— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Isak Dinesen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 6/12/04
Gagnrýni á óséða kvikmynd

Isak nennir ekki að sjá myndina Brúðkaupsbrjótar (e. Wedding Crashers) en gagnrýnir hana samt. Gagnrýnin er byggð á lærðum ágiskunum og leiðinlegum auglýsingum.

Myndin byrjar að öllum líkindum á því að við sjáum félagana John (Owen Wilson) og Jeremy (Vince Vaughn) í einhverju tiltölulega fyndnu atriði. Það mun hafa með kvennafar að gera en meira veit ég ekki. Þrátt fyrir að vera fyndnasta atriði myndarinnar, hlæ ég ekki. Ástæðan er yfirdrifnar hlátursrokur sem heyrast frá náunga fyrir framan mig sem er augljóslega auli. Þetta dregur aðeins úr góða skapinu.

En þá erum við leidd inn í aðalsöguþráðinn. Félagarnir sjá að þeir geta náð í rosalega mikið af kvenfólki ef þeir skella sér í giftingarveislur hjá ókunnugu fólki. Þar er gengið út frá þeirri forsendu að konur á þrítugsaldri séu upp til hópa ekki að hugsa um neitt annað en að gifta sig og eignast börn. Örvænting þeirra sé þó aldrei meiri en einmitt þegar vinkonur þeirra gifta sig.

Þetta ákveða félagarnir að nýta sér. Þeir hika auðvitað ekki við að beita öllum brögðum. Til að mynda mun salurinn óma af hlátrasköllum þegar þeir ákveða að bregða sér í gyðingabrúðkaup. Það endar án efa á vandræðalegum aðstæðum tengdum umskurði. Greindari hluti salarins mun þó aðeins brosa af kurteisi á meðan klipið er í lærin til að halda sér vakandi. Eflaust verða aðrir slíkir brandarar sem hafa með sérstaka samsetningu bólfélaga að gera – hvert atriðið öðru slakara.

En fljótlega lenda stjörnurnar í vanda. Auðvitað átta strákhvolparnir sig á því að þeir eru orðnir ástfangnir. Þetta leiðir til vandræðagangs þar sem þær heittelskuðu komast að því hvað þeir hafa verið að sýsla. Þeim tekst þó að vinna hjörtu þeirra og allir verða rosalega hamingjusamir í lokin. Yfir textum í lokin mun hljóma ný útgáfa af einhverju ástarlagi með einhverri strákahljómsveit.

Ein stjarna fyrir búninga og að hægt hafi verið að komast út úr bíóinu án þess að þurfa að hlusta á lokalagið og horfa á mistök leikara.

   (41 af 42)  
6/12/04 00:01

Magnús

Nokkuð gott. Ég gæti samt trúað að það séu nokkur fyndin atriði í þessari mynd; svona eins og í Old School eða Anchorman.

6/12/04 00:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Gott Ísak sjálfsagt er hægt að gannrýna óséða mynd og ólesta bók enda finnst mér flestir gagnrýnendur blaðana hafa lesið allt aðra bók eða séð annað leikrit en ég þó nafnið sé hið sama!

6/12/04 00:01

Þarfagreinir

Það mætti vel gera meira af þessu. Oftar en ekki les maður gagnrýni til að sleppa því að fara að sjá mynd. Að skrifa gagnrýni til að sleppa því að fara að sjá mynd er auðvitað líka mjög sniðugt.

6/12/04 00:01

Nornin

Já þessi mynd er örugglega í svipuðum gæðaflokki og "Wedding date" sem ég var dregin á (10 viltir hestar komu við sögu og loforð um að viðkomandi færi með mér á "The Chocolate factory") nauðug um daginn.
Hún er ekki þess virði að sjá hana heldur.

6/12/04 00:01

Stelpið

Fyndið hvernig þessi formúla í rómantískum gamanmyndum er alltaf nákvæmlega eins: A hefur eitthvað gruggugt í pokahorninu en verður samt sem áður ástfanginn af B; B kemst að leyndarmálinu og vill aldrei sjá A aftur; A gerir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að fá B til að fyrirgefa sér og tekst að lokum að vinna hann/hana yfir með því að gera eitthvað stórkostlega rómantískt sem er yfirleitt jafnframt vísun í eitthvað sem B talaði um að sér væri mikils virði fyrr í myndinni.

