— GESTAPÓ —
Stelpið
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 1/11/05
Deliverance

Hugljúf skemmtun fyrir alla fjölskylduna (Boy, you are a lost one, ain\'t ya?)

Fyrir skömmu sá ég kvikmyndina þekktu Deliverance í fyrsta sinn.
Hafði ég heyrt að þar væri stórverk á ferð sem á einhvern óljósan hátt hefði með svín að gera.
Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.
Þetta er afar falleg mynd um sterka vináttu nokkurra ungra manna og bátsferð þeirra niður hina ægifögru Cahulawassee á og má í rauninni segja að fegurð vináttu þeirra speglist í stórbrotnu og undursamlegu landslaginu. Á leiðinni kynnast þeir svo skemmtilega skondnum sérvitringum og svínaræktandi fjallamönnum og læra margt nýtt af samskiptum sínum við þá.
Athyglisvert fannst mér að félagarnir voru í rauninni samsettir eins og hið prýðilegasta strákaband: Burt Reynolds var karlmannlegi töffarinn Lewis (afar kynþokkafullur ef mér leyfist að segja svo), Ronny Cox leikur nördið/tónlistarmanninn Drew, Ned Beatty er þybbni gaurinn Bobby og síðast en ekki síst höfum við Jon „Pretty Boy“ Voight í hlutverki barnslega góða gaursins Ed.
Það má í rauninni segja að myndin segi þroskasögu Eds, frá því að vera óttalegur kiðlingur breytist hann í ungan hafur sem gerir það sem gera þarf fyrir vini sína.

Tónlistin er einnig veigamikið atriði í myndinni og ógleymanlegt er banjóeinvígið fræga þar sem hinn ungi Billy Redden (16 ára) var látinn leika banjóspilara af innbrigsluðum ættum. Gaman reyndar frá því að segja að hann var eini leikarinn í myndinni sem raunverulega var frá þessum slóðum og var valinn sérstaklega úr í grunnskólanum sínum vegna sérstæðs útlits hans.

Myndin nálgast einnig hið viðkvæma viðfangsefni sem kynferðisleg misnotkun er af einstakri alúð og varfærni.

Meira vil ég nú ekki gefa upp af ótta við að spilla söguþræðinum en hvet í staðinn alla eindregið til að leigja sér þessa mynd - þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

   (2 af 8)  
9/12/04 21:01

Heiðglyrnir

Hugljúf gagnrýni, sem bætir myndalegum lurk á elda góðra minninga.

9/12/04 21:01

Þarfagreinir

Ég sá þessa mynd fyrir ekki svo löngu. Hún situr enn í mér, enda er hún feiknagóð. Lagið Duelling Banjos sem banjóspilarinn ungi leikur og spilar mikinn þátt í myndinni er sérlega eftirminnilegt. Leikarahópurinn er síðan auðvitað einstaklega vandaður og samstilltur.

Klassísk mynd, ekki spurning.

9/12/04 21:01

Stelpið

Þarfi: ég stóð einmitt í þeirri meiningu fyrst að Billy sjálfur hefði spilað þetta en svo er nú reyndar ekki. Dueling Banjos var útsett og spilað af Eric Weissberg og Steve Mandel.

9/12/04 21:01

Hakuchi

Sammála þessu. Afar góð mynd. Gott hjá þér að minnast á hana.

9/12/04 21:01

Limbri

Það eina sem ég man úr þessari mynd er einmitt banjóleikur þessa unga herra. Sérlega minnistætt.

3 af 4 í minni bók (og þá bara fyrir banjóleik, þar sem ég man ekki annað).

-

9/12/04 21:01

Númi

Ef Guð hefði tónlistargáfu myndi hann spila á banjó - það er á hreinu.

9/12/04 21:01

Litli Múi

Banjóleikur er gull í mund

9/12/04 21:01

Skabbi skrumari

Þetta hvetur mig til að sjá þessa mynd... takk Stelpið... salút

9/12/04 21:01

Isak Dinesen

Loksins einhver sem skilur þessa mynd. Tímamót.

1/11/05 03:00

hvurslags

ég man bara eftir squeal like a pig...*brestur í grát*

Stelpið:
  • Fæðing hér: 22/11/04 20:14
  • Síðast á ferli: 29/5/15 20:12
  • Innlegg: 1020
Eðli:
Ég er eins og ég er, telpukríli sem getur brugðið sér í allra kykvenda líki.
Fræðasvið:
Kvenlegur yndisþokki og dönnuð fíflalæti.
Æviágrip:
Fæddist fyrir ekki svo löngu síðan og hefur eftir það fátt gert nema vera þæg og góð.