— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Saga - 1/11/03
Af hverju sum börn eru bara alls ekki feðruð...

Framhald af sögu minni frá því í síðustu viku um stórkostlegt vinnuhagræði íslenskra stofnana.

Nokkrir mánuðir hafa liðið frá því sú ólétta stóð í brasi við að fá greitt fæðingarorlof. Nú er hún stödd á skrifstofu sýslumanns, sem er svo furðulega staðsett, með tilliti til gatnakerfisins , að komist maður einu sinni þangað er allsendis óvíst að maður komist nokkru sinni burt !

Þarna er hún sumsé, sú fyrrum ólétta, og með í för er eintak af þeirri víðsjárverðu tegund, karlmanni. Eða eins og hún kýs að kalla þetta tiltekna eintak; sæðisgjafinn. Sú fyrrum ólétta lítur bara nokkuð vel út þrátt fyrir andvökur síðustu mánaða og er þess nú albúin að takast á við kerfið á ný.

,,Ég er komin til að feðra barnið mitt,"segir hún við eldri konuna í afgreiðslunni í sifjadeildinni.
,,Jáhá" segir sú gamla ,,ertu með vottorðið? "
,,Ha, vottorðið?"
,,Já, vottorðið um að barnið sé í rauninni til og skráð í þjóðskrá."
Sú sem eitt sinn var ófrísk veltir því stuttlega fyrir sér hvort fólk sé almennt mikið að uppdikta börn bara til þess að feðra þau - hvort Íslendingar séu í raun kannski bara hundrað þúsund og hitt séu ímynduð og upplogin börn.
,,Ég er búin að skrá barnið hjá Hagstofunni, með nafni og allt."
,,Núnú, þá ætti nú ekki að vera erfitt að fara niður í Hagstofu og ná í vottorðið."
Í örskotsstund hvarflar það að hinni forðum óléttu að spyrja hvort ríkið hafi tekið netið - nú eða bara faxtæki - í sína þjónustu eða hvort það sé þeim alfarið ókunn tækni.
Karlmennið við hlið hennar þegir.

Hagstofan nokkru síðar. Í raun löngu síðar því það er ekki heiglum hent að komast burt úr völundarhúsi sýslumanns.

,,Ég þarf að fá vottorð um að barnið mitt sé skráð í þjóðskrá."
Ung, frekar fýluleg stúlka hinum megin við afgreiðsluborðið sýnir þessu nú ekki mikinn áhuga.
,,Já, og kennitala barnsins ?"
Hún er samviskusamlega gefin upp og skömmu síðar fær konan - gegn vægu gjaldi - vottorð þar sem á stendur ,,Drengur Konuson."
,,Drengur Konuson ? Nei, heyrðu nú, ég var búin að skrá barnið hér með nafni og allt. Meira að segja nokkrar vikur síðan. Mundi auk þess aldrei leggja á barn að vera ,,Konubarn" - Hann á að vera ,,Mannsson.""
,,Ja, svona er þetta í tölvunni..."
Eftir talsvert tuð, taut, jaml, japl og fuður tekst loks að kría út nýtt vottorð, með réttu nafni barnsins.
Karlmennið þegir enn.

Hjá sýslumanni - aftur.
,,Jæja, þá er ég komin með vottorðið, get ég þá feðrað barnið ?"
,,Já", segir konan við deskið og réttir fram ógnarstórt eyðublað þar sem tilgreindar skulu ýmsar upplýsingar um hagi föðurins, ,,fylltu þetta út."
,,Ég er nú með föðurinn með mér", segir sú sem eitt sinn var ólétt, aldeilis stolt yfir þeirri hugljómun að taka nú föðurinn með í þetta stúss, ,,er ekki snjallast að hann fylli þetta út sjálfur ?"
Sú gamla við skrifborðið lítur fyrirlitningaraugum til hinnar forðum ófrísku - og reyndar karlmennisins líka. ,,Nei", segir húnmeð lítilsvirðingu, ,,ÞÚ verður að lýsa föður að barninu, það eru LÖGIN. Þú verður að skrifa þetta sjálf."
Upphófst nú einhver mesta niðurlægingin í lífi hinnar eitt sinn óléttu, er hún þurfti, að þeirri gömlu áheyrandi, að inna föðurinn eftir kennitölu, starfi og lögheimili... Með nokkrum pirringi var svo eyðublaðið afhent á ný og hin hæggenga maskína fór á skrið við að rukka meðlag hjá karlmenninu.

