— GESTAPÓ —
Ásmundur Lopahaus
Heiðursgestur.
Dagbók - 3/12/13
Fordómar

Eintal - lesist til enda áður en menn missa sig.

Ég komst að því að ég væri haldinn fordómum. Fordómum gagnvart hópi fólks sem iðkar lífsstíl sem gengur gegn eðli mannskepnunnar. Bent hefur verið á að lífsstíll þessi sé ekki bara gagnstæður eðli okkar, heldur geti hreinlega verið skaðlegur heilsu þess sem hann iðkar.

Ég fór um daginn á samkomu sem haldin hefur verið árlega í fimmtíu ár á sama stað. Þar gerðist ég sessunautur manneskju sem er í hópi þeirra sem minnst er á hér að ofan. Hún var af erlendu bergi brotin, og ég komst fljótt að því að hún aðhylltist þennan tiltekna lífsstíl, sem mér er fyrirmunað að skilja hvernig nokkur maður getur ástundað. Við töluðum nokkuð saman við borðhaldið og eins síðar um kvöldið, og reyndist þetta vera hin ágætasta manneskja.

En sama hvað ég reyndi að freista hennar með pungum, hákarli, harðfisk, og öðru jafnprýðilegu lostæti, þá hélt hún fast við sinn lífsstíl, og greyið sat og maulaði laufabrauð og skolaði því niður með ropvatni og rófustöppu. Og þó ég hafi notið góðs af því að sessunautur minn væri grænmetisæta, þ.e. meira kjöt fyrir mig, þá get ég enn ekki skilið hvers vegna nokkur myndi taka þá ákvörðun að fúlsa við svona kræsingum.

Svo fór ég að hugsa.

Kannski þarf ég ekki að skilja. Kannski kemur mér þetta hreinlega ekki við. Kannski er þetta ekki mitt vandamál. Alveg örugglega ekki.

Og kannski, bara kannski, er eítthvað í mínum venjum sem aðrir skilja ekki og eru e.t.v. hræddir við. Ég veit að ég hef líkamleg einkenni sem vekja oft viðbrögð hjá fólki, oftast jákvæð, en einstaka sinnum hef ég orðið fyrir barðinu á fordómum og einelti vegna þessa einkennis, og ósjaldan fyrir stríðni.

Ég get hins vegar ekki sagt að ég hafi borið varanlegan skaða af, a.m.k. vona ég ekki, en einhver ör eru á sálinni vegna þessa.

Hvert er ég að fara með þessu? Hef ekki hugmynd.

Ég veit bara það að nú finnst mér það fáránlegt að vera með fordóma gagnvart lífsstílsvali annars fólks. Það eina sem er fáránlegra eru fordómar gegn einhverju í fari fólks sem er meðfætt, hvort sem það er hörundslitur, kynhneigð, líkamsbygging, eða eitthvað annað. Ég mun því taka afstöðu mína til grænmetisæta til endurskoðunar.

En þið getið sveiað ykkur uppá það að ég verð sko aldrei grænmetisæta.

   (2 af 5)  
3/12/13 04:00

Billi bilaði

Þarna breyttirðu fordómum í eftirdóm. <Ljómar upp>
PissuStopp: Það er allt í lagi að borða grænmeta ef það er í minnihluta á móti kjötinu.

3/12/13 04:00

Ásmundur Lopahaus

Ég get verið sammála því

3/12/13 04:00

Regína

Að vera grænmetisæta telja sumir að sé að velja hollan mat. Það er rangt. Þú þarft að velja hollan mat eða ekki hvort sem þú ert grænmetisæta eða ekki.
En er þetta annars ekki bara klassískt dæmi um að fólk hefur gjarnan fordóma gegn því sem það þekkir ekki?

3/12/13 04:01

Billi bilaði

Jú, ég er fullur af alls konar fordómum.

3/12/13 04:01

Offari

Ég hef enga fordóma gagnvart grænmetisætum enda borða ég þær með bestu list.

3/12/13 04:01

Ásmundur Lopahaus

Það geri ég líka, en hef þó fram að þessu haldið mig við ferfættar

3/12/13 04:01

Clark Kent

Grænmetisætur er fólkið sem borðar matinn frá matnum mínum.

3/12/13 04:02

Kargur

Grænmeti er svo sem ágætt sem meðlæti eða til skrauts.

3/12/13 01:00

Grýta

Ég hef fordóma gagnvart fólki sem hefur fordóma.

3/12/13 01:02

Golíat

Grænmeti er gott, jafnvel í miklum mæli. En kjöt, fiskur, mjölkurafurðir, rótarávextir og annar matur er það líka. Það óholla er að taka næringurna inn sem töflur og duft. Já og síðan er kokteilsósa ógeðsleg.

Ásmundur Lopahaus:
  • Fæðing hér: 8/1/07 16:21
  • Síðast á ferli: 1/9/23 18:49
  • Innlegg: 1693
Eðli:
Virtur bridge-, rommí, gúrku, og Hornarfjarðarmannaspilari.
Fræðasvið:
Spilamennskuteoría, gereyðingarvopn, ypsilon, og kynsjúkdómar höfrunga.
Æviágrip:
Uppruni óljós, en getið í Landnámu. Einkum þekktur fyrir víg á konungum, drottningum, gosum, og hundum. Helsti óvinur er Donald Trump, var enda hnepptur í þrældóm af kauða er keppt var um Bermúdaþríhyrningsskálina í fyrsta skipti árið 1835. Slapp og hefndi sín grimmilega er spilað var grand.

Hefur síðan flakkað um heiminn og fjölgað sér, og á þrjá bræður er bera sama nafn.