— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 8/12/08
Raunir kvenna á laugardagskvöldum

Um daginn lét ég draga mig út til að fagna afmæli einhvers sem ég hef aldrei séð með fólki sem ég þekki ekki. Á endanum var það svosem alveg ágætt en þar sem ég er ekkert alltof viljug að mæta á svona samkundur ákvað ég nú að vera í það minnsta sæmilega útlítandi. Hvað leggur maður ekki á sig fyrir makann? Þetta er sagan af því.

18:00 Vatt tú ver? Vatt tú ver? Hmmmm....jú best að vera í leggings, háum hælum, sætum bómullarsumarkjól og lufsupeysu. Jájájá, ekkert að því. Aldeilis sætt bara og einmitt föt sem ég myndi mæta í í afmæli til vina minna.

18:10 Í sturtu. Best að raka aðeins fótleggina, jájá, svo þeir komi nú vel út í leggings. Held nú það. Hmmm...og vaxa kannski fæturna aðeins ofar, já, maður má ekkert slaka á þó maður sé giftur og kominn yfir tvítugt. Hmm...

18:15 Ahhh...best að fá sér smámaska í andlitið. Svona ,,rífið-af-þegar-þornar-maska" og setjast með hann í bað og bíða. Hvað er betra en það?

18:30 Andsk heitasta helv helv andsk djö... Svona ,,rífið-af þegar-þornar-maski" þornar bara alls ekki meðan maður er í baði. Hann breytist í grautarlegan ófögnuð sem festist í hárinu og það er sko ekkert hægt að rífa hann af. Vaxið á lærunum hljóp líka í einhverja undarlega kekki og neitar að fara af...

18:40 Eftir að hafa hjakkast á maskagrautnum með ótal bómullarskífum, tveimur handklæðum og skrúbbbursta lítur andlitið út eins og fullþroskaður tómatur - eldrautt og glansandi. Verra með vaxið á lærunum en reyni mitt besta með extra virgin olíu og hjakkast á vaxinu með enn öðru handklæði...

18:45 Heitasta helv. Hinar útvöldu gammosíur finnast ekki! Hvað gera bændur þá?

18:45 Hvar er undrahaldarinn? Ahhh....fann hann! En hvað? Ekkert frábært við brjóstin í þessu...þau eru aflöng, flöt og átta talsins. Andsk djöf.

18:50 Treð mér í sokkabuxur í fjarveru gammosía. En hvað? Risasaumspretta á versta stað. Finn aðrar (því miður ekki með aðhaldskerfi fyrir maga, rass og læri) á botni þvottakörfunnar þar sem líka leynist annar undrahaldari. Lærin eldrauð og aum eftir vaxævintýrið en iss....sokkabuxurnar fela það alla vega.

18:55 Fer fram á bað að skoða árangur erfiðisins. Hmmmm....hef bætt á mig, ekki að það sjáist (lygi) örfáum grömmum (huh) síðan ég gerðist fín frú í Fossvoginum. Nýi undrahaldarinn gerir brjóstin ennþá aflangari en í stað þess að vera flöt eru þau nú oddhvöss í miðið og alls ekki í laginu eins og þau ættu að vera. En dregur alla vega athyglina frá björgunarhringjunum.

19:00 HVAÐ ER Í GANGI? ,,Rífið-af-þegar-þornar" útbúnaðurinn er loksins þornaður. Bara ekki þar sem hann á að vera heldur er hann þornaður í hárinu, á bringunni og á handleggjunum. Andsk djö. Ríf mig úr (með tilheyrandi sársauka þar sem vaxklessan á lærinu hefur gróið föst við sokkabuxurnar) og aftur í sturtu þar sem ég reiti hár mitt óskaplega í örvæntingarfullri tilraun til að ná þurrum maskatæjum burt.

19:15 Loksins klædd. Útkoman: Aflöng (og alls ekki eins þrýstin og segir í auglýsingum, heldur meira svona eins og þau hafi verið fyllt, ekki með sokkum, heldur inniskóm) en oddhvöss brjóst undir þverröndóttum bómullarkjól, undarlegar sokkabuxur sem gera ekkert til að halda við eitt eða neitt, eldrauð læri, og háhælaðir skór með lausum hæl. Lít helst út eins og drukkinn sjóliði á leið á grímuball. Andsk....jæja, geri þá bara mitt besta til að flikka upp á fésið svo enginn horfi neðar.

19:20 Heitasta.... andlitið er ekki lengur með litaraft tómats heldur meira eins og ofþroskuð blóðappelsína. Oh, jæja, þá er það bara að skúra, skrúbba og bóna.

19:30 Hef komist að því af hverju ekki á að nota sama maskarann í meira en eitt ár. Annað augað er nú umvafið undarlegri klessu. Er sumsé með eitt fimm sentimetra breitt og afar þykkt kolsvart augnhár. Hitt augað er umvafið fjólubláum tæjum úr öðrum maskara. Hmmm...andlitið í heild reyndar eins og indíána sem er að búast til bardaga. En enginn tími til að gera neitt, Heittelskaður farinn að ókyrrast og boðið löngu byrjað.

