— GESTAPÓ —
Gunnar H. Mundason
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 5/12/04
Blessuð sé minning hans.

Í dag hefði kvikmyndgerðamaðurinn Orson Welles orðið níræður að aldri væri hann enn á lífi. Í tilefni þess ætla ég að fjalla stuttlega um meistaraverk hans, Citizen Kane og stöðu myndarinnar í dag.

Myndin Citizen Kane kom út árið 1941 og fjallar um líf og dauða auðkýfingsins Charles Foster Kane. Myndin hefst á því að Kane deyr í kastala sínum, Xanadu, og eru síðustu orð hans; „Rósaknappur“ eða „Rosebud“. Myndin fjallar síðan aðallega blaðamann sem er að reyna að komast að því hvað þessi „Rósaknappur“ er. Finnur hann marga gamla félaga Kanes og eru inn á milli sýnd brot úr lífi hans, eftir því sem um er verið að fjalla á þeim tímapunkti. Að lokum kemst blaðamaðurinn ekki að réttri niðurstöðu en hefur hann nokkrar kenningar um hvað „Rósaknappur“ er. Í síðasta atriði myndarinnar er áhorfendum síðan sýnt hvað það er. Ætla ég ekki að ljóstra upp því leyndarmáli hér og hvetja fólk frekar til að horfa á myndina, en grunar mig að allflestir viti hvað „Rósaknappur“ er, enda annað hvort búnir að sjá myndina eða heyra það einhvers staðar frá.
Er myndin oft á tíðum talin vera besta mynd allra tíma. Myndin er einhver sú besta sem ég hef séð, en efast ég ekki um, að hefði ég aldrei heyrt að hún væri „ein sú besta“ er ég sá hana, væri ég annarrar skoðunnar í dag. Að mínu mati sýnir Orson Welles snilldarleik sem Charles Foster Kane og finnst mér hún vera í alla kanta frábær.
Þótt að í dag sé oft talað um hana sem eina bestu mynd allra tíma er einnig talað um hana sem leiðinlega svart/hvíta mynd sem enginn hefur áhuga á og er sífellt verið að ljóstra upp stóra leyndarmáli myndarinnar, t.d. í þáttum á borð við Fjölskyldu maðurinn (Family Guy) og jafnvel í einu hefti Andrésar Andar kemur það fram, þar sem Andrés fer upp að vissu marki í hlutverk Kanes, þó hann deyji reyndar ekki. Afar fá ungmenni í dag hafa heyrt hana nefnda og ennþá færri séð hana, og kannast ég einungis við að tveir unglingar sem ég þekki hafi séð hana og þekki ég ófáa unglinga. Finnst mér þessi þróun vera frekar sorgleg, enda frábær mynd á ferð. Blessuð sé minning Orson Welles. Skál. Að lokum læt ég fylgja með ljóðið Uppeldi eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur sem mér finnst eiga ágætlega við myndina og margt annað í þjóðfélagi nútímans.

Sonur minn þekkir ekki Gunnar á Hlíðarenda
en þeir Súpermann eru góðkunnugir
og einhvern tíma ætlar sonur minn
að blása alla bófana um koll
einsog Súpermann.
Sonur minn á eina ósk:
að flytja í dótabúð
og eiga þar heima
eða í sjoppu – kannski.
Hann vill eignast allt heimsins dót
og verða svo leynilögga
og fá mótorhjól þegar hann verður
fimmtán og bíl sautján.
Einhverntíma þarf ég að segja syni mínum
söguna af Gunnari á Hlíðarenda.

   (4 af 6)  
5/12/04 06:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Sagan um hann Gunnar er er ekki neitt öðruvísi en en nútima glæpa myndir. hann drap mann og annan, góðar konur vondar konur. Vondir kallar svik ,valdarbarátta ég held að sonur fá eins mikið eða meira af Súperman eða Sopranos

5/12/04 06:01

Hakuchi

Ég held að flestir læri nú fyrr eða síðar hvað Citizen Kane er og ansi margir sjá hana. Það er leiðinlegt ef ungt fólk vill ekkert kannast við þessa mynd.

Hins vegar verð ég að segja fyrir minn smekk að mér finnst Citizen Kane vera ofmetin mynd. Ég hef lesið margar lofrullurnar um hana, séð hana í efstu sætum fróðra manna um bestu kvikmyndir allra tíma en ég get hreinlega ekki verið sammála. Þrátt fyrir að hafa gert margar heiðarlegar tilraunir til þess að líka við þessa mynd en ég hef séð hana fjórum eða fimm sinnum og aldrei fundið fyrir 'meistaraverksfiðring'.

Mikilvægi hennar í kvimyndasögunni er hins vegar óumdeilanlegt. Í henni komu margar byltingar (m.v. Hollywood) í söguframvindu, kvikmyndatöku og þess háttar. Ég get vel skilið að fólk, á fimmta áratugnum, hafi orðið dolfallið yfir þessari formsbyltingu, og jafnvel síðar meir því Hollywoodstíllinn hélt algerum yfirburðum sínum næstu áratugi á eftir, nær óslitið fram að 7. áratuginn (er reyndar enn afar áberandi en ekki eins og áður).

