— GESTAPÓ —
Ásmundur Lopahaus
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/12/06
Víðivallagúrkan

Í þeim tilgangi að losa mig við ritstíflustimpilinn hef ég ákveðið að bauna út svosum eins og einu félagsriti. Þar sem undirritaður er mikill áhugamaður um spilamennsku hvers konar er gráupplagt að fara yfir reglur í spili nokkru er nefnist Gúrka. Þetta tiltekna afbrigði er kennt við Víðivelli í Fljótsdal, þar sem það hefur mest verið spilað.

Spilað er með hefðbundnum spilastokk, og spilarar eru 3-6 að öllu venjulegu. Gefin eru sjö spil á kjaft, og er sá í forhönd er situr vinstra megin við gjafarann. Í þessu spili skipta litir því sem næst engu máli, og spilaröð eins og hefðbundið er að öðru leyti en því að laufsjöa er hæsta spil, og spaðasjöa hið næsthæsta.

Spilið hefst á því að menn skipta út þeim spilum er þeim þykir slæm, sá sem er í forhönd skiptir fystur og svo koll af kolli. Þetta er þó þeim takmörkunum háð að enginn spilari má skipta út fleiri spilum en næsti maður á undan. Einnig er oft takmarkaður fjöldi spila eftir í stokknum, og séu spilarar svo óheppnir að engin spil séu eftir í stokknum þegar kemur að þeim, þá er þeim óheimilt að skipta.

Hefst þá spilamennskan. Sá sem er í forhönd setur út, og er heimilt að setja út stakt spil, tvennu, þrennu, eða jafnvel fernu. Sé sett út stakt spil, t.d. átta, þá getur næsti maður drepið með jafnháu spili eða hærra, s.s. gosa, næsti maður getur þá drepið með gosa eða hærra og svo koll af kolli þar til allir hafa lagt í slaginn. Geti menn ekki drepið það spil sem úti er er mönnum skylt að henda sínu lægsta spil í slaginn.

Tvennur, þrennur og fernur virka á svipaðan hátt, nema hvað að tvennu er aðeins hægt að drepa með tvennu, og svo framvegis. Heimilt er þó að leggja tvö spil sem eru hærri en tvennan á tvennuna, en það telst þó ekki sem dráp, og næsti spilari þarf því aðeins að leggja á tvennuna. Geti maður ekki lagt á eða drepið tvennuna skal henda sínum tveimur lægstu spilum í slaginn. Sama gildir um þrennur og fernur. Af gefnu tilefni skal tekið fram að svörtu sjöurna tvær geta myndað tvennu þó að þær teljist ekki jafnháar.

Þegar slagnum er lokið endurtekur sagan sig nema hvað
sá er síðast drap er nú í forhönd. Þetta endurtekur sig þar til spilarar hafa aðeins eitt spil eftir á hendi. Í síðasta slag má aðeins setja út stakt spil.

Markmið þessara tilfæringa allra saman er að eiga ekki síðasta slaginn. Sá sem á síðasta slaginn tekur spilið sem drap slaginn og setur í borð fyrir framan sig þannig að það sé vel sýnilegt öðrum spilurum. Einnig gefur sá spilari í næsta spili. Endurtekið frá upphafi

Fyrir spilið sem í borði er eru gefin refsistig háð vægi spilsins sem hér segir:

Tvistar-sexur: 2-6
Rauðar sjöur: 7
Áttur-Níur: 8-9
Tíur-Kóngar: 10
Ásar: 11
Spaðasjöa: 21
Laufsjöa: 22

Sá spilari sem fyrstur fer yfir 21 refsistig hefur tapað spilinu og er gjarnan nefndur Gúrkan. Kjósi menn að finna sigurvegara spilsins er litið svo á að téð Gúrka sé úr leik og þeir spilarar sem eftir eru haldi áfram að bítast um sigurinn.

Helstu afbrigði:
Það hefur verið reynt með góðum árangri að nota tvo spilastokka í þessu spili, þá eru gefin 14 spil en að öðru leyti eru reglurnar eins.

Einnig er til annað afbrigði þar sem reglurnar eru í meginatriðum eins, gjarnan kennt við körfubolta.

Hvort menn hafi reynt þetta spil, eða afbrigði þess, þætti mér fróðlegt að vita.

