— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 1/12/04
Maðurinn minn skilur mig ekki

Þetta hljómar eins og ég sé að fara rangt með brandarann gamla ,,konan mín skilur mig ekki." En það er í raun enginn brandari heldur bara súrrealískur misskilningur. Við konur skiljum nefnilega aðra ágætlega, það eruð þið sem ekki skiljið...

Maðurinn minn skilur mig ekki. Hann er ágætlega menntaður, vel lesinn og yfirhöfuð bara nokkuð klár en samt skilur hann ekki neitt!

Stundum mælum við okkur mót og hann kemur heim tveimur - þremur tímum of seint. Þá ligg ég kannski einhvers staðar (í fýlu - eðlilega að mér finnst) og togast ekki orð uppúr mér. Hann spyr þá, ákaflega hugulsamlega, þessi elska, hvort ég sé með hausverk! Honum er fyrirmunað að skilja að mér þætti yndislegt ef hann tæki sér frí frá ,,strákunum" eins og eitt kvöld í mánuði til að gera eitthvað með mér. Ef ég fer í rúmið í náttbuxum og stuttermabol, vef fast utan um mig annarri sænginni og sný mér frá honum telur hann það merki um að ég sé til í tuskið. Ef ég segi ekki nema einsatkvæðisorð allan daginn spyr hann kannski, eftir langa íhugun og mæðu, hvort það sé eitthvað að? Ef ég segi ákaflega snúðugt: ,,NEI, ÞAÐ ER EKKERT AÐ" þá tekur hann það gott og gilt.

Ekki misskilja mig, þessi atvik eru fátíð, og yfirleitt er allt í góðu og þrátt fyrir allt elska ég þetta grey. Held líka að hann sé síst verri en önnur eintök (vil heldur ekki ofurmjúka menn sem gera ekkert annað en að röfla um tilfinningar). Hins vegar pirrar þetta mig. Mér hafa dottið í hug tvær lausnir; annars vegar að byrja á kellingalegu jarmi eins og ,,þú vilt aldrei tala við mig, búhúhú"..... ,,Ef þú elskaðir mig, þá þyrftirðu ekki að spyrja hvernig mér líður"... ,,Hvernig geturðu verið svona tillitslaus"...o.s.frv.. Hins vegar datt mér í hug að búa til skilti til að hengja um hálsinn á mér : ,,Döpur" , ,,Reið", ,,Þreytt"... o.s.frv. Teikna svo myndir af misánægðum brosköllum fyrir neðan.

Vinkonur mínar sjá hvernig mér líður og vita af hverju mér líður þannig, þess vegna finnst mér óþarfi að vera fjölyrða eitthvað um það. Mér finnst líka að þegar Heittelskaður hefur gert eitthvað af sér að ég eigi ekki að þurfa að skýra út fyrir honum hvað hann hafi gert, hvaða tilfinningar það vekji hjá mér og hvað hann eigi að gera öðru vísi... Hann á að gera sér lítið fyrir og lesa hugsanir mínar !

Þetta finnst mér, eða réttara sagt FANNST.
Um daginn sá ég nefnilega fræðsluþátt sem opnaði mér heim karlmanna. Sá að þið eruð alltaf að reyna, greyin, þið bara getið ekki betur.

Þátturinn var um áhrif karlhórmóna og það hvernig karlmenn eru frábrugðnir betra kyninu. Fylgst var með konu sem var á leið í kynskiptaaðgerð. Fyrir aðgerðina (þegar hún var all-woman) var hún látin taka ýmis greindar- og sálfræðipróf. Meðal annars var hún látin skoða ljósmyndir og myndskeið og átti að greina hvernig fólkinu á myndunum leið. Það var tekin mynd af heilanum og á henni sást hvernig TVÖ, lítil en skilvirk svæði voru að störfum við þetta. Þarf varla að taka fram að sem kona stóðst hún prófið með ágætum.

Leið svo og beið. Eftir þrjá mánuði og talsverða inntöku karlkynshormóna fór hún aftur í sömu prófin. Nú var hún talsvert nær því að vera karl, og sum próf (eins og tölvuleikjaprófið) stóðst hún mun betur, en önnur verr... Þegar að áðurnefndu tilfinningagreindarprófi kom var aftur tekin mynd af heilanum. Nú var aldeilis annað að sjá, ÖLL svæði heilans voru að vinna og rembast, hún reyndi hvað hún gat og heilinn var við það að springa, en samt féll hún á prófinu!

Þetta sýndi mér að þetta er ekki ykkur að kenna, þið reynið hvað þið getið að skilja okkur og líðan okkar, þið getið bara ekki betur! Það þýðir þess vegna ekki að gefa karlmanni hint (þó hávær og augljós séu) um líðan sína. Hann rembist og reynir, brýtur litla heilann sinn fram og til baka, hugsar og hugsar, en skilur bara ekki neitt í neinu!

