— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Rattati
Heiðursgestur.
Dagbók - 2/11/07
10 tímar í loftinu

Enn ein flugferðin hjá mér. Þessi hafði mikil áhrif á mig. Engu er logið og ekkert er ýkt í þessari frásögn.

Það eru 4 sæti í þessari röð sem ég sit í. Við erum 2 með þessa röð, ég og mjög fullorðin kona. Hún skelfur alveg svakalega. Einnig er hún nærri blind, hún er með gríðarlega sterk gleraugu og stækkunargler í ofanálag. Tilburðirnir við að lesa eru miklir og þegar hún ýtti við vatnsflösku svo hún datt þá hjálpaði ég henni og fór aðeins að spjalla við hana í framhaldi. Hún fór til Seattle frá Árhúsum til að leita sér lækninga. Seattle er með einhvern besta spítala í heimi við þessum sjúkdómi sem hana hrjáir. Ég kann ekki að nefna hann, það er líka erfitt að skilja hana, en þetta er einhver hrörnunarsjúkdómur. Hún hafði safnað lengi fyrir ferðinni, hafði loforð upp á stuðning frá einhverjum félagasamtökum ef að í ljós kæmi að hægt væri að kljást við sjúkdóminn. Það kom í ljós að það er ekki hægt.
„Víst eru vonbrigði“, sagði hún, “en það skiptir kannski ekki máli. Sjúkdómurinn er ekki banvænn, en ef hægt hefði verið að lækna hann hefðu síðustu árin verið bærilegri þó ekki væri annað.“
„En fjölskyldan“, spyr ég. „Ertu ein á ferð svona á milli Köben og Seattle“?
Svipurinn harðnar en verður einnig, á einhvern óútskýranlegan máta ofboðslega, ofboðslega dapur.
„Ég á einn son. Son sem að hefur ekki einusinni fyrir því að heimsækja mig eða jafnvel bjóða mér gistingu. Síðast þegar ég hringdi í hann til að fá að gista hjá honum af því ég átti erindi þá ekki bara neitaði heldur einnig sagðist ekki mega vera að þessu og allt að því skellti á mig. “
„Hvar býr hann eiginlega“, spurði ég.
„Seattle.“

Ég algerlega missti andlitið. „Ertu að segja mér það, að sonur þinn býr í Seattle og ekki bara neitaði að aðstoða þig og bjóða þér gistingu heldur einnig hunsaði þig algerlega?!?!?“
„Já“, svaraði sú gamla og brosti. Brosið til mín var greinilega ekta en nú sá maður hyldýpissorgina í augunum.

Við spjölluðum aðeins meira saman þangað til hún sagðist ætla að fara að leggja sig aðeins, flugið þreytti hana. Ég þakkaði henni fyrir spjallið og bað hana um að láta mig vita ef henni vantaði aðstoð þegar við kæmum til Köben. Hún þakkaði fyrir og brosti til mín, sagðist eiga von á aðstoð þegar þangað kæmi. Háun hallaði aftur sætinu og lokaði augunum. Næst þegar ég leit til hennar sá ég að það lak tár, eitt tár niður hvarmana.

   (5 af 25)  
2/11/07 10:01

Herbjörn Hafralóns

Átakanleg saga. [Fær rykkorn, ekki bara í annað augað heldur bæði]

2/11/07 10:01

Billi bilaði

Magnað.

2/11/07 10:01

Tigra

Vá. Djöfull langar mig að lemja þennan mannfjanda.

2/11/07 10:01

Álfelgur

Segjum tvær Tígra! Ég vona að mínir synir verði aldrei svona vondir við mömmu sína...

2/11/07 10:01

Aulinn

Getur ekki verið að kellingin hafi lamið drenginn þegar hann var yngri? Jafnvel verið drykkfelld og komið heima með nýjan mann á hverju kvöldi?

2/11/07 10:01

Villimey Kalebsdóttir

Segjum þrjár! Förum og finnum hann. [Strunsar útaf sviðinu og skellir á eftir sér]

2/11/07 10:01

Rattati

Aulinn minn, ég veit ekkert um það. Það getur verið, það getur meira að segja meira en verið. Sennilega hefur hún verið gömul krakkhóra líka.

2/11/07 10:01

Einn gamall en nettur

Já þetta er því miður ekki einsdæmi. [Starir þegjandi út í loftið]

2/11/07 10:01

Þetta er sorgleg saga. Hugsum nú vel til þessarar konu yfir jólatímann.

2/11/07 10:01

Jarmi

Aulinn kemur með mjög góðan punkt.

Og við það má bæta að það er ekki sama tilfinningin sem kemur upp þegar maður:

a) hefur fylgst með gazellufjölskyldunni í langan tíma og svo kemur vonda ljónið og drepur einn úr fjölskyldunni.

og

b) hefur fylgst með ljónafjölskyldunni sem hefur ekkert gengið að veiða og litlu hvolparnir eru að svelta úr hungri þar til loksins ljónamamma nær í eina gazellu.