19:35 Hvar í andsk, heit helv er varaliturinn!!!!

19:40 Jæja, þetta verður víst ekkert betra.

19:45 Mæti út á stétt bara nokkuð ánægð með árangur erfiðisins (er alla vega vel lyktandi eftir bað og tvær sturtur og rauði bjarminn í andlitinu er bara hraustlegur) og finn þar fyrir eiginmanninn órakaðan, í skítugum molskinnsbuxum, slitnum gönguskóm, gömlum pólóbol og duggarapeysu. Slíkur maður á ekkert erindi út með glæsikvendi með oddhvöss brjóst og eitt augnhár. Uppgötva mér til skelfingar að ég gleymdi að spyrja hann um dresskódið.

19:50 Hendist upp til að skipta. Finn skítugar gallabuxur og rúllukragabol í þvottakörfunni. Aldeilis andskoti fínt. Og þá er hægt að leggja af stað. Hver segir svo að konur þurfi meira en fimm mínútur til að gera sig klárar?

   (7 af 114)  
8/12/08 02:01

dordingull

Það væri kannski vissara að setja á sig rafsuðuhjálminn áður en maður vaknar hjá þér.

8/12/08 02:01

Billi bilaði

Gallabuxur? Ja hérna.

8/12/08 02:01

Villimey Kalebsdóttir

<flissar> góð!

8/12/08 02:01

Ívar Sívertsen

Hahahahahahahaha þetta er bara með því betra sem ég hef lesið lengi!

8/12/08 03:00

Jóakim Aðalönd

[Veltist um af hlátri og rúllar út af sviðinu, emjandi og grenjandi]

8/12/08 03:00

Galdrameistarinn

Takk fyrir þetta.
Ég flissaði sæmilega yfir lestrinum og það gerist ekki oft á mánudagsmorgni.

8/12/08 03:00

Jóakim Aðalönd

Sérstaklega frídegi verzlunarmanna...

8/12/08 03:00

Hvæsi

<Orgar af hlátri>
Þessvegna þurfum við alltaf að bíða svona lengi eftir ykkur.
Ráðgátan mikla er leyst.

8/12/08 03:01

Huxi

[Flissar yfir félaxritinu eins og fífl]
Þakka þér innilega fyrir þessa dásamlegu innsýn í hinn óræða og jafnvel skelfilega heim kvenlegrar fegurðar.

8/12/08 03:01

hlewagastiR

Siðan hvenær geta karlmenn svarað spurningum um dresskóða?

8/12/08 03:01

dordingull

Kvennlegan dresskóða? Efir að hafa hennt samlagningarvélinni og rafhlöðunum, dregið fram reikningsstokkinn og talnagrindina, djöflast á hvortveggja í marga klukkutíma þá verður útkoman aldrei sú sama.
Dress og förunar-kóði kvenna, er eingöngu mælanlegur sem jafna með árángri fyrir erfiðið sen óþekkta stærð

8/12/08 03:01

krumpa

Gott að ykkur er skemmt - mér var ekki skemmt meðan á þessum hremmingum stóð. Og vantar þó ýmislegt í söguna - eins og það þegar keisarabarninu (á meðan barist var við maskatæjurnar) datt í hug að segja mér í smáatriðum frá öllum Harry Potter myndunum. Og varðandi dresskóðann, þá hefði nú mannkertið getað varað mig við því að hann ætlaði að líta út eins og hann væri að fara að gista á Hjálpræðishernum.

8/12/08 03:01

Upprifinn

Þú hefðir nú getað sagt sisona við mannkertið: Í hverju ætlar þú að vera elskan?

8/12/08 03:01

krumpa

Að sjálfsögðu, End tek ég alla ábyrgð á því að hafa ekki spurt hann um dresskóðann, en þá hefði hann væntanlega getað svarað því til að við yrðum eins og umrenningar.

8/12/08 03:02

Regína

Frábært rit um erfiði til einskis (eða eins kyns eins og sumir segja).

8/12/08 04:00

B. Ewing

Feguðin er ekki tekin út með sældinni.

8/12/08 04:02

Dularfulli Limurinn

Ég allavega grét af hlátri yfir óförunum .

8/12/08 05:01

krossgata

[Réttir krumpu hjartastyrkjandi]
Þér veitir ekki af krumpa mín eftir slíkar hremmingar.

Ég lendi aldrei í þessu með maskarann þar sem, að mér skilst ólíkt öðrum konum, safna ég ekki varalitum og þeir því alltaf við hendina heldur á ég alltaf nýjan maskara við hendina. Ég myndi þó líkast til lenda í því að finna alls ekki varalit.

8/12/08 07:00

Finngálkn

Ahhh.... Rúnk .... Rúnk ... Hvað næst - Hvað næst??? Uhh...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.