   (4 af 5)  
1/12/06 20:01

krossgata

Mér leiðist yfirleitt að spila svo ég hef ekki prófað þetta spil, en hef heyrt það nefnt. Ég furða mig oft á nafngiftum spila. Af hverju ætli þetta heiti gúrka?

1/12/06 20:01

Offari

Þetta er skemmtilegt spil.

1/12/06 20:01

Útvarpsstjóri

Ég hef nokkrum sinnum spilað spil sem heitir gúrka. Það var aftur á móti mjög ólíkt þessu spili en ég man reglurnar ekki nógu vel.

1/12/06 20:01

sphinxx

Í öllum þeim útnárum, skipum og stofnunum sem ég hef spilað Gúrku er spaðasjöan hæst.

1/12/06 20:02

Upprifinn

Hver spilar eitthvað sem heitir Gúrka þegar allir vita að LOMBER er til?

1/12/06 20:02

Ásmundur Lopahaus

Lomber er eðalspil líka. Hvað spaðasjöuna varðar var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2 á neyðarfundi þann 28. desember 2004 að laufsjöa skyldi vera sú hærri í þessari tilteknu útgáfu spilsins.

1/12/06 21:00

Jarmi

Er ekki alltaf takmarkaður fjöldi spila eftir í spilastokknum? Kemur það fyrir að það er ótakmarkaður fjöldi spila í stokknum? Er þetta töfrastokkur kannski?

1/12/06 21:02

Les Fermier

Finnst þessar útskýringar líkari þeim reglum sem ég man eftir úr spili sem nefnist því virðulega nafni "Rassgat" en þó ekki eins. Hef sumsé ekki prófað þetta enda nóg að spila Bridge og Lomber.

1/12/06 21:02

Ásmundur Lopahaus

Ég hefði e.t.v. getað orðað þetta betur Jarmi minn, en þetta verður að duga úr því sem komið er.

1/12/06 23:01

krumpa

Mér finnst gaman að spila - en því miður gleymi ég alltaf reglunum þegar ég hætti að spila. Spilaði í heilt sumar spil sem hét hálviti, auli, fáviti eða eitthvað álíka gáfulegt. Afskaplega skemmtilegt en ég man ekkert hvernig það var - kannast einhver við það?

1/12/06 23:01

krumpa

hmmm - kannski hét það aumingi?

1/12/06 23:01

krumpa

hemm - eða idjót?

1/12/06 23:01

Ásmundur Lopahaus

Hef heyrt minnst á spilið iðjót. Hverjar reglurnar eru veit ég ekki.

1/12/06 23:01

krumpa

ansans - var alveg skrambi skemmtilegt!

2/12/06 00:01

Ísdrottningin

Ef horft er fram hjá smærri villum standa eftir þessar athugasemdir:
Svosum - á að vera = svo sem
Er þeim þykir slæm- á að vera = Er þeim ÞYKJA slæm
Af gefnu tilefni - á að vera = AÐ gefnu tilefni

Mig rámar í að hafa spilað Gúrku fyrir margt löngu sem svipar mjög til þessa spils en þó ekki alveg eins.

2/11/08 10:01

Isak Dinesen

Ég vil fá þær 10 sek til baka sem fóru í að lesa athugasemd Ísdrottningarinnar hér á undan.

Ásmundur Lopahaus:
  • Fæðing hér: 8/1/07 16:21
  • Síðast á ferli: 1/9/23 18:49
  • Innlegg: 1693
Eðli:
Virtur bridge-, rommí, gúrku, og Hornarfjarðarmannaspilari.
Fræðasvið:
Spilamennskuteoría, gereyðingarvopn, ypsilon, og kynsjúkdómar höfrunga.
Æviágrip:
Uppruni óljós, en getið í Landnámu. Einkum þekktur fyrir víg á konungum, drottningum, gosum, og hundum. Helsti óvinur er Donald Trump, var enda hnepptur í þrældóm af kauða er keppt var um Bermúdaþríhyrningsskálina í fyrsta skipti árið 1835. Slapp og hefndi sín grimmilega er spilað var grand.

Hefur síðan flakkað um heiminn og fjölgað sér, og á þrjá bræður er bera sama nafn.