsað hann.
Það var samt ekki þetta skipti sem sat svona eftirminnilega í huga mér. Það var næsta skipti.
Þá tókst þeim að skjóta ungt karlnaut. Hann steinlá.
Þeir höfðu verið þarna tveir piparsveinar saman í rólegheitunum. Við hvellinn hrukku þeir auðvitað báðir við – annar dó nánast samstundis – hinum hvellbrá og byrjaði að stökkva samstundis í burtu. Hann stökk þó ekki langt því hann áttaði sig fljótlega á því að félagi hans elti ekki. Maður sá það á hreyfingum hans að hann var óstyrkur og dauðhræddur en hann kom samt til baka og hljóp að vini sínum. Hann stóð þar í smá stund, reikaði í kringum hann og vissi ekki hvað hann átti til bragðs að taka. Hann horfði á okkur sem vorum á leiðinni í átt til hans í bílnum og stökk nokkrum sinnum í burtu en kom alltaf til baka að huga að vini sínum.
Ég sat þarna með tárin í augnum og vældi: “Afhverju fer hann ekki?!” Gnýrinn var auðvitað löngu búinn að sjá að þetta var stórhættulegt og eitthvað alvarlegt var að. Þjóðgarðsvörðurinn leit sorgmæddur á mig og svaraði: “Af því að þetta var vinur hans.”

Samkvæmt lögmálum kennara míns hefði gnýrinn átt að stökkva í burtu samstundis og bjarga sjálfum sér. Þetta var ekki einu sinni afkvæmi hans eða maki – bara vinur.
En þessi gnýr gerði það ekki. Það var augljóslega eitthvað mun stærra þarna að baki.
Segið svo að dýr séu skynlausar skepnur án tilfinninga.

   (10 af 83)  
1/12/07 18:00

Dula

Nú fékk ég risa kökk í hálsinn og tár í augað.... ekki ryk heldur tár.

1/12/07 18:00

Kondensatorinn

Kannski voru þeir bræður.
Þessi kennari er herfilegur horgemlingur,skelfilegt fífl og fáráður.
Það þyrfti að senda fíflið í sveit.

1/12/07 18:00

Nornin

Það þarf nú ekki einu sinni svona dramatískt atriði til að vita að dýr hafa tilfinningar.
Ég lokaði köttinn minn óvart úti í allan dag (frá 11 í morgun til 21 í kvöld) og þegar ég kom heim og sá að hann var ekki heima fór ég auðvitað út á svalir að kalla á hann.

Aumingja greyið lá í skjóli við þvottahúsdyr nágranans og kom 'grátandi' þegar hann heyrði í mér. Það var augljóst á tóninum í honum, að hann hafði verið hræddur um að vera gleymdur og að hann var glaður að komast inn.

Og aumingja gnýrinn.

1/12/07 18:00

Finngálkn

Já það er fyrirlitlegt að tilheyra mannkyninu að öllu leiti.
Ég yrði sennilega útskúfaður ef ég segði alla mína meiningu í þessum efnum en smásálir eins og þessi kennara fjandi eru ekkert annað en gangandi sóun og sönnun þess hve ómerkileg tegund við erum. Ég skrifaði eitt sinn ritgerð í skóla (háskóla fyrir apa) um réttindi dýra og fékk ekki hátt fyrir þar sem rök mín voru gerð að engu. Fólk sem setur samasem merki á milli dauðs hlutar og lifandi dýrs (lífveru) er dautt á allan hátt og ætti frekar að lóa en dýri sem byggir lífsafkomu sína á þörf - ekki græðgi!
En ég tek annars kolluna ofan fyrir einni hugsandi manneskjunni enn í safnið!

1/12/07 18:00

Grágrímur

Henda þessum kennarafyrir tígrisdýrin og leyfa hinumað sjá gleðina sem skín úr augum þeirra þegar þau rífa hann í sig...

