— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 31/10/03
Bush´s Brain

Aðeins efnis- og innihaldsmeiri en titillinn gefur til kynna.

Í þeim tilgangi að reyna að mennta mig og fræða var tvisvar farið með mig í bíó um helgina. Á laugardagskvöldið var farið á Litlu kvikmyndahátíðina, á "Corporation" (sjá gagnrýni mína og Tinna á þræðinum bíómyndaglápið). Í gær var svo farið á Bush´s Brain.

Verð ég að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum (eða kannski væntingarnar bara of miklar eftir fyrri myndina).

Myndin var bara allt öðru vísi en ég hafði reiknað með. Nú verður reyndar að viðurkennast að ég hef frekar takmarkaða þekkingu á innanríkismálum Bandaríkjanna en sá sem var með mér í bíói er margfróður um þau mál - og urðum við bæði fyrir vonbrigðum - bara hvert á sínum forsendum.

Það var ekki farið nógu djúpt í málin, að mati þess sem var með mér kom ekkert fram sem hann vissi ekki fyrir. Hins vegar var ekki farið nógu grunnt í þetta heldur, við sem ekkert vitum vorum bara úti á þekju !
(Æi, ósköp er þetta illa orðað hjá mér - er í tíma og er að sinna þessu í hjáverkum en þið náið nú vonandi inntakinu).

Svona auli eins og ég lærði samt ýmislegt, þarna kom margt fram sem ég vissi ekki, þó að ég yrði oft að leggja mig alla fram við að átta mig á um hvað var verið að tala. Er það þó kannski meira uppsetningu myndarinnar að kenna.
Myndin var illa kaflaskipt og eiginlega vaðið fram og til baka og úr einu í annað. Stundum komu svo furðukaflar sem ekki varð séð að ættu heima í myndinni yfirleitt og á tímabili hélt ég að ég væri á vitlausri mynd. Semsagt ekki nógu markviss umfjöllun (sér í lagi ef miðað er við myndina frá kvöldinu áður !).

Þá var talið ekki nógu hátt stillt (er náttúrlega gömul og heyrnardauf) og þetta var meira eins og að hlusta á sjónvarp.

Stjörnurnar þrjár - sem eru kannski fullmikið - eru vegna þess að myndin var alls ekki leiðinleg og ég lærði ýmislegt. Svo komu stundum skondnar klippur og á köflum voru höfundar mjög naskir við að benda á ýmsar þversagnir í málflutningi Bush og félaga. Þá fór myndin vel af stað þó að hún héldi ekki alveg dampi.

Segi þetta nóg af þessari mynd - en gaman væri að vita hvað fleirum finnst.

   (108 af 114)  
krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.