— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 1/12/04
Ábendingar til sterkara kynsins

Í ljósi þess hve leiðinleg ég hef verið í dag hef ég ákveðið að halda því áfram! Veit ekki hvort eftirfarandi á við alla karlmenn eða bara þá sem ég er svo lánsöm að þrífa skítinn eftir...þeir fá í það minnsta ekki nema eina stjörnu!

Ég er enginn sérstakur snyrtipinni, ég sef alveg þó að það sé óhreint leirtau í vaskinum og ég geri mér engar rellur út af ryki á efri skápunum. Ég fer ekki á taugum þó að einhver spori út og mér finnst þægilegt að hafa smáfatahrúgu á stól í svefnherberginu. En...einhvers staðar verða mörkin að vera!

Er búin að vera að þrífa í allan dag - milli þess sem ég hangi hér og á veika von um að það glitti í stofugólfið einhvern tímann fyrir miðnætti. Ég veit þið viljið vel og mér þykir vænt um ykkur en hér eru nokkrar ábendingar sem hef tekið saman við störf mín í dag:

1. Það er voða flott að ,,skrifa" nafnið sitt í snjóinn en í guðanna bænum, sleppið því inni á klósetti! Afurðirnar eiga að fara OFAN í skálina, ekki utan á hana, á veggina eða allt um kring. Ef þið eigið í vandræðum með að hitta - setjist þá !

2. Það er í lagi að vaska upp áður en uppvaskið er búið að koma sér upp heilu vistkerfi og fæðukeðju. Ef það er komið ,,grænt" í glösin þá er tímabært að grípa til aðgerða. Og já, jafnvel þó að það sé enn eitt hreint glas í eldhússkápunum!

3. Þrátt fyrir það sem þið kunnið að hafa lesið (hljótið að hafa lesið það einhvers staðar - svona dettur engum í hug upp á sitt einsdæmi) þá geymist mjólk EKKI best við stofuhita. Og nei, smjör verður ekki lystugra ef það er geymt yfir nótt á eldhúsborði.

4. Pappírnum innan í klósettrúllunum á að HENDA. Þó að það sé gaman að nota papparúllurnar í sjóræningjaleik þegar maður er í baði þá á ekki að safna þeim saman á baðinnréttingunni. Ruslafata er venjulega staðsett inni á baði, og ef ekki þá er vafalaust ein undir eldhúsvaskinum.

5. Þetta hvíta, kassalaga tryllitæki með kýrauganu heitir ÞVOTTAVÉL. Þær eru fremur einfaldar í notkun og þið ættuð að prófa. Gott er að muna að rauður þvottur á ekki vel við hvítan. Ef þið lendið í vandræðum hringið þá í MÖMMU.

6. Því miður strákar, það á líka að sópa í hornunum! Þykkt ryklag sem hægt er að aldurs-og tímagreina er ekki aðlaðandi. Og þegar þið eruð búnir að sópa - í guðs bænum - tæmið FÆGISKÓFLUNA (sjá ábendingu að ofan um staðsetningu ruslafatna) !

7. Ef það er pirruð kona á ferð og flugi í kringum ykkur athugið þá hvað hún er að gera. Ef hún er að beygja sig og bugta og er annaðhvort með efnisbút festan á stöng (TUSKA) eða eitthvað sem líkjist risastórum bursta (KÚST) eða tæki sem er á hjólum og með rana (RYKSUGU) og svarar ykkur snúðugt og snubbótt, þá er það HINT um að standa upp úr sófanum.

8. HENDIÐ matarumbúðum í áðurnefndar ruslafötur. Þrátt fyrir allt er ákaflega ólíklegt að það komi sendinefnd frá Þjóðminjasafninu til að kanna hvað þið borðuðuð í síðasta mánuði. Því miður hafa svo ekki enn verið hannaðar sjálftæmandi ruslafötur - svo að þegar það er kominn kúfur ofan á fötuna og ruslið helst ekki lengur í henni, þá er kominn tími til að skipta um POKA.

Gæti nú haldið endalaust áfram en þetta er svona það helsta sem mér dettur í hug og jú... þetta smávaxna fólk sem þið sjáið stundum á vappi - það eru börn - ef þau eru á sama heimili og þið þá eru það jafnvel YKKAR börn. Við búum þau ekki til einar og þó að þið sleppið pókerkvöldi einu sinni því að við þurfum að fara út þá eruð þið ekki að ,,PASSA" fyrir okkur. Eingetin börn eru ákaflega sjaldgæf. Foreldrar verja tíma með börnunum sínum en ,,passa" þau ekki.

Að lokum - ég elska ykkur alla - þrátt fyrir allt!

LIFI JAFNRÉTTIÐ

   (91 af 114)  
1/12/04 17:01

Finngálkn

Já svona haltu áfram að þrífa gæran þín! - Vertu ekki að reyna að höfða til samvisku okkar með þessu væli...

1/12/04 17:01

krumpa

Ekki væl minn kæri - ber hag þinn fyrir brjósti - ef þið fylgið þessum einföldu reglum þá helst ykkur kannski á konum til að hugsa um ykkur!

