— GESTAPÓ —
Hundslappadrífa í neðra
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 31/10/04
Baggasveinn: Þriðji þáttur.

‹Dramatískt opnunarstef og myndavélin flýgur af nærliggjandi þaki og nálgast Hundslappadrífu í tignarlegum sveig frá vinstri. Hundslappadrífa hefur þáttinn með tilþrifaþrunginni upphafsræðu:›

Góða kvöldið og velkomin í þriðja þátt Baggasveins. Ég er Hundslappadrífa í neðra og er eins og áður kynnir þessa þáttar. Fylgið mér eftir í þessum fyrsta raunveruleikaþætti Baggalúts. Eftir spennandi og áhugavert umsóknarferli safnaðist hér saman rjómi karlpenings Baggalúts og fór leikurinn þá að herðast til muna. Greinilegt er að gæði karlumsækjenda voru mikil því kvennumsækjendur flykktust einnig inn. Þegar hafa fjölmargir kvennkostir gefið færi á sér og hver öðrum vænlegri.

‹Skipt er yfir í myndavél á hægri hönd Hundslappadrífu. Hún hallar undir flat og heldur áfram:›

Áður en við tilkynnum niðurstöður úr kosningu Baggasveins skulum við sjá upptöku frá undirbúningi þáttarins, ég skellti mér út í sal og heyrði viðbrögð áhorfenda við fyrri þáttum.

‹Myndavélin sýnir Hundslappadrífu rölta upp í áhorfendapallana og tekur nokkra áheyrendur tali.›

Fyrst sjáum við hér fagurgrænan fýr og sætisfélaga hans rauðann og spyrjum þá hvað þeim finnist um þættina:

Vamban: Einmitt það já. Skútan er farin og kemur aldrei aftur!

Lærði-Geöff: Stórgóður þáttur hjá þér, verst að ég á ekki sjö dverga sem hefðu þá kosið mig.

Nákvæmlega, þú verður klárlega að vinna í því. En hér sjáum við nokkra af þeim sem sóttu um hlutverk Baggasveins. Hvað ætli þeim finnist:

Goggurinn: Ég mótmæli!
‹Aftanvið Gogginn birtist múgur reiðra bænda, vopnaður hrífum, heyforkum og kyndlum› Ég er hinn eini sanni baggasveinn!
‹Öryggisverðir Baggasveins lyfta hátt á loft kútum af Blút og múgurinn leysist upp og skellir sér á fyllerí með Gogginum.›

Ívar Sívertsen: ÉG mótmæli líka! Hvar fór kosning fram, hver kaus og hvernig var kosningu háttað?

Dauðinn: Ég mótmæli líka. Ég átti að vinna þetta með yfirburðum! Ekki eitthvað skítans jafntefli.

Kosningin var nú auglýst í bak og fyrir og fór fram á þræði Baggasveins (Sæmi fróði kvartaði meira að segja).

Sæmi Fróði: Jæja, á nú bara að gera einhvern nöldrara og kvartara úr mér ‹strunsar út og inn aftur, hlær síðan hrossahlátri› Gaman að þessu Hundslappadrífa og þakka þér fyrir þetta ómak.

Heiðglyrnir: Hundslappadrífa í neðra. Það er unun að sjá, hvað þú leggur mikið upp úr vönduðum og skemmtilegum vinnubrögðum. Vel útfært.

Skari: Já, þetta er glæsilega gert. Verst að ég var aðeins of seinn til þess að ná að skrá mig.

Auglýsingastef
‹Vladimir Fuckov kemur virðulegur á skjáinn og tilkynnir:› Það tilkynnist hjer með opinberlega að vjer tökum að oss að falsa kosningaúrslit gegn hæfilegri greiðslu.
Auglýsingastef

Í síðasta þætti skoðuðum við niðurstöður kosningar milli karlumsækjenda, og hófst eftir það spennandi kosning. Niðurstöðurnar voru kynntar seinna í þættinum. Þar kom ýmislegt á óvart og þá helst að um jafntefli var að ræða milli tveggja karlumsækjendanna. Sjáum sem snöggvast brot úr síðasta þætti:

‹Ómþýð rödd Hundslappadrífu hljómar yfir bláum skjá þar sem nöfn og myndir umsækjenda þeirra sem kosningu fengu svífa inn og um leið og hver stöðvast sést atkvæðatalan birtast:›

