— GESTAPÓ —
Gvendur Skrítni
Fastagestur.
Dagbók - 2/12/04
Draumur um niðurbrot vilja og sálar

Kæra dagbók, í nótt dreymdi mig einn af þessum draumum sem sannfæra mig um að draumar geti ekki bara verið upprifjun minninga og tilfinninga sem heilinn hefur upplifað áður.

Draumurinn byrjaði þannig að ég var staddur í fyrrum húsi foreldra minna, þar sem ég ólst upp. Ég var þarstaddur inni í eldhúsinu sem var illa farið, í niðurnýðslu og sumstaðar göt á veggjunum. Fyrir utan gluggann sé ég þá stærðarinnar tígrisdýr, illt að sjá. Tígrisdýrið færist hægt og rólega nær húsinu uns ég sé það ekki lengur út um gluggann vegna þess hversu nærri veggnum það er komið. Uggur fer um mig, ég heyri þrusk inni í einum eldússkápnum og ég kíki inn í hann. Sé ég þar risastórann haus tígrisdýrsins sem er að troða sér inn um stærðarinnar gat í veggnum. Ég hljóp út úr eldhúsinu (en fannst það þó taka heila eilífð, fannst sem ég hlypi á 2km hraða).
Þegar út úr eldhúsinu var komið lokaði ég hurðinni og ákvað að hringja á hjálp. Hverskonar dýr hegðar sér svona? Illa brugðið greip ég í símann sem staðsettur var nærri eldhúshurðinni og ætlaði að hringja í 112, síminn var gamall grár skífusími. Í þá mund heyri ég að verið er að krafsa í hurðarhúninn á eldhúshurðinni og ég fer að efast um öryggi mitt. Hjartað sökk þegar ég uppgötvaði að það var enginn stoppari á skífunni þannig að ómögulegt var að vita hvar ætti að hætta að snúa skífunni og því ómögulegt fyrir mig að hringja á hjálp. Einmitt þá heyri ég að hurðin opnast og ég geri mér grein fyrir því að ég verði að forða mér. Ég hleyp (enn á löturhraða að því er mér fannst) inn í annað herbergi þar sem ég vissi að væri lykill til að læsa hurðinni og takka sími, tígrisdýrið slapp úr eldhúsinu og sótti á eftir mér.
Ég komst í herbergið og lokaði hurðinni. Mér til skelfingar sá ég þá að lykillinn sem oftast var þar í skránni var ekki á sínum stað. Tígrisdýrið var komið að hurðinni þegar ég sá lykilinn á skrifborði í herberginu. Þegar ég seildist eftir lyklinum byrjaði dýrið að krafsa í húninn, greinilega staðráðið að komast að mér. Ég stökk á hurðina og lyfti upp hurðarhúninum og byrjaði að reyna að læsa. Hinum megin við hurðina lagðist 400 kílóa tígrisdýrið með meiri og meiri þunga á hurðarhúninn. Ég hélt húninum uppi af lífs og sálarkröftum með hægri hendi á meðan ég notað vinstri hendina til að reyna að koma lyklinum í skránna, skjálfhentur af hræðslu og áreynslu þá virtist það einfaldlega ekki takast. Var þetta ekki rétti lykillinn? Hvað gerist ef ég get ekki læst? Hræðslan magnaðist og ég hugsaði hvort mér ætlaði virkilega ekki að takast að framkvæma svona hversdagslegt verk, jafnvel þótt líf mitt lægi við. Þunginn á hurðarhúninum var að sliga mig og lykillinn skalf og leitaði við skráargatið en neitaði að fara inn. Ég neitaði að trúa því að þetta væri að gerast. Hurðahúnninn fór að síga niður á við og mér leið eins og að þungi tígrisdýrsins á hurðinni myndi brátt hrinda henni upp þegar lykillinn small allt í einu í skránna og með hjartaléttandi snúningi náði ég að læsa. Ég var öruggur.
Ég hljóp í símann og hringdi í 112, en þá heyri ég mér til hryllandi skelfingar í tveggja ára dóttur minni sem er frammi að kalla á mig og leita að mér. Ég lamast af ótta og reyni að kalla á hana að láta ekki heyra í sér en varla kemur hljóð upp úr mér, ég reyni að kalla af lífs og sálar kröftum og vara hana við en einungis hálf-hvísluð orð koma út. Hvaða von var annars fyrir hana að sleppa? Hvernig gæti hún sloppið frá svo illvígu kvikindi? Hjarta mitt brotnaði og blæddi við tilhugsunina um stelpuna mína að leita að pabba sínum en vera mætt af skelfilegri skepnunni. Og hvað gæti ég gert, annað en að ana í ginið á tígrisdýrinu fyrir framan hana, hræðslan heltók mig þessi sekúndubrot sem ég beið eftir að heyra fyrstu hinginguna í símtólinu. Ég stökk að hurðinni, tók lykilinn úr skráargatinu og kíkti fram. Einmitt þá sá ég dóttur mína ganga fram hjá hurðinni siðan tígrisdýrið sallarólegt á eftir. -- draumur endar.
Hvílík hræðsla, hvílík berjandi, lamandi, drepandi hræðsla sem ég upplifði, einungis örfá skipti hef ég upplifað slíkt - og þá bara í draumi.
Það sem mest truflar mig er að eftir að ég komst að því í draumnum að dóttir mín væri frammi þá gat ég ekkert gert. Í stað þess að snúa lyklinum og ganga fram, eða opna hurðina, hleypa tígrisdýrinu inn til mín og reyna að læsa okkur inni, þá gerði ég hvorugt, í stað þess að snúa lyklinum og gera EITTHVAÐ þá tók ég hann úr skránni og kíkti fram eins og versta dusilmenni. Reyndar virtist allt blessunarlega vera í lagi, dóttur minni virtist ekki stafa hætta af dýrinu en miðað við drauminn hefði þetta getað farið mun verr.
Við ég erum ekki sáttir við hvorn annan í dag.