1/12/04 17:01

hundinginn

Takk fyrir þetta. Jeg sje að jeg er alveg vonlaus í sambúð. Líklega best að sleppa því alveg og hafa hlutina bara eins og maður vill. Fá svo til sín eina þernu í stuttpilsi til að taka til hendinni vikulega. Hvað ættli það kosti í Böggum?

1/12/04 17:01

Finngálkn

Það myndi kosta þig ísettningu og hana innlimun.

1/12/04 17:01

Mikill Hákon

Ég hélt að þetta gerðist allt sjálfkrafa...

1/12/04 17:01

krumpa

Já - auðvitað heldurðu það, elsku sóðapésinn minn !

1/12/04 17:02

hundinginn

Jeg skal bara gera þetta sjálfur. NAKINN!

1/12/04 17:02

Tigra

Svo kallaru þá sterkara kynið?

1/12/04 17:02

B. Ewing

Við hljótum að vera sterkara kynið [forviða]
Það þarf mikinn viljastyrk til að hundsa þessi þöglu og duldu "HINT" sem alltaf er verið að sýna okkur... nei annars.[breytir um taktík]

Það eru til mótrök við öllum rökum. Ég set þetta fram í þakkarskyni fyrir þessi góðu (og loksins skriflegu) hint. Afar vandað og þarft umræðuefni enda er þarna á ferð reginmiskilningur sem sárlega vantar að greiða úr. Ég nefni nokkur dæmi um það sem kom strax upp í hugann.

-Þvottavélar hafa sannað sig sem stórhættuleg drápstól. Af sömu ástæðu reynum við með öllum ráðum að halda kvenþjóðinni frá skurðgröfuakstri.

-Hvað gráleitu papparúllurnar varðar þá eru þær ekki ætlaðar til sjóræningjaleikja heldur í kastalabyggingar. Alveg ferlegt þegar hálfbyggðum glæsihöllum er fleygt eins og þær væru Orkuveituhúsið, LEYFÐU OKKUR AÐ KLÁRA BARA EINN KlÓSETTRÚLLUKASTALA...gerðu það...!!!

-Samhengi fægiskóflu og ruslatunnu er erfitt að koma auga á. Í fyrsta lagi þá hef ég séð og notað nákvæmlega ENGA fægiskóflu sem ekki hellir útfyrir. Hönnun fægiskóflu hefur greinilega aldrei verið miðuð við meðalheimilisruslatunnu. Hér þarf sameiginlegt átak um úrbætur.

-Grjóthart smjör er ónothæft til samlokusmurningar. Lint smjör fæst eingöngu með geymslu við stofuhita. Köld mjólk gerir heitt og gott kaffi að köldu vondu kaffi. Áhrifin minnka ef mjólkin er nær hitastigi kaffisins við blöndun. Tækniþróun í Expressókaffihúsakaffivélum og froðumjólkurgerðar er að koma kaldri mjólk til bjargar og verða þá volgrarmjólkurgeymsluvandræðin vonandi úr sögunni.

-Gallinn á pissinu er sá að upphafsmiðið vantar. Hægt er að skrifa langa og ítarlega pistla um samhengið þarna á milli, hér reyni ég að taka nokkur dæmi og beita samanburðarfræðum við aðra hluti:
Að miða rétt er grundvallaratriði við eftirfarandi. Klósettferðir, billjard/pool/snóker og skotfimi. Í billjard/pool/snóker og skotfimi er hægt að miða rétt, þ.e. setja augað við annan endann á prikinu/byssunni og skjóta. Þetta vantar í klósettferðum. Þá er miðunin álíka góð og ef staðið er upprétt, haldið væri á kjuða/riffli við magann og skotið. Það einfaldlega klikkar mikið oftar. Prófið báðar aðferðir næst þegar þig farið á billjardstofurnar.
Vonandi er þetta nógu hnitmiðað, skýrt og misskilst ekki. Að þrífa sletturnar og úðann (nefndi hann ekki enda flóknara mál) er best að gera sem allra fyrst, því er ég sammála.

Ef nánari rök óskast um fleiri hluti þá endilega láta í sér heyra.

1/12/04 17:02

Vladimir Fuckov

Þér söguðust ætla að halda áfram að vera leiðinlegar en það tilkynnist hér með opinberlega að það mistókst. Þetta var skemmtilegasta félagsritið er birst hefur hér í nokkurn tíma og vakti m.a.s. hjá oss eitthvað er nefnt er hlátur.

1/12/04 17:02

Ívar Sívertsen

Krumpa, þó ég sé hamingjusamlega giftur og eigi tvær yndislegar dætur þá verð ég að segja: Ég elska þig... já eða þannig... ég náði alla vega að hreinsa vel út úr tárakyrtlunum og hláturbelgnum við þennan lestur.

En alltaf þarf maður að svara. Ég get tekið undir með B. Ewing með að miða. Ef maður er staddur á almenningssalerni, beztu sæti eru upptekin og einungis stæði laus þá er ferlega asnalegt að reyna að setjast á pissuskál og pissa ekki útfyrir. En þetta var nú bara útúrsnúningur.

