— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 4/12/04
Ritsóðar og annað hyski - SVEIATTAN BARA

Æi - á að vera að grúfa mig yfir skruddurnar. En innbyrgður pirringur er bara orðinn svo mikill að ég þarf aðeins að tappa af áður en ég sný mér aftur að skemmtilestrinum...

Einu sinni fór ég með fjölskyldunni í sumarbústað á vegum vinnunnar. Það er vitaskuld ekki í frásögur færandi. Vegna þess hvað svona fjölskylduferðir eru hræðilega leiðinlegar (hljóta bara að vera það sé tekið mið af hinu óhóflega lesefni sem er að finna í svona kofum) varð kæti mín mikil þegar ég fann nýlegt tímarit. Man ég ekki í svipinn hvað bleðill þessi hét (væntanlega hefur ,,líf" komið fyrir einhvers staðar í titlinum) en ég var ekki langt komin í lestrinum þegar ég tók að furða mig á þeirri skefjalausu mannvonsku sem hlýtur að hafa knúið hinn upphaflega eiganda til þess að skilja hann eftir...

Fyrst las ég grein um það hvernig best væri að haga háreyðingu á afviknari stöðum líkamans, og hvað þetta væru nú allt saman lífsnauðsynlegar aðgerðir. Fylgdu þessari speki svo langar útlistanir á því hvernig best væri að vaxbera þessi svæði. JÁHÁ! Ég hef sko farið í vax - fyrir neðan hné!! Það var álíka þægilegt og að skafa úr sér botnlangann með skeið og það geri ég sko ekki aftur - hvað þá að þróa þessar pyntingar með því að flytja þær á viðkvæmari svæði.

Næst kom grein um það hvað það væri nú ömurlegt að vera ekki átján ára, hundraðogsjötíu sentimetrar og fimmtíu kíló. Fylgdu þessum hugleiðingum svo margs konar ráðleggingar um það hvernig væri best að losna við hrukkur og appelsínuhúð. En samkvæmt bleðlinum virtist appelsínuhúð einmitt vera það sem helst ógnar geðheilsu kvenna og stuðlar að ofdrykkju, þunglyndi og sjálfsmorðum þeirra - ósköp erum við nú einfaldar sálir!

Ýmsar sams konar greinar fylgdu í kjölfarið. Meðal annars var fjallað um það þarfa efni hvernig hár nær sem mestum gljáa, hvernig augun verða líflegri og skærari, hvernig best er að nudda brjóstin svo að þau verði stinnari og hvernig best er að haga handhirðu svo að fingurnir virðist lengri (sennilega einhver freudismi þar á ferð)...

Semsagt allt þörf og góð viðfangsefni. Ekki þetta bölvaða væl um atvinnulífið, menningu, menntun eða listir. Sveiattan, uss! Við konur erum svo einfaldar sálir að svoleiðis raus fer bara fyrir ofan garð og neðan (hvað þá ef orðin eru löng og erfið).

Þegar ég hafði lokið þessum lestri kom svo sveskjan í pylsuendanum. Eins og mér liði ekki nógu illa eftir lesturinn! Þarna sat ég semsagt, nýbúin að komast að því að eftir mælistiku svona blaða er líf mitt ekki þess virði að lifa því. En eins og til að nudda salti í sárin þá blasti hún við mér; síðasta greinin í bleðlinum; PARTÍIN SEM ÞÉR ER EKKI BOÐIÐ Í !

Komu svo myndir og lýsingar á þessum hátíðarhöldum. Mátti þar líta Trabantliðið íslenska í sínum fínasta skrúða; ofurfyrirsætur, fótboltakappa og aðra andans jöfra á listasýningaropnunum, sennilega í djúpum samræðum um það hvort væri nú fallegra; rauður punktur á svörtum fleti eða svartur punktur á rauðum fleti.
Svo voru lýsingar á öllu skuggalegri partíum, fréttir úr innsta hring elítunar. Fréttir úr vipkjöllurum og herbergjum þar sem dauðadrukknir forstjórar veltast um að vild.