Það sem ég er að reyna að segja er bara framhald af því sem Aulinn sagði. Altso að það borgar sig að vita allar hliðar málsins áður en maður dæmir.

2/11/07 10:01

Rattati

Það er hárrétt Jarmi. Hinsvegar kaus ég að líta framhjá svoleiðis (hafði reyndar akkúrat ekkert hugsað út í það) og einblína á það eina sem að ég vissi um, það er af samtali mínu við konuna.

2/11/07 10:01

Tigra

Ég var búin að hugsa út í þetta sem bæði Aulinn og Jarmi sögðu.
Það breytir því ekki að konan er án efa ekki alslæm. Þótt hún hafi lamið strákinn og tuskað hann til, þá hefur hún væntanlega líka fætt hann og klætt hann.
Enginn er alvondur. Ekki heldur þessi sonur, sem hefur eflaust sínar ástæður.
Málið er bara að ég er á móti hefnd, en ég styð fyrirgefningu. Drengurinn á því að fyrirgefa móður sinni en ekki hefna sín á henni.
Hún á líka að reyna að bæta ráð sitt ef svo stendur.

Og við eigum að fyrirgefa stráknum fyrir að koma svona fram við móður sína.

2/11/07 10:01

Jarmi

[Knúsar Tigru sem augljóslega er með hjartað á hinum besta stað mögulegum]

2/11/07 10:01

Ívar Sívertsen

Gestapóar eru allir með hjartað á réttum stað en fela það bara mis vel.

Við vitum ekki forsöguna og því er ekkert sérstaklega gáfulegt að ákveða bara sisona að kellingin hafi lamið strákinn. Við vitum heldur ekki hvort hún hafi verið yndisleg móðir og gert allt fyrir hann en hann hafi stungið af og sé dópisti í Seattle en kerlingin viti hins vegar ekkert af því. Svo má vera að þeim hafi sinnast eitt sinn og hann þá lokað á þá gömlu. Þetta gæti allt verið og um leið ekkert.

Mér finnst þetta bara falleg saga um hjálpsemi og góðmennsku Rattata og um leið lítil mannlífssaga.

Hafðu þökk fyrir Rattati.

2/11/07 10:01

Garbo

Takk fyrir góða sögu.

2/11/07 10:01

krumpa

Flott saga. Ég er hins vegar sammála því að ekki eigi að dæma soninn án frekari sannana. Því miður er það oft þannig að samskipti eru stirð eða jafnvel engin innan fjölskyldna og það er þá sjaldnast einhverjum einum að kenna. Reyndar er ég svo á því (miðað við eigin reynslu og annarra nálægt mér) að það séu frekar foreldrarnir en börnin, svona alla jafna, sem bera ábyrgð. Því er ómögulegt að segja hvort er krakkhóran.

2/11/07 10:01

Texi Everto

Hvort heldur sem er, þá á konan bágt. Rattati á orðu skilið fyrir að veita henni innsýn í góðmennsku heimsins.

2/11/07 10:01

Jarmi

Já Texi það segir þú sko satt. Rattati sýnir þarna á sér hlið sem allir ættu að taka sér til fyrirmyndar.

2/11/07 10:01

Offari

Það er erfitt að dæma hver gerði rangt þegar engar upplýsingar liggja fyrir. Hinsvegar finnst mér alltaf sorglegt að heyra svona sögur.

2/11/07 10:01

Rattati

Mér þykir sem forsagan sé alls ekki á þá lund sem sumir hafa vilja gefa í skyn. Sorgin sem ég sá í svip hennar var á þá lund að mér þykir ólíklegt að kellingin hafi verið að dunda sér við að hálfmurka líftóruna úr stráknum í den. Ég þekki dæmi þess úr Reykjavík að börnin hafi beðið þess eins að foreldrið deyi til þess að koma höndunum yfir arfinn. Bróðir minn leigði í Barmahlíðinni einusinni, ég heimsótti hann oft þar. Konan sem átti íbúðina var fullorðin kona, ákaflega elskuleg. En þá sjaldan sem börnin hennar komu voru þau bara með kjaft og leiðindi - og heimtuðu pening, rígfullorðið fólkið. Byggjandi að þeirri reynslu býst ég alltaf við því versta þegar ég heyri svona sögur eins og ég heyrði í flugvélinni. Reyndar er önnur saga úr þessu sama flugi, ekki síður niðurdrepandi, ég kem með hana seinna.

Þetta var á alla lund ákaflega merkilegt ferðalag.

2/11/07 10:01

Jarmi

Ég vil taka það skýrt fram að ég gaf ekkert í skyn. Ég benti einfaldlega á þann punkt að fólk ætti ekki að fella dóma fyrr en allar staðreyndir væru komnar fram.

