— GESTAPÓ —
Kíkí
Nýgræðingur með  ritstíflu.
Pistlingur - 31/10/04
Ritað orð er máttugra en það mælta.

Ég er mikil rithöfundarsál og ákvað að skrifa hérna lítinn pistling um mátt ritaðs orðs.

Sem barn var ég öðruvísi. Ég átti fáa vini og sat því löngum stundum á bókasafni nokkru og las mér til dægrastyttingar. Ég blótaði jafnöldrum mínum oftar en ekki í sand og ösku. Var ég ekki nógu skemmtileg fyrir þessi sjálfselsku kvikindi. Var ég of stór? Eða jafnvel of lítil? Sáu þau mig kannski ekki? Var ég Ósýnileg?

En nú sé ég hins vegar að vinaleysið á þessum árum er líklegast það besta sem fyrir mig hefur komið. Ég hef mjög gott vald á íslensku máli, og mín helsta afþreying er að skrifa. Ég hef á minni stuttu ævi skrifað nokkrar smásögur og er loksins byrjuð á minni fyrstu skáldsögu. Hæfileikinn að tjá sig á rituðu máli er svo sannarlega hamingja mín.

Þegar unglingsárin tóku við komu vinirnir loks inn í líf mitt og mikið var ég því fegin. Bókalesturinn minnkaði jafnt og þétt, og nú er svo komið að ég les ekki mikið meira en skólabækurnar, og kannski stöku bók við og við.
En það er allt í lagi. Ætli ég megi ekki alveg við því að taka mér frí í nokkur ár.

En ritað orð er svo sannarlega máttugra en það mælta.
Skrif eru í mínum huga besta reiðistjórnunarnámskeið sem völ er á. Sumir hlusta á tónlist. Aðrir fara út að skokka eða jafnvel drekka. Ég held að ég haldi mig bara við skrifin.

Kannski endar það með því að ég finn loks sjálfa mig eitt stjörnubjart desemberkvöld fyrir framan tölvuna.
Hver veit!

   (1 af 1)  
31/10/04 13:00

Heiðglyrnir

Vertu hjartanlega velkomin á Baggalút Kíkí. Gangi þér vel í leitinni að réttu orðunum og ekki hvað síst sjálfri þér.

31/10/04 13:00

Lærði-Geöff

Gangi þér vel með skáldsöguna en passaðu að láta ekki páfagaukseðlið skemma skáldþáttinn.

Kíkí: - Gangi þér vel með skáldsöguna en passaðu...

31/10/04 13:00

Aulinn

Ég sé sjálfan mig í þér Kíkí, þetta er undarlegt. Ég sem hélt að ég væri einstök! Ég er afar forvitin um aldur þinn.

31/10/04 13:00

krumpa

Velkomin!
Góður pistill og mikið til í honum - þó að vissulega sé gott að eiga viní þá er lestur á unga aldri eitthvað sem maður býr að alla ævi.

Ég hékk líka óskaplega mikið á bókasöfnum - ætli krakkar geri þetta enn í dag? Ég veit að stelpan mín er meira fyrir að taka bara söguna á spólu...

31/10/04 13:01

Galdrameistarinn

Frábær pistill hjá þér og margt svo satt og rétt í honum.
Ég veit ekki hvar ég stæði í dag hefði ég ekki átt þolinmóða móður sem kenndi mér að lesa þegar ég var fimm ára gamall og þar sem ég ólst upp í sveit var fátt annað hægt að gera en að liggja yfir skruddunum. Einhvern vegin tókst mér þó ekki að ná almennilegum tökum á málinu eða rækta það á seinni árum, enda hefði ég umsvifalaust verið greindur les og skrifblindur væru nútímaviðhorf höfð til grundvallar þegar ég var að alast upp.
Sem dæmi næ ég ómögulega að átta mig á N og NN reglunum og bragafræði er mér hulin heimur. Hef þó samið eitt og annað í gegnum tíðina sem gæti verið skemmtilegt til aflestrar, en það er efni í sér félagsrit.

31/10/04 13:01

Kíkí

Takk kærlega fyrir góð viðbrögð.
Ég er 19 ára gömul, svo að nægur er tíminn til að láta til sín taka á einn eða annan hátt.

Galdrameistari: Þú getur nú samt alveg skrifað. Sem er sönnun þess að þó að fólk sé greint lesblint, þá er um að gera að láta ekki deigann síga. Ekki get ég séð mikið af villum í þessum texta hjá þér og málfræðin er alveg til fyrirmyndar.

31/10/04 13:01

Mosa frænka

Velkomin, Kíkí. Skál fyrir ritmálinu!

31/10/04 13:02

Hundslappadrífa í neðra

Ég er nú 29, en gæti hafa skrifað þetta innlegg. Bókasafnsvörðurinn frá grunnskóla heilsar mér ennþá ef ég hitti hana á förnum vegi.

31/10/04 14:01

Hakuchi

Þetta er vel skrifað Kíkí mín.

Merkileg hvað bókasafnsbörn halda alltaf að þau séu ein í heiminum.

31/10/04 14:02

Vladimir Fuckov

Góðir pennar eru alltaf velkomnir hjer. Skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk]. Við það sem að ofan hefur komið fram má bæta að í barnæsku gerðum vjer bókavörð nokkurn oftar en einu sinni afar undrandi með vægast sagt óvenjulegu (og nördalegu) bókavali miðað við aldur.

31/10/04 15:01

Tigra

Hakuchi: Auðvitað halda bókasafnsbörn að þau séu ein í heiminum... því þau voru það.. í sínum eigin bókasafnsheimi.
Ég var afar félagslynt (og kannski frekar ofvirkt barn) en ég las samt líka mjög mikið.
Við systir mín fórum alltaf á bókasafnið eða í bókabílinn sem stoppaði rétt hjá okkur... og bókasafnsverðirnir urðu alltaf mjög hissa á bókavalinu.
Systir mín las, þegar hún var ekki nema 7-9 ára allar flóknustu skáldsögurnar og ástarsögurnar, sem og allar gömlu Nancy bækurnar ofl. í þeim stíl, á meðan ég sjálf leigði nánast eingöngu þjóðsögur, mythology og fræðibækur um dýr.

Kíkí:
  • Fæðing hér: 11/10/05 02:59
  • Síðast á ferli: 23/10/05 13:19
  • Innlegg: 0
Eðli:
Lofthræðsla er mitt helsta böl og þrífst ég því ekkert óskaplega vel í mínu fæðingarlandi. Þar er allt gert úr lofti og engu, og var ég rekin þaðan með skömm vegna tíðs þvagláts.
Fræðasvið:
Ég legg helst stund á náttúrufræði, með áherslu á myndlist og hagfræði með meiru. Ég stefni á þingsetu og minn helsti draumur í lífinu er án efa að steypa Halla kallinum af stóli.
Æviágrip:
Ég fæddist í Gúndslandi, á tímum Ísdrottningarinnar. Þær tölur sem þið mennirnir búið yfir eru ekki nógu stórar og sterkar fyrir mig, og því notast ég helst við Abbrassabók þegar kemur að því að útskýra aldur minn. Hana getið þið nálgast í Þjóðarbókhlöðunni ef að forvitnin ber ykkur ofurliði.