— GESTAPÓ —
Ragnar á Brimslæk
Óbreyttur gestur með  ritstíflu.
Pistlingur - 4/12/11
Búsáhaldabylting hvað?

Um hvað er fólk eiginlega að tala?

Enn er verið að tala um sk. búsáhaldabyltingu… Á sínum tíma heyrðist varla talað um annað í fréttum og alltaf kemur hún aftur upp í umræðunni.

Hér á Ýsufirði stöndum við hins vegar grallaralaus og vitum ekkert um hvað fólkið er að tala. Hvaða bylting hefur eiginlega orðið á búsáhöldum?

Sjálfur var ég orðinn nokkuð spenntur fyrir þessu öllu saman og var farinn að koma við í kaupfélaginu vikulega til að spyja kaupfélagsstjórann okkar, hann Héðinn, sem við köllum reyndar aldrei annað en Kaupa-Héðinn, hvort hann ætti von á einhverjum nýjum og byltingarkenndum búsáhöldum. En því var ekki að heilsa enda var hann jafn illa upplýstur og við hinir.

Þegar svo kom loksins ný sending af búsáhöldum til Kaupfélagsins vorum við nokkuð spenntir að sjá hvað kæmi upp úr kössunum. En viti menn, þetta voru bara vatnslásar, eimingartæki og vínandamælar eins og við eigum fyrir.

Þá datt Eiríki á Þvottá í hug hvort einhver bylting hefði orðið á glösum, sogrörum, glasamottum eða öðrum þeim áhöldum sem notuð eru við búsneyzlu. En það var ekki að sjá að nýjar sendingar af glösum o.þ.h. væru eitthvað ólík því sem við höfum notazt við hingað til.

Það var nokkuð gestkvæmt hjá mér síðastliðið sumar og satt að segja fyrirvarð ég mig fyrir að veita gestum að sunnan í gömlu kristalsglösunum mínum vitandi að ný byltingakennd búsáhöld bjóðast í höfuðborginni og öðrum stærri byggðarlögum. Ekki var þó að sjá fólk setti fyrir sig að við hér á Ýsufirði notumst enn við búsáhöld frá því fyrir byltingu. Hugsanlega gerir fólk ekki ráð fyrir að sveitvargurinn kunni með nýja og flókna tækni að fara.

Eftir sem áður unum við Ýsfirðingar sáttir við okkar hag… en mér þætti nú samt gaman að vita í hverju þessi sk. búsáhaldabylting felst og hvort hún eigi að vera eitthvert leyndarmál þeirra fyrir sunnan.

Kveðjur beztar frá Brimslæk í Ýsufirði

   (1 af 1)  
4/12/11 03:01

Barbie

Dásamlegt. Hér sit ég með min byltingarkenndu búsáhöld og hlæ. Sveitavargur hvað, þetta er borgarbörnum vel boðlegt.

4/12/11 03:01

Heimskautafroskur

Ýsufirðingar er hver öðrum betur skrifandi og varpa fram grundvallarspurningum um leyndarmál lífins syðra. Takk fyrir þessar hugleiðingar Ragnar.

4/12/11 03:02

Regína

Ég skal segja þér Ragnar að ég fór suður um daginn, og ég tók eftir að ílátið var talsvert stærra en ég hef áður séð, eiginlega byltingarkennt stærra. Önnur áhöld voru bara alveg eins og venjulega, jafnvel ljótari ef eitthvað er.

4/12/11 04:02

Huxi

Ef þú lest þessa grein http://www.asciimation.co.nz/bender/page4.html , sem hér fylgir getur þú séð eina þá mestu framför sem orðið hefur í búsahöldum síðann áman var fundin upp. Sumir ganga svo langt að kalla þetta byltingu...

4/12/11 04:02

Upprifinn

eru hér einhver áhöld um bús?

4/12/11 05:02

Golíat

Og ég sem hélt að þetta væru tómir stúkumenn þarna á Ýsufirði. Svona getur maður verið óttalega vitlaus.

4/12/11 06:00

Fergesji

Það þætti, teljum vér, saga til næsta bæjar, ef Votleifur Vatnsdal gengi í stúku.

4/12/11 06:01

Garbo

Búsílátabylting er greinilega tímabær á Ýsufirði.

Ragnar á Brimslæk:
  • Fæðing hér: 14/12/07 16:01
  • Síðast á ferli: 27/3/12 16:01
  • Innlegg: 38
Eðli:
Stórbóndi, íhaldsmaður, oddviti hreppsnefndar á Ýsufirði og höfðingi heim að sækja.
Fræðasvið:
Búsýsla og sveitastjórnarmál