Þvímiður finn ég ekki síðuna en ég sá mynda seríu um daginn af hundi sem stóð yfir látnumf élaga sínum semhafði verið keyrt yfir, hann stóð allan daginn á miðri götunni, átakanlegt, ein ogsagan umgnýinn

1/12/07 18:00

Andþór

Ég varð eiginlega bara miður mín á að lesa þetta.

1/12/07 18:01

Texi Everto

Öll dýr hafa tilfinningar, mörg dýr dreymir líka - öll dýr sýna umhyggju, sum sýna öðrum tegundum umhyggju sem er meira en hægt er að segja um sumt fólk. Það fólk er þó sem betur fer jafn fágætt og það er fáfrótt.

1/12/07 18:01

feministi

Hvaða helvítis tilfinningasemi er þetta? Eruð þið öll orðin grenjsukjóður eða hafa óvinir ríkisins sáldrað yfir ykkur baneitruðu tilfinningadufti.

1/12/07 18:01

Álfelgur

[Tárast] Já, allir sem hafa alist upp í sveit vita að dýr hafa tilfinningar og geta farið í geðshræringu eins og við mennirnir. Þessi kennari er greinilega bara einstaklega hrokafullur, þröngsýnn og vitlaus og ég vorkenni honum.

1/12/07 18:01

Skabbi skrumari

Ég verð hugsanlega úthrópaður fyrir þetta, en hvað um það...

Getur verið að þú hafir misskilið kennarann... var hann mögulega að hlægja hlátri sem átti að draga úr því sem hann sagði, var hann mögulega að reyna að fá umræðu um það sem hann sagði af því að hann var ósammála því... ef ég skil rétt þá ertu í háskóla og ef kennari þinn í háskóla segir eitthvað sem þú ert ósammála, þá áttu að standa upp og rökræða við hann um málið...
Ef þú gerðir það, þá vil ég endilega heyra meira frá hans hlið um málið... þó ég sé ósammála honum, til þess að reyna að skilja hvað honum gekk til...

1/12/07 18:01

Amelia

Það er greinilegt að þessi maður hefur aldrei, aldrei, aldrei kynnst dýrum.!

1/12/07 18:01

Anna Panna

Skabbi; ég var líka í þessum tíma og ég er nokkuð viss um að við Tigra erum ekkert að misskilja þetta, að mínu mati sagði hann þetta í afar misheppnaðri tilraun til húmors; eins og þetta væri fyndið af því að þetta væri svo fráleit tilhugsun.

Annars er ég alveg sammála mati Tigru, þetta verða ekki uppáhaldstímarnir mínir í vetur...

1/12/07 18:01

Skabbi skrumari

Nú... tveir geta varla misskilið hvað honum gekk til... þetta er greinilega kjáni

1/12/07 18:01

Tigra

Ég segi eins og Anna, ég er mjög viss um að ég hef ekki misskilið hann. Hann - eins og Anna segir, sagði þetta því honum fannst fráleit hugsun að dýr gætu haft geðshræringar.
Hláturinn var ekki til að draga úr því sem hann sagði, heldur til að undirstrika það.

1/12/07 18:01

krossgata

Karlgreyið hefur líklega aldrei orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga eða umgangast dýr. Hann veit bara ekki betur. Hvað er það aftur kallað... fáfræði.

1/12/07 18:01

Anna Panna

Já. Merkilegt hvað fólk getur verið fáfrótt þótt það sé sprenglært... [Starir þegjandi út í loftið]

1/12/07 18:01

Amelia

Það er reyndar hreinlega stórfurðulegt hvað fáfrótt fólk sækir oft í að verða sprenglært. Kannski í þeirri von að slá á fáfræðina. Það bara tekst allt of sjaldan að lækna svona slæm tilvik af fáfræði. [Dæsir}

1/12/07 18:01

Garbo

Eitt besta félagsrit sem ég hef lesið.
Virðingarleysi gagnvart dýrum og ill meðferð á þeim er í mínum huga eitthvað það fyrirlitlegasta sem til er.

