— GESTAPÓ —
Fíflagangur
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/07
Veiðisaga úr raunheimum - annar hluti.

Þar sem við Klængur vorum orðnir afar þreyttir og nokkuð sáttir við fenginn afla tókum við nú við að fikra okkur niður af fjallinu. Þannig háttar til að ganga má næsta auðveldlega yfir mikið svæði á niðurleiðinni sé tekinn sveigur, vel norðan við svæðið sem dekkað var á uppleiðinni. Þó verður að halda til baka annað hvort ofan við Illagil, eða fara alveg niður fyrir það. Þegar ekkert hafði sést til fugls norðan til tókum við því strikið sem leið lá ofan gils og út bekkina fram á fjallsbrún. Á leiðinni sáum við nokkra fugla fljúga útmeð og niður í niður í Skál. Það var því eðlileg ákvörðun að fara fram á brúnina og líta yfir Skálina.
Skálin er dalverpi utan í fjallinu undir kolsvörtum þverhníptum hamri, trúlega yfir hundrað metra háum og þrjúhundruð metra breiðum. Skálin er skeifulaga og snýr til vesturs niður að Hafurstöðum sem er eyðibýli innan Hlíðarvatns. Þarna er ægifagurt og fátt í þessum heimi er betra en að setjast niður eftir erfiðan veiðidag og njóta útsýnisins og þess afls sem sorfið hefur landið okkar af þvílíkum krafti og listfengi að engin orð geta náð utan um. Þeir sem ekki hafa lagt á sig fjallgöngur á Íslandi hafa farið á mis við ótrúlegar tilfinningar, þar sem takast á sigurtilfinning og lotning.
Það er eins með fjöll og konur. Maður getur ekki metið fegurð þeirra að fullu fyrr en maður hefur komið sér upp á þau.
Þar sem við stóðum þarna á bjargbrúnina, maður og hundur, og horfðum yfir sólbarða skaflana og urðirnar fyrir fótum okkar, jókst okkur kraftur og það var eiginlega sjálfgefið að taka frekar krók yfir í Nautaskörð sem liggja frá skálarbrúninni að sunnanverðu þar sem oft leynast rjúpur, fremur en að halda sem leið liggur norðan við, sömu leið og er upp var farið.
Tvær leiðir voru mögulegar. Annað hvort að fara aftur upp fyrir klettana, yfir fjallið og niður sunnan við, eða að fara þvert yfir skálina norðan frá. Það var talsvert rok upp á fjallinu og auk þess styttra yfir skálina, auk þess sem hún glennti sig upp í sólina skjólsæl og falleg. Við Klængur héldum því eftir brúninni norðurmeð til að finna leið niður.
Brúnin norðanmegin hallar talsvert niður svo eftir því lengra er farið niður með brúninni lækkar maður í hæð. Það var því freistandi að koma sér niður eins fljótt og færi gæfist til að geta gengið neðan kletta þvert yfir skálina frekar en að þurfa að fara alla leið ofan í dalbotninn og upp bratta brekkuna hinumegin. Fyrst um sinn er hamarinn algerlega ófær, en fljótlega verður hann grófari þar til hann eyðist út í brekkuna nokkuð hundruð metrum til norðurs. Fljótlega sáum við gang niður klettana sem virtist liggja að sneiðingi sem lá á ská til vinstri niður klettabeltið. Sjónarhornið gaf reyndar ekki tilefni til að fullyrða um hvort leiðin væri fær en auðséð að aðeins þyrfti að fara um sjö metra niður til að láta reyna á það og fá rétt sjónarhorn niður sneiðinginn.
Ég fór því niður ruðninginn milli tveggja kletta og komst í stöðu til að sjá leiðina niður. Það blasti við mér auðfær leið skáhallt niður á milli kletta vinstra megin við mig. Til að komast þangað voru tveir möguleikar. Annarsvegar að klöngrast utan í klettinum yfir ansi stóran stein, sem var svosem örugg leið en bölvað príl. Hin leiðin var að fara niður fyrir steininn, en til að komast þangað þurfti að fara um tvo metra niður eftir skalfi sem lá snarbrattur niður í urð og engin leið að sjá hvað kletturinn var hár neðan urðarinnar.
Nú voru góð ráð dýr. Bölvaðir mannbroddarnir heima í skúr og hundasninn getur aldrei klöngrast yfir steininn. Það var í raun bara ein rétt ákvörðun í stöðunni;- að fara aftur upp á brún og hætta þessu rugli.
Eins og nærri má geta, tók ég versta kostinn. Mér tókst að sannfæra mig um að skaflinn væri fjandakornið ekki svo brattur og mögulega gljúpur og auðfarinn. Þetta var náttúlega afspyrnuheimskuleg ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess að fyrsti lífsháskinn sem ég man eftir að lent í var þegar ég húrraði tíu ára gamall í pollagall niður þrjátíu metra skafl niður í urð, að vinna við mæðuveikigirðinguna í Hítardal, þarna rétt sunnan við mig. Þá fór fyrsta lífið. Hef nú klárað einhver síðan, er farinn að halda að ég sé kominn á aukakall.
Ég tók á mig rögg, sannreyndi að ekki væri skot í hlaupinu, sneri byssunni við svo ég væri þess búinn að reka hlaupið á kaf í skaflinn ef þörf krefði.
Svo steig ég niður í skaflinn...

   (6 af 24)  
1/11/07 08:00

Móri

Ég sá eina rjúpu fyrir vestan í dag. Hún var lifandi og vel fleyg.

1/11/07 08:00

Huxi

Ert þú gaurinn sem þyrlan flutti í kjöthúsið?

1/11/07 08:00

Skabbi skrumari

Þetta er æsispennandi... Skál

Fíflagangur:
  • Fæðing hér: 22/8/03 13:35
  • Síðast á ferli: 24/9/11 11:06
  • Innlegg: 82
Eðli:
alltaf fullur
Fræðasvið:
lög
Æviágrip:
ætíð fullur