— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Pistlingur - 4/12/06
Lögbrot - játning.

Pistlingur þessi hefur áður verið birtur (í tveimur hlutum) á moggablogginu.

"Nei, nú gengu þeir of langt!" "Kærum þá!" "Er í lagi að brjóta lög, svo lengi sem það er fyndið?"

Æ, látið ekki svona. Heilagar kýr eru til þess eins gerðar að skopast að og gagnrýna. Hvort sem menn höfðu húmor fyrir þessu uppátæki eður ei, er það staðreynd að samkvæmt lögum er þetta bannað. Hinsvegar eru lögin ólög að því leyti að þau skerða tjáningarfrelsið, og þessvegna "í lagi" að brjóta þau.

Mig langar að játa á mig gróft lögbrot, sem ég framdi fyrir nokkrum árum, móður minni til hneykslunar. Ég skemmdi fánann. Já, ég, Tinna Gunnarsdóttir Gígja, afskræmdi þjóðfána Íslands, og mér fannst það bara allt í lagi. Til að bæta gráu ofan á svart var fáninn stolinn.

Tildrög þessa hryllilega glæps voru þau að ég "fann" fána (ég tek það fram að hann lá á gólfi, sem einnig er brot á fánalögum, svo í raun var ég að bjarga honum) og tók hann með mér heim. Um sumarið var ætlunin að fara á Hróarskeldu með stórum hópi fólks, og okkur vantaði einhverskonar merki, sem venja er á hátíðinni. Brugðum við því á það ráð að rita nafn tjaldbúðanna á fánann með skærappelsínugulu spreyi. Búðirnar báru hið virðulega nafn "Camp Kunta" og hugsanlega finnst einhverjum það auka háðung fánans. Við tókum fánann svo með okkur á hátíðina, festum hann við tjald með teipi, og enginn minntist á þennan hryllilega glæp, nema til að vara okkur við ef vera skyldi að myndir af voðaverkinu birtust í íslenskum fjölmiðlum.

Í dag liggur fáninn samanbrotinn eftir kúnstarinnar reglum í skápnum mínum og safnar ryki. Hann er enn þyrnir í augum móður minnar.

Með þessu vítaverða athæfi braut ég (ásamt vitorðsmanni) eftirfarandi lög:

Lög nr. 34 17. júní 1944

4. gr. Engin önnur merki en þau, er greinir í 2. og 3. gr*., má nota í þjóðfánanum.

*Tollgæzlu-T og skjaldarmerki Íslands í fána forsetaembættisins.

6. gr. Þjóðfánann skal draga að hún á þar til gerðri stöng.

7. gr. Með [reglugerð]1) skal kveða á um fánadaga og hve lengi dags fánanum megi halda við hún.

12. gr. Enginn má óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki.
Óheimilt er að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar.

Lög nr. 5 23. janúar 1991:

3. gr. Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi uppi vera lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.

14. gr. Brot gegn 4. og 5. gr. og 1. mgr. 12. gr. varða sektum …1) eða fangelsi allt að einu ári.
Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara og gegn forsetaúrskurðum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum.

Mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.

Hvað segið þið, haldið þið að ég verði kærð?

Að lokum legg ég til að Ísland er land þitt verði gerður opinber þjóðsöngur, í stað þessa niðurdrepandi guðslofrullu eftir Matta Joch. Kommon! Hvort er betra;

"Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut."

eða

"Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full."

?

Í seinna laginu er einu sinni minnst á guð, og þá óbeint: "Ísland sé falið þér, eilífi faðir." Í þjóðsöngnum er tíu sinnum minnst á "Guð", enda heitir söngurinn Lofsöngur, og fjallar ekki um Ísland, heldur Guðinn hans Matta. Þið vitið, þessi sem þjóðkirkjumenn trúa á og á að vera aðskilinn frá ríkinu. Sá Guð.

---

"Eftirleiðis skal það vera á valdi biskupanna, að veita leyfi til þess, að börn séu tekin til fermingar, þó að nokkuð vanti á, að þau hafi náð hinum lögboðna 14 ára aldri. Slíka undanþágu má þó eigi veita, nema svo sérstaklega sé ástatt um hagi foreldranna eða ákvörðun barnsins, að hún verði að álítast áríðandi fyrir velferð þess, og auk þess skal þess nákvæmlega gætt, að barnið hafi að fullu öðlast þá þekkingu, sem gert er ráð fyrir í skólatilskipununum, og að siðferði þess sé svo, að ekkert geti að því leyti verið til fyrirstöðu slíkri ívilnun. Það má heldur ekki vanta nema lítið á aldur barnsins, ef undanþágan á að fást, og jafnvel þótt allt annað mæli með undanþágunni, eigi meira en 6 mánuðir. Að öðru leyti skal biskup leita álits hlutaðeigandi prests og prófasts, áður hann veitir undanþáguna."