Einungis fimm hlutu atkvæði og dreifðust þau svo:

Lærði Geoff... ...eitt atkvæði

Hilmar Harðjaxl... ...eitt atkvæði

Smábaggi... ...eitt atkvæði

Þarfagreinir... ...þrjú atkvæði

Dauðinn... ...þrjú atkvæði

‹Hin tignarlega Hundslappadrífa birtist enn á skjánum með kankvíst glott á vör›

Eins og þið sjáið hefur komið upp JAFNTEFLI ! Dauðinn og Þarfagreinir eru jafnir að stigum með þrjú stig hver. Þetta kom þáttarstjórnanda allgerlega í opna skjöldu. Hvað var nú til ráða? Svo Hundslappadrífa spurði Búkollu, og Búkolla sagði: Taktu nú hár úr hala mínum og leggðu það á jörðina. Enn Hundslappadrífa sá strax að þetta var ekki gagnleg leið. Hvað hefði Salómon gert í mínum sporum? Þreifað eftir Göthiunni og vakið sig upp til að leysa málið? Ætli það væri ekki of langt gengið. Best að teygja bara lopann og treina málið eins og hægt er. Við blásum til annarar lotu atkvæðagreiðslunnar! Nú verður kosið milli Þarfagreinis og Dauðans.
---

Nú köllum við á kosningaræðu frá hvorum umsækjanda og með og mótmæli frá öðrum Gestapóum. Í næsta þætti verður farið yfir stöðu mála og ýmislegt fleirra spennandi skoðað. Þangað til næst!

‹Hin tignarlega Hundslappadrífa birtist enn á skjánum nú á sviði í sjónvarpssal. Sýnd er yfirlitsmynd af áhorfendapöllunum, fullum af áköfum íbúum Baggalútíu.›

Velkomin í beina útsendingu frá kosningaræðum og kosningu milli Þarfagreinis og Dauðans! Fyrstan kynnum við á sviðið ÞARMAGREINI!!!

‹Hundslappadrífa grípur um eyrnatækið og hlustar á skilaboð frá tæknimanni, roðnar óstjórnlega og leiðréttir sig.›

Fyrstan kynnum við auðvitað á sviðið ÞARFAGREINI!!!

‹Blótar Litla Rassgati í sand og ösku, man afhverju hún ætlaði ekki að láta það skrifa inn á textaskjáinn.›

‹Þarfagreinir kemur að púlti með stafla af blöðum, íklæddur jakkafötum. Leggur blöðin snyrtilega á púltið og blaðar eilítið í þeim. Lítur upp frá blöðunum og ræskir sig›

Góðir hálsar og aðrir líkamspartar,

Ég vil byrja á því að þakka auðsýnt traust í minn garð. Ég er einstaklega upp með mér yfir stuðningnum sem ég hef fengið á þessum vettvangi. Ég ákvað snemma að taka þennan þátt málefnalegum tökum og forðast skítkast í garð annarra, sem því miður virðist vera allt of algengt í þáttum á borð við þessum.

‹Gerir stutt hlé á máli sínu til að drekka lítinn vatnssopa og slétta úr hrukku á jakkabarðinu. Hefur mál að nýju, með eilítið hækkuðum og alvarlegri rómi›

Nú er svo komið að pattstaða er komin upp. Einstaklingur nokkur sem nefnir sig Dauðann hefur hlotið sama stuðning og ég. Hann er án efa drengur góður, og vil ég óska honum til hamingju með þennan árangur.

‹Hvessir brýrnar og hallar sér fram›

Engu að síður er ýmislegt sem veldur mér áhyggjum. Í fyrsta lagi, þá fer ekki miklum sögum af kyngetu vera á borð við Dauðann. Skilst mér að hann sé svokallaður manngervingur óhlutbundinnar hugmyndar, og þar af leiðandi nokkuð takmarkaður sem slíkur. Ég býð ykkur líka að íhuga líkamsvöxt þessarar veru. Sjálfur er ég svo horaður að ég hef alloft fengið að heyra að ég sé ekkert nema skinn og bein, en Dauðinn er ekkert nema beinin.

