— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Dagbók - 31/10/04
Að vera dugleg eða ekki dugleg

Fyrirfram hafði ég ákveðið að þennan laugardag skyldi ég þvo að minnsta kosti 6 þvottavélahlöss, þrífa baðherbergið og/eða eldhúsið, fara í Rúmfatalagerinn og eiga gæðastundir með fjölskyldunni. Það tókst ekki alveg...

Í dag rumskaði ég við morgunóp dætranna kl. 7.15, 7.31, 8.05 og 8.17. Klukkan 8.34 dröslaðist ég fram úr og gaf þeim morgunmat. Klukkan 8.46 dröslaðist ég aftur fram úr og sussaði á dömurnar, enda þurfti Ívar að fá svefnfrið eftir vaktina. Klukkan 8.58 sussaði ég aftur. Klukkan 9.27 sá ég mér ekki fært að reyna að lúra lengur, svo ég dröslaðist á fætur. Klukkan 9.37 hætti ég við og fór aftur í bælið. Klukkan 10.04 þurfti ég enn og aftur að sussa á afkvæmin, og gafst endanlega upp á því að reyna að sofa út.

Rétt fyrir hálfellefu var ég svo komin á Gestapó. Um ellefuleytið var ég dregin þaðan og mér tilkynnt að borist hefði bréf til yngri dömunnar, hennar Dívu, þar sem henni var boðið í afmælisveislu milli klukkan 14 og 17. Um hálftólf var ákveðið að næra börnin aftur. Á meðan dæturnar nörtuðu í matinn setti ég í þvottavél. Eftir það var tekið til við að setja balletthnút í höfuð Prímadonnu og ballerínan svo færð í dansfatnaðinn. Rétt fyrir hálfeitt var Prímadonna mætt í ballettskólann. Þá hljóp ég út í næstu búð sem seldi nokkurnveginn nothæft skran á viðráðanlegu verði, og fjárfesti í afmælisgjöf. Brunaði heim í kofann og hófst handa við að gera Dívu klára fyrir afmælið. Ívar sótti Prímadonnu í ballettinn og ég hringdi í ömmu, hana Draumþrúði de Trix. Sagðist koma að sækja hana um það bil klukkan 14.11. Þegar Prímadonna var komin heim var henni snarlega skellt í annan alklæðnað og við mæðgurnar þrjár drifum okkur út í bíl. Ívar var kvaddur með virktum, enda þurfti hann að sinna öðrum aðkallandi verkefnum. Dívu var fleygt inn í afmælið og við Prímadonna vorum komnar til Draumþrúðar ömmu klukkan 14.14. Það var allt í lagi, enda þekkir amma sitt heimafólk og veit að ég er ekki mjög stundvís.

Nú lá leiðin í annað sveitarfélag, þar sem við gerðum stórinnkaup í Rúmfatalagernum og síðan var ferðinni heitið í Kringluna. Hið ótrúlega gerðist að ég fékk bílastæði nánast við innganginn og Draumþrúður amma (sem er orðin eilítið slæm í mjöðm) þurfti ekki að ganga langa leið á bílastæðinu. Það hafði þó lítið að segja, enda þurfti hún að ganga mikið inni í Kringlunni.

Klukkan 16.38 vorum við aftur komnar út í bíl og drifum okkur í heimabæinn, enda þurfti að sækja Dívu úr afmælinu og umferðin í þyngra lagi. Díva lét að sjálfsögðu bíða eftir sér eins og nafnið gefur til kynna. Klukkan 17.06 var haldið til heimilis Draumþrúðar ömmu, þar sem hún bauð okkur upp á kaffi og með því. Klukkan 18.08 var mál að koma sér heim með dömurnar og fara að huga að kveldmat.

Nú sit ég hér á Gestapó og er með móral yfir því hvað ég var ódugleg í dag. Eða var ég kannski dugleg?

   (15 af 32)  
31/10/04 15:02

Ugla

Þú varst dugleg!
Voðalega væri maður til í að sofa stundum út...

31/10/04 16:00

Jóakim Aðalönd

Mjög dugleg Hexía mín. Ekki afrekaði ég helminginn af þessu í dag, enda í fríi...

31/10/04 16:00

Ívar Sívertsen

Og hvar er stóri bjórinn minn?

31/10/04 16:00

Skabbi skrumari

Ég kláraði ekki að lesa þetta en það sem ég las segir mér að þú sért hetja... skál Hexía...

31/10/04 16:00

Kargur

Ég sé í hvað stefnir hjá mér. Og ég varð þreyttur á því einu að lesa þetta. Hvurnig á ég að fara að þessu? Og engin amma til að bjarga mér.

31/10/04 16:00

B. Ewing

www.grannyforrent.com hlýtur að vera til í Hamborgaralandi. Annrs var Hexía gríðar dugleg og skipulögð á þessum degi. Það að geta aðlagað allar áætlanir að nýjustu uppákomum hversdagsins er hæfileiki út af fyrir sig sem ekki öllum er gefinn.

31/10/04 16:01

Hexia de Trix

[Klökknar] Takk elskurnar. Mér líður betur núna.

Ívar, bjórinn þinn er í ríkinu. Hann var ekki á innkaupalistanum.

31/10/04 17:01

Sindri Indriði

Vertu ekki svona vond við kallinn. En um fram allt leggðu þig!

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.