— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 10/12/05
Það sem sumir segja um suma meðan aðrir skulu þegja.

Var að glugga í stjórnarskránni okkar, þetta er auðvitað fantasíukennt útópíurit en þó er ýmislegt skemmtilegt að finna þar. Til dæmis mega allir hafa hvaða skoðanir sem þeir vilja (hversu ógeðfelldar sem þær eru í augum okkar hinna) og maður á að vera góður við minnihlutahópa (má ekki ofsækja fólk út af litarhætti, trú, kynhneigð o.s.frv.). Semsagt, það má hugsa og segja hvað sem maður vill en ekki segja ljótt um minnihlutahópa - eða hvað? Kannski bara þá minnihlutahópa sem okkur hentar? Megum við velja út hópa til að vera vond við?

Hér um daginn missti sænskur ofsatrúarprestur sig í messunni, hann sagði að hommar væru ljótir, vondir og í raun uppspretta alls ills. Hafði hann svipaðar hugmyndir og íslenskur kollegi hans um að æskilegt væri að afhomma alla þá er leiðst hefðu inn á þessa svívirðilegu braut. Hið umburðarlynda vestræna samfélag missti sig vitaskuld yfir ummælum prests, svona segir maður ekki, og prestinn skyldi dæma hvað sem tautaði og raulaði, og hvað sem liði margrómuðu skoðanafrelsi hans.

Fyrir nokkrum árum var svo íslenskur minnipokamaður dæmdur fyrir óviðurkvæmileg ummæli um hörundsdökka meðbræður okkar - og af hverju ekki? Það á að vera góður við minnimáttar og sumt segir maður bara ekki!

Í hræsni okkar virðumst við hafa valið okkur minnihlutahópa til að vera góð við. Hommar eru voða krúttlegir eitthvað, afskaplega smekkvísir og lekkerir og það er ljótt að vera vondur við homma. Blökkumenn eru svo auðvitað bestu skinn og fljótir að hlaupa og svona. Hafa þeir ekki líka lent í nægilegu mótlæti gegnum aldirnar? Svo eru svört kornabörn auðvitað ómótstæðilega krúttleg. Jú, við sem ólumst upp við að horfa á Philadelphiu og Mississippi burning með tárin í augunum og horinn í nefinu tókum þá upplýstu og meðvituðu ákvörðun að vera voða næs við blökkumenn og homma.

En hvað með aðra hópa? Risum við upp þegar skopmyndirnar af Muhammed birtust í danska sorpritinu? Nah, við sögðum bara ,,voðaleg viðkvæmni er þetta í þessum aröbum alltaf..."
Eða þegar páfinn sá sig knúinn til að ræða (væntanlega af svipaðri fáfræði og við hin) um illan boðskap annarrar trúar? Gerðum við eitthvað þá? Nei, við hristum bara hausinn og sögðum ,,æ,æ, voða var þetta klaufalegt af honum eitthvað..."

Svo vitum við auðvitað að sumir hópar eru bara ekki hægt. Til dæmis er það almenn vitneskja að íbúar suðurríkja Bandaríkjanna eru allir opinmynntir, ólæsir, innræktaðir, fávitar með yfirbit. Man ekki eftir að neinn hafi verið dæmdur fyrir ummæli í þessum dúr?

Ef ég skrifa svíðingslega grein um rasista, nýnasista eða aðra slíka óvinsæla hópa er hæpið að einhver rísi upp þeim til varnar. Ef ég geri grín að trú múslima þá er það allt í lagi - þeir eru hvort eð er bara fáfróðir hryðjuverkamenn í okkar vestrænu augum. Ef ég hins vegar viðra - í nafni skoðanafrelsisins - óyndislegar skoðanir á þeim hópum sem okkur eru þóknanlegir þá verður allt vitlaust.

Vil svo bara minna á að mesti hryðjuverkamaður okkar tíma er hvítur og kristinn. Það þýðir þá væntanlega að við öll sem erum hvít og kristin erum ólæsir, illa talandi og hrokafullir, fáfróðir kjánar. Hæpið að margir múslimar muni vernda okkar réttindi ef einhverjum dettur í hug að ofsækja okkur vegna þess.

Hitler var líka kristinn - en gyðingarnir drápu Jesú (ahhh! Hryðjuverkamenn!) svo að kannski jafnast það út - eða hvað? Miðað við ástandið þar útfrá gætu líka sumir gefið sér að allir gyðingar - eða í það minnsta allir Ísraelsmenn - séu grimmir, sjálfumglaðir og hrokafullir barnafjöldamorðingjar. Eða hvað? Rétt eins og hommar og blökkumenn geta þeir varla gert að því inn í hvaða trú þeir fæddust.

