— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 31/10/05
Það sem ég hræðist mest...

Er enn í fýlu - bara svo að þið vitið það sko...en þið megið alveg reyna að sleikja hana úr mér...

Það er margt sem við hræðumst, köngulær, veikindi, kjarnorkusprengjur, fátækt, bílslys, dauða, lyftur, partí, tengdaforeldra o.s.frv.

Ég hræðist ekkert af þessu. Það er bara eitt sem ég hræðist. Þetta eina er djöfullegasta og útsmognasta uppfinning nútímamannsins. Uppfinning sem er gerð með það eitt fyrir augum að fullnægja hégómlegum fegurðarlosta okkar. Stórhættuleg uppfinning sem stríðir gegn helstu lögmálum eðlisfræðinnar og heilbrigðri skynsemi.

Hér er ég að sjálfsögðu að tala um upphengd klósett. Nú á dögum er ekki hægt að koma inn í hús án þess að þar sé upphengt klósett. Ég var eitt sinn að vinna á stað þar sem þessi óskapnaður og glæpur gegn mannkyni var ætlaður til almennrar notkunar starfsmanna. Ég er nú ekki nema meðalmanneskja á alla kanta en það brakaði alltaf og brast í helvítinu þegar ég hugðist tylla mér á það. Svo var þessi hryllingur, þessi svívirða, hengdur alltof hátt upp á vegg svo maður sat þarna eins og smábarn, dinglandi löppunum hálfan metra frá gólfi, eins og í bið eftir skeinaranum...

Það er skemmst frá því að segja að ég fór ekki oft á þetta klósett, heldur hélt í mér heilu og hálfu dagana. Velti meira að segja fyrir mér þeim möguleika að fara út og á bakvið gám eða vörubíl eða eitthvað. En...að krjúpa með betri endann út í rokið á Sæbrautinni var ekki mjög aðlaðandi hugmynd heldur... Endaði vitaskuld með því að ég sagði starfi mínu lausu.

Síðan þetta var hef ég fengið ítrekaðar martraðir. Í þeim sit ég á klósettgólfi í postulínsmylsnu þess sem eitt sinn var upphengt klósett og í eigin úrgangi. Alein og get enga björg mér veitt meðan rotturnar skríða upp skólpið. Fyndið? NEI. Skemmtilegur dauðdagi? Öldungis ekki. Vakna iðulega æpandi í svitabaði eftir þessa draumsýn.

Mér leiðast hlutir sem stríða gegn náttúrulögmálum - stóru hlussuflugurnar geta eðlisfræðilega EKKI flogið og eitthvað sem hangir út úr millivegg getur EKKI borið þunga fullvaxta manns sem auk þess er að rembast og aka sér. Þetta bara er ekki hægt... Auk þess ekki mjög fýsilegt að lesa og slappa af á einhverju sem virðist hanga í lausu lofti og getur brotnað frá veggnum á hverri stundu - við minnstu hreyfingu!

Ef ég flyt svo í hús þar sem eingöngu er upphengt klósett (nú, eða ef þessi gömlu góðu fara bara af markaðnum) þá er tvennt í stöðunni; að springa...eða fá sér poka og þvaglegg.

Lifið heil.

   (40 af 114)  
31/10/05 20:01

Þarfagreinir

Upphengt klósett? Hvur árinn. Ég hafði aldrei heyrt af slíkum hryllingi fram að þessu. Núna mun ég ekki sofna í nótt.

31/10/05 20:01

Haraldur Austmann

Loksins alminilegur skítahúmor.

31/10/05 20:01

Siggi

Þetta er harður heimur fyrir venjulegt fólk.

31/10/05 20:01

Skoffín

Ha? Ég hef aldrei heyrt annað eins. [hryllir sig við tilhugsunina eina og hefur á tilfinningunni að Krumpa sé að spauga ]

31/10/05 20:01

krumpa

Nei, kæru vinir, þessir hlutir ERU til. Þetta er raunveruleikinn í kjötheimum! Hryllilegri en orð fá lýst...

31/10/05 20:01

Sundlaugur Vatne

Ég er nú búinn að búa við upphengt klósett í nokkur ár, Krumpa mín. Mér þótti þetta hálfógnvænlegt í fyrstu. Ég hef nú ekki lézt á þessum tíma heldur frekar bætt á mig en það er eins og blessað klósettið hengi sig stöðugt fastar í vegginn eftir því sem ég þyngist sjálfur. Ég held að það sé einhver skynjari á þeim.
Annars get ég líka upplýst þig um það, þar sem ég átti nú þátt í að byggja þetta blessaða hús mitt, að klósettið er reyndar ekki fest á vegginn heldur á nk. L-laga járnstól sem er múraður inn í vegginn og ofan í gólfið þannig að þú situr jafn örugglega á þessu og styrkasta sæti.
Annars gaman að sjá þig á ferli, elsku Krumpa mín. Ég vissi að þú myndir ekki yfirgefa okkur.