SHIT. Ég get nú bara ekki sagt neitt annað. Ósköp leið mér illa eftir lesturinn, með matt hárið, klofnar neglur, appelsínuhúð, illa vaxborin, og engin partíboð í augsýn.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að hengja mig í fánastöngina.
Næsta hugdetta gekk út á það að bræða vax, þvo hárið úr kúamykju, liggja í tvo sólarhringa með tepoka á augnlokunum, skrapa lærin með sandpappír og leggjast fyrir valtara svo að ég yrði nú hávaxin og löguleg (mundi reyndar líka eftir dvergnum sem fór í sársaukafulla lengingaraðgerð til Rússlands).

Svo - allt í einu - rann upp fyrir mér ljós. Stökk upp úr sófanum og brenndi bleðilinn í vaskinum. Ég er ekki átján ára lengur (guði sé lof, ef ég man rétt þá var það vandræðalegur aldur blankheita og ástarsorga), og ég skal hundur heita ef ég ætla að eyða næstu fjörutíu árum vælandi yfir því. Ég er með appelsínuhúð (eftir tvítugt er það reyndar eins sjálfsagt og að vera með húð yfirleitt) og brjóstin á mér eru á hægri og öruggri ferð suður á bóginn. Mig langar auk þess ekkert að vera boðin í partí með yfirborðskenndu plastfólki og hrukkur gefa manni bara karakter. Ég er bara nokkuð sátt og ágætlega útlítandi - þó að þessir skríbentar kunni að vera á annarri skoðun. Hver aldur hefur sinn sjarma, það er ekkert fallegt að vera ,,fullkominn" og maður á að hugsa um (og lesa um) eitthvað ögn gáfulegra!

Þið sem skrifið svona rugl megið bara skammast ykkar og guð hjálpi ykkur sem lesið það.

Þakka lesturinn og lifið heil - nákvæmlega eins og þið eruð.

   (81 af 114)  
4/12/04 11:02

Smábaggi

Ég nennti loksins að lesa langt félagsrit fyrst ég hafði ekkert að gera. Það geri ég hins vegar ekki aftur.

4/12/04 11:02

Nornin

Ásynjum sé lof að það eru til fleiri konur eins og ég. Krumpa, þú átt heiður skilið fyrir að taka þetta þjóðfélagsböl svo rækilega til umfjöllunar.
Öll þessi glanstímarit (vikan, mannlíf, nýtt líf, hvað sem þau nefnast öll) mega brenna til ösku í hverri viku fyrir mér.
Ekkert af því sem ritað er í þau er þess virði að lesa það og ég held að það sé sársaukaminna fyrir heilasellurnar að horfa á þátt af "fólk með Sérrý" heldur en að eyða svo mikið sem 5 mínútum af æfinni í að lesa um forheimskaðar sílíkonljóskur og háreyðingarmeðferðir.

Þú ert gyðja og ég klappa fyrir þér.

4/12/04 11:02

Þarfagreinir

Svona kellingablöð eru það ömurlegasta sem til er. Þau eru móðgun við ykkar annars ágæta kyn.

4/12/04 11:02

kolfinnur Kvaran

Ég sem hélt að allar kellingarnar væru komnar yfir í bleikt&blátt...

4/12/04 12:00

Isak Dinesen

Mjög góð grein, má ég leggja til að þú takir eitthvað gáfulegra með að lesa næst þegar þú ferð í fjölskylduboð utan siðmenningarinnar?

Þá vil ég taka fram að mér finnst ekkert að því að fólk hugi að hraustum líkama og held ég að það hafi óbeint jákvæð áhrif á hið andlega. Umfjöllun þessara "rita" (það getur verið meira spennandi lesning að lesa æfingablað í vélritun) er hins vegar algerlega fráleit.

E.s.: Getur verið að Smábaggi þurfi á úthaldsæfingum í lestri að halda?

4/12/04 12:00

Jóakim Aðalönd

Orð í tíma töluð og hver er betri að benda á yfirborðskennd í þjóðfélaginu en einmitt hún krumpa. Hún hefur sýnt og sannað það enn og aftur að hún kann að líta undir húddið og skoða vélina.

4/12/04 12:00

Ísdrottningin

Heyr heyr, eldumst með reisn.

4/12/04 12:00

Skabbi skrumari

Sammála... eldumst með reisn (Viagra á línuna)...

4/12/04 12:01

voff

Reynir Traustason er nú að gera góð hluti með "Mannlíf-miklu meira en ilmvötn". Nú má búast við að næsta tölublað verði með límrenningi svo menn geti tékkað á hvernig kókaínsápan lyktar.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.