— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Pistlingur - 4/12/07
Um orð

Málfar er mér hugleikið.

Upp á síðkastið hef ég ergst ögn. Helzta ástæða þess er hnignun (að vanda - heimsósómi hrjáir mig iðullega).

Lítum fyrst á það, er til grundvallar er lagt;

# Skrif skulu einkennast af sannleiksþrá, fræðilegri nákvæmni, vönduðu málfari og góðri stafsetningarkunnáttu.
# Umræður skulu fara fram á íslensku, vandaðri.

Þetta er hluti umgengisreglna þeirra, er Gestapóar fallast á, er þeir hljóta aðgang að spjallsvæði þessu.

Notendur hafa einnig sett fram ítrekun þessara reglna:

1- Stafsetning og málfar skiptir miklu máli, vanda sig.* Hér er meiri áhersla lögð á gott málfar en á flestum öðrum spjallborðum.
2- Passa sig á að hafa í heiðri almennar umgengisreglur, aðgát skal höfð í nærveru sálar, orðlýti og níð ber að varast.
---
* Hér vantar reyndar frumlag og hjálparsögn í aukasetninguna (sem fegurra væri ef stæði sem sérstök setning), en hvað um það.
---

Þetta setti Skabbi Skrumari fram á spjallsvæðinu Efst á baugi, og Vladimir Fuckov ítrekaði í Almennu spjalli.

Ég hef fært í tal sagnorðið afkosning, og er óþarfi að fjölyrða um það horngrýzka orð hér. [Sjá: http://www.baggalutur.is/gestapo/viewtopic.php?t=9214&start=90]

Nefnifallssýki hefur mér einnig þókt áberandi hér, og færist hún í vöxt sýnist mér, illu heilli.

Hinn sígildi af/að ruglingur grasserar á Ódáinsvöllum þessum sem öðrum.

Ekki þarf að færa þágufallssýkina í tal, sú plága, pest og púkablístra fitnar á fjósbitanum innan Gestapós sem annarra staða hvar íslenzka ritast.

Nú í seinni tíð hefur mér sýnzt sem umburðarlyndi í garð greppitrýna (er sumir nefna ,,broskalla") fari vaxandi hér. Er það ill þróun.

Glitt hefur í notkun þankapunkta (...) sem eru góðir og gildir, en þá oft tveir, fjórir, jafnvel fimm eða fleiri. Læðist óhóf þetta jafnvel inn í þráðarheiti. Hinn fasti fjöldi þeirra er þrír, hvorki fleiri né færri. [Hér er minnisregla: http://www.youtube.com/watch?v=xOrgLj9lOwk ]

Eflaust má margt fleira tína til.

Eðli mannskepnunnar er ófullkomnun. Það er gefin stærð. En einnig er það eðli hennar að gera allt hvað hún getur til að vinna gegn ófullkomleik sínum, og að gera sitt bezta til að, í þessu tilfelli, rita sem fegurst mál.

Því fer ég þess á leit við samgestapóa mína að hver líti í eigin barm, undirritaður eigi þar undan skilinn, og leitist við útruðning ósóma og mállýta.

Ritað í Kaupinhafn, nær upphafi 68 ára afmælis hernáms Danmerkur,
G. Zimmermann.

   (20 af 25)  
4/12/07 08:02

Herbjörn Hafralóns

Leyfist mér auðmjúklega að benda á að týna með ý merkir að týna einhverju eða tapa. Tína með í þýðir á hinn bóginn að tína eitthvað til, tína ber o.s.frv.

4/12/07 08:02

Günther Zimmermann

Svo! Hér hefir fundist enn eitt merki hnignunar. Ætli ég stelist þó ekki og lagfæri þettað, svo mér til minnkunnar verði ekki eftir annað en þessi orð okkar hér, hr. Herbjörn.

4/12/07 08:02

Billi bilaði

Takk fyrir góðan pistil. Þessar ábendingar þurfa að koma reglulega.

4/12/07 08:02

Upprifinn

Ég skal reyna að vanda mig. [reynir að skammast sín]

4/12/07 08:02

Herbjörn Hafralóns

Ég hefði að sjálfsögðu mátt láta þess getið að mér þykir pistillinn góður og þar koma fram margar þarfar og tímabærar ábendingar. Ég læt fyrri athugasemd mína standa í þeirri von að einhverjir getið af henni dregið lærdóm nokkurn.

4/12/07 08:02

hvurslags

Afskaplega þarft félagsrit. Varst það þú sem komst með íslenska orðið þáþrá yfir nostalgíu hér á einhverjum þræðinum?

4/12/07 08:02

Günther Zimmermann

Herbjörn: Minnisvarðar afglapa okkar skulu standa jafnt sem varðar verka vel unna.

[H]vurslags: Jú, einhversstaðar stal ég því ágæta orði og bar á borð Gestapós.

4/12/07 08:02

Þarfagreinir

Þetta eru allt þarfir punktar mjög, og ég þakka hinum danska innilega fyrir að impra á þeim. Hnignun getur hæglega átt sér stað hægt og bítandi, svo þeir sem eru í hringiðu hennar verða hennar ekki svo gjörla varir. Þá er ekkert annað hægt en að spýta í lófana og byggja upp aftur það, er hrörlegt er orðið.

4/12/07 09:00

Bölverkur

Jeg legg til að "é" verði lagt niður en tekin upp "z".

4/12/07 09:00

Upprifinn

ég legg til að B verði lagt niður og ekkert tekið upp í staðinn. þá hét sumir Ölverkur.