Sérhver maður er frjáls skoðana sinna og sannfæringar. Ef við ætlum svo að sleppa því að tala illa um minnihlutahópa í samfélagi okkar þá verðum við að láta það gilda jafnt um alla minnihlutahópa - ekki bara þá sem við af hræsni og hroka höfum fellt okkur við - af því að þeir eru svo krúttlegir eitthvað!

(ath. að þetta er meira svona lögfræðileg ábending og er ekki ætlað að viðra hugmyndir eins eða neins á ákveðnum hópum - heldur bara að boða jafnrétti - jafnt fyrir krúttlega sem ókrúttlega. Kannski líka spurning um að hætta að dæma fólk eftir fordómakenndum hugmyndum okkar um þennan eða hinn hópinn - og dæma þess í stað hvern mann að verðleikum? Ekki vil ég vera sett í hóp með sumum hvítu ráðamannanna í heiminum í dag!).

   (45 af 114)  
10/12/05 05:01

Offari

Semsagt.
Nasistminn átti fullan rétt á sér, En Hitler kom svo slæmu orði á hann að hann á sér engrar viðreisnarvon.
Múslimar eru yndælisfólk, en hryðjuverkamennirnir hafa dæmd þá villimenn.
Bandaríkjafólk er bara venjulegt pakk en forsetinn sem þeir kusu hafa gert þá að óargadýrum.
En hvað gerir Homma og Lespíur að vondu fólki ?þetta eru meinlaus kvikindi.

10/12/05 05:01

krumpa

Hitler var auðvitað klikk (held að það sé óumdeilt).
Múslimar, bandaríkjamenn, hommar og lesbíur eru væntanlega bara venjulegt fólk eins og við hin - sumir góðir og aðrir slæmir - sumir vitlausir og aðrir klárir- og hæpið að dæma allan þennan fjölda út frá einhverjum sameiginlegum einkennum (ég er hvít eins og Bush, Hitler og fleiri góðir....). Hæpnast er svo að dæma heim og menningu sem við þekkjum ekki rass... Hið eina sem ég er að segja er að ef við ætlum að sleppa því að tala illa um einhverja minnihlutahópa í samfélagi okkar - þá verður það að ganga jafnt yfir þá alla - ekki bara þá sem okkur eru að skapi!

10/12/05 05:01

Offari

Íslendingar eru líka villimenn sem borða hvali.

10/12/05 05:01

krumpa

Takk Offari - þetta er gott dæmi um svona kjánalega alhæfingu - ég borða t.d. hvorki hvali, hákarl né hrútspunga - á þá að dæma mig út frá þeim sem gera það?

10/12/05 05:01

Rýtinga Ræningjadóttir

Ég dæmi yfirleitt aðeins út frá eigin reynslu, og já, fordæmi þá í flestum tilvikum því að ég get ekki sagt að ég hafi hitt hvern einasta einstakling þess minnihlutahóps.

T.d. er reynsla mín af Tyrkjum, blökkumönnum og ofsatrúarmönnum frekar slæm, þannig að ég á kannski erfitt með að gefa fólki af þessum kynstofnum jöfn tækifæri og þeim sem ég hef ekkert álit á fyrir. En ég reyni þó að líta á alla sem jafna.

Og þetta með skopmyndina af Muhammed; ég skil bara ekki viðbrögðin? Brenna allt og bramla, drepa alla Dani, hvað og hvað?

10/12/05 05:01

krumpa

Íslendingar eru auðvitað upp til hópa trúlitlir þannig að við skiljum ekki heittrúarstefnur - en hvernig liði þér ef það sem þú settir traust þitt á, þætti vænst um og virtir meir en allt annað, yrði haft að háði og spotti í erlendum ritum? Ef hæðst væri að grundvelli tilveru þinnar og lífsskoðunum? EF þú á grundvelli trúar þinnar værir dæmd sem hryðjuverkamaður og andlegur leiðtogi þinn sýndur með sprengju í stað túrbans. Okkur finnst (upp til hópa) Jesúgrín bara fyndið og hugsum svo ekki meir um það - svo að auðvitað skiljum við þetta ekki -

10/12/05 05:01

Rýtinga Ræningjadóttir

Að mínu áliti finnst mér nú samt sem áður að þeir virðist vera að leita sér að tilefni til óeirða. Grínið var ekki gert undir nefinu á þeim, í öðru landi? Ég gæti skilið viðbrögðin ef arabar hefðu vaknað einn daginn og það hefði verið búið að líma upp plaköt með myndinni, og stórt uppblásið ferlíki svifi um í kringum landið.. og ef þeir taka trú sína svo alvarlega að þeir eru til í að fara í stríð við allan heiminn, er þá vandamálið okkar megin?