Fyrir okkur konur er því annaðhvort að þola þetta, tala við þá um tilfinningar á skýru og einföldu máli og sýna þeim umburðarlyndi, eða að taka saman við fólk af eigin kyni (sem reyndar virðist á stundum fela í sér bæði einfaldara og átakaminna líf).

Þakka þeim sem hlýddu - og strákar ég er EKKI REIÐ út í ykkur (það er ekkert að), ég er bara að lýsa vísindalegum staðreyndum!

   (90 af 114)  
1/12/04 19:01

Heiðglyrnir

Hva ha, er eitthvað að elskan.

1/12/04 19:01

Lómagnúpur

Jamm, svona er þetta Krumpa. Hvað svo sem allar sturlaðar femínistalessur segja þá eru karlar og konur einfaldlega frábrugðnar varðandi andlega sérhæfingu. Og það er ekkert ljótt við það. Rétt eins og við karlarnir reynum að sýna ykkur skilning þegar þið kunnið ekki að rata, reynið þið þá að skilja vanhæfni okkar á mannlega sviðinu.

1/12/04 19:01

krumpa

Ég er að reyna... þetta er allt að koma!

1/12/04 19:01

Sundlaugur Vatne

Hvað var konan að reyna að segja?

1/12/04 19:01

Nykur

Já það er þetta með karlar eru frá Mars og konur frá Venus og það allt saman. Oft skiljum við karlar heldur ekkert í ykkur mjúkari kyninu. Þetta hljómar eins og karlinn þinn sé svona aðeins að taka þér sem sjálfsögðum hlut, það því miður gerist oft þegar líður á samböndin, þetta verður allt svona rútína. Þá þarf einmitt að setjast niður og ræða málin og fá allt uppá yfirborðið, ef hann er eitthvað slappur í viðræðu deildinni helltu þá í hann eins og einni rauðvín fyrst, það ætti að losa um málbeinið. Stingdu uppá smá fríi bara fyrir ykkur tvo t.d. borgarferð svona rétt út fyrir landsteinana. Nú eða sumarbústaðar ferð eina helgi. Einhver ástæða var fyrir því að þið drógust að hvoru öðru hér í denn, nú er bara að finna neistann aftur. Hann þarf að líka að fá þau skilaboð alveg skýr að svona gangi þetta alls ekki. Karlmenn eru nefnilega mjög fljótir á lofa bótum ef þeir sjá að þannig fái frið frá "kvabbinu" verða síðan komnir sama farið í vikunni á eftir. Svo er líka alltaf hægt að sparka honum og ná sér í nýtt eintak. .

1/12/04 19:01

Nornin

Þetta "skilningsleysi" getur nú varað frá fyrstu mínútu Nykur minn kær.
Ég kannast sérstaklega við þetta að svara snubbótt og sýna þannig að það er ekki allt eins og best verður á kosið og fá svo "er ekki allt í lagi?" spurninguna. Auðvitað svara maður henni með "jú það er sko bara allt í lagi" í hvössum tóni sem táknar í raun "nei fjandakornið, það er sko bara ekkert í lagi" en maðurinn skilur ekki þessa tvöfeldni og tekur svarinu sem heilögum sannleika.

Það er með karla eins og börn... Þeir þurfa bara "skýr skilaboð"
Hættum að vera svona tvöfaldar og segjum bara það sem við meinum... þeir skilja hitt hvort eð er ekki og við erum þá búnar að eyða óþarfa orku í pirring...!!!

1/12/04 19:01

Kuggz

Hmpf... það er s.s. efnafræðileg ástæða fyrir þessu. Allan þennan tíma hélt ég að mér væri bara nákvæmlega sama um hvaða /emote hinn helmingurinn væri með þann daginn.

1/12/04 19:01

Órækja

Þar liggur nú hundurinn grafinn, ef þú vilt að maðurinn þinn lesi hugsarnir þínar, skaltu skilja dagbókina eftir á áberandi stað (t.d. ljósrita síðurnar í dagblaðsstærð og setja það á morgunverðarborðið í staðinn fyrir Fréttablaðið.)
En er það svosem nema von að hann sé ávalt "með strákunum" ef þú ert að leggja á hann slíkar þrautir? Spyr sá sem er bara "einn af strákunum".

1/12/04 19:01

Ívar Sívertsen

En sumir karlmenn þola ekki að fá þessu skellt framan í sig. Sumir karlmenn eru mjög tilfinningaríkir þó þeir láti það ekki í ljós. Setja fram skýr skilaboð en samt mjúklega. Þá blessast allt.

1/12/04 19:01

litlanorn

sammála ívari í þessu máli. það er hreint ótrúlegt hvað karlmenn geta verið tilfinningagreindarskertir, og það þarf nánast að stafa ofan í suma þeirra. en við hjálpum ekki til með svona leikjum, verðum bara að ræða málin hægt og rólega

1/12/04 19:01

Gvendur Skrítni

Ég held að þetta með skiltin sé góð hugmynd.