Ef ég væri nú settur í þá leiðinda stöðu að þurfa að veðja aleigunni á það hvort þeirra væri 'vondikallinn', ellegar tapa henni samstundis, þá myndi ég líklega veðja á strákinn. Svo ég get ekki sagt að ég hafi ekki vott af fordómum eftir lestur félagsritsins. Enda er ég mennskur og það er almennt í eðli okkar að fordæma. Því miður og sem betur fer.

2/11/07 10:01

Skreppur seiðkarl

Rattati, ég hélt eitt augnablik að þú hefðir verið að stela smá af mínum sögustíl þangað til ég las smáa letrið við topp frásagnarinnar. Sagan er kúl.

2/11/07 10:01

Regína

Við vitum ekki hvort tár konunnar eru vegna þess að hún sér eftir að hafa farið illa með drenginn sinn, eða vegna þess að hann hefur lent á glapstigum eftir að venjulegu (þ.e. nógu góðu) uppeldi lauk. Það er alveg sama hvort er, konan á bágt, og sonurinn líka.

2/11/07 10:01

Skreppur seiðkarl

Það má líka vera að fyrsta 'impressjón' sem maður fær af að lesa þetta sé sú rétta, að konugreyið eigi þetta ekki skilið og sonur hennar sé drullukunta. Það má ekki ganga útfrá frásögninni með mannréttindasjónarmiðum eingöngu, taka verður líka til kynna að hitt sé líka mögulegt. Þannig að Tigra hefur rétt á fyrsta kommentinu sínu, þá allavega uppað 50 prósentum.

2/11/07 10:01

Rattati

Vil ég biðja hlutaðeigandi afsökunar, ég átti alls ekki við "gefa í skyn". Hefði átt að umorða það en fórst það fyrir. Eins og skáldið kvað;
Sorrí Jarmi. Já og Aulinn líka. Ég ætla mér alls ekki að leggja ykkur orð í munn.

En ég get ekki að því gert, allt hennar látbragð og "impressjónið" sem ég fékk var á þá vegu að hann væri bölvaður ræfill. Eða greyskinn eins og amma mín blessunin hefði sagt. Ég bið ykkur líka að hafa í huga að frásögnin hér er ekki alfullkomin. Við spjölluðum mun meira og ég tek ekki fram hvert einasta svipbragð og setningu sem sögð var. Þetta er frekar svona Greatest Hits eins og sagt er.

Annars ætla ég ekki að skýra þetta frekar.

2/11/07 10:01

Upprifinn

Það skiptir eiginlega ekki máli hvaða ástæður liggja að baki þessarar framkomu gagnvart móður sinni og hver á hvað skilið.
það ömurlega er að svona staða skuli skapast á milli náinna ættingja.

2/11/07 10:01

Tigra

Ég hlýt nú að mega vilja lemja hvern þann sem ég vil - óháð ástæðunni.
Svo fremi sem ég læt ekki verða af því, þá kemur það engum við.
Ég lít svo á að ég hafi 100% rétt á fyrsta commentinu mínu.

Annars sammála Uppa. Skiptir ekki máli hver gerði hvað. Vona að það náist sátt og fyrirgefning.

2/11/07 11:00

krossgata

Sorgleg saga af sorglegum aðstæðum. Ég hef efasemdir um að þessi kona hafi verið sjálfselsk krakkhóra - það gerir umburðarlyndið gagnvart neikvæðum niðurstöðum varðandi sjúkdóminn. En það er svo sem allt til.

2/11/07 11:01

Kiddi Finni

Sorgleg saga, allt er nú til. Hvernig sem á þessu stendur. Takk, Rattati.

2/11/07 14:00

Einstein

Nú lamdi móðir mín mig í æsku sem ég væri harðfiskur. Þegar hún varð eldri sá hún eftir því, enda lamdi hún ekki yngri systkini mín. Reyndar var í raun ágætt, þar sem þetta kenndi mér aga. Síðar varð þetta til þess að ég fór og vann á einkaleyfaskrifstofunni í Bern.

Rattati:
  • Fæðing hér: 28/3/05 11:32
  • Síðast á ferli: 12/5/20 20:25
  • Innlegg: 8165
Eðli:
Fæddist á sínum tíma og er enn að. Bý um þessar mundir bakvið lyklaborð og í flugvélum. Ekki þó á sama tíma eftir þetta óheppilega atvik hér um árið. Fokking Fly-By-Wire.
Fræðasvið:
Er ágætur í Ólsen Ólsen.
Æviágrip:
Er eiginlega búinn að vera meira og minna fullur. Er þó að mestu leyti hættur því. Man samt ekki rassgat af því sem gerðist fyrir ca 2001.