10/12/05 05:01

krumpa

Ég get alveg verið sammála þér - mér fannst viðbrögðin harkaleg - enda veit ég lítið og skil minna um trú þeirra. Það eina sem ég er að segja er - að ef það má skrifa ljótt m og hæðast að múslimum sem heild og dæma þá alla út frá steríótýpum - af hverju má þá ekki hafa annarlegar skoðunum á öðrum hópum, eins og hommum eða blökkumönnum? Ef skoðanafrelsi á að ríkja þá má það ekki bara eiga við hugmyndir sem okkur finnast sniðugar og þægilegar - það þarf að eiga við um allar hugmyndir og skoðanir! Múslimar taka kannski - að okkar óupplýsta mati - trú sína fullalvarlega - en það gefur okkur ekki rétt til að hæðast að henni. Stríðsrekstur og hryðjuverk er hins vegar engin ástæða til að verja - hvort sem hann á upptök sín í USA, Afganista, Íran, UK, eða annars staðar.

10/12/05 05:01

Rýtinga Ræningjadóttir

En með skoðanafrelsinu verður maður að takast á við það að það munu ekki allir vera sammála þér, þar felst aðalmunurinn. Svertingjar og samkynhneigðir eru fæddir svona (segir kenningin um þá síðarnefndu), og þeir geta ekki breytt. Hatrið gegn aröbum er held ég helst á þeim rökum byggt að skoðanir þeirra eru svo öfgafullar. Miðað við þeirra sögu og almenna framkomu er ekki skrítið að heimsbyggðin skuli nota þá sem leið til að hylma yfir sína eigin misbresti. En í raun er heimurinn bara ósanngjarn, og ég efa að hann muni nokkurntíma hætta að vera það (nema auðvitað að við náum heimsyfirráðum).

10/12/05 05:01

Nermal

Ég hef ekkert á móti múslimum sem slíkum. En það er þessi smávægilega prósent sem elur á óvild í þeirra garð. Og ens og Rýtina bendir á virðast þessir einstaklingar grafa alstaðar eftir einhverju sem hægt væri að túlka sem óvild. Er það ekki merki um vanvirðingu og óvild að tala um vesturlönd í heild sem Stóra Satann?

10/12/05 05:01

Haraldur Austmann

Það verður ekki sátt á jörðinni fyrr en mannkynið er útdautt. Gerum okkar besta til að útrýma því.

10/12/05 05:01

Rýtinga Ræningjadóttir

Hættum að stunda kynlíf! Mannkynið deyji út! Helvítis sorablésar.

10/12/05 05:01

Haraldur Austmann

Rétt. Mengum.

10/12/05 05:01

Gvendur Skrítni

Það sem páfinn gerði var auðvitað ekkert annað en aðskilnaðartrix - Þið viljið allt leysa með ofbeldi, var boðskapurinn og auðvitað voru nokkrir öfgahópar sem bitu á agnið og gripu til ofbeldis. Heimsbyggðin hugsaði - ljótt hjá honum að segja þetta en þetta virðist augljóslega satt. Á meðan stóðu hinir friðsælu múslimar og hugsuðu sig um hvort þeir ættu að stiðja páfann eða verja trú sína, erfitt val þar. Spurningin sem við ættum að spyrja okkur er, afhverju er páfinn að bralla með aðskilnaðartrix?

10/12/05 05:01

Tigra

Mér finnst mjög ljótt að stimpla múslima sem eitthvað hræðilega, bara út af því að örfáir aðilar fóru og sprengdu sig í tætlur og aðra með.
Hafa aldrei verið hvítir menn með sprengjur utan á sér að ræna t.d. flugvél?
Hvað með bilaða hvíta skóladrengi sem skjóta samnemendur sína og síðan sjálfa sig?
Eru það ekki hryðjuverk?

Mér finnst við allt of fljót að alhæfa um múslima, en líta framhjá brjálæðingunum í hópi hvítra manna.... bara vegna þess að við erum hvít... og VIÐ getum ekki verið vondu kallarnir... því við vitum að við erum góð.
ÞEIR eru alltaf vondu kallarnir. Sama hverjir "Þeir" eru.

Ég bjó á tímabili með bæði múslimum, hindúistum, svertingjum og kristnum indverjum... en ég var eina hvíta manneskjan á staðnum.
Þessi sambúð, þótt undarlegt væri, gekk bara ljómandi.
Fólk dæmdi hvert annað eftir geðþátta og persónulegri reynslu, ekki eftir trú eða litarhætti.

Það er kannski auðvelt þegar þetta er fátt fólk sem býr á sama stað, en það ætti ekki að vera svo erfitt að gera sér grein fyrir því að það eru ekki allir eins.