1/12/04 19:01

feministi

Þegar upp er staðið er alltaf best að koma hreint fram. Það þarf aftur á móti að velja orðin af kostgæfni, til að særa ekki. Og Lómagnúpur, hvað lærir þú svona ljót orð,?Skammastín!

1/12/04 19:01

Tigra

Ég skil þig vel þegar þú talar um að hafa þurft að bíða í 2-3 tíma.
Ég þurfti nokkrum sinnum að bíða svo lengi eftir mínum fyrrverandi og það var farið að reyna töluvert á taugarnar.
HVÍLÍK TÍMAEYÐSLA! Minn tími er dýrmætur og ég er drekkhlaðin verkefnum hægri vinstri og ég má ekki við því að eyða tíma mínum í að bíða.
Jú.. þið kunnið að spurja afhverju ég fór ekki bara að gera e-ð annað, en það var vitanlega afþví að ég bjóst við honum þá og þegar.
Jújú.. ég reyndi að hringja.. stundum svaraði hann ekki (þá hafði hann sofnað eða eitthvað) og í eitt skiptið, þegar hann hafði sagt við mig að hann væri á leiðinni, þá hringi ég í hann eftir 2-3 tíma, og þá er hann í kópavogi að éta með vinum sínum. Ekkert að drífa sig.
Svona lagað HATA ég! Sama hvort það er karlmaður eða kvenmaður sem lætur mig bíða.
Fólk sem lætur mig bíða sígur strax niður um 5 sæti í vinsældarlistanum.,

Hvað þá þegar karlmenn gleyma mér.
Segjast ætla að koma.. en gleyma því... það mega þeir ekki gera oft, þá læt ég þá fjúka.

1/12/04 19:01

Nykur

Ég vil nú endilega fá að svara þessu Tígra mín, en þú verður þá aðeins að bíða..

1/12/04 19:01

Tigra

Ég bíð

1/12/04 19:01

Kuggz

Sú var tíð, að konur héldu sig til hlés meðan þær höfðu á klæðum. Það er hér með afsannað í þessari umræðu.

1/12/04 19:01

Tigra

Ég skil ekki afhverju allir þurfa að vera á túr ef þeir segja eitthvað eða eru jafnvel örlítið pirraðir.
Ég hef aldrei séð samasem merki á milli þessa hjá mér.
Svo er ekki eins og þið karlmenn verðið aldrei pirraðir og ekki farið þið á túr.

1/12/04 19:01

Limbri

Ég hlýt að vera svona fullkominn, konan mín segir alltaf að það sé allt allt í lagi.

Annars myndi ég aldrei láta konuna mína bíða í 2 klst. Gjörðu það við aðra sem og þú vilt að aðrir gjöri við yður.

-

1/12/04 19:01

Mikill Hákon

Æ, mikið hefðu þið konurnar gott af smá Hákon.

1/12/04 19:01

Vímus

En hvað ég skil hann vel.

1/12/04 19:02

víólskrímsl

Iss lattu hann bara fjuka. Litid pudur i ad thurfa ad bida endalaust eftir einhverju sem aldrei kemur og thurfa svo ad thrifa upp eftir helvitid.

1/12/04 19:02

krumpa

Ó þið eruð öll að misskilja misskilningin. Er ekki að fara að sparka neinum...þetta var nú meira ritað til að afsaka hann og karlmenn yfirleitt ! Er frekar að spá í að fá me´r viðhald...

1/12/04 19:02

Steinríkur

Þetta er eins og sagt er - Eiginmaðurinn er fyrsta barn konunnar.

Mér sýnist af 2 síðustu færslum að þú sért bara komin með ofdekraðan og illa upp alinn mann, þ.a. sökin liggur að einhverju leyti hjá þér.

Það er nú önnur saga með mig... *Hnussar yfirlætislega*

1/12/04 20:00

Ívar Sívertsen

Ég læt konuna mína aldrei bíða lengur en þarf eftir mér! Mér er bara svo annt um hana að ég tími ekki að missa hana! Svo kostar líka svo mikið að skilja... við höfum ekkert efni á því... annars er það ekkert í deiglunni heldur. *fer að vaska upp kl . hálf fjögur að nóttu*

1/12/04 20:01

Heiðglyrnir

Krumpa mín las pistil frá þér komin, "Vonbrigði" fannst hann nokkuð góður, en þú ferð ekkert mikið eftir honum sjálf. Verum sjálfum okkur samkvæm.

1/12/04 20:02

krumpa

hmmm...skil þig ekki alveg ?!?!

1/12/04 20:02

krumpa

Var að renna yfir þann pistill - hann var nú skrifaður af sérstöku tilefni - en ég skil ekki hvernig hann tengist þessum ??? þætti vænt um betri skýringar takk - því ég skil ekkert hvað þú ert að fara . . . . .

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.