— GESTAPÓ —
gregory maggots
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/04
femínismi vs. jafnrétti

- Hvort ertu femínisti eða maskúlisti ? -<br /> <br /> Vera má að einhverjum finnist þessar vangaveltur mínar full öfgakenndar og jafnvel þröngsýnar og heimskar, og það er þá bara vel, ef allir hefðu sama álit á öllu þá fyndi ég tæpast hjá mér þessa knýjandi þörf að vera að tjá mig yfir höfuð.

Á síðustu árum hefur þjóðfélagshópur sem kallar sig femínista orðið sífellt háværari með kröfur um almenna viðurkenningu á þeim hluta þjóðar er til kvenkyns telst. Ég hef ekkert nema gott um það að segja að konum sé gert það félagslega kleift að klæðast þægilegum fötum á almannafæri, safna 3ja daga broddum og hætta að rækta þá daglegu kvöð að ,,setja upp andlitið" áður en haldið skuli út fyrir hússins dyr. Ekki einungis fyndist mér það gott ef karlmenn leggðu af útlitskröfum sínum á kvenfólk heldur þætti mér það jafnvel enn betra ef konur sjálfar slægju af eigin kröfum hvað fullkomið og viðhaldsfrekt útlit varðar. Því ég hef sterkan grun um að þær séu að miklu leyti undan kvenna rifjum runnar, þessar útlitskröfur þjóðfélagsins; ef konur væru ekki sjálfar sífellt að færa standardinn hærra og hærra þá er ekki víst að nokkrum (karl-)manni hefði dottið það í hug að konur hefðu svona mikinn áhuga á að vera sífellt að berjast við að líta óaðfinnanlega út í aðsniðnum kjólum/skyrtum, magabolum eða baðfötum og vera þar að auki lausar við allar misfellur í andliti. Allt gott um það að segja og með þetta að leiðarljósi segi ég: Lifi femínisminn!

Þó finnst mér öllu verri hin hliðin á femínisma. Sú er snýr, að því er virðist, að jafnrétti til handa konum og konum einum. Jafnrétti til launa, stöðugilda, virðingar og barnauppeldis. Nei, bíðum við! Þetta síðastnefnda hafa konur algjörlega fram yfir karlmenn. Mæður eru almennt taldar heilbrigðari, elskulegri og stuðningsríkari foreldrar en karlmenn geti nokkru sinni orðið, sbr. forræðisdeilur og -dóma síðustu áratuga. En þar sem þetta snýr ekki að órétti í garð kvenna þá snerta femínistar ekki á þessu málefni. Því þeirra jafnrétti er til handa konum gegn maskúlínisku óréttlæti. Ætli þetta réttlæti femínista gildi gangvart karlmönnum sem vilja svo gjarnan setja oftar í þvottavél heimilisins en guggna undan vökulu og ofurgagnrýnu auga heimilisfrúarinnar? Hvar eru karlmennirnir með spjöldin sem á stendur "Ég krefst réttar míns til að gera byrjunarmistök í þvottamálum" eða "Ég krefst réttar míns til að klæða sameiginleg börn okkar í ósamstæð föt" ? Á síðarnefnda skiltinu gæti líka staðið: "Tískublindur - en ég elska samt börnin".

Um daginn reit maður grein í eitt af dagblöðum landsins þar sem hann færði rök fyrir því sem hann kallaði ,,eðlilegan launamun kynjanna" eða eitthvað álíka. Hann tók á því að sá eðlilegi launamunur fælist oft í því að karlmenn ynnu lengur á daginn og væru oftar til í að taka að sér yfirvinnu, og að þeir væru líklegri til að setja starfið og framann ofar fjölskyldunni. Þar sem þeir væru þannig eftirsóttari sem starfskraftar, því tilgangur fyrirtækja er jú að eflast og auka hagvöxt sinn á sem skemmstum tíma, þá væri eðlilegt að þeir væru á hærri launum en kvenfólk í sambærilegum stöðum sem setti fjölskylduna eða eitthvað annað ofar starfinu og yfirvinnunni. Næstu daga úði og grúði af svörum frá reiðum konum sem bentu m.a. á að fjölskyldan ætti að skipta mestu máli og að karlmenn ættu ekki að njóta þess í launum að vanrækja fjölskyldu sína. Ég er því alveg sammála að nánasta fjölskylda eigi að skipta meira máli en starfið nokkru sinni, en því verður samt ekki breytt að fólk sem setur starfið ofar öllu öðru verður sjálfkrafa eftirsóknarverðari starfskraftar en þeir sem setja það í annað eða þriðja sæti. Það sama gildir um allt sem byggist á hópa- og teymisvinnu.
Dæmið má líka setja upp svona: Siggi og Jón eru báðir í landsliðinu í knattspyrnu. Þeir hafa báðir jafnlanga reynslu og eru báðir mjög sterkir leikmenn en þó á ólíkum sviðum. Siggi er ábyrgur fjölskyldufaðir sem eyðir langmestum frítíma sínum með fjölskyldunni. Jóni þykir nóg að helga sig fjölskyldunni um helgar.
Báðir sækjast eftir því að vera fyrirliði. Spurningin er sú: Á Siggi að gjalda þess að vilja ekki mæta á aukaæfingar því ,,hann hefur svo lítið verið heima í vikunni" eða ,,Ég lofaði Bjössa mínum að ég skyldi kenna honum að smíða bát og ég get ómögulega svikið það"? Eiga Jón og Siggi ekki að njóta jafnréttis þrátt fyrir þetta? Eða gildir þetta svokallaða jafnrétti bara þegar um er að ræða aðila af sitthvoru kyni?

