— GESTAPÓ —
gregory maggots
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/04
umferðar(ó)menning

Þar sem kvörtunardýrið er vaknað úr dvalanum er fátt skemmtilegra en að virkja það á skemmtilegan og uppbyggilegan hátt.

Eitt sem veldur mér mikilli óánægju og gjarnan vanlíðan er umferðin, önnur en mín eigin að sjálfsögðu. Nú finnst mér ekkert sérlega gaman að keyra og má segja að ég komi mér hjá því ef mögulegt er, án þess þó að sleppa kostum þess að ferðast í einkabíl. Ég sækist semsagt frekar eftir því að vera farþegi en ökumaður, að því gefnu að ferðin sé frá punkti A til punkts B og jafnvel að punkti C, alveg eftir mínum þörfum og hentugleika. Ef viðkomandi ökumaður kýs að haga öllu eftir sínu höfði þá er ég minna sáttur farþegi. Og ég sem lítið sáttur farþegi er ekki ánægjulegur ferðafélagi.

En í þau skipti sem ég sest upp í bíl sem ökumaður í þeim tilgangi að ferja minn eigin afturenda milli punkta A og B, og mögulega C, þá fer það iðulega í taugarnar á mér ef önnur umferð verður til þess að mitt eigið ferðalag gengur ekki eins átakalaust og best gæti orðið. Fólk sem ekur hægt á vinstri akrein er ekki hátt skrifað hjá mér. Fólk sem keyrir löturhægt síðustu 100 metrana fram að rauðu ljósi svo það sjálft þurfi ekki að stoppa er enn neðar á listanum. En ég hef hingað til komist tiltölulega klakklaust frá þeim hremmingum sem vega-reiði getur valdið fólki. Minn pirringur þjappast niður í lítið hólf fyrir neðan hjartað og fær útrás í hinum ýmsu myndum. Þetta sama á við um umferð gangandi fólks. Ef ég kemst ekki frá A til B á ákjósanlegum hraða sökum mannmergðar þá veldur það mér líkamlegum, sem og andlegum, óþægindum og ég fyllist mikilli óþreyju. Í slíkum aðstæðum þætti mér ákjósanlegast að beita eigin útlimum af mikilli hörku til að ryðja mér braut, en sjálfstjórnin og vitneskjan um svo hagi siðað fólk sér ekki hefur hingað til haldið aftur af mér, mér til uppsafnaðs ergelsis, mikillar kaffiþarfar og enn meiri tuðþarfar.

Uppákomur sem þessar eru víst bara leiðinda fylgifiskar þess að búa í þjóðfélagi. Það sem hinsvegar veldur mér nánast reiði eru illa lagðir bílar. Nú segi ég ekki að ég leggi mínu ökutæki alltaf óaðfinnanlega, en þegar fólk er svo uppfullt af tillitsleysi (að mínu mati) að það leggur í eitt og hálft stæði því það var svo algjörlega eitt í heiminum þá stundina, eða leggur bílunum sínum þannig að nær ógjörningur er að komast fram hjá þeim, þá fellur mér allur ketill í eld. Og ég finn hjá mér þessa óskapa þörf fyrir að athuga hvort ég komist/komist ekki fram hjá þessu ökutæki og jafnvel "taka það bara á trukkinu". Ég hef oftar en einu sinni þurft að bakka út úr lítilli götu þar sem einhver "Palli" hefur lagt bílnum sínum þannig að það er ekki hægt að komast framhjá honum án þess að rispa báðar hliðar eigin ökutækis. Sumir þurfa ekki einu sinni smágötur til að loka leið, heldur leggja ökutæki sínu svo fáránlega í stæði að horfir til stórvandræða.

Svo ef, kæru lesendur, þið eitthvert sinn gangið út í frámunalega illa lagt og tiltölulega nýklesst ökutæki ykkar, ja, þá kannski var ég þar að verki!

   (3 af 4)  
1/11/04 07:02

Hakuchi

Það er líka ómenning að titla pistil með litlum upphafsstaf. Vertu annars velkominn. Glæsileg mynd.

Þú fyrirgefur að ég skrifi ekker um pistilinn en það er fólk að gera do do í sjónvarpinu.

1/11/04 08:00

Kargur

Í morgun keyrði ég drekkhlaðinn mack-vörubíl um miðbæ stórborgar hér í sveit. Vék aldrei, notaði loftflautuna óspart, svínaði á allt og alla, ók eins hægt/hratt og mér sýndist, hræddi líftóruna úr öðrum vegfarendum og var öllum til ama. Svo lagði ég umræddum mack þar sem hann var fyrir og lét hann malla þar til ég fór heim. Þetta veitti mér ómælda gleði. Ég reikna með að okkur mundi ekki koma vel saman gregory minn. En rausið í þér kætti mig. Takk takk.

