— GESTAPÓ —
Kífinn
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/11/07
Söguskoðun

Ég hef gaman af sagnfræði og til að lesturinn gagnist sem flestum verð ég að byrja á skilgreiningaratriðum. Póstmódern (framúrstefnu) sagnfræði leitast við að leysa þá sem er kennd við módern (nútíma) af hólmi. Ágreiningsefnin eru aðallega sjónarhólarnir sem við stöndum á þegar viðfangsefnin eru skoðuð. Ef við ætlum okkur að skoða þrælasölu þá myndi módern sagnfræði leitast við að greina frá upplifun þrælasalans og sonar hans hans sem hefði verið uppi eftir að þrælasölu lauk, hvernig blasti þetta nú við þeim? Póstmódernistinn myndi hins vegar líta á þrælana og upplifun þeirra eða jafnvel andófsmann gegn þrælasölu og hvernig það kom þeim/honum fyrir sjónir. Vissulega er þetta flóknara en þessi dæmisaga en í grundavallaratriðum blasir þetta við mér sem spurningin: Eigum við að skrifa sögu sigurvegaranna eða tapliðsins?

Gott dæmi er ris Kína á efnahagssviðinu og takmark þess að verða stórveldi. Ég er ekki sérfræðingur í Kína, en veit þó að þeir voru undirokaðir lengi af hálfu vesturlanda, Rússa og Japana. Meginstraumur sagnfræðiverka einblínir ekki á ópíum-innflutning Breta frá indverska nýlenduveldinu til Kína sem olli því að herafli og stjórnkerfi lömuðust að mestum hluta og í framhaldinu sölsuðu Bretar ásamt öðrum þjóðum æ stærri áhrifasvæði undir sig. Þessar forsendur eru gefnar og afleiðingin síðan skoðuð: verslun jókst eftir árið 1850 að miklu marki og Kínverjum voru kenndir framleiðniaukandi atvinnuhættir. Kína sem voldugt er orðið hefur lengi viljað ná Taiwan undir sinn valdahatt og spekúlera menn m.a. hvort að krafa Kínverja verði um leyfi til þess gegn stórfelldu láni til Bandaríkjanna nú í hremmingum. Ég er að reyna að nefna þetta sem dæmi um þjóð sem hafði hagsmuni af póstmódernískum skrifum framan af en vill líklega ekki hlusta á mótbárur Taiwana þegar/ef sú skrafa vaknar til lífsins og sættir sig vel við módern.

Það mætti segja að þessi spurning standi manni nær nú en ella; en kannski fer það eftir útkomunni á deilunni við Breta hvað hentar meðal-Íslendingnum. Til að fræðilegur agi hvíli á greininni verður að sækja í yfirgripsmestu heimildir sem völ er á og hvar þær er að finna er augljóst. Sé það lesanda hins vegar ljóst að sögu hefur verið brenglað af skrásetjurum vegna hagsmuna sigurvegara verður að slá ákveðinn varnagla þar við. Til að nýta okkur heimildir verðum við að treysta þeim. En eru sigurvegararnir traustsins verðir eða trúum við því að þeir sem töpuðu fyrir þeim beri ekki ýkjusögur í bækur sínar (ansi loðið.)

Það sem kemur út úr minni rökleiðslu er að ekkert heitir absólút (endanleg) sagnfræði. [pólitísku gleraugun eru sett upp] Módernistaflokkurinn stendur sterkur með sína söguskoðun ríkjandi í kennsluheftum og viðurkenndum ritum. Póstmódernistar sækja þó í sig veðrið en víst er að á brattann er að sækja og klofningsframboð gæti verið í nánd. [og tekin aftur niður] Ef framúrstefnufylgjendur hafa vinning úr þessum deilum öllu saman er nóg um vinnu handa sagnfræðingum ef við kærum okkur á annað borð að leita uppi fáséðar heimildir undirokaðra eyjaskeggja á Antigua eða Vestur Indíu. Söguskoðun almúgans breytist þó kannski ekki, það er erfitt að velta við steinum sem við höfum byggt á. Svo við tölum ekki um litla magnið sem til er af heimildum í þessa veru. Sagnfræðin yrði eiginlega að byrja frá og með deginum í dag. Ég gæti best trúað því að póstmódernistar séu að reyna að fá heildstætt yfirlit yfir sögu vesturlanda svo henni verði ekki breytt eftir að við komumst undir hatt Kínverja. En eigum við að treysta því að ekki verði valtað yfir þá söguskoðun líka? Hvað haldið þið?