1/12/07 18:01

Lopi

Dýr geta tryllst og það eru geðshræringar.

1/12/07 18:01

Aulinn

Dýr hafa geðshræringar alveg eins og við. Vel skrifað og flott rit. Fékk mig til þess að tárast, þú hefur upplifað ýmislegt.

1/12/07 18:02

Furðuvera

Nú er ég næstum farin að skæla...
Ég sem hef átt gæludýr og umgengist dýr reglulega allt mitt líf hef aldrei nokkurn tímann getað á nokkurn hátt grunað að þau hefðu ekki geðshræringar/tilfinningar.
Ég hefði persónulega rakkað þennan kennara niður fyrir þetta ógeðslega komment. Hann á ekki að komast upp með þetta.

1/12/07 19:00

Kondensatorinn

Það mætti kannski siga grimmum hundum á þennan fáfróða vitleysing sem gæti vonandi fræðst örlítið í viðbót við það en er greinilega yfirborgaður fáviti á launum hjá mér.
Hann er hér með rekinn.

1/12/07 20:00

Huxi

Afi minn átti 2 hesta. Annar þeirra var gæðingur en hinn barnahestur. Þeir voru miklir vinir og voru alltaf saman í hólfinu sínu á beit og í hesthúsinu á vetrum. Það var hægt að setja hvaða kjána sem var á barnahestinn og hann passaði það að knapinn færi sér ekki að voða. En gæðingurinn var bæði viljugur og vakur. En það mátti aldrei beita písk á gæðinginn þegar var verið að ríða þeim báðum í senn, því að þá henti barnahesturinn sínum knapa af baki. Með því var hann að hefna fyrir vin sinn.

1/12/07 20:01

Jarmi

Kallinn er fáviti sem áttar sig í fyrsta lagi ekki á því að hann er sjálfur dýr og í öðru lagi að hann vakti geðshræringu hjá fullt af dýrum sem sátu fyrir framan hann, og þarmeð kolfelldi eigin fullyrðingu.
En auðvitað eru til dýr sem hafa engar beinar tilfinningar. Marglyttur sem dæmi. Fjöldamörg dýr munu aldrei sýna vott af geðshræringum, sama hvað þú reynir að áreita þau, einfaldlega vegna þess að heilinn í þeim er ekki annað en taugahnútur sem sér um að líkamsstarfsemi þeirra stoppi ekki.
En ég get lofað hverjum sem er að ÖLL spendýr hafa tilfinningar og finna til geðshræringa. Allir fuglar og mörg skriðdýr, einhverjir fiskar og mögulega einhver skordýr eru búin þessari guðsnáð að finna til geðshræringa. En þið sjáið á þessari upptalningu minni (og hún er ekki tæmandi fyrir öll dýr) að ég er þeirrar skoðunnar að sum dýr hafi ekki tilfinningar.
Þannig er það nú bara.

1/12/07 20:01

Texi Everto

Hesturinn minn hefur nú mikið jafnaðargeð. En hann fer í massafýlu ef ég leyfi honum ekki að smakka baunakássu allavega einu sinni í mánuði eða svo.

1/12/07 22:00

Jóakim Aðalönd

Ég er dýr. Ég er stöðugt í einhverri geðshræringu. Gott rit!

1/12/07 22:00

Rattati

Eitthvert besta félagsrit sem að ég hef séð.

2/12/07 03:02

Skreppur seiðkarl

Ég ætla að leyfa mér að hressa aðeins upp á þetta og segja smá sögu af ketti sem ég átti. Þannig var að þetta var læða sem hafði ofboðslega gaman af að fara í taugarnar á mér, hlaupandi upp á skápana bakvið stássið sem á þeim var og ýta því fram af. Þessi köttur skeit aldrei í sandinn sem fyrir hana var lagður, hún vildi alltaf út til að gera þarfir sínar. Eina nóttina gleymdi ég að opna glugga og víst þykir mér að allir gluggar hafi verið lokaðir. Ég vakna endrum og sinnum við svona lykt af gamalli mjólk og er í hálfum svefni að spá í hvað kötturinn hafi verið að gera. Ég vakna svo um morguninn og ætla að koma mér af stað í vinnu, tek af mér sængina og fatta þá lyktina, kattarhelvítið hafði tekið sig til og ræpt á bringuna á mér meðan ég var sofandi. Þá hefur stríðnin breyst í hefnd fyrir að virða ekki útivistarreglur hennar. Geðshræring?

