— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 2/11/04
Fasteignasala-skreytni eða lygar?

Þar sem ég er skelfing löt hef ég í prófunum verið að dunda mér við það að lesa fasteignaauglýsingar. Þegar markaðurinn er jafnþaninn og núna eru lýsingarnar í þeim í besta falli fyndnar, ef ekki glæpsamlegar. Er að hugsa um að taka löggildingu sem fasteignasali og langar þess vegna að fá að æfa mig smá á ykkur.

Neðanjarðarbyrgi Hitlers : Einstakt tækifæri, hús með mikla sál og sögu. Lítið niðurgrafið og bjart húsnæði sem býður upp á mikla möguleika fyrir rétta aðila. Stærð 2000 fermetrar (reyndar bara 20 skv. Fasteignamati ríkisins, en gólfflötur mun stærri, að sögn eiganda). Einn eigandi frá upphafi!

Strætóskýli : Stórt ALRÝMI í náinni snertingu við náttúruna. Virkilega bjart og skemmtilegt húsnæði á jarðhæð, eignin býður upp á ýmsa innréttingarmöguleika, húsbúnaður fylgir. Góðir gluggar og öll fjölskyldan getur notið ALRÝMISINS, hitaveita í húsinu gæti þó þarfnast viðhalds. Sérinngangur og möguleikar á viðbyggingu. Tilboð óskast.

Útikamar á Vatnajökli : Þetta er ein með öllu! Afskaplega björt og rúmgóð einstaklingsíbúð í nágrenni við helstu náttúruperlur landsins. Stórkostleg nýting á rými. Vel byggt hús á einni stærstu leigulóð landsins. Öll þægindi og hreinlætistæki fylgja en á eigninni hvílir sú kvöð að eigandi gæti þurft að samnýta hana að hluta, þ.e. sameign nýtist með öðrum. Stærð 10000000 fermetrar (lóð innifalin í fermetrafjölda). Stutt í skóla og þjónustu.

Tveggja manna kúlutjald : Hlýlegt húsnæði, örlítið undir súð en á besta stað í bænum. Byggt í stíl finnska íshúsaarkitektsins Nart í Tillanna og er því einstakt í byggingarsögulegu tilliti. Húsið er með sérinngangi og því er ekki nauðsynlegt að hafa mikil samskipti við nágrannana. Stærð 0 fermetrar samkvæmt FMR en að sögn eiganda nýtist rými hússins ákaflega vel og mikið geymslupláss er undir súð.TIlvalið sem fyrsta eign! Ekkert áhvílandi!

Hamstrabúr : Gríðarlega nýstárlegt húsnæði með miklu birtuflæði og nútímalegu ytra byrði, húsnæðið er alrými en þó er stórt tómstundarými í kjallara með æfingahjóli. Þetta er eign fyrir vandláta! Stærð er ekki nákvæmlega vituð en að sögn eiganda fer hann sjaldan úr húsi enda nær það að uppfylla allar hans þarfir. Fyrstur kemur-fyrstur fær!

Á ég ekki bara bjarta framtíð í bransanum?

   (64 af 114)  
2/11/04 09:01

Isak Dinesen

Húrra!

2/11/04 09:01

B. Ewing

Ég kaupi hamstrabúrið!

2/11/04 09:01

Litla Laufblaðið

Kúlutjaldið er málið fyrir okkur huxa ég.

2/11/04 09:01

albin

Ég tek byrgið strax.

2/11/04 09:01

Wiglihi

[Kaupir kamarinn] Loksins húsnæði við mitt hæfi

2/11/04 09:01

Hvæsi

[Talar einsog fasteignasali]
Velkomin til starfa.

2/11/04 09:01

Galdrameistarinn

Heyrði að Ívar nokkur Sívertsen væri heitur fyrir strætóskýlinu.
[Glottir hroðalega]

2/11/04 09:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Þú gleimdir skókassanum fímt og hugsunavert rit takk!

2/11/04 09:02

hundinginn

Nokk til í þessu Krumpa.
Allar eignir svo glæsilegar. Einstaklega smekklegt þetta og hitt. Frábært útsýni til þess eða hins "hússins" Puff. Fökking djók!

2/11/04 09:02

Offari

Á tölvert magn af fasteignum sem gott væri að fá einhvern aur fyrir. Skrái þær á þína sölu. Takk

2/11/04 09:02

Nornin

Krumpa, þú ert snillingur. Ég held að þú gætir selt mér helli... Hmm... ég er norn... hellir er sama sem innifalið í starfslýsingunni... áttu nokkuð einn á lausu?

2/11/04 09:02

Hvæsi

[Réttir upp hendi] Ég er á lausu...

2/11/04 09:02

krumpa

Á fínan helli handa þér Norn, en við í bransanum köllum það auðvitað ekki helli - heldur fallegt hús úr náttúrusteini, upprunaleg hönnun og sjarmanum hefur verið vel við haldið, rúmgott og bjart húsnæði (lesist: lofthæðin 1,5 metrar og enginn þyngri en 35 kíló getur troðið sér inn, hentar varla fyrir myrkfælna). Sérinngangur og rúmgott þvottahús í sameign (semsagt; raki í veggjum og húsnæðinu deilt með leðurblökum og köngulóm). Hljómar þetta ekki vel? Tilboð óskast!

2/11/04 10:01

krumpa

Hvað segirðu, Norn? Viðhaldsfrítt hús á besta stað! Það eru ekki margar eins og þessi og nú fer hver að verða síðastur...

2/11/04 10:01

Steinríkur

Hellirinn hljómar vel, en það er lítið gaman að þurfa að takmarka gestina við 35kg (með eða án skólatösku).

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.