— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 4/12/05
Viðtal við vampíruna

Vil byrja á að þakka ykkur öllum fyrir að hafa verið einstaklega góð við mig á þessum síðustu og verstu - þetta hér er aðeins á léttari nótunum.

Hin keisaralega bifreið er sprungin. Kannski ekki bókstaflega en hún sprengir, sýður og blæs svörtu! Það eina sem er skoplegt við þetta er að þegar þetta gerist í íbúðarhverfum spretta út á tröppur Glitnis/lýsingar lúxuskerru,,eigendur" og líta með fyrirlitningasvip á gripinn. Geymið andúðina kjánarnir ykkar! Hin keisaralega bifreið er að fullu greidd og alfarið í minni eigu. Lekur vatnkassi, ónýt kúpling, biluð bensíndæla, ryðgað lakk, götótt áklæði. MITT MITT MITT!

En sumsé, í gær varð ég svo að fara í atvinnuviðtal. Vegna þess að Heittelskaður var að stússa á frúarbílnum og ég hef meðfædda andúð á almenningssamgöngum (fyrirgefðu, Ívar) ákvað ég að fara labbandi. Hressileg ganga er nú bara til heisubótar og hefur aldrei skaðað neinn, eða hvað?

Alveg merkilegt annars hvað við konur getum flækt hlutina. Prógrammið byrjaði sumsé klukkan átta, með sturtu, plokkun, húðhreinsun og tilheyrandi rakstri og kremásetningu. Síðan tók við hárgreiðsla svo að strýið væri nú í skorðum, naglalakkning og förðun. Mikil ilmefnaásetning til að dylja króníska reykingafýlu og ,,faglegir" skartgripir valdir af kostgæfni. Loks var tekið til við að strauja atvinnuvænleg föt og eftir fjögurra tíma alþrif og djúphreinsun var haldið út í norðangarrann.

Lét það sem vind um eyru þjóta þegar Heittelskaður hringdi og sagði mér að klæða mig vel. Sá það nú ekki beint í anda að því yrði vel tekið að mæta í lopapeysu og með lambhúshettu.

Fór því í pinnahælum og þunnyldislegum fötum og arkaði minn veg. Í nístingskulda með helvítis vindinn í fangið! Heila þrjá kílómetra - sem er slatti í þessum klæðnaði!

Þegar ég mætti loks á staðinn, of seint, var greiðslan farin úr skorðum og ég var með þann hrottalegasta samfarahnakka sem sést hefur í tuttugu ár. Ég var kalinn á rassinum, annar eyrnalokkurinn fokinn úr og ég lyktaði eins og olíutunna eftir þrammið um mengaðar umferðaræðar. Ég var með sultardropa úr nefbroddinum og í stað faglegu varamálningarinnar var kominn blæðandi þurrkur. Þar sem ég tárast í roki var augnmálningin farin fjandans til og ég minnti helst á yngri systur Alice Cooper. Var með svitapolla undir handleggjunum eftir rösklegt labbið, hjartslátturinn upp á cirka 200 slög á mínútu og náði varla andanum fyrir mæði. Uppgötvaði auk þess gat á buxunum og það ekki á góðum stað!

En viti menn! Allt er gott sem endar vel og þrátt fyrir útganginn fékk ég starfið. Það er þess vegna spurning hvort þessi ofurvinna sem við leggjum á okkur til að líta sómasamlega út er ekki bara helber tímaeyðsla? Mun betra að koma bara til dyranna eins og maður er klæddur - þ.e. eins og heimilislaus flækingur og landeyða? eins og maður sé nýkominn af árshátíð djöfladýrkenda? Bara pæling...

   (51 af 114)  
4/12/05 06:01

sphinxx

Kannski vænlegt í atvinnuleit en tæplegast við makaleit.

4/12/05 06:01

Skabbi skrumari

hehe... gott félagsrit... til hamingju með starfið krumpa...

4/12/05 06:01

Nornin

[Skelli hlær]
Litla systir Alice Cooper!
[Flissar]

4/12/05 06:01

U K Kekkonen

Til Hamingju!

4/12/05 06:01

Bismark XI

Vinnan göfgar manninn eða konuna í þessu tilfelli því segi ég nú bara til hamingju.

4/12/05 06:01

Haraldur Austmann

Djöfulli ertu góður penni.

4/12/05 06:01

B. Ewing

Ákafalega myndrænt verð ég að segja [Hristist af hlátri]
Gangi þér vel í nýju vinnunni, kannski er þér óhætt að koma í lopapeysunni hér eftir.

4/12/05 06:01

Nætur Marran

Flottar lýsingar. Ég sá þig bara fyrir mér. En til hamingju og gangi þér vel.

4/12/05 06:01

Ugla

Frábært miss Cooper!

4/12/05 06:02

Hakuchi

Til lukku Krumpa. Afbragðs pistill. Ég tek undir með Haraldi. Þú ert lipur stafþrykkir.

4/12/05 06:02

Nermal

Það er gott að eiga bílinn sinn skuldlausan. Magnað ug myndrænt félagsrit. Til hamingju með starfið.

4/12/05 06:02

Offari

Til hamingju með starfið. Gangi þér vel.

4/12/05 07:00

blóðugt

Frábært rit! Til hamingju með starfið.

4/12/05 07:00

Krókur

Flott! Til hamingju. Þetta hljómar eins og um sé að ræða sannkallaða Essex stelpu.

4/12/05 07:01

krumpa

Þakka, þakka , þakka (hneigir sig hæversklega...).

4/12/05 07:01

Isak Dinesen

Góð saga og vel skráð. Til hamingju með nýja vinnu.

4/12/05 07:01

Vladimir Fuckov

Stórskemmtilegt fjelagsrit og til hamingju með nýja starfið. Vonandi er lífið á uppleið.

4/12/05 07:02

ZiM

Til hamingju með starfið. Og ég verð að segja hvað mér fannst þetta vel skrifað.

P.S mér finnst miklu betra að eiga gamla bílinn minn skuldlaust heldur en að vera skítblönk við að borga af nýjum bíl [hleypur út á plan og faðmar bílinn sinn]

4/12/05 01:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Skemmtileg lesning. Leiðin liggur uppávið - gott að heyra !

4/12/05 02:02

Heiðglyrnir

Glæsilegt félagsrit..Gangi þér vel í nýja starfinu Krumpa mín.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.