   (24 af 25)  
1/11/07 04:01

Billi bilaði

Ég las fyrstu og síðustu setningarnar. Mér fannst þær bara nokkuð góðar.

1/11/07 04:01

Regína

Voða væri gott að fá greinaskil í þessa grein.

1/11/07 04:01

Kífinn

Já afsakið, reyndi að bæta úr því. Flutningur úr Smæðamýktu Orði truflaði eitthvað málsgreinaskipan

1/11/07 04:01

Billi bilaði

Já. Nú gat ég lesið þetta.
Svarið er eins og Cheerios: „Bæði betra“.

Það hljómar sem afskaplega óvísindaleg sagnfræði að horfa bara með einum gleraugum á hvert mál, og viðurlög við því ættu náttúrlega að vera fall á sagnfræðiprófi...

... en hvað veit ég, illa menntaður kálfurinn.

1/11/07 04:01

Ívar Sívertsen

Billi er nefnilega fjölómenntaður eins og ég.

1/11/07 04:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Þú spyrð ekki um lítið...

Mér sýnist þú velta upp óskaplega stórum & siðferðilega krefjandi spursmálum hér. Pistillinn er áhugaverður; grundvallaratriðin eru vel ljós, en ritari mætti vera ögn beinskeyttari í sinni eigin túlkun á köflum.

1/11/07 04:01

hvurslags

Þetta er ekki heldur bara spurning um módernísk eða póstmódernísk sjónarmið á söguna heldur líka vestræn sjónarmið vs. sjónarmið annarra íbúa heimsins, t.d. Suður-Ameríku og Asíu. Í staðinn fyrir að fjalla um sögu Kína sem sögu verslunarmanna sem brutu sér leið austur á bóginn til að eiga í viðskiptum við forna menningarþjóð lesa Kínverjar um heimsveldið sitt sem var haldið í skefjum í nokkrar aldir þegar vestrænir kaupmenn gerðu þá háða ópíum; og einnig að það sé fyrst núna sem Kína sé að endurheimta sinn fyrri stall sem heimsveldið "eins og það eigi skilið". Sú söguskoðun er jafn bjöguð og einhliða eins og hin útgáfan. Það má þó ekki láta okkur fá þá tilfinningu að það sé ómögulegt að nálgast hina hlutlausu söguskoðun.

Þú talar síðan um að sögu vesturlanda megi ekki breyta "..eftir að við komumst undir hatt Kínverja". Hvað í ósköpunum áttu þar við?

1/11/07 04:01

Kífinn

Og ég sem var bara að beina sjónum frá kreppunni [dæsir]
Já Billi en annað hvort verður upp á teningnum þegar efnið ratar í bækur.
Beinskeyttari Z. Natan? Ég vil ekki vera áróðursmaskína og troða hugmyndafræði upp á aðra með leiðandi pistli, reyni frekar að vera spegill á efnið eins og það blasir við mér, því hlýtur loðin túlkun að fylgja máli.
Það er það sem ég á við Hvurslags. módernistar myndu setja nýlendusögu vesturlanda undir Evrópumiðaðan hatt. En líkt og þú segir (og Billi) er að afstaða einungis dregin frá öðrum aðila er ósanngjörn. Og jú, þess vegna heitir pistlingurinn Söguskoðun.

