— GESTAPÓ —
Stelpið
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 6/12/04
Litla lirfan ljóta

Varúð - spoilerar!

Fyrir skömmu síðan var dvd disk með tölvuteiknuðu stuttmyndinni Litlu lirfunni ljótu dreift inn á heimili landsmanna.
Þetta ku vera fyrsta íslenska tölvuteiknaða myndin og vann Edduverðlaun árið 2002 fyrir bestu stuttmynd og besta útlit myndar. Ég settist því niður með þó nokkrar væntingar og horfði á þessa mynd með litlu systur minni.
Myndin fannst mér mjög undarlega samansett, hún virkaði á mig eins og röð af hálfklaufalegum atriðum frekar en ein heild og sérstaklega kom söngatriði með þresti nokkrum (sunginn af Bó Halldórs, hverjum öðrum) eins og skrattinn úr sauðarleggnum og var fremur afkáralegt. Einhvers konar tilraun til að gera Disney söngatriði en virkaði bara engan veginn.

Svo fóru allir karakterarnir í myndinni óstjórnlega í taugarnar á mér og er það talsetningunni aðallega um að kenna, fyrir utan talsetninguna á lirfunni sjálfri sem var prýðilega gert af hinni ungu Írisi Gunnarsdóttur. Gamli ánamaðkurinn (Stefán Karl) muldrar eins og tungan komist ekki fyrir í munninum á honum og maríuhænan (Laddi) talar með svo skrækri og afskræmdri röddu að skelfilegt er á að hlýða. Raddirnar þurfa ekki að vera SVONA fáránlegar þó þetta sé teiknimynd fyrir börn...

En síðast en ekki síst, það sem mér fannst langverst við myndina var hvernig boðskapurinn fór fyrir ofan garð og neðan.
Myndin fjallar um lirfu sem er óhamingjusöm því að henni er sagt að hún sé ljót, svipað og þrýstingurinn sem fólk finnur fyrir í nútímasamfélagi að allir þurfi að líta út eins og módelfólk. Ég var að vonast eftir að myndin myndi segja börnum að þau gætu bara alveg verið ánægð og hamingjusöm hvernig sem þau líta út... en staðreyndin er sú að litla lirfan heldur bara áfram að vera frekar skúffuð, þangað til hún breytist í fiðrildi. Þá fyllast hinar pöddurnar lotningu fyrir henni því hún er orðin svo falleg og þá, loksins þá, verður hún hamingjusöm.
Hvað á þetta að segja börnum sem eru eitthvað ósátt við útlit sitt? Bíðið bara þangað til þið verðið falleg einn daginn, þá getið þið orðið hamingjusöm?
Ég varð hreinlega fyrir miklum vonbrigðum með þessa mynd, ég hélt að þarna væri komin mynd með góðum boðskap fyrir börnin en svo reyndist ekki. En hún fær samt sem áður 2 stjörnur því 8 ára gömul systir mín hafði gaman af henni og svo er þetta náttúrulega visst frumkvöðlastarf og gott framtak að búa til svona mynd. Henni var líka dreift í samstarfi við Unicef og Umhyggju þannig að það er gott og göfugt í sjálfu sér, um að gera að styrkja börnin. Bara að myndin hefði verið aðeins betri.

   (3 af 8)  
6/12/04 06:02

Limbri

Frábær umsögn um skelfilega slappa mynd (heyrist mér).

-

6/12/04 06:02

Bölverkur

Þetta er alvöru pistlingur, kein pistlingchen!

6/12/04 06:02

Isak Dinesen

Góð umsögn já - alveg ljóst að ég leigi ekki þessa í bráð. En merkilegt þykir mér hvað þarf alltaf að búa til mikið af lélegu barnaefni.

Boðskapurinn minnir eilítið á Litla ljóta andarungann (d. Den grimme ælling.) En sá varð hamingjusamur fyrst er hann áttaði sig á að hann væri ekki andarungi heldur svanur (ef ég man rétt.) En þó sýnist mér þar liggja mun dýpri boðskapur að baki. Að stundum þurfi að horfa á hlutina í réttu ljósi (fordómalaust) til að sjá fegurðina.

6/12/04 06:02

Hexia de Trix

Söguþráðurinn er einmitt eins og í Litla ljóta andarunganum. Lirfan veit ekki að hún er í raun og veru fiðrildalirfa og heldur að hún verði ljót alla tíð.

Svona litla-ljóta-andarunga sögur eru reyndar ekki alslæmar, þó vissulega megi láta sögupersónurnar verða hamingjusamar áður en þær breyta um ham. Samt sem áður er þetta bara spurning um það hvort hambreytingin sé ekki táknmynd fyrir það að fullorðnast og þroskast - og með þroskanum kemur sá skilningur að útlitið eitt og sér skiptir minnstu máli. Ergo: með þroskanum kemur hamingjan.

6/12/04 07:00

hundinginn

Bzzzzz

6/12/04 07:01

B. Ewing

Slap!

6/12/04 01:02

kolfinnur Kvaran

Þetta er svo mikið "rip-off" af littla ljóta andarunganum að það hálfa væri nóg. Héldu höfundarnir virkilega að maður myndi ekki fatta það ef þeir myndu setja 'ljóta' fyrir aftan lirfuna í stað þess að hafa það fyrir framan.

Stelpið:
  • Fæðing hér: 22/11/04 20:14
  • Síðast á ferli: 29/5/15 20:12
  • Innlegg: 1020
Eðli:
Ég er eins og ég er, telpukríli sem getur brugðið sér í allra kykvenda líki.
Fræðasvið:
Kvenlegur yndisþokki og dönnuð fíflalæti.
Æviágrip:
Fæddist fyrir ekki svo löngu síðan og hefur eftir það fátt gert nema vera þæg og góð.