— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Saga - 1/11/03
Smásaga um Kafkaískt vinnuhagræði íslenskra stofnana

Þessi saga átti sér reyndar stað fyrir nokkrum árum en mér er stórlega til efs að nokkuð hafi breyst (þið verðið svo bara að fyrirgefa ef þið eruð orðin leið á ritræpunni í mér - það var annaðhvort þetta eða fara að læra).

Tryggingastofnun Ríkisins í nágrenni Keisarans sem var þá og hét. Um hádegi á föstudegi. Mjög áberandi ófrísk kona stendur í röðinni og lætur fæturna skiptast á að bera þungann.

,Já, hvað er hægt að gera fyrir þig ?"
Sú ólétta hélt nú að það væri augljóst.
,,Ja, ég ætlaði hérna að sækja um fæðingarorlof."
,,Ertu með vottorð?"
,,Ha, vottorð ? Fyrir hverju ? Ég er alveg hraust sko."
,,Jú vottorð um að þú eigir von á barni og hvenær það sé væntanlegt"
Það er sosum rétt, það er ekki þessi óléttuljómi yfir henni, en hún er með bjúg á fótunum, getur hvorki setið né legið vegna grindargliðnunar og það eru margir mánuðir síðan hún hætti að taka eftir kvölunum í bakinu. Þá er hún búin að kasta upp tvisvar um morguninn og ummál mittisins er hundrað og tuttugu sentimetrar. Þá flæða brjóstin út úr haldaranum sem ekki var beinlínis keyptur með þetta tilefni í huga.
,,Það er fyrir bókhaldið skilurðu..."
Jú, bókhaldið, ekki vill hún nú standa í vegi fyrir bókhaldi ríkisstofnana og eiga kannski sök á fjárlagahallanum.
,,Ég kem þá bara með vottorð á eftir, er það í lagi ?"
,,Jájá, þú veist bara að við lokum klukkan þrjú og svo er lokað milli tólf og eitt..."

Þetta er nú bara eitt vottorð og gott að læknirinn er ekki langt í burtu. Völtum fótum kjagar sú ólétta yfir í Domus Medica þar sem reynist auðsótt að fá vottorðið.

Tryggingastofnun - aftur - klukkan rúmlega eitt.
,,Jæja, þá er ég komin með vottorðið"
,,Já, þá vantar mig bara skattkortið þitt"
,,Ha, skattkortið ? Það sagði mér enginn frá því."
,,Jújú, þetta er allt hérna í bæklingi F-14. Hann er fimmtíu blaðsíður að lengd og fjallar um fylgiskjöl sem þarf að afhenda vilji menn fá bætur frá ríkinu."
Þá ófrísku hryllir við að þurfa að þramma alla leið til skattstjóra að fá skattkort svo hún ákveður að reyna aðeins meira við píuna á skrifborðinu.
,,Getur skatturinn ekki sent ykkur það ? Eða faxað ? Eða....er þetta ekkert í tölvutæku hjá ykkur ?"
Pían á deskinu lítur á þá barnshafandi með svip sem gefur í skyn að sú síðarnefnda sé óendanlega heimsk.
,,Heyrðu, vænan. Skattkort eru bara gefin út í einriti, þau þurfa að vera úr pappír, skilurðu ? Mig vantar skattkortið þitt."
,,Til hvers ? Það er ekki eins og þessar lúsarbætur nái skattleysismörkum!"
Sú ólétta ákveður samt að hún vilji ekki lenda í handalögmálum við píuna á deskinu svo að hún leggur í sína löngu ferð niður Laugarveginn.

Skattstjórinn - um tvö sama dag.
Sú ófríska bíður í ógnarlangri röð sem gengur ógnarhægt. Þær voru þrjár í afgreiðslunni en svo virðist sem tvær þeirra hafi séð hversu hagkvæmt það var að skjótast í kaffi þegar ösin byrjaði. Eftir hálftíma bið kemur loks að þeirri ófrísku.

,,Góðan daginn, ég ætlaði að ná í skattkort."
,,Sástu ekki skiltið? Hér er afgreiðsla framtala. Skattkortadeildin er á fjórðu hæð."
,,Geturðu ekki reddað mér ? Ég verð að komast upp á Hlemm fyrir þrjú og ég held ég sé að fara að eiga..."
,,FJÓRÐA HÆÐ ! Takk fyrir. Næsti ! "

Skattstjórinn - fjórða hæð - skömmu síðar
Sú ólétta finnur að það er eitthvað að gerast í neðanverðum kvið hennar þar sem hún staulast upp stigana á milli hæða þar sem lyftan er biluð.