4/12/07 09:01

hlewagastiR

Gunnari Timburmanni ber að þakka fyrir góða rækt við tungu feðra vorra og þarfar umvandanir.
Hvað fyrnsku varðar þá átti ég það sameiginlegt með Timbra að rita z. Ég neita því þó ekki að ég hef unun af því af z-sérviskunni (vizkunni) í öðrum þótt ég hafi sjálfur aflagt hana. Ég var nefnilega alltaf að gleyma mér í fyrnskunni. T.d. hefði mér verið vel trúandi til að rita „...hef ég ergst ögn. Helzta ástæða...“ eins og Gunnar smiður gerir hér þótt ljóst megi vera að samræmdur ritháttur er „ergzt...helzta“ eða „ergst...helsta“.
Nú kunna menn að segja sem svo að þessi athugasemd sé ekkert annað en illa dulbúið neðanbeltishögg mitt Gunnari til hreðja. Því fer fjarri. Þótt hann skjóti oft yfir markið þá gerum við hin það miklu oftar. Þess vegna er Timbur-Gunni hinn ágætasti hvalreki.

4/12/07 09:01

Álfelgur

Ég hef aldrei náð almennilega reglunni um að/af ég læt tilfinningu ráða og þarf oft að spá mikið áður en ég kemsta að hugsanlega rangri niðurstöðu. [Gerist miður sín]

4/12/07 09:01

hvurslags

Er hlégestur mættur! [hrökklast aftur á bak og hrasar við]

4/12/07 09:01

Billi bilaði

<Gleðst yfir þróun umræðunnar>

4/12/07 09:01

Kargur

Þetta er þörf umræða og kærkomin. Greinilegt að umræðuefnið er mikilvægt, eins og sjá má á sjaldgæfu innliti Hlebba.

4/12/07 09:01

Günther Zimmermann

Kæri Hlégestur! Fátt get ég annað sagt en þetta: Þar skaut ég mig í fótinn. Því þar eð sögnin er að ergja, án tannhljóðs, taldi ég fullvíst að zetu væri ofaukið.

En þú hlýtur að vísa til þess að ég hefi ergtst->ergzt, ikke?

Mér finnst þó fegurra að nota zetu þar sem tannhljóð er í stofni einvörðungu. Um það má deila.

Þennan prýðisgóða pistil hnaut ég um fyrir skemmstu: http://lesnir.blogspot.com/2008/02/1-ttur-um-stafsetningu-strin-er-tunga.html#co mments

4/12/07 09:01

Günther Zimmermann

En mikið er jeg sammála Bölverki. É er helt overflødig leturtákn.

4/12/07 09:01

krossgata

Dásamlegt félagsrit.
[Ljómar upp]

Í viðleitni sinni til að rita gott mál notar fólk oft orð sem það greinilega veit ekki (lengur) hvað þýða. Langar mig, bara svona af því ég rakst á þessi orð fyrir stuttu, að upplýsa að orðið harla þýðir mjög, ekki varla eða lítið. Orðið svanni þýðir stúlka, kona - ekki maður.

Varðandi afkosninguna umræddu, þá langar mig ósegjanlega mikið í annað orð í staðinn og er orðin gráhærð af vangaveltum, en hef ekki fundið liðlegt orð.
[Dæsir mæðulega]

4/12/07 09:01

Glundroði

"Iðullega" hef ég ekki áður séð ritað. Er þetta nýyrði Gúndi sæll?

4/12/07 09:01

Texi Everto

Þú hefur löngum verið sætur, hlewagastiR

4/12/07 10:01

Kiddi Finni

Hvað er annars nefnifallssýki? Svo að við menn af erlendu bergi brotnir getum líka vantað okkur.

4/12/07 10:01

Huxi

Fín áminning og ég vil bæta því við að Gestapóar mættu alveg huga betur að innihaldi félagsrita sinna, ekki síður en orðfæri og stafsetrningu.
Það veldur mér reyndar nokkrum heilabrotum hvað aukin ergi þín kemur málnotkun Gestapóa við. Ég vissi ekki að kynvillupúkinn þrifist á málvillum. [Glottir eins og bjálfi]

4/12/07 10:01

Günther Zimmermann

Kiddi: Nefnifallssýki heitir það þegar nefnifall er notað í stað meira viðeigandi aukafalls (þolfalls, þágufalls eða eignarfalls). Þetta er sérstaklega algengt þegar kemur að sérnöfnum, t.d. fyritækja, sjónvarpsþátta og því um líku. Dæmi: ,,Sástu Bubbi byggir í gær?" Í stað réttrar notkunar sem er: ,,Sástu Bubba byggi í gær?"
Af Gestapóum hefur mér þókt sýkin bitna sérstaklega hart á Þarfagreini (þá ritað Þarfagreinir í setningu sem þessari) og Upprifnum (þá ritað Upprifinn í setningu sem þessari).

Huxi: Jú, ég er a g a l e g a kynvilltur í dönsku og þýzku. Nota et og en og die og der og das á kolvitlausum stöðum. Sem er g a s a l e g a ólekkert.

4/12/07 10:02

Skabbi skrumari

Góð viðleitni Günther... sendu mér póst ef þú sérð einhverjar fleiri villur hjá mér... Skál...

4/12/07 11:00

Jóakim Aðalönd

Þetta er pistill þarfur og góður.

Ég á það oft til að vera fantur við sampóa mína og níða þá í skrifum. Stafar þetta fyrst og fremst af nízku og skapvonzku fremur en illzku. [Kímir]

Hins vegar er stafsetning lýtalaus og málfar óaðfinnanlegt hjá mér...

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.