— GESTAPÓ —
Bangsímon
Fastagestur.
Dagbók - 10/12/04
Tilfinningaleg þynka

Tequila, þynka og raftónlist.

Ég viðurkenni það fúslega að ég stjórnast af tilfinningum. Ef ég hefði ekki þrár um ást, viðurkenningu og heimsyfirráð mundi ég líklega ekki gera nokkurn skapaðan hlut. En ég vil þó geta stjórnað hvaða tilfinningum ég læt undan. En sumar tilfinningar eru þó frekar.

Ég datt í það á laugardaginn. Mikið djöfull varð ég fullur. Þarfagreinirinn og Lítið Laufblað voru þar líka, en Laufblaðið var skynsamt og fór snemma heim í háttinn. Það helsta sem ég hef á móti áfengisdrykkju er þynkan. En þynkan sem ég hræðist einna mest kemur samt þó ekki daginn eftir heldur einum til tveim dögum seinna.

Ég kalla þetta tilfinningalega þynku, þar sem það kemur einhverskonar ský yfir sálina í nokkra daga eftir stórtæka drykkju. Þá blása kaldir vindar um hjarta mitt og huga. Ég skammast mín fyrir gjörðir mínar og tel tilvist mína vera tilgangslausa. Það elskar mig engin og ég mun aldrei verða að manni. En samt sem áður veit ég vel afhverju mér líður svona. Það gerir þetta aðeins bærilegra. Aðeins. Þetta er samt helvíti að ganga í gegnum. Þetta eru tilfinningar sem ég vil ekki láta stjórnast af, þar sem þetta eru í raun gervitilfinningar.

En á mánudaginn seinasta þegar mér leið einna verst samdi ég þetta lag á tölvuna mína: Sunmix.mp3. Það fjallar svona nokkurn veginn um að mig langi til að eiga kærustu sem ég er ástfanginn af. En hérna er eiginlega dæmi um hvernig maður getur notað slæmar tilfinningar til að skapa eitthvað jákvætt.

   (12 af 16)  
10/12/04 05:00

Þarfagreinir

Já, svei mér þá ef hið versta svartnætti fæðir oftar en ekki af sér hina fallegustu birtu. Þetta þekki ég vel sjálfur. Lagið er fagurt, og þú mátt vera ánægður með þetta sköpunarverk þitt.

10/12/04 05:00

Hakuchi

Til hvers í ósköpunum ertu að drekka þig pissfullann ef ókostirnir eru svona geigvænlegir? Hættu því bara. Temdu þér hóf í drykkju eða algert bindindi í staðinn.

Andskotinn. Ég er farinn að hljóma eins og Dr. Phil. Afsakið meðan ég æli.

10/12/04 05:00

Litla Laufblaðið

Ég er náttúrulega skynsöm með eindæmum, og hef yfirleitt alltaf rétt fyrir mér. Þessvegna verðurðu að trú mér þegar að ég segi það verður allt í lagi elsku Bangsi. Vittu til. Já og lagið er mjög fallegt. [Ljómar upp]

10/12/04 05:00

Skabbi skrumari

Ég kannast við þetta, flest mín svörtustu kvæði hafa orðið til í þessu ástandi...

10/12/04 05:01

Prins Arutha

Maður kannast við þessa gerð af þynnku, held að allir þekki þetta og hafi þurft að ganga í gegnum það einhverntíma. þetta er góð músik og vel útfærð hjá þér Bangsi.
Lifðu heill!

10/12/04 05:01

Skabbi skrumari

Já flott lag... ljómandi...

10/12/04 05:01

Kikyou

jahá...

10/12/04 05:01

blóðugt

Dettu bara aftur í það á mánudegi. Þá er þér slétt sama hvað þú gerðir á laugardagskvöldið.

Víst er þetta góð hugmynd...

10/12/04 05:01

Bangsímon

Takk fyrir. Myrkrið er ágætis rammi fyrir ljósið.

10/12/04 05:01

Ísdrottningin

það væri ekki til skuggi ef ekkert væri ljósið...
Takk fyrir síðast annars. [ljómar upp]

10/12/04 05:01

Bangsímon

Takk sömuleiðis. [Ljómar líka upp]

10/12/04 05:02

Texi Everto

Sá sem fullur alltaf er
aldrei verður þunnur

er hluti af kveðskap sem var fluttur á árshátíðinni.

10/12/04 05:02

Glúmur

Þunnurdagur þyngir kinn,
þykir afar miður.
Bindindi er Bangsi minn,
bísna góður siður.

Mætt er að forðast mislyndi
mitt í reykjarkófi.
Best er að stunda bindindi,
í hófi.

Og takk fyrir síðast! [Ljómar upp]

Bangsímon:
  • Fæðing hér: 23/2/05 17:46
  • Síðast á ferli: 5/9/13 01:31
  • Innlegg: 455
Eðli:
Það er betra að vera tveir heldur en einn, því Skemmtilegt verður tvöfalt skemmtilegra þegar maður er tveir, og Leiðinlegt verður bara hálf leiðinlegt.
Fræðasvið:
Ég veit ekki mikið, en ég get spurt vini mína.
Æviágrip:
Ég varð augljóslega til í fortíðinni, þar sem ég er til núna. Veit samt ekki hvað ég var að gera áður en ég varð til. Líklega það sama og núna. Núna er ég að gera það sem ég mun gera á eftir. Ég veit ekki hvað það verður, en ég vona að það verði eitthvað mjög skemmtilegt.