— GESTAPÓ —
Bölverkur
Fastagestur með  ritstíflu.
Dagbók - 4/12/19
Mansöngur

Ein vísan er fárra daga gömul, hinar heldur eldri.

1 Þú varst auðlegð æsku minnar,
eitthvað við þig hjartað snart.
Varir þínar, vanga og kinnar
vorið kyssti hlýtt og bjart.

2 Aftansól á aprílkvöldin
okkur fyllti ró og værð.
Man ég bleiku brjóstahöldin,
blúndur, saum og skálastærð.

3 Ört þá slógu okkar hjörtu,
aldrei sást á himni ský.
Handakrikahárin björtu
hlýjum vindi blöktu í.

4 Þá af spennu ört var iðað,
ákaft teygað vorsins loft.
Í fögrum lundi lékum við að
ló í nafla þínum oft.

5 Er við fórum út að ganga
eitt sinn mitt á grænni flöt
tungu minni tókst að stanga
úr tönnum þínum hrossakjöt.

6 Angurværð þá að mér sótti,
öðlast gat ég ró og frið.
Mér svo ljúft að mynnast þótti
mjólkurkirtla þína við.

7 Fjörva vorsins ljómi léði,
lífið allt að töfrum varð.
Snert þú fékkst af frygð og greði
fyrir sunnan kirkjugarð.

8 Gleymdum við þá góðum siðum,
gerðumst áköf bæði tvö.
Oft um miðjan maí við riðum
milli klukkan fimm og sjö.

9 Til að skilja er tyrfin velskan,
torvelt henni er að ná.
Þú varst bara eins, mín elskan,
aldrei skildi ég þig þá.

10 Lét þá allar örvar geiga
Amor litli býsna kænn,
því að saman illa eiga
íhaldstík og vinstri grænn.

11 Eftir það var allt á hausnum
einkum það sem sneri að mér.
Fullt af bráðabirgðalausnum
beggja kynlíf síðan er.

12 Oft ég hygg að æsku minni,
allt var manni þá í hag.
Þá var maður sæll í sinni.
Svo er ekki nú í dag.

   (3 af 8)  
4/12/19 03:01

Bullustrokkur

Þetta er yndislegt ljóð, fullt af rómantík og þáþrá.

4/12/19 05:01

Regína

Snilld!

4/12/19 01:01

Billi bilaði

Miðað við dagsetningu ritsins er nýjasta vísan enn ekki ort. Það má því njóta hennar fyrir og eftir sköpun. (01.apríl.2020).

4/12/19 18:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Firnagott kvæði. Allir þumlar á lofti !

Bölverkur:
  • Fæðing hér: 26/5/05 17:44
  • Síðast á ferli: 27/11/21 04:46
  • Innlegg: 395
Eðli:
Atkvæðamaður.
Fræðasvið:
Kvæðafræði og fjáraustur.
Æviágrip:
Fyrrverandi Akureyringur, nú Reykvíkingur.