Leiðbeiningar kvenna um þvottavélar eru frekar flóknar og virðast þeim einum aðgengilegar. Tökum dæmi: Þú setur samlitan þvott á prógram 4 og 40°c. Setur þvottaefni í hólf 2 og mýkingarefni í hólf 3. En ef það er flís þá sleppirðu mýkingarefninu og setur þá jafnvel líka á forþvott og þá sápu í hólf 1 en þá minni sápu í hólf 2. Ef þú ert að setja á suðu þá stillirðu á prógram 2 og 90°c og setur þvottaefni í bæði hólf 1 og 2 og síðan mýkingarefni í hólf 3 en passaðu að það sé ekki eins mikið og þegar þú setur á 40°c því að það er bara sóun. En ef þú ætlar að þvo mjög skítugan þvott þá er kannski best að setja á forþvott með sápu í 1. hólf, þvott með sápu í 2. hólf og mýkingarefni í hólf 3 en þá stillirðu á prógram 3 og 40°c en ef það er 50°c eða 30°c þá ferðu eftir því. Passaðu samt að það fari ekki of mikið í vélina.
Þegar leiðbeiningarnar eru komnar í þennan farveg er gott að gera sér upp íþróttameiðsli, magaverk og skyndilega ferð á salernið, símtal frá vinnuveitanda / kennara þar sem þín er óskað med det samme.

Ég hef reyndar samið við konuna mína um að hún sjái um þvottinn eftir að við áttum einu sinni voða mikið af allt of litlum bolum. Hún sér um þvottinn og ýmsa tiltekt á meðan ég má eiga eldhúsið. Og það leiðist mér ekki.

1/12/04 17:02

feministi

Frábær pistill

1/12/04 18:00

Skabbi skrumari

Sem piparsveinn, þá þakka ég kærlega fyrir þessar upplýsingar... salút

1/12/04 18:01

Hermir

Ég skil ekki alveg af hverju konur vilja að við karlmenn sönnum yfirburði okkar á ÞESSU SVIÐI líka. Við erum búnir að á svo undirgefinn og alúðlegan hátt að gefa ykkur fullt færi á að ná færni og einkarétt á þessum störfum. Nær væri að þið þökkuðuð okkur fyrir að fá að hafa eitthvað "svona fyrir ykkur". Við karlmenn erum með lægri meðalaldur en konur, ástæðan : karlmenn láta oftar lífið við störf sín, eða keyra sig meira út við vinnu sína. Reynið ekki að segja að þið séuð "betur hannaðar" og lifið þar af leiðandi lengur. Nei, staðreyndin er sú að karlmenn leggja meira í sölurnar yfir ævina og láta lífið fyrir það.
Verið þakklátar að við skulum þó eftirláta ykkur heimilið til umhyggju og aðhalds alla ævina á enda.

(P.S. Ég sé um heimilisstörfin á mínu heimili til jafns við konuna, ég þori ekki öðru)

1/12/04 18:01

kolfinnur Kvaran

þetta var sárt!

1/12/04 18:01

Dr Zoidberg

1. Karlmenn míga standandi, það er bara náttúrulögmál.
2. Til hvers að vaska upp ef ennþá er til hreint glas?
3. Smjör verður að geima við stofuhita annars verður það of hart.
7. Ég þekki þetta, það er ekki nóg að standa upp maður veður að taka til fótanna því kona sem er að þrífa er nokkuð sem ber að forðast.

1/12/04 19:02

Steinríkur

1. Sammála Zoidberg - það er ónáttúra að míga sitjandi.
2. Þetta er bara spurning um hagkvæmni. Rétt eins og það er eðlilegra að safna ruslinu í poka í staðinn fyrir að fara sér ferð út í tunnu með hvert snitti.
3. 4. 6. og 8. Þetta er bara spurning um vana - annað hvort ganga menn frá hlutunum eða ekki. Á meðan þú sérð um þessi mál er ekki mikil von um að nokkuð breytist (ATH: Karlmenn eru ónæmir fyrir nöldri og tuði). Prófaðu mýkri gerðir af smjöri, svo að afsökun Zoidbergs hverfi og byrjaðu að slá hann leifturnöggt í höfuðið þegar hann gleymir einhverju svona.
5. Að mestu sammála Íari. Ég skipti þó þvottinum í litað (40°), hvítt og handklæði og þvæ þegar hrúgan lítur út fyrir að vera nógu stór (sjá nr. 2). Ég sé ekki vandamálið en mig grunar að rétt eins og með atriði 3.4.6.8. - einfaldar leiðbeiningar og viðurlög við að klúðra þessu geti kennt flestum á þetta.
7. Sammála Zoidberg, en til viðbótar verður að segja: KARLMENN EIGA EKKI AÐ FATTA HINT. Það bara er ekki í eðli okkar. Þið tuðið alltaf um að hreinskilni og heiðarleiki skipti öllu máli - en síðan getið þið ekki einu sinni beðið um einföldustu hluti.

Hef búið einn í nokkur ár og er bara við nokkuð góða heilsu.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.