— GESTAPÓ —
William H. Bonney
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 9/12/06
Frú Brynfríður Bjarman skrifar bréf VI

Eftir að hún er orðin ein í köldu húsinu, húsi sem eitt sinn iðaði af hlátri og lífi, skolar hún af diskunum og setur í uppþvottavélina.

Allt í einu minnist hún feministans föður síns, sem fyrir löngu hefur yfirgefið sérrýsvelginn móður hennar og býr nú í sumpart vafasamri sambúð með tveimur tælenskum konum. Í Búrma.

Hún minnist orða hans: ,,Binna mín, svona á ekki nokkur kona að lifa. Vill kallandskotinn bara hafa þig útungandi börnunum hans bak við helvítis eldavélina öllum stundum? Ég hélt þú værir betur upp alin en þetta? Er þetta ekki djöfulsins tuttugasta öldin? Fylltu annars á glasið mitt, væna..."

Og það er rétt. Einu sinni var frú Brynfríður Bjarman vel menntuð, bráðgáfuð kona á uppleið. Áður en hún eignaðist börnin hans. Börnin þeirra? Nei, börnin hans. Það var alltaf hann sem vildi fleiri og fleiri börn. Vissulega hafði hún elskað börnin. Elskað að finna þessi litlu líf bærast og vaxa innra með sér. Elskað litlu kroppana þeirra og hitann sem lagði af þeim. Elskað skilyrðislausu ástina sem streymdi milli þeirra. Úr brjóstum hennar.

En nú voru þau orðin stærri. Krefjandi. Sjálfstæð. Þau voru litlar eftirlíkingar af honum. Hluti af ímynd hans. Rétt eins og franski smábíllinn hennar, stóri Volvójeppinn, húsið í Garðabænum, bústaðurinn á Þingvöllum, heimabíóið, þjófavörnin, fartölvurnar, nuddpotturinn. Hluti af honum.

Brynfríður Bjarman veit að hún vill ekki vera hluti af honum lengur. Hún vill ekki lengur vera hluti af glansmyndarpakkanum. Pabbar eru alltaf að fara svo því ættu mömmur ekki að gera það líka? Þau gætu bara fengið sér nýja mömmu. Hugsanlega útglennta Dewey-fræðinginn.

Frú Brynfríður, eitt sinn gáfuð fegurðardís á uppleið, nú lífsþreytt húsmóðir í úthverfi, seilist eftir blaði og penna sem hún geymir í draslskúffunni í eldhúsinu. Nú er tími fyrir skriftir.

   (4 af 10)  
9/12/06 18:01

Dula

Ekki gefast upp Binna, haltu áfram.

9/12/06 18:01

Regína

[Iðar af spenningi] Skráði hún sig inn á Gestapó?

9/12/06 18:01

Bakaradrengur

Þetta var gaman. [Ljómar upp]

9/12/06 18:01

Anna Panna

[Bíður spennt eftir fregnum af innihaldi bréfsins]

9/12/06 18:01

Nornin

Útglennta Dewey-fræðinginn?
Bókasafnsfræðinginn þá?
Ég er móðguð!

9/12/06 18:01

Tina St.Sebastian

Norn! Varstu að sofa hjá Herra Bjarman?

9/12/06 18:01

Hexia de Trix

Ég er líka móðguð, af sömu ástæðu og Norna. Ekki hef ég þó sofið hjá herra Bjarman og grunar að hið sama megi segja um Nornina.

Annars er til einhver annar Dewey, John að mig minnir. Hann skrifaði heljarinnar helling af kennslufræðigreinum, svo kannski er útglennti Dewey-fræðingurinn barasta kennslufræðingur? Eða kennari?

9/12/06 18:01

William H. Bonney

Svona, svona stelpur mínar. Hr. Bjarman hélt framhjá með bókasafnsfræðingi sem var í raun hálfu verra en ef hann hefði valið konu úr hvaða annarri stétt sem var því nú getur frú Brynfríður ekki hugsað sér að fara á bókasafn lengur. Eins og bitrir makar gera stundum hefur frúin góða svo yfirfært hatur sitt á stéttina alla og þar sem hún þekkir hina konuna ekkert og veit lítið annað en hvað hún starfar, þ.e. að hún er bókasafnsfræðingur, þá hatar hún hana og fyrirlítur sem bókasafnsfræðing. Sama hefði gerst ef viðkomandi væri ráðherra, sjoppukona, flugfreyja, heilaskurðlæknir eða kennari. Þá hefðu bara einhverjar aðrar hér á lútnum tekið það til sín. Sýnið því smásamúð og tillitsemi. Þetta er ekkert persónulegt.

9/12/06 18:02

Hexia de Trix

[Nennir samt ekki að hætta að vera móðguð]

9/12/06 18:02

krossgata

Uppsagnarbréf?
[Iðar í skinninu]

William H. Bonney:
  • Fæðing hér: 25/8/05 18:25
  • Síðast á ferli: 17/4/12 21:42
  • Innlegg: 27
Eðli:
Kemur síðar
Fræðasvið:
Kemur síðar
Æviágrip:
Kemur síðar