6/12/04 00:02

krumpa

Alger snilld - og sennileg nálægt raunveruleikanum - reikna reyndar með að wedduing date eða hvað hún heitir sé svipuð..
merkilegt samt hvað þesssar myndir henta vel á fyrstu deitum eða þegar maður er ennþá á ,,kjánalega ástfanginn"-stiginu..

Magnús - Anchorman er einhver sorglegasta tímaeyðsla sem ég hef látið hafa mig út í. Hreint ekkert fyndið við það!

6/12/04 00:02

Vladimir Fuckov

Er svona ekki alþekkt - vjer höfðum t.d. sterklega á tilfinningunni að sá er gagnrýndi Sannleikann um Ísland í Mogganum fyrir jólin hefði eigi lesið mikið í bókinni. Eða kannski las hann óvart einhverja aðra bók...

Annars afar góð gagnrýni hjá Isak.

6/12/04 00:02

Litla Laufblaðið

Ég hló ábyggilega meira að þessari gagnrýni, en myndinni... ef ég myndi sjá hana.

6/12/04 00:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Snjallt félagsrit - einsog við var að búast.
[sjá ummæli undirritaðs við fyrsta félagsriti höfundar]

Varðandi skemmtilegar hugleiðingar Stelp(i)sins (?), má bæta eftirfarandi við:
Svo virðist sem geysilega hátt hlutfall kvikmynda af þessu taginu endi á þann veg að karakter B (oftast kvenkyns) er í þann veginn að leggja uppí langferð ellegar að flytja búferlum eitthvert langt í burtu, & er að stíga um borð í flugvél eða annað tilfallandi farartæki, þegar A (oftast karlkyns) kemur, lafmóður & illa til reika, & nær á elleftu stundu að stöðva flugvélina eða tefja fyrir brottför, æpir örvæntingarfulla & hjartnæma ástarjátningu yfir mannþröngina, þannig að öll starfsemi stöðvast augnablik, & viðstaddir fylgjast spenntir með.
Enn hef ég ekki séð þetta klikka, viðbrögðin eru ævinlega þau að B lætur tilleiðast, & þau hlaupa hvort í annars fang við yfirþyrmandi tilfinningaríkt fiðlu- & hornaspilerí.
Má þannig öllum skiljast að hamingja & samlyndi persónanna tveggja ætti að vera gulltryggt um ókomna framtíð.

6/12/04 00:02

Nornin

Nákvæmlega. Eins og talað út úr mínu hjarta Z. Natan.
Og svo furða karlmenn sig á að við (konur) erum ekki alltaf sáttar við hversdagslegu rómantíkina...

6/12/04 01:00

Sæmi Fróði

Ég hef hvorki séð auglýsingar né heyrt um þessa mynd, en hlakka til að sjá hana engu að síður eftir þessa umfjöllun [glottir]

6/12/04 01:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Mig hlakkar mest til að þurfa ekki að sjá hana

6/12/04 01:00

Pangúr Ban

Ég er reyndar ekki enn búin að lesa gagnrýnina, en finnst hún anzkoti fyndin.

6/12/04 01:01

Isak Dinesen

Ég þakka góð viðbrögð og skemmtilega umræðu í kjölfarið.

Isak Dinesen:
  • Fæðing hér: 15/3/05 17:21
  • Síðast á ferli: 9/6/14 14:10
  • Innlegg: 1593
Eðli:
(Það skal árétt að þetta er athvarf Isaks Dinesens hins íslenska.)

Heldur að hann viti að hann viti ekkert.

Lærisveinn Þorgríms Þráinssonar.

Uppáhalds tónlistarmenn: Sara Vohan og Dissy Gelle-Spy.
Fræðasvið:
Lesblinda og einkirningasótt.
Æviágrip:
Lifir eins og hann mun deyja - stífur.