— GESTAPÓ —
Hel að hurðarbaki
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/04
Tækifærismálfræði

„Í draumi sérhvers manns er [nefni-]fall hans falið“

Kveikjan að þessum opinberu vangaveltum er félagsrit Steinríks fyrir nokkru um málfræði Frónbúa. Ég er alveg sammála því að málkennd almennings virðist vera á hraðri leið niður eftir brautinni breiðu og sléttu, en á sama tíma skjóta vangaveltur um aðlögunarmöguleika málfræðinnar upp kollinum.

Óvísindalegar rannsóknir (upprifjun og hugaryfirferð á 5 mínútum) undirritaðrar hafa leitt til þeirrar ályktunar að yfirleitt megi reikna með því að nefnifall fyrir framan sagnir eigi við þegar fólk gerir eitthvað að eigin frumkvæði og/eða er meðvitað um gjörðir sínar, sbr. ég sef, ég borða, ég les, ég er. Þolfall og þágufall koma frekar fyrir þegar maður hefur ekki eins mikil áhrif á framvindu mála, s.s. mér er kalt, mér leiðist, mig dreymir o.fl. með undantekningunni ég er svöng/svangur.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir að málfræðilega séð er rangt að segja „ég dreymi“ og eins og allar aðrar málfræðivillur fer það í taugarnar á mér þegar fólk skellir þeim inn í málfar sitt án þess að skeyta um þýðingu þess. En lítið atvik nú um daginn breytti hugsun minni lítillega.

Verandi kona mikilla drauma legg ég stund á alls kyns draumfarir; dagdrauma, dormdrauma, valdrauma, furðudrauma og almenna drauma sem ég fæ engu við ráðið hvernig renna sitt skeið. Um daginn lenti ég svo í því að mig fór að dreyma nokkuð skömmu eftir að hafa fest svefn og dreymdi viðamikinn draum með spennu og flótta og fleira í þeim dúr. Eftir því sem leið á drauminn áttaði ég mig á því að hann væri nú ekki á leið neitt og á ákveðnum tímapunkti var ég orðin svo pirruð og fúl út í allt vesenið sem samferðarfólk mitt í draumnum olli, að ég .... hætti að dreyma. Ég tók fremur meðvitaða (að mínu mati) ákvörðun þess efnis að nú væri nóg komið og að þessum draumi skyldi hér með lokið. Og ÉG HÆTTI að dreyma.

Að undangenginni reynslu finnst mér eðlilegt að við viss tækifæri megi segja „Ég dreymdi [eitthvað] í nótt.“ Hafi maður á einhvern hátt stjórnað draumförum sínum.

En enn af málfræði, það fer ósegjanlega í taugarnar á mér þegar fólk notar „–ustum“ endingu á sagnir í stað „–umst“ og segir „hittustum“ og „sjáustum“ í stað „hittumst“ og „sjáumst“. Eftir því sem ég man úr framhaldsskólaíslenskunni, þá er þessi –st ending stytting á sik/sig og það að kyssast þýði þá að „kyssa sig“ (eða þá „láta kyssa sig“). Leiðrétti hver sá er betur veit. –St endingin eigi semsagt við um eitthvað sem tveir aðilar gera saman og fólk getur ekki gert í einrúmi; s.s. hittast, kyssast, leiðast, sjást o.s.frv. Fólk sem „-ustast“ virðist því vera að rugla saman orðasamböndum eins og „þau hittust“ saman við „við hittumst”. Ég hef ekki hlustað mikið á almennt málfar þessa fólks, en segir það þá líka „þau hittustU í gær“? Þegar ég heyrði þetta fyrst, sumarið ’92 (ójá, ég man það eins og gerst hefði í gær, staðsetningu og allt saman) þá hélt ég að þetta væri útúrsnúningur og grín líkt og sögnin „að skemmileggja“.
Hvað finnst ykkur um þetta, kæru Gestapóar? Er þetta ofsóknaræði í mér eða fer þetta í taugarnar á fleirum?

(Þar sem ég gat hvorki feitletrað né skástrikað varð ég að láta mér nægja að hástafa. Þetta er ekki hróp!)

   (3 af 4)  
1/11/04 20:02

Kargur

Gott rit og þarft. Hafðu þökk fyrir.

1/11/04 20:02

Herbjörn Hafralóns

Góður pistill. Ég er sérstaklega sammála því að það er alltaf leiðinlegt að heyra fólk segja „sjáustum“ og „hittustum.“

1/11/04 21:00

Salka

Virkilega góðar vangaveltur.

1/11/04 21:00

blóðugt

Ég kannast mjög vel við að ákveða það að hætta að dreyma og geri oft þegar draumar eru ekki að mínu skapi.

Þetta með miðmynd sagna er flókið og virðist ekki geta fest í höfðinu á fólki. Ég hef einmitt oft velt því fyrir mér hvort fólk segi „sjáustum“ vegna þess að því þykir það flott...? Eða hvað? Ég verð a.m.k. alltaf jafn forviða þegar ég heyri „ustum“.

Gott félagsrit.

