— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 9/12/05
Landkynning

Byltingin étur börnin sín - Landkynningin sömuleiðis

Í gegnum tíðina hefur alltaf verið talað um landkynningu sem eitthvað jákvætt. Við eigum að kynna landið okkar fyrir hinum stóra heimi. Þá fatta allir hvað þessi litla paradís okkar er frábær og fara að dást að okkur. Útlendingarnir fara jafnvel að koma hingað með þykku peningaveskin sín og við fáum peninga og útlendingarnir fara héðan glaðir í hjarta. Allir voða happí. Landkynning er gott mál. Eða hvað?

Núna erum við búin að standa í súrrandi landkynningu síðustu áratugina á öllum hugsanlegum sviðum. Allt frá ósnortinni náttúru og góðum (eða skrýtnum) mat upp í fegursta kvenfólkið og snarklikkaðasta næturlíf í heimi. Og jújú, við höfum fengið fullt af feitum peningaveskjum í heimsókn. Og jújú sömuleiðis, flestir útlendingarnir fara héðan glaðir í hjarta, áfjáðir í að koma sem fyrst aftur og svo fá hinn alræmda Íslandsvinarstimpil á ennið.

En ég hef áhyggjur af þessu, ég verð bara að segja það... (nei ég er ekki framsóknarmaður).
Þó við ýtum til hliðar allri umræðu um náttúruvernd og virkjanir, þá held ég að náttúran okkar sé ekkert svo ósnortin lengur. Okkur er svo mikið í mun að gera náttúruperlurnar aðgengilegar að það er ekki þverfótað fyrir heilbrigðisvottuðum göngu- og hjólastólastígum að ógleymdum stóru malbikuðu rútustæðunum og klósettkofunum.
Maturinn okkar skrýtni og heimilislegi er alltíeinu orðinn svo flókinn í eldamennsku að hann toppar dýrustu veitingahús Parísar. Ótrúlegustu kúnstir og klækjabrögð ættuð utan úr hinum stóra heimi eru farin að lita séríslensku sunnudagsmáltíðina. Sem nota bene er ekki lengur étin í sunnudagshádeginu, heldur jafnvel á miðvikudagskvöldum.
Og því er nú ver og miður, það er ekki allt kvenfólk á Íslandi fallegt lengur. Því það sem gerði fólkið (líka karlpeninginn) svo aðlaðandi var hið hreina útitekna lúkk. Núna hímir nánast öll þjóðin inni í húsi, daginn út og inn, fyrir framan tölvuskjái eða sjónvörp - og það verður nú enginn útitekinn og geislandi af hamingju við það.

Alþjóðavæðingin hefur tekið sinn toll. Landkynningin skilaði jú sínu, heimurinn er farinn að átta sig á því hvar Ísland er á kortinu. En um leið fórum við Íslendingarnir að tileinka okkur meira af heiminum. Við erum að verða útlönd. Og þá hætta útlendingarnir að koma til okkar.

   (12 af 32)  
9/12/05 10:00

Ívar Sívertsen

Hvað varstu nú að drekka? En grínlaust þá er ég bara nokk sammála þér. Ertu búin að kaupa lærið sem við ætlum að borða annað kvöld með brúnuðum kartöflum, rauðkáli, grænum baunum og brúnni sósu?

9/12/05 10:00

blóðugt

Góður pistlingur, góð hugvekja. Heyrðu, var ekki einu sinni sunnudagshugvekja? Hvað varð um hana? Er hún enn við lýði?

9/12/05 10:00

Hexia de Trix

Ég hélt þú ætlaðir að búa til afbrigði af foie gras úr því...

9/12/05 10:00

Ívar Sívertsen

HA? Fúla gras hvað?

9/12/05 10:00

Offari

Ísland best í heimi, vitanlega fyrir þann sem þekkir ekkert annað, þessvegna hef ég aldrei yfirgefið þetta land enda hvergi annarstaðar Framsóknarflokkur.

9/12/05 10:00

Ívar Sívertsen

Ég held að við eigum sko skilið að fá Thule!

9/12/05 10:00

Hexia de Trix

Takk, blóðugt. Þetta er búið að angra mig í þó nokkurn tíma. Mér finnst gott að búa hér og vil helst halda landinu fyrir mig. Kannski er það eigingirni, en ef ég vildi búa í New York myndi ég flytja þangað - ekki breyta Íslandi í stórborg.

9/12/05 10:00

Nermal

Landið er fagurt og frítt..... Nei landið er fagurt og dýrt..... Og íslenska lambakjötið.. það er gott

9/12/05 10:00

Ívar Sívertsen

Mig langar að flytja til útlanda!

9/12/05 10:00

Jóakim Aðalönd

Ég flyt til útlanda von bráðar. Annars hef ég ekki hugmynd um hvað prakkaranornin var að meina í þessu félaxriti.

9/12/05 10:00

Hvæsi

Talandi um sérízlenskan mat.....
á aðfangadagskvöld taka íslendingar uppá þvílíkum metnað og eyða 7 til 8 tímum í eldhúsinu við að gera bestu máltíð ársins....
Og hvað er haft með þessari máltíð ?????'

"Grænar" baunir frá ORA sem eru mauksoðnar og grágrænar að lit....
Rauðkálið frá sama aðila og einhverja bölvaða hveitisósu ????
Smá pæling bara....

9/12/05 10:00

Galdrameistarinn

Greinilegt að Hexía hefur fallið á eigin bragði og einhver laumað hennar eigin töfradufti í drykkinn hennar.
Gott hjá þeim sem það gerði.

9/12/05 10:01

Hexia de Trix

Ég vildi nú bara vekja máls á því hvort það sé ekki asnalegt að auglýsa ómengað og ósnortið land, en leyfa svo túrismanum að menga og snerta land og þjóð - það endar með því að við höfum ekkert að auglýsa og heldur ekkert til að vera stolt yfir.

Svona svipað og slanga sem er að éta á sér halann.

9/12/05 10:01

Galdrameistarinn

Er það ekki þegar að verða þannig?
Maður fer ekki svo um hálendið núorðið öðru vísi en að rekast á túrista á öllum áningarstöðum og stundum svo fjölmennt að maður hefði alveg eins geta farið í útilegu niður á austurvöll á sólbjörtum sumardegi.

9/12/05 10:01

Hakuchi

Sei sei jú. Túristar eru mengun.

Fínn pistill.

9/12/05 10:01

Nermal

Grænar baunir eru ekkert spes, enda fóðurbaunir. Bara nothæfar með hangikéti

9/12/05 10:01

Finngálkn

Góð og þörf hugvekja. Helvítis GLOBALSHITNATION... Ættum að flýta okkur hægar í að heimsvæðast!

9/12/05 10:01

krumpa

Gott rit - hef reyndar ekki eldað sunnudagsmat í háa herrans tíð....sakna þess siðar - læri, hryggur eða kótilettur í hádeginu á sunnudögum, namminamm...

9/12/05 10:01

Kondensatorinn

Sammála. Hér er vart þverfótað fyrir útlendingum hvert sem litið er. Kaupahéðnar pranga svo inn á þá íslenskum minjagripum innfluttum frá Kína.

9/12/05 10:02

Lopi

Reisum múr í kringum Reykjavík og bönnum bílaumferð fyrir utan múrana.

9/12/05 11:01

Jóakim Aðalönd

Reisum múr í kringum alla eyjuna og hleypum hvorki neinum inn né út.

9/12/05 11:01

Heiðglyrnir

Frábær pistill Hexia mín. Reynum að verða ekki útlönd. þá er ekkert gaman lengur að koma heim.

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.