— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 2/11/03
Eymd og volæði.

Bara smálína í próflestrinum til að sýna að ég er ekki búin að gleyma ykkur....

Í gær var gert samsæri sem beindist gegn undirstöðum keisaradæmisins. Óþokkanna er enn leitað en þeir munu finnast og verða teknir af lífi.

Nánar tiltekið þá lak loft úr keisaraynjubifreiðinni (Hákon tímir ekki að splæsa nýjum Jagúar á mig). Ástæðan var sú að það var nagli í dekkinu. Það leikur enginn vafi á því að óprúttnir náungar sem vilja stöðva framgang keisaraveldisins hafa komið því þar fyrir.

Þar sem ekillinn var í fríi (reyndar ekki hægt að segja að hann sé að sinna starfi sínu sérlega vel) neyddist keisaraynjan sjálf til að aka drossíunni að næsta hjólbarðaverkstæði.

Það er stíll yfir drossíunni þegar drepið er á henni - þá rýkur tígulega úr húddinu og indælis olíuilmur stígur upp í loftið .(Heittelskaður hefur sko engar áhyggjur af þessu né nennu til að gera eitthvað í málunum). Þetta vekur auðvitað aðdáun og hrifningu viðstaddra hvar sem bifreiðin fer. Var hjólbarðaverkstæðið þar engin undantekning.

Ekki hafði keisaraynjan dvalist lengi þarna þegar að henni kom ungur piltur og var meira en til í að gefa henni ókeypis ráðleggingar um meðhöndlun kaggans. Keisarynjunni - eins og öðrum besserwisserum - er þannig farið að skynsamlegar ráðleggingar eru eitur í hennar beinum. ,,Ekki reykja - það er óhollt" - ,,Uhumm, prófaðu að nota getnaðarvarnir - þá verðurðu ekki ólétt" ,,keyrðu vírusvörn á tölvunni og hafðu meira en 20mb laus" o.s.frv. eru dæmi um skynsamlegar ráðleggingar sem hún lætur sem vind um eyru þjóta....

Hún veit þetta allt. Það er bara ekkert sérlega gaman eða gefandi að vera skynsamur alltaf.

Þarna kom semsagt þessi indæli piltur og sagði keisaraynjunni að sjálfrennireiðin mundi nú sennilega bara bræða úr sér og heddpakkningin fara til fjandans ef ekki yrði skipt um vatnskassa hið snarasta... Ja, fussumsvei!

Hin tigna kona þaggaði nú reyndar snarlega niðrí honum með því að tilkynna að hún hefði ekki efni á að fara til tannlæknis þessa dagana og sæi fram á að þurfa að stunda vændi til að eiga fyrir jólagjöfum handa sínum nánustu. Vatnkassi á keisarabílinn væri bara ekki efst á forgangslista....

Ef fólk vill ráð - biður það þá ekki bara um þau ?
Hættum að vera svona skynsöm og dreifa skynsemi okkar eins og kvefbakteríu yfir meðbræður okkar og systur !

Fyrirgefið ef ég er neikvæð en það fer illa með augun að horfa bara í birtuna.

Lifið heil.

   (94 af 114)  
2/11/03 02:02

Finngálkn

Stórkostlegt, þú ert ofurgæra.

2/11/03 02:02

krumpa

Takk elsku púkinn minn.

2/11/03 02:02

Jóakim Aðalönd

Já. Aldrei hlusta ég á fáránlegar og skynsamlegar ráðleggingar fólks. Ég geri bara það sem mér sýnist. *Tekur pípuhattinn ofan fyrir krumpu*

2/11/03 03:00

Vladimir Fuckov

Krumpa ritaði: "Í gær var gert samsæri sem beindist gegn undirstöðum keisaradæmisins"
Mjög grunsamlegt að þetta skuli hafa gerst einmitt á þessum tímapunkti, þ.e. á nánast sama tíma og er gerð var misheppnuð tilraun til að steypa réttmætri stjórn Baggalútíu af stóli.

2/11/03 03:00

Vímus

Hæ Krumpa! Sáumst við ekki oft á Keisaranum?

2/11/03 03:01

krumpa

Ja hérna Vladimir - spurning um að efla varnir fyrirfólksins - bæta við sig liði í aftökusveitunum kannski ?

Og Vímus - ég veit ekki hvaða sorastaði þú sækir - en Keisarinn er oftar á mér heldur en ég á honum (hann Hákon er svo gamaldags...).

2/11/03 03:01

Heiðglyrnir

Ekki margt fyrir löngu fékk sá hinn sami og ritar, reikning fyrir viðgerð á úrbræddri vél, og bið þig í guðanna bænum Krumpa mín að ath. með vatnskassann, ef að þú ert ekki að hugsa um vændi sem framtíðarstarf.

2/11/03 03:01

krumpa

ég veit...ég veit...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.