1/11/07 04:02

Hugfreður

Áhugaverður pistill þó ég var aldrei mikið fyrir sögu í skóla. Ég hef sjaldan velt fyrir mér upplifunum fólks á fyrri tímum þó stundum. Lít frekar á söguna sem leið til a læra um frelsi og kúgun og þá sérstaklega hvernig samfélög missa hið fyrrnefnda í hendur þess síðarnefnda. Virðist alltaf verða á tímum mikillar krísu, raunverulegrar eða tilbúnar. Fólki er sagt að eingöngu sé hægt að verjast krísunni með drottnandi öryggisbákni og allir sem streitast á móti ásakaðir um að vera handbendi óvinarins, svikarar og ógn við öryggi. Þ.e. það gerist alltaf eins og það er að gerast núna, þetta er n.v. mín söguskoðun í hnotskurn.

1/11/07 04:02

Lepja

Ég læt mér nægja að horfa í gegnum gleraugun hennar Pollíönnu. Og þá til framtíðar, að sjálfsögðu.

1/11/07 04:02

Günther Zimmermann

Hmm. Ha. Ég nenni varla að anza í laungu mále. En. Helv. póstmódernístarnir [skyrp] vilju nú gott betur en 'leysa af hólmi' pósitívíska/empíríska sagnfræði. Helzt vilja þeir brenna allar bækur sem þeim þykja vera 'yfirlits' (þ.e. eitthvurt tímabil eða ámóta skoðað með stuðningi frumrannsókna, án þess að vera frumrannsókn í sjáfu sér). Á Íslandi hefur pm sagnfr. helzt birzt í sk. míkróhistóríu (einsögu eða smásögu). Hún lýsir sér í þraungu sjónarhorni án yfirlitstenginga (að því mér virðist helzt einvörðúngu stuzt (!) við dagbækur eins afdalabónda, sem helzt er hommi og transverstít í þokkabót). En í grófum dráttum er þetta rétt hjá pistlahöf. Nýrri saga (eftir ca. 1970) hafnar persónusögu, sigurvegarasögu. Hana mætti kalla minnihlutahópasögu, oft(ast) skrifuð í réttindabaráttuanda (saga kvenna/svartra/innfæddra í nýlendum). Vitaskuld er þetta góðra gjalda vert, en hin réttláta reiði sem oft(ast) einkennir þá sem slíkt rita skemmir oft fyrir málstaðnum, og sagan verður að áróðri. Jæa, nú skrifa ég ekki meir.

1/11/07 05:00

Kiddi Finni

Sagan er alltaf túlkun, og sagan verður alltaf endursegin. Og alltaf spurning um sjónarhorn, hvort er saga landnema eða frumbyggja, til dæmis. Og mikróhistoria er fint, en þarf að tengja hana við heildina. Takk fyrir pistilinn, og takk fyrir ábendingar, Günther.

1/11/07 05:00

Wayne Gretzky

Það er engu að bæta við belg Guðrúnar...

1/11/07 05:01

Günther Zimmermann

Guðrún? Guðrún! Guðrún!?

[Hristir höfuðið yfir Grétu vænu]

1/11/07 07:01

Wayne Gretzky

[ Glottir mikið ]

Kífinn:
  • Fæðing hér: 25/10/04 10:30
  • Síðast á ferli: 14/10/14 01:14
  • Innlegg: 1425
Eðli:
Augun blá og hárið hátt
hálsinn ofar spölum.
Nefið mikið, mittið smátt
miltað veldur kvölum.
Fræðasvið:
Af hverju litir byrja ekki á sérhljóða? Doktorsrotgerð og rannsóknarvinna styrkt af Hörpu.
Æviágrip:
Borinn bur barst bóli bjarna
bagalegur, búlduleitur.
Burtu býður bægslum barna
bjartur brýtur beisnar breytur.