   (5 af 11)  
2/12/04 14:01

Nafni

Þér veitir ekki af svo sem eins og einu ákavítisstaupi í kveld.

2/12/04 14:01

Þarfagreinir

Var þetta nokkuð Tigra?

2/12/04 14:01

Gvendur Skrítni

Nei, þetta var svona appelsínugult Tígrisdýr, Tígra er eitthvað fágætt kóbaltafbrygði held ég.

2/12/04 14:01

feministi

Já svona deymir bara þá sem láta ekki allt eftir börnunum sínum. Er það ekki bara tilfellið að þú neitaðir að gefa henni Frosted Cheerios (barnafóður með mynd af tígrisdýri) í kvöldmat í gærkvöldi og við það fór hún að grenja?

2/12/04 14:01

Steinríkur

Áttu dóttur? Ertu þá ekki 12 ára?

2/12/04 14:02

Skabbi skrumari

Mórallinn við þennan draum er að túlka viðbrögð þín við honum... þú ert hundfúll út í sjálfan þig yfir þessu og skammast þín fyrir það... það sýnir bara best hversu góður pabbi þú ert Gvendur minn... Salút...

2/12/04 14:02

Gvendur Skrítni

Hehe, takk fyrir það Skabbi, og líklega er ég í þeim hópi sem lætur ekki allt eftir börnunum sínum, það er nokkuð til í því. Og Steinríkur, ég er kannski bráðþroska en ég er ekki svo bráðþroska þar átt þú víst vinninginn hef ég heyrt.

2/12/04 15:00

Steinríkur

Ég bráðþroska? -Sjénsinn, benzinn.

En ef við erum að fara út í draumaráðningar myndi ég ráða hann svo að þú sért með einhverjar áhyggjur sem tengjast þínum grundavallargildum (húsið). Þú þorir ekki að "feisa" þær (læsir) en þar sem meira að segja smábarn sér að þetta er hættulaust má ætla að þetta óþarfa áhyggjur. [hér myndi ég setja "skræfan þín" ef ég væri þannig innrættur (og gæti minnkað textann) en það ætla ég ekki að gera]

Svo gæti líka verið að þú eigir bara klikkaða tengdamömmu...

2/12/04 15:00

Gvendur Skrítni

Nú jæja, biðst afsökunar á dylgjunum, mig minnti bara að eftir atvikið með seiðpottinn hefðirðu alltaf verið álitinn - svona á undan þinni samtíð skulu vi segja...

2/12/04 15:01

Nornin

Ég verð að vera sammála Skabba.
Mér finnst það að þú sért ekki sáttur við sjálfan þig eftir viðbrögðin í draumnum benda eindregið til þess að þú sért frábær pabbi. Dóttir þín er heppin.

2/12/04 16:02

Steinríkur

Mér finnst það að þú skulir ekki gera neitt engan veginn til fyrirmyndar - en viðbrögðin benda til þess að þú sért bráðefnilegur í þeirri deildinni.

En batnandi mönnum er best að lifa... - vonandi var þessi draumur "wake-up call" fyrir þig. Börnin þín verða stálheppin þegar þú loksins þorir að takast á við föðurhlutverkið.

Gvendur Skrítni:
  • Fæðing hér: 21/12/04 11:24
  • Síðast á ferli: 22/12/09 11:38
  • Innlegg: 248
Eðli:
Hér er ekki að finna stutta umsögn um Gvend Skrítna - áhugasömum er vinsamlegast bent á að afla sér vitneskju annars staðar eins og t.d. í hálfkæringslegu æviágripi Gvendar eða þá í málsgrein fræðasviða Dr. Skrítins. Fólki er einnig frjálst að gera sér í hugarlund hverskonar vitneskju um Gvend Skrítna.
Fræðasvið:
Arfavitlaus hegðun auk innilegrar áráttu til að endurspegla umhverfi sitt - með öfugum formerkjum.
Æviágrip:
Komið þið öll hjartanlega sæl og blessuð,Ég heiti Guðmundur og er af flestum talinn nokkuð gloppótur. Vinir mínir kalla mig Gvend Skrítna, aðrir kalla mig ýmist "Skrítna Gaurinn" eða "Æ, hann þarna - með gleraugun - og dökkt hár". Hvað sem því líður, gaman að hitta ykkur öll, vonast til að falla í hópinnGvendur Skrítni