‹Gerir hlé til að drekka vatn og gefa áheyrendum færi á að flissa›

En nóg um andstæðing minn - tími er kominn til að ég segi frá því hvað ég hef upp á að bjóða. Þið ykkar sem hafið verið hérna lengi þekkið mig og vitið þið hvað ég stend fyrir. Ég treysti dómgreind ykkar í þessu máli. En við ykkur sem yngri eruð vil ég segja þetta: Lesið félagsrit mín og innlegg. Skoðið æviágrip mitt. Spyrjið hina eldri um karakter minn og eðli. Ég hef ekkert að fela. Ég er viss um að eftir að þið hafið ígrundað málið, þá munið þið öll komast að réttri niðurstöðu, Baggalúti til heilla.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Lifið heil.

‹Stendur íhugull í eilitla stund til að leyfa áheyrendum að klappa og henda undirfatnaði upp á sviðið. Arkar loks hnarreistur út af sviðinu›

‹Viðbrögðin láta ekki standa á sér. Hundslappadrífa byrjar að segja eitthvað en orð hennar drukkna í fagnaðarlátunum.›

Sæmi Fróði ‹Klappar ákaft fyrir Þarfagreini og fleygir ullarbrók á sviðið›

Don De Vito ‹Klappar líka fyrir Þarfagreini. Býður svo eftir að Dauðinn tali sínu máli.›

Prins Arutha ‹Klappar fyrir Þarfagreini, en tímir ekki brókinni sinni.›

Auglýsingastef

‹Rósir og rómantískar myndir af hrærivélum og skuggapörum á gangi á strönd flýtur inn á skjáinn undir panflaututónlist.›
Kvennkynsbagglýtingar af öllum gerðum takið eftir, enn er tekið við umsóknum í þáttinn og verður það svo áfram út þessa viku. Ekki láta þetta tækifæri sleppa úr höndum ykkar.

Auglýsingastef

‹Hundslappadrífa nær loksins að komast að›

Og næst er það enginn annar en DAUÐINN!!!

‹Þakkar máttarvöldunum að Litla Rassgat skrifaði ekki RAUFINN eða RASSINN á textaskjáinn.›

‹Dauðinn arkar inn í kuflinum með ljáinn í hendinni sér til halds og trausts.›

Þarfagreinir er eflaust fyndinn og skemmtilegur strákur en hann hefur ekki jafn mikið fram að færa og ég. Ég meina, hann er kannski með hold og blóð og svoleiðis en hann getur til dæmis ekki horfið með með púffi eins og ég.

‹Hverfur með púffi og kemur svo aftur (með púffi)›

En annars er ég brosmildur og skemmtilegur gaur þó að það sjáist kannski ekki alltaf í andlitið mitt vegna þess að það kemur fyrir að ég verði hálf andlitslaus. Síðan get ég komið fólki í samband við sálir fólks sem það elskar með símasambandi.
Og síðan má ekki gleyma því hvað ég er töff. ‹Sýnir öllum málverk af sjálfum sér›

‹Ákveður síðan að enda þetta með stíl› ‹Ræskir sig›

Ég er Dauðinn! Ég er maðurinn með ljáinn!

‹Aftur kemst Hundslappadrífa ekki að fyrir viðbrögðunum.›

Prins Arutha: ‹Hrökklast aftur á bak og hrasar við, púff.› Kýs Þarfagreini.

Anna Panna: ‹Klappar fyrir Þarfagreini og íhugar undirfatahendingar en það er of kalt. Sér svo myndina af Dauðanum...›
Ok, myndin gerir útslagið. Á meðan maður veit ekki almennilega hvað maður vill, þá vill maður nefnilega bara slæmu strákana!
‹kýs dauðann›

Skari: Ég ætla að kjósa hann Þarfagreini. Hann er með svo nett sólgleraugu. Hvar fékkstu þau annars?

Gunnar H. Mundason: ‹Veitir Þarfagreini sitt atkvæði›

Litla rassgat: Litla rassgat ákveður að Þarfagreinir sé maðurinn sem eigi atkvæði sitt skilið. Að vísu er það aðalega vegna þess að Litla rassgat er pínkuponsu lesblint og stendur því í þeirri trú að umrædd persóna heiti Þarmagreinir.