31/10/05 20:01

Skabbi skrumari

Þetta er óhugnalegt... hefurðu orðið var við óeðlileg tímahrif við þetta klósett.. er einhver bjögun í gangi við klósettið, svona rúmfræðilega séð?

31/10/05 20:01

krumpa

Þakka hlý orð Sundlaugur en ég bara treysti þessu ekki. Hvernig er svo klósettið fest við þennan járnstól? Getur sú festing ekki bara gefið sig? Í þínum sporum myndi ég frekar grafa holu í garðinum. Og alltílæ þetta kann að vera fremur hættulaust í nýbyggðum húsum - en hvað með uppgerðu baðherbergin? Trúi því að þá sé þessum hryllingi bara skellt á vegginn með skrúfum og geti brostið á hverri stundu. (annars er ótti þannig að það eru ekki endilega pottþétt rök að baki honum)... Gömlu klósettin STANDA bara á gólfinu! Lifi þyngdarlögmálið!

31/10/05 20:01

Vladimir Fuckov

Oss virðast áhyggjur Skabba geta verið á rökum reistar þar eð krumpa er sífellt að hverfa og birtast á ný. Það hljómar eins og e.k. skrumgleypir sje í klósettinu, þó eigi jafn stór og kraftmikill og sá sem gleypti Skabba í nokkrar vikur í fyrravor.

Því má svo bæta við að eftir að vjer sáum eitt sinn hvernig gengið er frá svona gripum (sjá lýsingu Sundlaugs) höfum vjer eigi hræðst upphengd klósett. Auk þess er minna vesen að þrífa gólfið nálægt þeim.

31/10/05 20:01

krumpa

Mér er alveg sama hvað þið segið - þetta er óhugnanlegt og ónáttúrulegt!

31/10/05 20:01

Ívar Sívertsen

Elsku hjartans Krumpa komin aftur. Velkomin! Kemurðu ekki á árshátíðina?

31/10/05 20:01

Sundlaugur Vatne

Ég held ég grafi bara þessa bév... holu. Konan og krakkarnir geta tekið sénsinn á klósettinu.

31/10/05 20:01

krumpa

11. nóvember hentar mér reyndar hroðalega - en er ekki búin að ákveða neitt...

31/10/05 20:01

krumpa

Það var lagið Sundlaugur!

31/10/05 20:01

Anna Panna

Öss, það er svo miklu einfaldara að þrífa baðherbergið ef á því er svona upphengt klósett, það er hægt að skúra bara undir það og þarf ekkert að vesenast á bakvið eða kringum eitthvað sem verður svo bara að bakteríustíu hvort sem er. Ég segi upphengd klósett á öll heimili! Eða a.m.k. þar sem ég þarf að þrífa...

31/10/05 20:01

krumpa

Þetta snýst ekki um þrif - þegar þú liggur í baukinu og bramlinu dauðvona á gólfinu og rotturnar að narta í þig þá er þér sko slétt sama hvort gólfið er pissuslettufrítt!

31/10/05 20:01

Úlfamaðurinn

zzzzzzzz

31/10/05 20:01

krumpa

Á þetta að vera gagnrýni - þetta þarna zzzzzzzzzzzz??
Bara svo það sé á hreinu, stafsetningarhefti ritræpuörvitinn þinn, sem ekki gætir sett saman skiljanlega málsgrein þó að líf þitt lægi við, þá eru mín félagsrit hafin yfir gagnrýni frá hrokafullum smábörnum sem halda í fávisku sinni að þau hafi frá einhverju að segja - og undrast mikið heimsku annarra að nenna ekki að lesa niðurganginn sem frá þeim kemur.

31/10/05 20:01

krumpa

Og þið hin. ÉG ER SVOOOOO FARIN. Kem aftur þegar þið eruð búin að losa ykkur við þennan fáráðlning.

Og eitt enn, litla ljóta gerpið þitt, ég hef látið vera að gagnrýna þín félagsrit (þó ég gæti skrifað ritflokk sem fælist í því einu að rakka þau niður)- svo láttu mín vera!!!

31/10/05 20:01

Úlfamaðurinn

Til krumpu

Þetta er það sem vjer Ike aðdáendur gerum í hvert sinn sem méstar Blair hrópar ´fuglaflensa! fuglaflensa!´og gefur svo í skyn að næst verði ákveðið hvenær menn eigi að vera hræddir við beltisdýr, moldvörpur, kengúrur, dádýr, hreindýr, etc.

31/10/05 20:01

Úlfamaðurinn

.........og krumpur.

