— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 1/11/03
Heiðarleikinn borgar sig ekki

Þegar ég var ung og saklaus hélt ég að það borgaði sig að vera heiðarlegur - lifa eftir gullnu reglunni. Það væri gott fyrir hjartað , sálina og karmað. Nýlega komst ég að því að það er rangt !

Fyrir nokkrum árum lenti ég í því að bakka á bíl, þetta var lítill franskur bíll og ég er á jeppaferlíki svo að það var ekki að sökum að spyrja. Ég straujaði bílinn ! Af því að ég er huglaus, nokkuð heiðarleg og hef áhyggjur af karmanu þá skildi ég eftir miða. Þetta tjón fór svo í gegnum okurverkstæði tryggingafélagsins, bíllinn var lagaður, bónusinn lækkaði og allir voru ánægðir. Enginn þó eins og eigandi frönsku púddunnar en nokkrum dögum síðar fékk ég hjartnæmt þakkarbréf og blómvönd. Voða sætt allt og skemmtileg lífsreynsla. Sælla að gefa en þiggja o.s.frv....

Aðeins seinna fann systir mín svo veski á Lækjartorgi. Í veskinu voru fimmtíu og fimm þúsund krónur og nokkur jólakort. EFtir talsvert vesen hafði hún uppi á eigandanum, gamalli konu, og skilaði veskinu. Fékk hún blómvönd, fundarlaun eða þakkir ? NEI, ekki aldeilis. Hins vegar var hún sökuð um að hafa stolið nokkrum jólakortum ! Hver stelur jólakortum en lætur svona mikla peninga eiga sig ?

Um daginn fann ég svo gsm-síma á Háskólasvæðinu. Hann var á miðri götu og hefði ekki miklu mátt muna að keyrt yrði yfir hann. Minnug blómvandarins forðum, og með áhyggjur af karmanu ákvað ég að gera allt sem í mínu valdi stæði til að koma símanum til rétts eiganda. Veit líka að ég yrði ekki mönnum sinnandi ef ég týndi mínum síma. Svo að ég hringdi úr símanum í minn síma til að hafa númerið. Þá varð blessaður síminn batteríislaus svo að ekki gat ég farið í símaskrána í honum til að reyna að hafa uppi á vinum og vandamönnum eigandans. Hófst þvínæst leit að eigandanum. Númerið var hvorki á skrá hjá símanum né í símaskrá Háskólans. Þrautalendingin varð því sú að hringja í talhólf símans, gera grein fyrir mér og láta viðkomandi vita hvar hann gæti nálgast símann sinn. Hvað meira gat ég gert ? Leið svo og beið - ég athugaði í hverjum frímínútum hvort einhver væri að leita að síma, spurðist fyrir í skólanum og beið þess að heyra frá eigandanum. Viku seinna hringdi svo afskaplega skapvond og pirruð ung stúlka í mig. Hún var æst og byrjaði að básúna sig yfir því að hún ,,hefði þurft að fá nýjan síma til að geta komist í talhólfið." - Hún sagði ekki einu sinni takk þrátt fyrir það að ég hefði bjargað símtækinu frá bráðum bana. Ég reyndi nú að vera róleg og sagði henni hvar ég gæti skilið símann eftir svo að hún gæti nálgast hann. Þá fór hún að gera mál úr því og vildi að ég gerði mér ferð í annað hús og fyndi sig .... Ég hélt nú ekki enda orðin nokkuð pirruð sjálf. Fór svo að hún náði í símann á umsömdum stað - ekki fundarlaun, ekki kveðja til mín, ekki takk einu sinni !!

Þessi heiðarleiki hvorki gladdi hjarta né sál og gerði svo sannarlega ekkert fyrir karmað. Eina sem ég sé eftir, þegar ég leik mér með svartagaldursdúkkur á kvöldin, er að hafa ekki hirt símann.

Mórallinn er því sá - miðað við mína reynslu - að ef þið komist upp með eitthvað gerið það þá ! Og skítt með hina !

   (105 af 114)  
1/11/03 03:01

hundinginn

Svona svona. Þetta hefði allt eins getað verið síminn minn. Og ég hefði smellt á þig kossi og boðið þér á kaffihús fyrir viðvikið!

1/11/03 03:01

krumpa

Nú - ekki boðið mér bara til tannsa ? Málið er bara það að það á ekki að taka svona viðvik eða heiðarleika yfirleitt sem sjálfsagðan hlut - það verður til þess að fólk hættir að vera heiðarlegt. Ef það er auðveldara að vera óheiðarlegur - hvað er það þá sem stoppar mann ? Þú mátt nú samt bjóða mér í kaffi...

1/11/03 03:01

hundinginn

Þá verð ég fyrst að tína veskinu mínu. Er það ekki? Eða vilt þú ekki bara bjóða mér í kaffi?

1/11/03 03:01

Þarfagreinir

Já ... fólk mætti alveg vera þakklátara almennt. En ég held samt að heiðarleiki sé verðlaun í sjálfu sér. Ég er að minnsta kosti með svo hræðilega mikla og sterka samvisku að ég get eiginlega ekki verið óheiðarlegur.

1/11/03 03:01

Lómagnúpur

Auðvitað er leiðinlegt hvernig dónaskapur veður uppi. Og oft vill gleymast að gamalt fólk er ekki endilega kurteist. Svona er nú bara gangur lífsins. Gleymum því samt ekki að skv. kristinni siðfræði eru góðverk ekki unnin með von um þakkir heldur vegna sjálfra sín.