Er þessum lögum fylgt? Samkvæmt þeim má barn ekki fermast, segjum fimmta apríl 2007, ef það er fætt eftir fimmta október 1993. Ég sé fyrir mér kirkjulöggur ryðjast inn í Bústaðakirkju og heimta skilríki af fermingarbörnum, og handtaka prestinn, sem er dreginn út, öskrandi "Nei! Ég var svo nálægt! Ódauðleg sál þeirra skal verða mín! Mwahahahaha!"

Úr sömu lögum:

"Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti vakið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist."

"Já, það er kannske betra að Jónas fermist bara heima. Koma hans í kirkju gæti valdið hneyksli. Það sjá nú allir að þessi fæðingarblettur er ógeðslegur. Konur og börn gætu fallið í yfirlið við að sjá hann!"

" Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta."

Jahá.

"Kirkjunum skal halda hreinum og rúmgóðum á sunnudeginum, og má þar eins lítið á öðrum sem á þeim degi finnast fatnaður eður sængurklæði, gós eður vara, hneykslilegar myndir, eða þær, sem stríða móti þeirri evangelisku religion, með því að slíkt er óviðurkvæmilegt og ekki samhljóðandi við þau heilögu verk, sem þar eiga fram að fara. Þó mega kistur standa þar með því, sem kann að vera geymt í þeim, hvar ekki eru stólar eður bekkir að sitja á. Einnig, hvar loft eru í kirkjum með læsing fyrir, þar má geyma hreinlega hluti, sem ekki gefa illan daun af sér, ellegar eru á annan hátt ósæmandi í þeim stað. En engin annarleg höndlan má hafast um hönd í kirkjunni. Annars skal hver sá, sem gerir á móti þessu, sekjast einu lóði silfurs fyrir hvert sinn."

Andskotans. Ég bara er ekki með eitt lóð silfurs handbært í augnablikinu.

"Prestarnir á Íslandi skulu, hver einn fyrir sig, vera skyldir til, í minnsta máta tvisvar á ári, að vitja þeirra safnaðar í þeirra hús og híbýli, og það hvers húss og bústaðar í þeim sama; en hvar sóknin er lítil, ellegar engin annexía finnst, skal hann oftar taka sér fyrir þessa nauðsynlegu höndlun, hvar með prófasturinn í hverju héraði skal hafa kostgæfilega tilsjón, og sömuleiðis biskupinn með sérhverju tækifæri alvarlega tilhalda honum viðkomandi próföstum og prestum, að þeir forsómi hér ekkert í. Finnist nokkur prestur vanrækinn þar í, þá áminnist hann í fyrsta sinni af prófasti, en verði það annað sinn, þá mulcterist hann eftir síns kalls inntekt, og sinni formegan, hverri peningamulct að víxlast skal til fátækra barna uppfræðingar."

Þessum lögum er greinilega ekki framfylgt.

"Hinn 7. þ.m. hefir Hans hátign allramildilegast þóknast að úrskurða, að þegar kirkjur eru byggðar að nýju, þá skuli öllum hurðum þannig hagað, að þeim verði lokið upp að innan og gangi út."

Ætli hans háæruverðuga tign, skínandi mildi og hrífandi herlegheit hafi verið lengi að pæla í þessu?
---

   (11 af 43)  
4/12/06 03:01

Billi bilaði

NEI TAKK! Ekki „Ísland er land þitt“.

4/12/06 03:01

krossgata

Eru löng félagsrit málið í dag?
.
Skemmtilegar ábendingar. Ég rak augun, svo small í, í: "Kirkjunum skal halda hreinum og rúmgóðum á sunnudeginum, og má þar eins lítið á öðrum sem á þeim degi finnast fatnaður eður sængurklæði, ...". Er búist við að kirkjur séu ekki í þessu ástandi aðra daga og af hverju í ósköpunum er búist við sængurklæðum í krikju?
[Klórar sér í kollinum]

Það er fullt af lögum sem ekki er farið eftir og að þau séu ekki uppfærð eða notuð eftir geðþótta, úrelt og óhæf grefur undan virðingu við lög. Það er löggjafans að bæta úr. Borgararnir ættu kannski að fara að krefja löggjafann um að farið sé í tiltektir.

