— GESTAPÓ —
Ísdrottningin
Heiðursgestur.
Dagbók - 4/12/05
Riddaramennska

Er ekki alveg útdauð enn.

Í dag fór ég eins og nánast allir aðrir í Bónus til að kaupa inn til helgarinnar. Sú ferð væri nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að það var svo smekkfullt í Bónus að myndast höfðu geigvænlega langar kassabiðraðir.
Þar eð ég átti óhægt um vik að eyða því sem eftir lifði dags í kassaröðinni og ég átti enn eftir að tína til mestanpart matvörunnar voru góð ráð dýr og stóð ég í vandræðum mínum við enda einnar kassaraðarinnar og hugleiddi gang mála.
Þá kemur þar að myndarlegur ungur maður með litla innkaupakörfu og stillir sér upp fyrir aftan mig og þar með var ég lent í röðinni án þess að hafa lokið innkaupunum. Nú voru góð ráð dýr..... svo ég gef mig að unga manninum og tek hann tali og semst okkur svo um að hann tekur að sér að ýta innkaupakerrunni minni á undan sér og gefur mér þannig færi á að vera á þönum um alla búð við að tína til allar þær matvörur sem hugurinn girntist.
Svo þið sjáið gott fólk, riddaramennskan lifir enn.
Ég náði að klára innkaupin í tæka tíð þökk sé hugulsemi þessa ókunna manns og kann ég honum mínar bestu þakkir fyrir.

Lifið heil og sæl
Ísdrottningin

   (13 af 33)  
4/12/05 13:00

Jarmi

Hleyptir þú honum svo fram fyrir þig?

4/12/05 13:00

Ísdrottningin

Við ætluðum að hafa það svoleiðis en á síðustu stundu barst honum símtal sem var greinilega beiðni um að kaupa eitthvað. Þannig fór svo að ég gætti körfunnar hans á meðan hann hljóp eftir því en þá var akkúrat komið að okkur á kassanum. Ég endaði því á undan...

4/12/05 13:00

Jóakim Aðalönd

Snilld! Ég hef lent í þessu líka. Ég skellti mér í röðina með tóma körfu og konan fyrir aftan mig féllst á að ýta henni áfram.

4/12/05 13:00

Jenna Djamm

Veistu Ísdrottning, mér finnst þetta flott hjá þér.

4/12/05 13:01

krumpa

Þú semsagt svindlaðir þér (með daðri og fleðulátum) á undan minna kynferðislega kósí konum - stalst plássi í röðinni - meðan aðrir þurfa að láta sér lynda að bíða! Aldeilis eitthvað til að stæra sig af!

Segi bara svona, auðvitað er alltaf gaman að pikka fólk upp í kjörbúðum, og samvinna er alltaf góð - en það er hægt að horfa á þetta frá ýmsum hliðum...

4/12/05 13:01

Húmbaba

Ég lít á þetta sem byrjun á feiknamiklu ástarævintýri. Ætli drengurinn sé ekki kominn á sama tíma að viku að bíða þín til að ná nafninu þínu

4/12/05 13:01

Nermal

Það er þá enn til greiðvikið fólk. Ég lendi að vísu alltaf í röðini sem verður vesen í, svona vantar verð og fólk sem þarf að borga í klinki, skipta upphæðini og fá reikning fyrir.

4/12/05 13:01

Herbjörn Hafralóns

Ég segi eins og Nermal að röðin, sem ég lendi í gengur alltaf hægast og ef ég færi mig í aðra röð, flyst hægagangurinn bara þangað líka.

4/12/05 13:01

Hakuchi

Þó þetta sé sannarlega greiðvikni hjá unga manninum og kurteisi þá held ég að þetta hafi ekkert verið kurteist gagnvart þeim sem hafa staðið fyrir aftan í röðinni.

Hér er athyglisverð siðferðisspurning. Á að hrósa unga piltinum fyrir hjálpsemi við aðra manneskju, eða á að skamma hann fyrir að hafa gefið hinum í röðinni langt nef?

Ef við tökum kantíska pólinn í hæðina þá ættum við að hugsa málið til enda sem almennt lögmál, þ.e. ef allir myndu stunda svona nokkuð. Ég er ekkert viss um að það sé sérlega sniðugt. T.d. myndu pör fara inn í búð, einn aðilinn myndi rjúka í röð og hinn myndi tína saman vörurnar. Nei þetta gengur ekki og getur varla talið siðlegt, svona kantískt séð amk.

En er þetta siðlegt út frá siðfræði Mills, sem gegnsýrir (blessunarlega) vestræna hugsun? Svarið við því er þvert nei. Millsíska skoðunin er í stuttu máli þannig að þér er frjálst að gera það sem þér sýnist svo framarlega sem það kemur ekki niður á öðrum. Þarna fór manneskja í röð sem þurfti ekki að vera í röð, fór burt að versla meðan vitorðsmaður heldur kerru. Skaðinn er augljóslega þeirra sem voru fyrir aftan; aukaleg tímaeyðsla og að ég tali nú ekki um almennt ergelsi.

Afar athyglisvert.

4/12/05 13:01

Ísdrottningin

Hin hliðin á málinu eins og það snýr að mér var sú að prinsessan beið heima sárlasin með háan hita.

4/12/05 13:01

Hakuchi

Á móti má segja það sama um þá sem urðu að bíða lengur. Vogun vinnur, vogun tapar.

4/12/05 13:01

Ísdrottningin

Þegar hjón fara saman út að versla á álagstíma er það ávallt svo að annað stendur við kerruna í röðinni á meðan hitt sækir það sem kaupa á. Slíkt er daglegt brauð í Bónus, af hverju ætti ég þá að skammast mín eða vera með samviskubit yfir því að bjarga mér á þennan hátt?

4/12/05 13:01

Hakuchi

Ég hef ekki orðið sérstaklega var við þessa iðju hjá hjónum verð ég að skrifa. Og ef einhver hjón stunda slíkt eru þau undir sömu sök seld að sjálfsögðu. Amk. ef miðað er við kantíska og millsíska siðferðisvitund.

4/12/05 13:01

Ísdrottningin

Prófaðu að fara í Bónus í Smáranum milli 17 og 18 fimmtudaga, föstudaga og jafnvel laugardaga. Sérstaklega fyrir stærri helgar.
Vinkonur og hjón gera þetta svona og engum þykir neitt athugavert við það. A.m.k. hef ég aldrei orðið vör við að það sé sagt neitt við þá sem slíkt stunda. Ég hef hins vegar oft öfundað þá sem hafa tök á að margmenna svona í innkaupaferðirnar.

4/12/05 13:02

Jóakim Aðalönd

Bezt er að gera magninnkaup á fimmtudegi eða jafnvel fyrr til að sleppa við raðir. Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af Kant og Mills.

4/12/05 14:00

Hakuchi

Ég er nú yfirleitt í Bógus á háannatíma en ég hef aldrei tekið eftir þessu en á móti hef ég hef oft verið sakaður um takmarkaða athyglisgáfu og gæti það átt við hér.

En vont er og siðlaust, ef satt er.

Ísdrottningin:
  • Fæðing hér: 29/1/05 23:15
  • Síðast á ferli: 22/3/19 23:37
  • Innlegg: 1261
Eðli:
Virkur hálendisfíkill, símálandi og föndrandi söngfugl og mikil áhugamanneskja um það ástkæra ylhýra.
Fræðasvið:
Allt og ekkert að sveitamannasið