31/10/05 20:01

Úlfamaðurinn

Eitt af því sem ég skil ekki við ykkur Baggalútínga er þegar þið öskrið á mig að ég eigi að hafa fjelagsrit mín skiljanleg og helst jafnvel skrifa mesta lagi 3 línur í senn. Nú hef ég 1. línu, og hrýt út af bullinu í krumpu um eitthvert klósettarföbía, og þá ærist allt liðið.
Ég held að hér séu fleiri sem viti ekki hvað þeir vilja en þeir sem viti hvað þeir vilja......hvur svo sem þessi krumpa er þá held ég að þetta síðasta innlegg hennar sé óskiljanlegra en innleggin hans Voffa.

31/10/05 20:01

Sundlaugur Vatne

Heyrðu nú, lilli minn [beinir máli sínu til Úlfamannsins]. Þú virðist hálf móðgaður yfir því að það sem þú kallar "bullið úr Krumpu" fái meiri athyli en skrifin þín. Það er kannske ástæða fyrir því og af þessu gætir þú lært. Hefur það hvarflað að þér að öllum öðrum en þér sjálfum þyki félagsritin þín óttalegt bull en vitrænt og skemmtilegt sem elskan hún Krumpa skrifar.
Viljir þú fá umfjöllun og jákvæð viðbrögð ættir þú að taka rithöfunda eins og Krumpu þér til fyrirmyndar. Teljir þú hins vegar að þú sért sá eini sem gengur í takt [glottir] en við hin séu öll með rangt gönulag gakktu þá bara áfram einn en láttu okkur hin í friði. Svo skaltu láta af því að tala illa um hana Krumpu og aðra heiðvirða gestapóa. Viljir þú afla þér virðingar skaltu ganga á undan með góðu fordæmi.

31/10/05 20:01

Hakuchi

Mitt klósett er svona veggjaklósett. Þegar ég keypti íbúðina sá ég þetta sem stóran mínus þar sem ég hafði slæma reynslu af af öðru klósetti af þessari gerð sem einmitt brakaði í og hvað eina, skelfilega óþægileg tilfinning. Mitt klósett hefur hins vegar reynst traust og gott þrátt fyrir talsvert álag þannig að álit mitt á þessum fyrirbærum hefur batnað. Svo er jú gott að geta þrifið undir.

31/10/05 20:01

Ríkisarfinn

Mældu bara bilið mill gólfs og klósets og ég skal sér-smíða þartilgerðan kubb á milli þarmeð situr klósettið á gólfinu, bara með kubb á milli.

31/10/05 20:02

Herbjörn Hafralóns

Ég er alveg sammála Krumpu varðandi þessi upphengdu klósett. Raunar er ég SKÍThræddur við að setjast á slíkt postulín. Þar af leiðandi valda téð klósett hægðatregðu og annarri vanlíðan.
Flott hvernig þú afgreiddir Úlfamanninn, Krumpa.

31/10/05 20:02

dordingull

Ég get lánað þér uppblásna ferðakamarinn minn, þar til þú kemst yfir þessa maníu. [Ljómar upp]
[Fægir silfurkúlu]

31/10/05 20:02

krumpa

Æi, er nú bara með smámóral, lét víst skapið (og blóðþrýstinginn) hlaupa aðeins með mig í vitleysu. Verð bara svo hriiiikalega reið þá sjáldan ég verð reið...
En hann virðist farinn - í bili amk. Vona bara að hann beri ekki varanleg ör á sálinni eftir árásina...

31/10/05 20:02

krumpa

Hey Sundlaugur....jéheg bhara vissi ekki að þhú elskhaðir mig shvona mihkið...ihhhhh. Vá. Æði. (verður orða vant og ákveður að hverfa...að sinni...roðnandi og flissandi).

31/10/05 20:02

krumpa

þakka gott boð, dordingull, en nei takk. Það er ekkert að mér - og þetta er gersamlega eðlilegur ótti - sem ég er augljóslega ekki ein um að þjást af. Það eru klósettin sem þurfa að víkja!

31/10/05 20:02

Hvæsi

Þetta er stórmerkilegt rit krumpa.
Ég hef sest á svona tæki og það er mjög hættulegt að vera þarna með æðri endann yfir gígnum og ná ekki fótfestu á gólfinu.
Þegar fæturnir dingla í lausu lofti er hætt við að maður hreinlega detti ofaní dolluna og endi kanski ofaní dollunni hjá Harold Bishop í ramsey götu í ástralíu.

31/10/05 21:01

Isak Dinesen

Þetta er hið skemmtilegasta rit. En auðvitað var aldrei við öðru að búast. Takk.

31/10/05 21:02

Jóakim Aðalönd

Ég skil alveg þessa fóbíu. Skelfilegt!

Annars er ritið skemmtun hin mesta.

31/10/05 22:00

Offari

Ég styð upphengd klósett.

31/10/05 22:00

Finngálkn

Skemmtilegt samkvæmt sið og venju! - En ég held að ef þú færir niður fyrir 100 kílóin Krumpa, myndi hætta að braka í dollunni! - Humm...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.