— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 9/12/04
Hjónabandsmiðlun af gamla skólanum

Fyrir daga Heittelskaðs var undirrituð einhleyp um nokkra hríð. Hún undi hag sínum vel, var einvaldur yfir fjarstýringunni og gat sofið í sokkunum, réð hvenær hún fór á fætur og hvort svefnherbergisglugginn var lokaður eða opinn.

Ekki voru þó allir jafnánægðir með þetta fyrirkomulag, og þeirra á meðal var erfinginn, lítil fimm ára táta sem endilega vildi koma mömmu sinni út. En þar sem mamman er kostagripur mátti nú ekki hver sem er hreppa hnossið.

Sú stutta settist því niður og gerði lista - og mynd - af væntanlegum vonbiðli. Hann þurfti að uppfylla ýmsar kröfur, mismunandi fjarstæðukenndar, og þurfti að vera búinn ýmsum kostum.

Svona hljóðaði listinn góði:
- Má ekki vera gamall (eitthvað var nú loðið hver mörkin voru, en við hlið þessarar kröfu var gerð mynd af öldungi með staf og krossað yfir hana með rauðu).
- Má ekki vera með skegg (mömmunni var nú nokk sama um það en þetta var til þess að sú litla gæti kysst hann og knúsað án þess að verða fyrir óþægindum).
- Þarf að geta farið í handahlaup.
- Þarf að hafa gaman af að lesa (fyrir börn!).
- Þarf að elska börn og dýr.
- Þarf að hafa freknur.
- Þarf að kunna leiki.
- Þarf að stunda hestamennsku.
- Þarf að geta stokkið langt og helst að vera liðtækur í stangarstökki.
- Þarf að vera með slaufu.
- Þarf að vera ljóshærður.
Svo voru teiknaðar myndir af þessu undarlega samblandi af Mary Poppins og Íþróttaálfinum. Mamman var nú ekki par spennt fyrir þessu fyrirbæri en taldi hvort eð er hæpið að hún fyndi nokkurn tímann einhvern sem uppfyllti allar þessar kröfur væntanlegs stjúpbarns.

Sú stutta fór því í ljósritunarvél hjá afa sínum og prentaði út uggvænlega mörg eintök af þessari einkamálaauglýsingu. Mamman rétt náði að stöðva hana þar sem hún var á leið út með hamar og nagla og ætlaði að negla auglýsinguna á nærliggjandi tré. Svo fékk sú stutta þá snilldarhugmynd að berja bara að dyrum alls staðar í hverfinu og spyrja hvort ekki leyndist þar kærasti handa mömmu. Einhvern veginn tókst nú að stöðva þetta brölt með hummum og loforðum um að þetta yrði nú allt gert - bara seinna...

Þegar kærastinn (sem illu heilli uppfyllir fæstar af hæfniskröfunum) var svo loks fundinn og afkvæminu tilkynntur ráðahagurinn náði mamman á síðustu stundu að stöðva barnið í því að hengja tilkynningu á hurðina ,,MAMMA ER KOMIN MEÐ KÆRASTA" (svona til að tilkynna vonbiðlum sem það átti von á að tækju að berast í stríðum straumum að þetta væri tilgangslítið hjá þeim).

Segið svo að barneignir hafi letjandi áhrif á ástarlífið!

   (71 af 114)  
9/12/04 05:01

Heiðglyrnir

Æ ! elsku Krumpa mín, nú hló minnz. Yndislegt og upplífgandi félagsrit, hafðu þökk fyrir. (Hlær meira)

9/12/04 05:01

Þarfagreinir

Þetta er æðislegt. Ég vona að minn krakki verði svona ef ég eignast slíkt einhvern tímann.

9/12/04 05:01

Prins Arutha

Vel gefin ung stúlka hú dóttir þín. Og veit hvað hún vill.

9/12/04 05:01

B. Ewing

Þetta var afar skemmtileg lesning. Barra að grunnskólarnr loki ekki fyrir þessar hugmyndir hjá litlu með stífelsi og snupruhætti.
Bravó fyrir litlu! [Klappar]

9/12/04 05:01

Skabbi skrumari

Hmm... hljómar eins og lýsing á mér, fyrir utan hestamennskuna og aldurinn... flott félagsrit... salút...

9/12/04 05:01

Kikyou

Ég get tekið undir að þetta sé gott félagsrit og líka einkar hjartnæmt.

9/12/04 05:01

Hakuchi

Barn þitt er gersemi. Bráðskemmtilegt.

9/12/04 05:01

krumpa

Takk fyrir öllsömul. Það skondasta er að þetta er allt satt - ég geymi auglýsinguna ennþá - svona ef í harðbakkann slær!

9/12/04 05:01

Fuglinn

Þetta er fallegt félagsrit.

9/12/04 05:02

Prins Arutha

Efv í harðbakkann slær þá gæti ég hugsanlega aðlagast þessari lýsingu.

9/12/04 05:02

Nornin

Vildi að ég hefði aðgang að svona barni.
Mér gengur ekkert að ganga út og gæti farið að vanta hjálp.
[Brestur í grát]

9/12/04 05:02

krumpa

Kæra Norn - ég get bara sent þér auglýsinguna og þér er velkomið að nota hana; þ.e. ef þú kærir þig um svona óskilgetið afkvæmi Poppins og Íþróttaálfsins...

9/12/04 06:01

Bölverkur

Væri til í að ættleiða þá stuttu.

9/12/04 06:01

Tigra

Svo seinna meir getur þú komið með krók á móti bragði.. og þegar prinsessan er sjálf farin að leita sér að strákum, þá getur þú hengt upp auglýsinguna aftur.
(Já eða búið til þína eigin um drauma tengdasoninn)

9/12/04 07:00

krumpa

Frábær hugmynd Tígra - fer strax að gera uppkast...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.