Albert Yggarz: sýpur hel

Nornin: ‹Horfir með aðdáun á báða keppendur›
‹Á erfitt með að gera upp hug sinn›
Held að Þarfagreinir eigi þetta skilið.
‹Vandræðast samt ennþá með þetta val›

Mjákvikindi: Engin spurning hér, Þarfagreinir fær mitt atkvæði.

Ugla: Hvað með Steinrík, B. Ewing, Ég Sjálfur og hina strákana??? Er orðið of seint að kjósa þá? Djöfuls svindl.....
‹Strunsar út af sviðinu og skellir á eftir sér›

Don De Vito: Ég ætla að halda mig við Dauðann. En eins og ég sagði áður, þá er hann skemmtilegur persónuleiki og fyrst hann hefur leikið í mynd á borð við Monty Python þá hlýtur hann að vera fyndinn.
‹Greiðir Dauðanum atkvæðis sitt›

Kristallur Von Strandir: ‹Skiptir yfir á Amazing Race›

Tigra: Ég vel Þarfagreini, því hann er líklegri til að velja mig!
‹Ljómar upp›
Hann er meira að segja í áhugamálum mínum!
‹Ljómar enn meira upp›

Tumi Tígur: Ég gef Þarfagreini mitt atkvæði, það er svo gaman að hrekkja hann
‹Ljómar upp›

Dauðinn: Ég kýs auðvitað sjálfan mig aftur! Og svo kvet ég alla til þess að kjósa! MIG!!! ‹Ákveður að beita dáleiðslutaktík á næstu þrjá kjósendur›

Kinký: Ég kýs Dauðann... Veit ekki alveg afhverju en ég veit að það var ekki áætlunin....
‹Klórar sér í höfðinu›

Bölverkur: ‹Hrökklast til baka, út af þessum kynvillingaþræði.›

Auglýsingastef

‹Hundslappadrífa kemur fljúgandi tignarlega niður úr skýjunum› Baggasveinn auglýsir eftir skemmtilegum, rómantískum og frumlegum stefnumótahugmyndum. Hefur þú hugmynd? Endilega deildu henni með okkur. Einnig skal taka fram að laus eru til umsóknar auglýsingapláss í þættinum.

Auglýsingastef

‹Hundslappadrífa kemur á skjáinn aftur.›

Þá er komið að hinum ofurspennandi niðurstöðum úr kosningunni (glöggir áhorfendur hafa án efa þegar getið sér hennar til) og hefst þá talningin!!!

‹Ómþýð rödd Hundslappadrífu hljómar á meðan hún dregur upp atkvæðaseðla úr jólakökudunki. Yfir henni hangir blár skjár þar sem nöfn og myndir umsækjenda þeirra sem kosningu fengu svífa inn og um leið og hver stöðvast sést atkvæðatalan birtast:›

Þarfagreinir, Dauðinn núll atkvæði, Þarfagreinir eitt atkvæði.
Dauðinn, Dauðinn eitt atkvæði, Þarfagreinir eitt atkvæði.
Þarfagreinir, Dauðinn eitt atkvæði, Þarfagreinir tvö atkvæði.
Þarfagreinir, Dauðinn eitt atkvæði, Þarfagreinir þrjú atkvæði.
Þarmagreinir, Dauðinn eitt atkvæði, Þarfagreinir fjögur atkvæði.
Þarfagreinir yfirkrassað, Dauðinn eitt atkvæði, Þarfagreinir fimm atkvæði.
Þarfagreinir, Dauðinn eitt atkvæði, Þarfagreinir sex atkvæði.
Dauðinn, Dauðinn tvö atkvæði, Þarfagreinir sex atkvæði.
Þarfagreinir, Dauðinn tvö atkvæði, Þarfagreinir sjö atkvæði.
Þarfagreinir, Dauðinn tvö atkvæði, Þarfagreinir átta atkvæði.
Dauðinn, Dauðinn þrjú atkvæði, Þarfagreinir átta atkvæði.

‹Hin tignarlega Hundslappadrífa birtist enn á skjánum með kankvíst glott á vör›

Eins og þið sjáið hefur Þarfagreinir unnið með átta atkvæðum gegn þremur!!!

‹Myndir af Þarfagreini fljóta yfir skjáinn og rósir og rómantísk músík fylla salinn.›

Þarfagreinir er hinn nýji BAGGASVEINN!!!!