En allt er gott sem endar vel. Þau rötuðu aftur af skrifstofu sýslumanns og nú fitnar sú forðum ólétta ekki vegna barneigna heldur af hinu gríðarháa meðlagi sem hún fær - með milligöngu ríkisins - í mánuði hverjum.

   (97 af 114)  
1/11/03 14:01

Sverfill Bergmann

Heilar 15 þúsund krónur?

1/11/03 14:01

krumpa

Nauhauts - það eru sextán - heill hellingur...

1/11/03 14:01

Sverfill Bergmann

Vá...ertu þá ekki búin að kaupa bíl og einbýlishús?

1/11/03 14:01

Órækja

Svo eru sum börn ekki feðruð því þau enda í lakinu, nú eða... Hmm já þú meinar svona. Já skrifstofubákn eru hæggeng en örugg.

1/11/03 14:01

Ólafur

Þetta var nú ljóta standið Krumpa. En sagan var jafn skemmtileg og reynslan hefur eflaust verið leiðinleg. Af því að ég hneigist einatt til þess að taka illan málstað þá velti ég því fyrir mér hvort blessuð konan hefði e.t.v. átt að afla sér leiðbeininga símleiðis frekar en að lenda í þessu. Ég er nú ekkert of ginnkeyptur fyrir því sjónarmiði að þetta sé allt einhver illska í kerfinu. Þótt það sé eflaust ekki algengt að börnum á Íslandi sé beinlínis logið upp þá þekkist það sjálfsagt víða að menn skili inn röngum upplýsingum til að ná sér í ýmis konar bætur. Ég er heldur ekkert alveg viss um það Krumpa að maðurinn þinn væri kátur ef við aðdáendur þínir færum að streyma til sýslumanns og lýsa okkur feður að börnunum þínum. Þess vegna er það kannski bara skynsamlegt að láta móðurina benda fyrst á leikfélagann, frekar en að treysta á yfirlýingar frá hvaða karlmanni sem er. Líklega jafnvel bara ágætt að láta fæðingarvottorð fylgja, þá kemur fram hvort barnið hefur verið feðrað áður.

En seisei jú, auðvitað vill unga fólkið fá að leika sér úti á lífinu og er ekkert of hrifið af því að geta ekki bara hringt í "kerfið" og látið vita að djammið hafi borið ávöxt og þjóðinni hafi fjölgað og það væri gott að fá meðlagið inn á bankann því kortið er í vanskilum.

1/11/03 14:01

krumpa

Og kur ert þú ? Þú ert nú reyndar eitthvað að misskilja söguna - hugsunin er nú einfaldlega sú hvort ekki væri hægt að hafa öll þessi bákn á svipuðu svæði svo að fólk (sér í lagi öryrkjar sem eiga kannski erfitt með ferðir en þeim mun meira erindi við þessi bákn) þurfi nú ekki að vera á eilifum þvælingi á milli. Auk þess væri nú nýting e-mails eða faxtækis væntanlega til vinnusparnaðar og hagræðis fyrir alla aðila - eða hvað ? Svo er það nú eitt að karlmenn fari að streyma til sýsla að kenna sér börn hingað og þangað - en þegar þeir eru teknir með og viðkomandi móðir BENDIR á þá. Er það ekki fullnægjandi lýsing ?

Annars er nú sagan ekki sönn - heldur smávægilega ýktur hræringur úr ýmsum sögum sem ég hef heyrt að fólk hafi lent í...

1/11/03 14:01

krumpa

Góðir punktar sem komu fram hjá þér annars - en kannski ekki alveg kórréttir...

1/11/03 14:02

Wonko the Sane

Þetta er nú stundum slæmt en var verra hér áður fyrr, mér skilst að ríkisstofnanir séu (flestar) búnar að uppgötva Netið.
Samt má bæta þetta enn meira.
Mér finnst hins vegar yfirleitt frekar leiðinlegt þegar fólk er að tala um hvað meðlagið sé lágt. Sérstakleg þegar sagt er að 16.000kr dugi ekki til að halda upppi einu barni í mánuð. Það er reyndar rétt að það er ekki nóg til þess. En ekki á sá sem borgar meðlagið að halda uppi barninu einn þannig að það má frekar segja að rektrarkosnaðurinn sé reiknaður sem 32.000 ekki satt?

Svona að lokum þá er best að taka það fram að ég er sjálfur einstæður faðir og alveg skítblankur og myndi alveg þyggja hærra meðlag

1/11/03 15:00

Rasspabbi

Þannig..

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.