1/11/04 21:01

Ísdrottningin

Ja hérna hér. Sæl vertu Hel, það gleður mig að kynnast þér [brosir fallega].
Áhugavert þetta með draumana og dreymandann [verður hugsi] en við ræðum það kannski við annað tækifæri því það er sem þungu fargi hafi verið af mér létt. ÉG ER EKKI EIN LENGUR! það eru fleiri en ég sem þola ekki þetta HELVÍTIS *USTUM KJAFTÆÐI.
Ég hafði aldrei heyrt þetta áður þegar ég kom ung og saklaus í siðspillingu höfuðborgarinnar og hef því velt fyrir mér: Ætli þetta sé sunnlenskt fyrirbrigði eða vandamál á landsvísu...?
FRÁBÆRT FÉLAGSRIT

1/11/04 21:01

Vladimir Fuckov

Sem betur fer höfum vjer sjaldan heyrt þetta ...ustum þrátt fyrir að vera á höfuðborgarsvæðinu en það er hvimleitt er það gerist.

Vjer segjum hins vegar oss hætti að dreyma en eigi vjer hættum að dreyma. Að sama skapi ætti að segja mig hætti að dreyma þó vjer notum það orðalag að vísu aldrei, ég hætti að dreyma finnst oss eigi passa. Eitt sinn í miðjum draumi er skyndilega fór að verða leiðinlegur áttuðum vjer oss á að um draum væri að ræða. Hætti oss þá að dreyma því vjer ákváðum að vakna. Er sú skynsamlega ákvörðun jafnframt að líkindum ástæða þess að vjer vitum og munum hvers vegna vjer vöknuðum umrædda nótt.

1/11/04 21:01

hlewagastiR

Til gaman má geta þess að í málfræðibókum frá 17. og 18. öld er -ustum beygingin kennd sem hin eina rétta. Með tilkomu rómantísku stefnunnar í málhreinsun hófu Fjölnismenn og fleiri til virðingar gömlu -umst endinguna og fleira gott, t.d. það sem nú heiti rétt beyging orða eins og hellir og læknir.

Hvortveggi leiðréttingin eflist í sessi með degi hverjum. Miklu algengara er að aldrað fólk segi við sjáustum hjá læknirinum heldur en ungt fólk.

Þannig að hér er ekki um afturför heldur framför að ræða, a.m.k. ef framfarir felast í íhaldssemi, en það er jafnan viðhorf málverndarmanna.

Hin óvísindalega könnun Heljar skilar sömu niðurstöðu og vísindalegar kannanir málfræðinga. Þeir kalla þetta fallstýringu eftir merkingarhlutverki. Nefnifall er fall gerandans, en þollfall er fall skynjanda og reynanda. Gerandi er aldrei í aukafalli.

Það sem þeim hefur þó ekki tekist að skýra er merkingarmunur milli þolfalls og þágufalls á undan sögn. Mig langar og mér leiðist. Mig dreymir og mér sýnist. Mig skortir og mér gremst. Bátinn rekur og bátnum hvolfir. Hér virðist munurinn á þolfalli og þágufalli ekki hafa neitt að gera með merkingu.

Þetta er svo aftur skýrignin á því hve tamt fólki er að jafna þetta út og alhæfa þágufallið, því það er algengara.

Gaman væri ef einhver kæmi með skynsamlega tilgátu um þetta.

1/11/04 21:01

Vladimir Fuckov

Ég hlakka til finnst oss athyglisvert í ljósi orða hlewagastiRs því þar finnst oss frekar um skynjun að ræða en einhverja framkvæmd. Enda segja margir ranglega mig (eða mjer) hlakkar til.

1/11/04 21:01

hlewagastiR

Þetta er skarplega og hárrétt athugað hjá Vladimir. Þarna er komin skýringin á því hve algengt er að menn hafi aukafall með sögnunum að hlakka og að kvíða.

Líklega hafa þær í öndverðu verið svipaðar sögnunum að gleðjast og óttast. Engum dettur í hug að segja 'mér óttast þetta.

Hins vegar getur so. gleðjast stýrt þágufalli: mér gleðst þetta. Hins vegar er sagt: ég gleðst. Í fyrra tilvikinu talar reynandi (experiencer) en í því síðara gerandi.

Hvað með þann sem hlakkar til einhvers? Er hann gerandi?

1/11/04 21:01

Ísdrottningin

Er hægt að færa þessar umræður á spjallþráð?
Þær eru bæði fróðlegar og skemmtilegar.

Hel að hurðarbaki:
  • Fæðing hér: 16/10/05 10:36
  • Síðast á ferli: 26/2/09 17:16
  • Innlegg: 17
Eðli:
Ríkir fyrir handan. Hefur innganga til mannheima að hvers manns hurðarbaki. Rólyndismanneskja mikil, nema ógnað sé.
Fræðasvið:
Dauðraheimar og nýlendur. Varðveisla og uppstoppun.
Æviágrip:
Löngum borin og víða upp alin. Syndum hlaðin og hefur ekkert nema gott um það að segja.