— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 5/12/10
Að ala og hemja tröllabörn

Hið heisaralega afkvæmi er nú þrettán ára - það eitt sér gerir það að verkum að hún er ekki sú skemmtilegasta. Hér í höllinni býr hins vegar líka tröllabarn. Það er nálægt fertugu, loðið og heldur ófrýnilegt þó vissulega megi hafa nokkurt gaman af. Þegar hið keisaralega afkvæmi er sem leiðinlegast hugga ég mig við að á endanum mun það flytja að heiman eins og önnur börn. Komirðu vel fram við tröllabarn siturðu hins vegar uppi með það til æviloka.

Tröllabörn eru væntanlega af báðum kynjum, mitt er þó karlkyns. Þau eru framleidd og ræktuð af svokölluðum tengdamömmum sem út af fyrir sig eru nokkuð víðsjárverður fénaður. Þær virðast þó frekar rækta þessi kvikindi sér til selskaps og skemmtunar fremur en að gera þau hæf til nokkurra verka - þetta eru sumsé gæludýr en ekki vinnudýr. Ég hef átt mitt tröllabarn nokkuð lengi og hér að neðan eru nokkur ráð sem hafa gefist mér vel í samskiptum við það.

1. Ef tröllabarnið þitt tekur upp á að bjóða allri fjölskyldu sinni í afmælisboð er frekar líklegt að eina framlag þess til veislunnar sé að vera komið í sparifötin áður en gestirnir mæta. EKKI REIÐAST. Ekki reiðast þó þú takir þér frí í vinnu og vakir alla nóttina við að tilreiða þær veitingar sem tröllabarnið lofaði gestunum. Tröllabarnið skilur ekki reiðina og því finnst það standa sig nokkuð vel að koma sér sjálft í fötin. Og satt að segja ættir þú líka að þakka fyrir að það mætir ekki á nærfötum í veisluna.

2. Ef tröllabarnið þitt tekur sjálft upp á að þvo svörtu sokkana sína (jafnvel þó það líti framhjá öðrum svörtum sokkum annarra heimilismanna og þvoi vél með fimm sokkum og engu öðru) hrósaðu því þá. Tröllabarnið telur sig nefnilega standa sig mjög vel.

3. Ef tröllabarnið fyllist skelfingu þegar það er hreint leirtau í uppþvottavélinni og fer að hlaða óhreinum glösum og diskum í vaskinn fremur en að tæma vélina, ekki skamma það. Það er þitt að sjá til þess að uppþvottavélin sé til reiðu fyrir tröllabarnið þitt. Sama á við þegar tröllabarnið fer að gera áhugaverðar eðlisfræðitilraunir með ruslafötuna. Það hefur ekki vit á að tæma fötuna sjálft og telur sig bara nokkuð gott að reyna að setja í ruslið jafnvel þó kominn sé heljarinnar fjallkúfur á ruslafötuna og ruslið hrynji út um allt. Þú verður einfaldlega að standa þig betur.

4. Eftir að þú hefur átt tröllabarnið þitt í nokkurn tíma er e.t.v. óhætt að senda það eitt í verslunarleiðangur. Mundu samt að þakka því vel fyrir því það er allt annað en sjálfsagt að tröllabarnið sjái að einhverju leyti um innkaup fyrir heimilið. Og fyrir alla muni - láttu tröllabarnið hafa LISTA. Ef þú ert svo vitlaus að senda tröllabarn út með óljós skilaboð eins og að kaupa ,,í matinn" er afar líklegt að það komi heim með 3 kiló af smjörva og átta skinkubréf - OG EKKERT ANNAÐ. Tröllabörn þurfa skýr skilaboð.

5. Ef þú ert búin/n að hamast allan daginn, þrífa, elda og djöflast í heimilisstörfum á meðan tröllabarnið situr og horfir á dýralífsþætti eða leikur sér í símanum sínum EKKI skamma það. Tröllabarnið verður bara sárt og móðgað - því finnst því í alvöru vera að gera gagn. Og fyrir alla muni - ekki reyna að gefa í skyn með einhverjum táknum, eins og stunum eða dæsi (tröllabarnið telur allt slíkt vera frygðarhljóð) eða öðru látbragði að þú sért frekar þreytt/ur eftir daginn og að tröllabarnið mætti vera aðeins virkara. Tröllabörn þurfa skýr skilaboð og skilja ekki látbragð eða svipbrigði.

6. Ekki reyna að útskýra fyrir tröllabarninu þínu hvað fer fram á heimilinu. Tröllabörn einfaldlega skilja ekki tilganginn með því að þrífa klósett, skipta um rúmföt, þrífa ofna og ísskápa, skipta um klósettpappírsrúllu eða skúra gólf. Því finnst þú bara eitthvað skrítin/n ef þú reynir að ræða þessi mál og reynir að fá tröllabarnið til að taka þátt.