10/12/07 06:01

Wayne Gretzky

Tigra hefur lög að mæla.

Auðvitað hafa dýr tilfinningar og það er svo vitlaust að kalla þetta skynlausar skepnur. Sjáið til dæmis forystuféð sem bara er til á Íslandi. Fyrr á öldum bjargaði það öllum hópnum undan óveðri, og þetta kallar fólk heimsk dýr?

Afi minn lá einhvern tímann í makindum um sumar upp á hól með kíki, að fylgjast með kindunum á túninu. Þá sá hann lömb vera nartandi í blöðin á sóley - og hann hrökk við, vissi náttúrlega að sóley var eitruð. Hann hringdi í grasafræðing og spurði að þessu. Grasafræðingurinn sagði að eini hluturinn á sóleynni sem væri ekki eitraður væru blöðin- og það var einmitt það sem lömbin höfðu borðað. Nokkurra daga gömul vita lömbin þetta, og einmitt, þau eru skynlaus.

Bróðir ömmu minnar átti einhverjar tíu kindur svona áður en hann hætti algjörlega að búa. Tvær þeirra, sem hétu Móra og Bílda voru miklir vinir og voru alltaf saman um sumrin . Haust eitt var svo komið að það þurfti að lóga Bíldu og það var gert. Þegar Móra kom svo út um vorið var hún friðlaus og jarmaði og jarmaði hún fann hvergi Bíldu.

Tigra:
  • Fæðing hér: 26/9/03 14:44
  • Síðast á ferli: 8/7/15 13:56
  • Innlegg: 11354
Eðli:
Ég er nú bara saklaus kisa... ekki mjög hættulegur tígur hér á ferð, nema þið reitið mig til reiði auðvitað.Ég hef enn minn kjaft og mínar klær.. þó svo að ég noti þær sjaldnar en flestir af mínum kynstofni. Á íslandi sjáiði til er erfitt að vera smyglað tígrisdýr og þessvegna þarf ég að láta lítið fyrir mér fara.
Fræðasvið:
Ormalífeðlisfræðingur og formaður Grasormafélags Íslands, talsmaður fyrir tígrisdýr á Íslandi, framúrskarandi í Færeyingarannsóknum.
Æviágrip:
Þið þurfið að ferðast alla leið til Rússlands ef þið viljið finna heimaslóðir mínar. Ég er nefnilega Síberíu tígur (nei síberíutígrar eru ekki hvítir, hvít tígrisdýr eru í einstaka tilfellum albínóar (þá án randa) en hvíti liturinn á hinum eiginlega hvíta tígri stafar af genaerfðum í Bengaltígrum)Ég ólst þar upp í 5 hvolpa hópi og móðir okkar mjög ástrík en jafnframt ströng.Ung að aldri tók ég upp á því að ferðast og var því miður fönguð í Indlandi og send í dýragarð í Frakklandi.Þar barðist ég fyrir frelsi mínu í 2 ár og slapp að lokum og gerði allt vitlaust í dýragarðinum. Ég flúði land og laumaðist til Bretlands og þaðan í skip sem var að flytja ýmsar kjötvörur til Bandaríkjanna (heppin ég). Ég lifði sældarlífi á leiðinni en það gekk mikið á þegar skipverjar uppgötvuðu mig. Þeir flúðu skipið af skelfingu en ég rak áfram og strandaði á Íslandi þar sem ég hef lifað góðu lífi síðan.Íslendingar eru gott fólk... ekki of saltir.