4/12/06 03:01

Grágrímur

Ég hef aldrei komið í óhreina kirkju né hef ég nokkurntímann séð neinn vera að skúra kirkju... þannig að ég er á því að kirkjur verði ekki skítugar... og þannig veit maður að húsið sé kirkja...

4/12/06 03:01

Regína

Kirkjur voru fyrr á tíðum notaðar sem geymsluhúsnæði, enda ónotaðar flesta daga ársins og stóðu í hlaðinu á betri bæjum. Handhægt að henda einhverju þar inn í rigningu. Líklega þess vegna sem þetta með ,,hreinar og rúmgóðar á sunnudögum" var sett í lög.

4/12/06 03:01

Hakuchi

Ísland er land þitt er nú einhver viðbjóðslegasti þjóðrembusöngur allra tíma. Nær væri að notast við Ísland ögrum skorið, nú eða Fatlafól Megasar.

4/12/06 03:01

krossgata

Ég er þeirrar skoðunar að þjóðsöngur eigi að innihalda þjóðrembu á háu stigi. Við Íslendingar eigum ekki í nokkrum vandræðum með þjóðrembu og stundum hana hvar og hvenær sem tækifæri gefst, miðað við höfðatölu.

4/12/06 03:01

Grágrímur

Nýja Baggalútslagið finnst mér vera tilvalin sem þjóðsöngur... en ekki það að mér finnst að það ætti að skipta...

4/12/06 03:02

Ívar Sívertsen

Ísland er land þitt er einhver ömurlegasta vella sem til er. Lofsöngur er góður þjóðsöngur og engin ástæða að skipta honum út. Hins vegar mætti gera eins og sums staðar annars staðar í heiminum og vera með hátíðarsöng sem sunginn er á hátíðlegum stundum sem ekki þykja hæfa fyrir þjóðsönginn, svo sem íþróttakappleiki og annað í þeim dúr. Mæli ég með Hver á sér fagra föðurland, Rís þú unga Íslands merki eða Ísland ögrum skorið eins og Hakuchi nefnir. En Lofsöngur er og verður þjóðsöngur íslendinga um aldur og ævi.

4/12/06 03:02

Hakuchi

Það er munur á viðbjóðslegri þjóðrembu og þjóðrembu.

4/12/06 03:02

Carrie

Ég hef alltaf heillast af Land míns föður og dreymt um það sem þjóðsöng minn. Það er þó ekki allra að syngja það en ég get sungið það og það er fyrir öllu. Ég vel það þegar við skiptum um þjóðsöng.

4/12/06 03:02

Dula

Nennti ekki að lesa þetta heldur, en ég held að þetta hafi verið hið ágætasta rit.

4/12/06 03:02

Jarmi

Ég skil ekki þetta félagsrit. Og hver er Tinna Gunnarsdóttir Gígja?

4/12/06 03:02

krumpa

Ágætasta rit - alla vega svo langt sem ég komst í lestrinum... Ég er reyndar leiðinlega íhaldsöm og kann bara vel við þjóðsönginn - þrátt fyrir alla hans galla!

4/12/06 04:00

Bölverkur

"og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf"

þessi steypa er ömurleg bragfræði og stuðullinn sem ágætur Mattías velur er h í hertogi.

Þvílíkur leir!!!

4/12/06 04:00

Jarmi

Enda er ekki á færi fólks með brageyra að syngja þetta án klígju.

4/12/06 04:00

hvurslags

Land míns föður er yndislegt lag við enn betri texta. Hins vegar kemur Ísland ögrum skorið líka sterklega til greina sem hinn nýi þjóðsöngur, það er stutt og laggott.

(Þó hallast ég frekar að Land míns föður)

4/12/06 04:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Gagnmerkt rit, & heilnæmar vangaveltur.
Umræða um fánareglur & þjóðsöng verður reyndar oftast fremur kostuleg.

4/12/06 04:02

Jóakim Aðalönd

Allt annað en ,,Lofsöngur". Það er ömurlegast af þessu öllu. Hvað í fjandanum á ég (sem trúi barasta alls ekki á guð) að syngja þegar aðrir standa upp og syngja þjóðsönginn? Þetta er hrein og klár mismunun og ekkert annað!

4/12/06 04:02

Hakuchi

Það væri fróðlegt að fá saminn pólítískt rétthugsandi þjóðsöng sem stuðaði alls engan.

4/12/06 05:00

Upprifinn

Þetta var líka of langt.

4/12/06 06:02

Jóakim Aðalönd

Hvaða óskapar leti er þetta eiginlega...?

4/12/06 01:00

Tina St.Sebastian

Segi það! Andskotans lesleti...

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006