Á fjórðu hæðinni er reyndar engin bið, en það er bara vegna þess að þeir sem eiga erindi þangað eru ennþá vaðandi í villu og svíma á fyrstu hæðinni, þar sem sú ófríska var skömmu áður.

,,Get ég aðstoðað ?"
,,Já, ég þarf að fá skattkortið mitt og koma því upp í Tryggingarstofnun fyrir klukkan þrjú í dag."
Stúlkan við deskið virðist nú ekki alveg hafa skilning á þessari krísu því að orðalaust hverfur hún inn um dyr bakvið deskið og kemur ekki aftur fyrr en tíu mínútum síðar. Sennilega er hún að fá leiðbeiningar hjá sér reyndari starfsmanni.

,,Já, af hverju færðu ekki skattkortið þitt þar sem þú varst að vinna ?"
Nú ákveður sú ólétta að hugsa hratt - og lýgur. Henni hafði ekki dottið í hug að fara á vinnustaðinn og ætlaði sko alls ekki að fara að þvælast meira þennan daginn.
,,Ja, sko, það kviknaði í."
,,Ferlegt" sagði stelpan.
,,Já , þetta var agalegt, öll skattkortin brunnu inni með framkvæmdastjóranum."
,,OH MY GOD" Stelpan horfir á hana hluttekningaraugum. ,,Ég bara redda þessu fyrir þig á stundinni." Blikkar svo þá óléttu með samsærisblik í augum. Sú ólétta bölvar í huganum. Til hvers í fjáranum eru þessu djöfuls bákn ef ekki fyrir almenninginn ?

Tíu mínútum síðar er sú ólétta aftur lögð í langferð. Hún efast reyndar um að hún nái upp í stofnun en hún er alla vega komin með tilskilin fylgiskjöl.

Á leiðinni fer vatnið...

Tveimur mánuðum síðar fóru svo reyndar tveir dagar í þvæling milli stofnana til að feðra litla púkann - en það er nú önnur saga.

   (100 af 114)  
1/11/03 07:02

Þarfagreinir

Þú ert sko með góðan stíl ungfrú krumpa. Mjög ánægjuleg lesning þetta.

1/11/03 07:02

Tannsi

Þekkir þú þessa konu?

1/11/03 08:00

Hóras

Stendur Bjúró fyrir þessu? Greyið konan, maður sem ég þekki lenti í svipuðu þegar hann þurfti að ganga frá pappírsmálum við andlát föður síns. Skemmtileg lesning

1/11/03 08:00

Skabbi skrumari

Þetta samfélag okkar er nú meira báknið... Skál

1/11/03 08:00

Urmull_Ergis

-Veiðitímabilið á íslenska embættismenn, hefur hér með verið lengt úr 11. mánuðum í 12. -Ekki þarf að sækja um sérstakt veiðikort, né að skila inn veiðiskýrslum. Greitt er sérstaklega fyrir bókfellsgráa embættismenn, -þeir nýtast svo vel í léttar handtöskur.

1/11/03 08:01

Nafni

Splendid...haltu áfram ekki hætta. Takk.

1/11/03 08:01

Finngálkn

Stórskemmtilegt eins og vanalega! Ein þrautin í teiknimyndinni "Ástríkur og þrautirnar 12" er eimmitt að fá tiltekið leyfisbréf, minnir á vandræði þín - stórgott atriði og fyndið.

1/11/03 08:01

hundinginn

Frábær lesning. Eitt sinn tók það 4 ár fyrir mig að fá niðurstöðu blóðrannsóknar. En það er sökum landfæðilegra örðugleika tel ég.

1/11/03 08:01

krumpa

Þakka hrósið allir og sér í lagi Finngálkn ! Vilt þú verða formaður aðdáendaklúbbs míns sem ég ætla að stofna hér á morgun eða hinn ? Láttu mig bara vita... Og reyndar þekki ég ekki þessa konu - en nokkur atriði sögunnar eru reyndar keimlík atriðum sem ég sjálf - og væntanlega flestir reyndar - hef lent í.

1/11/03 08:01

krumpa

Ps. þarf greinilega að fara að endyrnýja kynni mín við Ástrík og félaga...

1/11/03 08:01

Tannsi

Þú segir listavel frá. Og þú þekkir hana ekki einu sinni.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.