1/11/04 08:00

Ívar Sívertsen

Ágætur pistill. En ég verð að taka upp hanskann fyrir ákveðna tegund manna. Það að hægja á sér til að ná grænu ljósi þjónar margþættum tilgangi. Með því næst sparnaður á eldsneyti. Það sem gerist þegar menn bremsa sig niður til að stoppa á rauðu ljósi þá fer að sverfast úr bremsuborðum / klossum og svarfið fer út í andrúmsloftið. Þegar tekið er af stað er bílvélin þanin 60% meira en þegar lullað er að ljósinu og ferðin notuð til að koma sér af stað aftur. Umhverfisáhrif þess að hægja á sér tímanlega til að geta haldið áfram án þess að stoppa eru ótvíræð. Við verðum að hugsa um umhverfið líka. Það er nefnilega ekkert fáránlegra en fólk sem brunar milli rauðu ljósana og þarf alltaf að þenja sig af stað í hvert sinn sem maður lullar fram hjá... Hugsaðu þig aðeins um áður en þú gefur í næst... bensínlítrinn kostar tæpar 108 krónur og þeir eru fjandi fljótir að hverfa þegar brunað er milli rauðu ljósanna.
Atvinnubílstjórinn hefur talað!

1/11/04 08:00

Þarfagreinir

Ég hef nokkuð oft fjargviðrast út í hina og þessa þætti sem mér þykir pirrandi í umferðarmenningunni, en ég verð samt sjaldan reiður eða pirraður af einhverri alvöru á meðan ég er að keyra. Líklega er það vegna þess að ég fæ útrás fyrir slíkt í hinu ritaða máli. Því tel ég það hið mesta þarfaþing hjá þér að hafa ritað þennan pistil, enda er hann vel skrifaður og ígrundaður, herra Maggots.

1/11/04 08:00

albin

Þú ert maður að mínu skapi. Sjálfur er ég svo ILLA haldinn af Road Rage að ég ætla að setja upp gun rack í bílinn hjá mér. Alltaf gott að hafa málamiðlarann við höndina. Stundum langar mann að nota stuðarann til að bá til bílastæði þega illa er lagt, eða til að ýta þeim sem aka á 40 eða hægar vegna þess að þeir vita ekki í hvaða heimi þeir eru. Og nú er ég orðinn svo brjálaður af því að hugsa um þetta að það er eins gott að ég er innandyra.
Nennir einhver að öskra fyrir mig.

1/11/04 08:00

Ísdrottningin

Já ég er sammála þessu með hvernig bílum er lagt oft á tíðum. Sumt fólk virðist ekki lagt bílunum sínum almennilega þó að líf þeirra lægi við, andskotans mannleysingjar.
Fær þetta lið bílprófið úr kornflexpakka?
Undirrituð er stolt af ferli sínum sem atvinnu og meiraprófsbílstjóri og veit að hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Gregory klessi jeppann.

1/11/04 08:00

gregory maggots

Ég geri mér grein fyrir að réttritunarlega séð er það rangt að hefja titil pistils á lágstaf, eins og Hakuchi bendir svo réttilega á. En ég ákvað samt sem áður að hafa það svo, út frá fagurfræðilegu sjónarmiði.

1/11/04 09:00

Nornin

Aftur tókst þér að brjótast inn í heilann á mér og koma mínum skoðunum frá þér á greinagóðann hátt.
Held að ég sé að breytast í 'já-mann' þinn Gregory.

Mér finnst reyndar mjög gaman að keyra og sökum ferðaógleði (motion sickness) gerist ég ekki farþegi nema að ekkert annað sé í stöðunni eða þá að ferðin sé þeim mun styttri.
Ég held að ég sé ágætis bílstjóri en ég þjáist af brautarbræði. Ég bölsótast út í þá sem mér finnast vera fávitar í umferðinni og hringi jafnvel á lögregluna til að láta elta uppi svín sem keyra á 120 innan borgarmarkana. Sérstaklega ef þeim tókst að setja mitt líf og limi í hættu.
Ég ætla nú ekki að ganga eins langt og albin og setja upp byssurekka í bílinn (enda fer það ekki vel við silfursanseraðann MMC) en stundum vildi ég að það væri þjóðfélagslega viðurkennt að stökkva út á rauðu ljósi, banka í rúðuna á bíl fíflsins sem var að keyra hálfvitalega og svo jafnvel öskra á viðkomandi.

En ég kann að hemja mig.

1/11/04 09:02

Nermal

Það er alveg satt... sumir bílstjórar eru hreinræktuð fífl. Ef fólk treystir sér ekki til að aka hraðar en 40 þá ætti það að fá að bítta á skírteninu sínu fyrir strætókort. Ég fer vanalegast á stað í vinnuna á svipuðum tíma, og oftar en ekki lendi ég á eftir sama helvítis kallpungnum sem virðist ekki geta komið sínum Volvo hraðar en 30.

gregory maggots:
  • Fæðing hér: 28/9/05 19:06
  • Síðast á ferli: 4/5/11 14:27
  • Innlegg: 56
Eðli:
Áhugamaður mikill um líkamsmótun og aftökuaðferðir. Nautnaseggur hvað bókmenntir og vín varðar. Þjáist af léttvægri tunglsýki. Missamkvæmur sjálfum sér og fremur klofinn á köflum.
Fræðasvið:
Aðferðafræði aftakna, sjálfsvíga og pyntinga. Geymsluaðferðir blóðvökva til síðari tíma neyslu og notkunar. Stundar markvissar og fremur reglulegar vangaveltur um tilvist mannskyns og hegðun þess.
Æviágrip:
Undirritaður fæddist á ofanverðri 19. öld í uppsveitum Húnavatnssýslu. Núverandi ríki er á botni Vatnsdalsár, þeim megin sem snýr inn að jarðarmiðju. Stefnir á heimsyfirráð og pyntar lítil börn og dýr í frístundum.