Ég held að það séu alls ekki færri kristnir, hvort sem þeir eru hvítir eða svartir sem drepa fólk á hverju ári, heldur en múslimar.

Svei fordómum.

10/12/05 05:01

Þarfagreinir

Sammála síðasta ræðumanni. Maður á að reyna að alhæfa sem allra minnst.

10/12/05 05:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Góður pistlingur hjá krumpu.
Ævinlega setur hún fram góða punkta, sem vert er að fólk velti fyrir sér.

10/12/05 05:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Kæra Krumpa Åke Gren hvítasunnusafnaðar klerkur Sagði að homosexeulla væru Krabbameins æxli á líkama mankynsins. hann varð sýknaður þ Mér finst að hver og einn hafi frjálsræði að segja hvað sem er enn beri líka ábyrgð gerða sinna að banna ætti að svívirða
hvern og einn lítil sem stórann rauðann og gulann
orð geta sært og svipuhögg á sálinni særa líka mikið og dito á rassinum.

10/12/05 05:01

Vímus

Þrælgóður pistlingur hjá þér Krumpa. Ég held að menn séu of fljótir að sjá aðeins eina hlið á mörgum málum og dómharka mannkynsins er með ólíkindum.
Þetta með negrana er góður punktur. Það var farið illa með þá og ég man eftir látunum í Alabama þegar fylkisstjórinn neitaði að samþykkja lög um jafnrétti kynþáttanna sem Lindon B Johnson skrifaði undir. Það er ekki þar með sagt að maður með hvítan hörundslit eigi þess vegna að sýna manni með svartan hörundslit algjört umburðalyndi einungis vegna þess að hann er svartur . Menn af öllum trúarbrögðum, litarhætti, stjórnmálaflokkum og hvað það nú heitir, verða að taka tillit til hvers annars. Síðan geta menn valið hverja þeir vingast við og umgangast.
Það er fróðlegt að bera saman tvo þekkta Íslendinga sem hafa öðlast (frægð) fyrir afbrot.
Annar er sennilega hataðasti maður landsins.
Steingrímur Njálsson, dauðvona vesalingur sem hefur framið viðurstyggilega glæpi gegn ungum drengjum.
Hinn er Lalli Johns og þrátt fyrir þrjátíu ára óslitinn afbrotaferil þar sem hann hefur farið virkilega illa með fjölda fólks þá er engu líkara en öllum þyki vænt um hann. Eru þetta ekki fullmiklar öfgar ?

10/12/05 05:02

Tigra

Mikið til í þessu hjá þér Vímus.
Ég hef hitt fjölda unglinga sem finnst svaka spennandi að hitta Lalla Johns.
Var ekki líka gerð kvikmynd um hann?

10/12/05 05:02

Þarfagreinir

Jújú. Hún var ágæt. Ég held að fólk geri sér almennt séð ekki grein fyrir hvað Lalli Johns hefur nákvæmlega verið að gera í gegnum ævina. Það er litið á hann sem meinleysisgrey og svona Hróa-Hattar fígúru, en það er ekki alveg sannleikanum samkvæmt.

Ætli fólk verði ekki alltaf að eiga sér einhverjar hetjur?

10/12/05 05:02

krumpa

Góðir punktar Vímus - vissi reyndar ekki að Steingrímur væri dauðvona....

10/12/05 06:00

Upprifinn

allir Svíar eru eins og sænski kokkurinn í prúðuleikurunum og ég vil fá að hafa mína fordóma í friði.
.
hinsvegar er bara mjög gott að sumir séu fordómalausir því að það bætir mannlífsflóruna.

10/12/05 06:00

Jóakim Aðalönd

Ég þekki EINN múslima. Hversu margir hérna þekkja svo marga eða fleiri múslima? Ég get sagt ykkur að yndislegri mann hef ég varla þekkt og hef ég þó ekki þekkt manninn lengi.

Ég þekki fullt af samkynhneigðu fólki og er það flest allt gott fólk.

Ég þekki líka ógrynni af útlendingum (hef kynnst þeim á ferðalögum mínum í gegnum tíðina) og langflestir eru frábærir.

Málið er að það skiptir engu máli hverrar trúar, kynhneigðar, litar eða annarar niðurskiptingar fólk er; bara ef þetta eru góðar manneskjur. Það er mergurinn málsins.

10/12/05 06:00

Tigra

Ég þekki fullt af múslimum sem ég kynntist í Suður Afríku.
Þau vorur mis góðar manneskjur... en mörg af þeim alveg yndisleg.

En það er einmitt málið, dæma af reynslu en ekki af fordómum.

10/12/05 06:01

Jóakim Aðalönd

Svakalega varstu vöknuð snemma í morgun Tigra.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.