1/11/03 03:01

Golíat

Ekki svekkja þig krumpa. Þótt þú sért fúl núna útaf vanþakklætinu mun þér líða betur í sálinni þegar frá líður, heldur en ef þú hefðir ekki gert hið rétta. Við breitum ekki rétt vegna annarra heldur vegna okkar sjálfra.
Amen.

1/11/03 03:01

hundinginn

Lómagnúpur vill meina:
"skv. kristinni siðfræði eru góðverk ekki unnin með von um þakkir heldur vegna sjálfra sín."
Það er einmitt það sem Krumpa var að gera! Annars er þetta að þróast út í að verða hinn besti "þráður" eins og sum félagsritin nú til dags.

1/11/03 03:01

Sprellikarlinn

Ég hef nú aldrei lent neitt sérstaklega illa í því vegna minnar alltof sterku samvisku, en ég tel nú ekki alveg sömu árin og þið hin.(Ekki að þið séuð gömul, bara eldri)

1/11/03 03:01

krumpa

Þið eruð auðvitað mjög vitrir allir saman - og hefði ég hirt símann væri ég auðvitað með skelfilegan móral. Góðverk vinnur maður fyrir sjálfan sig, það er rétt, en maður fer samt að hugsa - hvað er unnið með þeim - ef þetta eru almennt viðbrögðin ?? Það er allt annað en sjálfsagt að skila síma sem maður finnur eða skilja eftir miða á bíl sem maður valtar yfir. Eða það finnst manni alla vega miðað við viðbrögðin !

1/11/03 03:01

Barbie

Þetta var náttúrulega helber dónaskapur í stúlkunni og líka þeirri gömlu en sýnir ákveðið hugmyndaflug - stolin jólakort - ekki laust við að maður hlæji. Samviskan er annars dýru verði seld fyrir nokkrar krónur eða ómerkilegan síma. Annars fann einhver veskið mitt um daginn. Ég þakkaði innilega enda manninum málkunnug gegnum starfið en var því miður bara með kort. Hvað ætti ég að gera? Senda blóm? Gæti bara misskilist. En ég var mjög glöð og þakklát - er kannski ekkert varið í það. Ætti maður kannski bara að splæsa í heimsreisu fyrir hann og frúnna?

1/11/03 03:01

krumpa

Sammála, Barbie. Held að þakklæti þitt sé alveg nóg - ég var í það minnsta ekki að fara fram á meira. Heimsreisa samt góð hugmynd - all vega ef kortin þín eru við betri heilsu en mín kort !

1/11/03 03:01

Barbie

Æ þau eru óttalegir lasarusar greyin svo einfalt takk verður bara að duga. Í kaupbæti fylgir svo eitt af mínum óviðjafnanlegu brosum. Annars væri ég alveg til í heimsreisu...

1/11/03 03:01

Galdrameistarinn

Fólk er fífl og sannast það á sögunni hér að ofan. Í stað þess að þakka fyrir að fá hlutina til baka er byrjað á að ásaka þann sem finnur hlutinn og skilar honum. Fávitar.

1/11/03 03:01

Frelsishetjan

Ég hef alltaf lifað efir þessari síðustu reglu sem þú sagðir.

Og sjáðu hvar ég stend núna!

1/11/03 03:01

Skabbi skrumari

Einu sinni kom ég að bílnum mínum þar sem hann var illa rispaður, greinilega eftir hurð á jeppa... það var miði sem á stóð hver hefði gert þetta og því hafði ég samband við stúlkuna sem hafði orðið fyrir þessu óhappi. Ég fór því með bílinn til að meta hvað tjónið var mikið og fékk ákveðna tölu frá réttingaverkstæðinu, þegar stúlkan fékk að heyra hvað þetta ætti að kosta varð hún fúl og fékk einhvern vin sinn til að kíkja á þetta og sagði hann að þetta kostaði helmingi minna en réttingaverkstæðið mitt sagði til og þó hefði ég fengið afslátt vegna kunningsskap. En þar sem stúlkan var svo góð að láta vita af þessu, lét ég það gott heita og varð því að borga helminginn sjálfur, en það var þó betra en að borga það allt sjálfur. Ég veit ekki hver er tilgangurinn með þessari sögu, en hugsanlega töpuðum við jafn mikið á þessu í staðinn fyrir að ég tapaði allri upphæðinni ef hún hefði ekki verið svona yndisleg (hefði þó getað verið enn yndislegri)... ég gaf henni þó ekki blóm og sé eftir því...

1/11/03 03:01

krumpa

Vá - þú hefur látið fara illa með þig ! Sennilega hugsað með litla heila í þetta skiptið - eða hvað. En hvernig var það, var þessi yndislega stúlka ekki með vátryggingu ?

1/11/03 03:01

Skabbi skrumari

Þetta voru of litlar upphæðir til að fara með það í þann farveg og já ef litli heilinn er sá heili sem hugsar sem svo að fyrst góðmennskan var nóg til að láta mig vita af þessu, þá ætti hún skilið smá afslátt hvort eð er... annars læt ég alltaf gabba mig... hehe

1/11/03 03:01

krumpa

Uss - annarlegar hvatir alltaf hjá karlmönnum - meinarðu að ef þetta hefði verið eldri karlmaður þá hefði þetta líka endað svona ? ussussuss

1/11/03 03:02

Limbri

Ef þetta hefði verið eldri karlmaður þá hefði ekki legið neinn miði. Eldri karlmenn viðurkenna ekki mistök.

-

1/11/03 04:01

Finngálkn

Varðandi þetta með símann sem þú fannst - uh þá get ég látið gæruna hverfa fyrir sanngjarnt verð!

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.