Í næsta þætti verður munum við kynna Baggasveininn fyrir stúlkunum sem taka þátt.

Þættinum lýkur.

   (9 af 13)  
31/10/04 17:01

Goggurinn

Ég endurtek mótmæli mín! [Drekkir sér í blútskútnum]

31/10/04 17:01

Don De Vito

Væriru til í að auglýsa fyrir mig leikvanginn og það sem þar fer fram?! [Segir þetta meira í skipunartón heldur en sem spurningu]

31/10/04 17:01

Limbri

Það er nokkuð ljóst að hér eru brögð í tafli. Tók enginn eftir að öll mín atkvæði virðast hafa horfið ?

[Gefur skít í þetta]

-

31/10/04 17:01

Hundslappadrífa í neðra

Sendu auglýsinguna í einkapósti, skelli henni inn í næsta þátt.

31/10/04 17:01

Vladimir Fuckov

Varðandi sumt af því er lesa má að ofan viljum vjer taka skýrt fram að leyniþjónusta forsetaembættis Baggalútíu fjekk nokkrar beiðnir um að hagræða úrslitunum 'örlítið' en þeir er um það báðu voru ýmist nískir og neituðu að greiða uppsett kosningaúrslitahagræðingargjald eða þá að greiðslur frá þeim bárust of seint.

31/10/04 17:02

Þarfagreinir

[Fagnar niðurstöðunni með því að brosa í gegnum tárin]

31/10/04 18:00

Ugla

Óska Þarfa til hamingju.
Hann er vel að þessu kominn.
Greindur, skemmtilegur og sjarmerandi strákur með afbrigðum.

31/10/04 18:01

Ívar Sívertsen

Endemis svindl er þetta! Ég varð aldrei var við neinar kosningar! Enn fremur finnst mér að einungis dömurnar sem voru valdar til að taka þátt í Baggabeib þáttaröðinni ættu einar að kjósa! [strunsar út af sviðinu og galopnar á eftir sér, rífst og skammast út í ósanngjarna framkvæmd og eitthvað heyrist tuldrað um kærur]

31/10/04 18:01

Hundslappadrífa í neðra

[Heyrir ekkert, var að borða eyrun á sér]

31/10/04 19:00

Heiðglyrnir

Faðmar Þarfagreini karlmannlega og óskar honum til hamingju.
.
Gerir skriflegan samning við Hundslappadrífu í neðra um að hún skuldbindi sig til að verða þáttastjórnandi, slysist Riddarinn til að verzla sjónvarpsstöð.
.
Er ekki alveg að skilja vælið í þeim sem töpuðu. Ef menn skrá sig til keppni í karlmennsku. Er alveg í lagi, að taka því sem að höndum ber með þó ekki væri nema smá vott af karlmennsku. Muhahaahahhah

31/10/04 19:00

Hundslappadrífa í neðra

Muhhahhhahhaha

Hundslappadrífa í neðra:
  • Fæðing hér: 31/8/05 15:27
  • Síðast á ferli: 6/4/07 21:55
  • Innlegg: 25
Eðli:
Ég er snjókornin sem líkjast áköfum hundslöppum þegar þau slást við andlit þitt. Sumir njóta þess, en aðrir eru að flýta sér í vinnuna.
Fræðasvið:
Flugvísindi hafdjúpanna
Æviágrip:
Hundslappadrífa í neðra hafði það á stefnuskrá sinni að vera helst til óþæginda allsstaðar sem hún kom. Í þeim tilgangi gerði hún sér far um að safna sem flestum flökkuvírusum, skammgengnum jafnt sem langvarandi. Viðurnefnið hlaut hún einmitt fyrir þær sakir. Hún kaus þó í leynum að falla inní hópinn og að vera elskuð fyrir óþægindin sem hún olli. Þegar Hundslappadrífan fauk fyrst yfir lendur Baggalútíu var hún allsendar óviss um eðli sitt. Lengi hafði hún feykst um ráðvillt og allsendis utangarðs. Eftir skamma dvöl fann hún þó sitt sanna sjálf með hjálp innfæddra. Nú sér hún ekki fyrir sér tilveruna annarsstaðar. Baggalútía lengi lifi. Gestapó er sannleikurinn.