7. Ef þú ert ofsalega huguð/hugaður eigandi fremur meðfærilegs tröllabarns og ætlar að reyna að virkja það með því að gefa því verkefni innan heimilisins, gættu þín þá á því að hafa verkefnin lítil og einföld. Gefðu skýr, helst skrifleg skilaboð og gættu þess að HRÓSA, HRÓSA, HRÓSA. Jafnvel þó afraksturinn sé eins og ætla má hjá treggáfuðu þriggja ára barni þá er tröllabarnið þitt afskaplega stolt og á hrós skilið. Ef þú hins vegar gefur óljós og undarleg skilaboð eins og ,,viltu taka mesta ruslið í eldhúsinu" er afar líklegt að þátttaka tröllabarnsins - með tilheyrandi gáfulegum spurningum - í því verkefni feli í sér meiri vinnu fyrir þig heldur en ef þú sæir um verkefnið sjálf/ur. Ekki láta þetta ergja þig, Það er enn og aftur ekki við tröllabarnið að sakast heldur miklu frekar sjálfa/n þig og hina víðsjárverðu tengdamóður. Það er nefnilega alls ekkert sjalfgefið að tröllabörn bara viti sjálfkrafa að tómir eggjabakkar eiga að fara í ruslið, mjólkin inn í ísskáp og hreinu glösin upp í skáp. Þetta eru hlutir sem tröllabörn átta sig bara engan veginn á - og þarf að skýra sérstaklega í hvert skipti.

8. Ef tröllabarnið þitt fær nasakvef og fimm kommu hita vertu góð/ur við það. Jafnvel þótt þú sért sjálf/ur nýstigin/n upp úr lungnabólgu þá skaltu gera þér grein fyrir að þú hefur bara alls engan skilning á því hvað tröllabarnið er þjáð og kvalið. Það er í alvöru á því að það liggi fyrir dauðanum svo annastu það vel. Og ekki láta þér detta í hug að gera lítið úr þessum sjúkleika jafnvel þó þú hafir sjálf/ur, með bullandi lungnabólgu og 40 stiga hita mátt drattast í apótekið eftir norskum. Þú bara skilur ekki hvað er að vera veikur.

GANGI ÞÉR SVO VEL.

   (3 af 114)  
4/12/10 23:02

Regína

Takk.
Ég er að rækta eitt svona, en ég sé að það hefur ekki tekist að öllu nógu vel því það setur sjálft fötin sín í þvottavélina. Ég hef það þó til málsbóta að það geymir fötin sín á gólfinu en notar skúffur og skápa fyrir úrelt föt. Það sér líka um að næra sig sjálft og kaupa í matinn fyrir sig, en það er nú bara vegna þess að það er í þjálfunarbúðum.

4/12/10 23:02

Garbo

Hvaða vefsíða er þetta eiginlega? [Panikkerar]
Mér gengur ekki vel þakka þér fyrir en það venst.

5/12/10 00:00

Kargur

Afbragðspistill atarna.

5/12/10 00:00

Upprifinn

Hey! Konan mín á svona.

5/12/10 00:00

Billi bilaði

Get ég nokkuð verið tröllabarn ef ég skil þessa dagbókarfærslu? <Tröllast>

5/12/10 00:02

Golíat

Ég er nú svo tröllheimskur að ég skil ekkert í þessu.
Annars tókst tengdamóður minni blessuninni nokkuð vel upp.

5/12/10 01:00

krumpa

Þið eruð nú eitthvað að misskilja, tröllabörn eru alls ekki heimsk, þvert á móti, bara soldið svona takmörkuð á ákveðnum sviðum.

5/12/10 01:00

Huxi

Ég skil bara ekkert hvað þú ert að fara í þessum pistli. Verkaskipting heimilisins verður að vera skýr svo ekki fari allt í vitleysu. Því er gott að annar aðill sjá um þrif og matseld á meðan hinn sér t.d. um upplýsingaöflun fyrir heimilið, úr tölvu, sjónvarpi eða blöðum. Viðhald á heimilinu t.d. peruskipti og að smyrja útihuðalæsinguna er einnig nauðsynlegir hlutir og krefjast mikillar ábyrgðar. Og ekki má gleyma því, að fyrst annar aðilinn er svona upptekinn við að þrífa og elda, þá er fínt að hinn sjái um að halda félagslegum samskiptum heimilisins gangandi, t.d. með því að fara til útlanda á fótboltaleiki eða bara skreppa á pobbarölt með félögunum...

5/12/10 01:01

Ívar Sívertsen

Við hjónin eigum bæði svona. Svo eigum við 2 börn.

5/12/10 02:01

Grýta

Þú hefur fyndna sýn á tilveruna krumpa. Takk fyrir.

5/12/10 04:01

Kiddi Finni

Eitthvað er nú kunnuglegt við þetta allt saman...

5/12/10 04:01

Kiddi Finni

...nema að konan mín hefur bannað mér að koma nálægt þvottavélinni.

5/12/10 04:01

Dula

Hahahaha Krumpa þú ert algjörlega dásamleg, takk fyrir að minna mig á þetta.

5/12/10 08:02

Vladimir Fuckov

[Brestur í óstöðvandi hlátur]

5/12/10 10:00

ullarhaus

kannast við þetta ég má ekki koma nálægt uppþvottavélini

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.