Ég vil ég taka það fram að ég er hvorki femínisti né maskúlisti; ÉG er jafnréttissinni.

   (4 af 4)  
1/11/04 07:02

Barbapabbi

Já það er margt kynlegt í kýrhausnum. - Þetta er barasta ágætasti pistill yfirvegaður og rökvís, karlmannleg grein svo ekki sé meira sagt.

1/11/04 07:02

Hundslappadrífa í neðra

Verðugar pælingar, þú bara þegir og þegir og skellir svo einu svona stykki fram!

1/11/04 07:02

gregory maggots

Ja, stundum brýst þetta bara fram...

1/11/04 08:00

Þarfagreinir

Hér eru athyglisverðir punktar sem að ég, yfirlýstur feministi sem ég er, á erfitt með að svara. Auðvitað er þetta flókið mál.

En varðandi þá margtuggnu athugasemd sem þú gerir við hugtakið feminisma hef ég eitt staðlað svar: Feminsmann má hugsa sem nokkurs konar mótvægi við hinni karllægu hugmyndafræði sem einkennt hefur vestrænt samfélag (og mörg önnur) í alllangan tíma. Sem slíkt mótvægi getur þessi hugmyndafræði því virst nokkuð öfgakennd - en þetta er einfaldlega það sem fólk verður að gera til að vekja athygli á málstað sínum. Maður verður að biðja á því að fara algjörlega í hina áttina og setja fram skýrt mótvægi við hina ríkjandi hugmyndafræði ef maður vill breyta einhverju.

Hins vegar eru auðvitað takmörk fyrir því hversu eðlilegt er að halda slíkum öfgum uppi - það er mín persónulega skoðun að best sé að slaka smátt og smátt á þeim eftir sem að meira og meira vinnst í átt að því að bæta ríkjandi ástand.

Auðvitað er lokatakmarkið fullkomið jafnrétti, en til þess að ná því verður að byrja stórt - annars mætti þess vegna bara sleppa því að standa í þessu stappi. Við megum alls ekki gleyma því hversu mikið hefur áunnist, og hversu hroðalegt ástandið var þegar feminisminn leit fyrst dagsins ljós. Þeir sem gleyma sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana, og það er nokkuð sem ég held að fáir vilji að gerist.

1/11/04 08:00

gregory maggots

Ég þakka ábendingar þínar, Þarfagreinir, en vil taka það fram að það er þessi öfgakennda stefna sem sumar virðast taka undir flaggi kvenréttinda sem fer hvað mest fyrir brjóstið á mér. Greinin hefði kannski átt að heita ,,femínismi vs. kvenréttindi"?
Eins og vonandi hefur komið fram, þá styð ég kvenréttindi svo jafnrétti megi ríkja, en mér finnst orðið ,,femínismi" öfgakennt og í eiginlega falla í sama flokk og orðið/skilgreiningin ,,rasismi". Ég styð líka jafnrétti kynþáttanna, en mér líður samt ekki vel með að kalla mig ,,rasista". Í besta falli er orðið femínismi ljót enskusletta.

1/11/04 09:00

Nornin

[Klappar og klappar]
Gregory, þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Ég er einmitt jafnréttissinni og þar að auki tískublind sjálf svo ég virði rétt manna til að klæða börnin sín ósamstætt!

gregory maggots:
  • Fæðing hér: 28/9/05 19:06
  • Síðast á ferli: 4/5/11 14:27
  • Innlegg: 56
Eðli:
Áhugamaður mikill um líkamsmótun og aftökuaðferðir. Nautnaseggur hvað bókmenntir og vín varðar. Þjáist af léttvægri tunglsýki. Missamkvæmur sjálfum sér og fremur klofinn á köflum.
Fræðasvið:
Aðferðafræði aftakna, sjálfsvíga og pyntinga. Geymsluaðferðir blóðvökva til síðari tíma neyslu og notkunar. Stundar markvissar og fremur reglulegar vangaveltur um tilvist mannskyns og hegðun þess.
Æviágrip:
Undirritaður fæddist á ofanverðri 19. öld í uppsveitum Húnavatnssýslu. Núverandi ríki er á botni Vatnsdalsár, þeim megin sem snýr inn að jarðarmiðju. Stefnir á heimsyfirráð og pyntar lítil börn og dýr í frístundum.