Hins vegar eru þessar 'byltingar' engar byltingar í dag. Eftir frönsku nýbylgjuna og kvikmyndavor 8. áratugarins eru efnistök og tæknilegar útfærslur á myndatöku ekki lengur algerlega einstök. Fólk hefur alist upp við svona takta og eru þeir hluti af kvikmyndareynslu fólks.

Þannig að augljós og söguleg bylting í formi og tækni getur varla valdið einhverri stórkostlegri uppljómun nútímaáhorfanda (ekki mín amk. ), þó svo maður beri fulla virðingu og þakklæti til Hr. Welles fyrir að hafa, ásamt aðstoðarmönnu, komið með þessi frumlegu tök á myndinni.

Eftir stendur þá sagan. Og sagan er einmitt það sem heillar mig ekki sérlega mikið. Ekki misskilja hún er ekki slæm, en hún er heldur ekkert óbifanlegt meistaraverk. Hún er um ríkan strák sem verður ríkur, gráðugur, spilltur gamall fauskur sem glatar öllum sínu 'humanity' og endar ævina fullur biturðar og söknuðar eftir sakleysi æskunnar og bla bla bla.

Orson leikur þetta þó fjandi vel, jú, og þetta er fín mynd fyrir sína parta og sannarlega Söguleg í efnistökum (þó hún sé varla 'fersk' í augum tiltölulega sjóaðs áhorfanda) en sagan er bara ekki að grípa mig.

5/12/04 06:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Bestur var hann nú þegar hann las innrásina
frá mars í útvarpinu og fékk kanan að hlaupa niðrí kjallara

5/12/04 06:01

Isak Dinesen

Ég er sammála Hakuchi. Ég held að þetta með tæknilegu framfarirnar hafi slegið ryki í augu sumra. En Welles auðvitað gallharður að gera þessa mynd. Þá eru mörg önnur meistaraverk, ekki bara í kvikmyndalistinni sem mér finnst leiðinlegt að fólk skuli ekki þekkja. Verk sem eru a.m.k. jafn merk listaverk en mun færri þekkja en nokkurn tíma sá magnaði fjöldi sem þekkir Citizen Kane. Þó er ég ánægður með inntak pistilsins.

5/12/04 06:01

Hakuchi

Það er nú bara einhver mesti snilldarhrekkur allra tíma.

5/12/04 06:01

Vestfirðingur

Gunnar á Hlíðarenda er bara eitthvað ofmetið flykki. Vantilltur ofstopamaður. CK er krefjandi, hún hefur alltaf virkað frekar stirðleg á mig. Þetta eru svona tableaux sem smella ekki alveg nógu vel saman. Casablanca, sem gerð var á svipuðum tíma, gerði þetta miklu betur. Joseph Cotten sleppur einna skást frá þessu, hann var svona low key leikari, alltaf til staðar en samt ekki uppáþrengjandi eins og OW. Alveg eins og í Þriðja Manninum. OW var náttúrulega drullusokkur í gegn, stal víst handritinu að CK meira og minna frá Herman Mankiewicz.

5/12/04 06:01

Nornin

Ég er sammála Hakuchi. Mér fannst C.K. leiðinleg. Get ekkert að því gert, er sennilega bara svona menningarsnauð en ég sofnaði næstum yfir henni í tvígang þegar ég reyndi að horfa á hana um daginn. Gafst upp í dotti númer 2. og hætti við að sjá hana.

5/12/04 06:02

Litla Laufblaðið

Mér fannst hún fín, horfði á hana í kvikmyndaáfanga í ensku og já líkaði vel.

5/12/04 07:00

Lopi

Sá þessa mynd fyrir mörgum árum og þurfti að hálf pína mig til að horfa á hana til enda. Engu að síður sat sagan eftir í mér og nokkur myndskeið í henni fannst mér ansi mögnuð hvað varða kvikmyndatöku og leik.

Gunnar H. Mundason:
  • Fæðing hér: 19/4/05 08:38
  • Síðast á ferli: 4/9/13 03:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Hann er mikill maður að vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann heggur báðum höndum og skýtur ef hann vill og hann vegur svo skjótt með sverði að þrjú þykja á lofti sjá. Hann skýtur manna best af boga og hæfir allt það er hann skýtur til. Hann hleypur meira en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann er syndur sem selur. Og eigi er sá leikur að nokkur þarf við hann að keppa og hefur svo verið sagt að engi er hans jafningi. Hann er vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fer vel. Mann er hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann er vel auðigur að fé.
Fræðasvið:
Að vega menn með atgeirnum góða.
Æviágrip:
Fæddur fyrir einhverju. Býr að Hlíðarenda. Á tvo sonu, þá Högna og Grana, með mestu tík Íslandssögunnar, Hallgerði langbrók Höskuldsdóttur.